Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Eitthvað jákvætt og uppbyggilegt

    Ertu á Facebook?

    Hvað skrifar þú mest um?

    Hverju deilir þú með öðrum?

    Myndum? Texta? Hugmyndum? Myndböndum? Efni sem vekur áhuga þinn?

    Hvað einkennir þitt framlag til vefsamfélagsins á fésinu?

    Ef þú ert eins og flestir þá er það eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Það sem ritstjórinn Jónas Kristjánsson kallaði Ást og friður í bloggfærslu um daginn:

    Fólk býður góðan daginn, sýnir myndir af afabörnum, segir frá grillun með vinum og öðrum dásemdum tilverunnar.

    Og svo gaf samfélagsmiðlinum hann einkunn:

    Fésbókin er afar „jákvæður“ miðill, sem hvetur okkur til að vera góð.“

    Við þetta má bæta: hún hvetur okkur til að vera góð, jákvæð og uppbyggileg, í daglega lífinu. Hún er vettvangur til að deila því sem við upplifum hér og nú. Ekki einhverju hátt-upp-höfnu og fjarlægu. Heldur lífinu okkar. Bara eins og það er.

    Ég held að okkur geti stundum yfirsést þessi jákvæðni af því að oft er nöldrað yfir netinu:

    • Fólk notar það of mikið,
    • skrifar um eitthvað óáhugavert –
    • svo er það þessi hópur sem er „virkur í athugasemdum“ sem þykir víst ekki par fínn.

    En svona er þetta.

    Læk

    Þetta uppbyggilega eðli facebook og kannski samfélagsmiðlanna almennt er staðfest með því hvernig viðbrögð við getum sýnt.

    Við getum auðvitað skrifað viðbrögð eða sett mynd eða jafnvel myndband í viðbrögð – en það einfaldasta af öllu er að smella að þrýsta á læk-hnappinn.

    Læk.

    Það getur merkt:

    • Takk fyrir.
    • Sammála.
    • Þetta er áhugavert.
    • Ég stend með þér.
    • Þú ert ekki einn.
    • Þú skiptir máli.

    Og ekki bara það heldur: Daglega lífið þitt skiptir máli.

    Kannski ekki alla í veröldinni. En þann hóp sem tengist þér á Facebook.

    Og ást, húmor, depurð, reiði

    Í vikunni var reyndar kynnt tilraun á Facebook. Það á að bæta við hnöppum. Læk verður að viðbrögðum og viðbragðshnapparnir verða sjö talsins:

    1. Læk.
    2. Ást.
    3. Fyndið.
    4. Jibbí.
    5. Vá.
    6. Depurð.
    7. Reiði.

    Það sem við deilum með öðrum nær nefnilega yfir allan tilfinningaskalann og viðbrögðin gera það líka. Hver hefur til dæmis ekki hugsað sig tvisvar um áður en smellt er á læk við stöðuuppfærslu sem fjallar um eitthvað sorglegt eða erfitt.

    Við vitum samt að lækir merkir ekki: Mikið var gott að þú lentir í vanda. Það merkir til dæmis: Ég hugsa til þín. Ég veit af þér.

    En það sem er áhugavert við þessa tilraun Facebook er að nýju lækhnapparnir gefa þér verkfæri til að sýna samstöðu með skýrari hætti. Sýna samhygð. Og skilaboðin eru þau sömu og áður:

    Ég stend með þér.

    Englarnir og títuprjónshausinn

    Hér ætla ég að gera stuttan útúrdúr.

    Vitið þið hvað margir englar komast fyrir á títuprjónshausi?

    Ég veit það ekki. En þetta er semsagt ein af spurningunum sem var spurt á miðöldum þegar búin voru til flókin kerfi til að komast að mikilvægum sannleika um hið heilaga og eilífa og um Guð. Þá veltu menn semsagt fyrir sér hvort og þá hvað mikið pláss englar taka. Þeir hafa nefnilega ekki hefðbundinn líkama.

    Kannski fannst einhverjum þetta fyndið.

    Þetta minnir mig á brandarana um það hvað þú kemur mörgum manneskjum fyrir í litlum bíl.

    Marteinn Lúther siðbótarmaður brást við svona vangaveltum með því að segja að við ættum ekki eyða tímanum í svona spurningar. Þess í stað ættum við að setja fingurinn á það sem skipti máli. Á það sem hægt að gera hér og nú. Því Guð væri ekki hátt upp hafinn og fjarlægur heldur nálægur og að verki.

    Ég rifjaði þetta upp þegar ég las guðspjall dagsins þar sem Jesús er spurður: „Hvers vegna er þessi maður blindur?“ Og svo fær hann tvo valkosti til að svara.

    • Syndgaði hann?
    • Syndguðu foreldrar hans?

    En Jesús svarar:

    „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er.“

    Þegar ég les þetta sé ég fyrir mér að hann hafi dæst og sagt eitthvað á þessa leið:

    Krakkar, slakið aðeins á, þetta snýst ekki um að velta fyrir sér synd og sekt heldur um það sem við ætlum að gera í málinu. 

    Svo læknaði hann manninn. Því þannig vann Jesú.

    Og hver er boðskapurinn: Mikilvægast af öllu er verk Guðs. Og hvað er það? Það er að elska í verki. Með höndunum og orðunum og munninum og munnvatninu eins og við sjáum í guðspjalli dagsins.

    Nei, þetta snýst ekki um að skyrpa.

    Þetta snýst um að sýna umhyggju í verki með öllu sem við eigum. Hugmyndum, orðum, höndum og fingrum og því öllu.

    Þið skiljið.

    Jarðbundið

    Og þetta er eiginlega frekar jarðbundið en himneskt. Þess vegna finnst mér þetta líka kallast svo ágætlega á við samfélagsmiðlana og fésbókina vegna þess að hún er jarðbundin. Hún er hér og nú. Skilaboðin sem við lesum þar eru endurtekin:

    Þetta er það sem ég upplifi eða upplifði. Mig langar að deila því með þér.

    Og lækið sem er okkar viðbrögð segir:

    Takk. Ég sé þig.

    Og þegar vel tekst til er það tjáning á umhyggju og ást sem ber áfram skilaboðin:

    Þú ert hluti af hópi, þú skiptir máli og ég er þakklátur fyrir þig og þitt framlag.

    Þegar við höfum þetta sem útgangspunkt og samskiptamáta þá held ég að það hafi áhrif – mótandi áhrif – á önnur samskipti.

    Ég held að það greiði fyrir því að við vinnum verk hans sem skapaði heiminn og sendir okkur til annara með það verkefni að skilja eftir okkur falleg spor og láta láta gott af okkur leiða. Og breyta þanning heiminum.

    Þannig ná fésbókin og Jesús saman í því sem er jarðbundið og einfalt. Í því sem er hér og nú. Í því sem er til uppbyggingar og er til góðs.

    Fæ ég kannski læk á það?

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

     

  • Síðskeggjaður hipster vill fasta á ranglæti

    Þetta er merkilegur dagur.
    Einn af dögunum þegar við ættum eiginlega ekki að prédika.
    Bara láta textana tala.
    Mig langar samt að segja þrjú orð:

    • Þú.
    • Þjóðin.
    • Þau.

    Svo skal ég útskýra.

    Unga fólkið í kirkjunni á slagorð: Við erum hendur Guðs til góðra verka.
    Og fingur.
    Og munnar.
    Og fætur.

    Hvað þýðir þetta?

    Hvað sagði Jesaja?

    Sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.

    Svo kemur framhaldið:

    Nema auðvitað að hann sé útlendingur.
    Eða flóttamaður.
    Eða hælisleitandi.
    Eða úr annarri borg.
    Eða öðru hverfi.

    Þá skaltu bara sýna honum dyrnar.
    Skella í lás.

    Var það ekki annars?

    Nei.

    Jesaja skrifaði:

    Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
    hættir hæðnisbendingum og rógi,
    réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
    og seður þann sem bágt á,
    þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
    og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.

    Og hann var alveg með þetta, síðskeggjaði hipstera-spámaðurinn í Mið-Austurlöndum.

    Fólkið í strætó

    Ég átti stutt samtal á netinu við einn kunningja í vikunni. Hann tekur strætó á morgnana og hefur gaman af að fylgjast með fólki og þennan morguninn sá hann nokkuð sem kom á óvart.
    Fólkið í strætó var ekki með andlitin ofaní snjallsímunum sínum eins og þau eru alla jafna.

    Hvers vegna?
    Hvað hafði gerst?

    Ikea-bæklingurinn var kominn.

    Fólkið í strætó tók bæklinginn með sér og blaðaði í honum. Skoðaði myndir, stærðir, verð. Kannski til að fá hugmyndir eða innblástur, kannski til að láta sig dreyma.
    Um hvað?
    Betra líf með nýjum sófa?
    Nýtt skipulag í eldhúsinu?
    Mýkra rúm og litríkari rúmföt?
    Ég veit það ekki.

    En ég held að Ikea-bæklingurinn standi kannski fyrir það sama og matreiðslubækurnar og blöð eins og Hús og híbýli: Hugmyndina um eitthvað gott, betra líf sem við getum átt hlutdeild og kannski öðlast. Myndir og texti miðla því og kannski festir hugur og löngun sig við einhvern hlut sem gæti orðið okkar og þá verður allt.
    Miklu.
    Betra.

    Og það er bara allt í lagi að langa.
    Það er gott að láta sig dreyma.
    Og svo söfnum við og látum draumana jafnvel rætast.

    Draumarnir þeirra

    Fólkið í flóttamannabúðunum í Calais lætur sig líka dreyma.
    Fólkið í Sýrlandi lætur sig dreyma.
    Fólkið sem fer á litlum flekum yfir Miðjarðarhafið lætur sig dreyma.
    Um að lifa af.
    Um betra líf.
    Um eitthvað annað.
    Þau eiga sér von og það er hún sem rekur þau áfram.
    Það er jú enginn sem gerir það að gamni sínu að flýja land til að búa í flóttamannabúðum.

    En hvað kemur það okkur við?

    Ja, við erum hendur Guðs, til góðra verka.

    Hvött og eiginlega kölluð til að gefa hinum hungruðu af brauði okkar, hýsa bágstadda, hælislausa menn og ef við sjáum klæðlausan mann, að við klæðum hann – eins og spámaðurinn skrifaði.

    Það sama sagði Jesús þegar hann hvatti lærisveina sína.

    En Útlendingastofnun?

    Hvað er presturinn nú að spá?
    Vill hann bara opna landið?
    Veit hann betur en Útlendingastofnun?

    Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé sérfræðingur í málefnum flóttafólks.
    En ég veit til hvers við erum send.
    Hvaða viðhorf Jesús hafði og hvaða viðhorfi hann kallaði eftir hjá fylgjendum sínum.
    Til þeirra sem eru öðruvísi.
    Til þeirra sem búa við skort.
    Til þeirra sem þurfa.

    Þetta má orða með öðrum hætti.
    Farið ekki í manngreinarálit.
    Sinnið fólki jafnt.
    Gefið öllum tækifæri.
    Ekki bara Íslendingum á Íslandi heldur öllu fólki sem þið getið haft áhrif á til góðs.

    Það er ákall dags kærleiksþjónstunnar – og líka hinna 364-5 daganna á árinu.

    Mig langaði að deila því með ykkur.

  • Smellbeitan, útlendingarnir og Jesús

    „Rúss­ar hand­tekn­ir eftir „verslunarferð“ í Fjörðinn“
    „Litháarnir handteknir enn á ný“

    Þetta eru tvær fyrirsagnir frétta frá 2006 og 2008 sem ég fann á vefnum mbl.is. Framsetning af þessu tagi í umfjöllun um glæpi hefur verið gagnrýnd vegna þess að hún þykir ala á andúð á útlendingum. Þá er spurt hvaða máli það skipti hvers lenskur hinn meinti brotamaður er? Og hvers vegna það sé þá ekki nefnt hverju sinni sem Íslendingur er handtekinn að hann sé einmitt Íslendingur? Þetta rifjaðist upp fyrir mér í vikunni vegna þess að ég las frétt á Pressunni sem ég mátti svosem vita að væri ekki íslensk en það var samt aldrei tekið fram. Fyrirsögnin var svona:

    „Lögreglan stöðvaði konu fyrir hraðaakstur: Hún kom með besta svarið“

    Fréttin hófst svo á orðunum: „Athugið – eftirfarandi atburðir gætu ekki hafa gerst“ sem ég veit hvað eiga að merkja. Kannski að svona nokkuð geti ekki gerst, kannski að fréttin sé mögulega uppspuni.

    „Fréttir“ af þessum toga eru þekktar í vefheimum. Fyrirsagnirnar eru kallaðar „clickbait“ – smellbeita – því þær eru settar saman til að skapa forvitni og kalla fram smelli. Svo eru birtar auglýsingar með fréttinni og þannig fást tekjur á vefinn. Sannleiksgildi efnisins skiptir litlu máli eða jafnvel engu. Þess vegna er láta fylgja ábendingu til lesandans efst í fréttinni um að „þetta gæti ekki hafa gerst.“ Ég velti því fyrir mér við lesturinn hvort ekki mætti hafa þá meginreglu að láta þess getið í fyrirsögnum svona frétta hvers lenskir einstaklingarnir sem þær fjalla um eru, til dæmis:

    „Útlensk lögreglan stöðvaði erlenda konu fyrir hraðaakstur í útlöndum: Hún kom með besta svarið – á ensku“

    Ég held nefnilega að ólíkt innlendum glæpafréttum þá megi gjarnan fylgja gaman- og flökkusögum frá útlöndum upplýsingar um upprunaland. Bæði til að auðvelda okkur að sía fréttirnar á vefnum og til að leyfa erlendum sögum að vera einmitt það en láta ekki eins og þær séu íslenskar.

    Smellbeita og lofsöngvar

    Í vikunni bárust fréttir frá Englandi. Fyrir nokkrum dögum var  tekinn upp sjónvarpsþáttur sem heitir Songs of Praise. Hann er sendur út á sunnudagseftirmiðdögum og þessi tiltekni þáttur verður sendur út seinna í dag. Songs of Praise er þáttur með trúarlegri tónlist og þar er líka fjallað um málefni samtímans í ljósi kristinnar sýnar á manneskjuna og trúna. Þáttur dagsins var tekinn upp í flóttamannabúðum í Calais. Þar búa þúsundir flóttamanna – hælisleitenda – frá löndum eins og Sýrlandi, Lýbíu og Erítreu.

    Eitt götublaðið beitti sér í málinu og setti smellbeitufyrirsögn yfir frétt:

    Hymnigrants
    EXCLUSIVE: BBC blasted for filming Songs of Praise at Calais camp

    Í fréttinni kom fram að ríkisútvarpið breska ætti ekki að beita sér á sviði sem væri svona pólitískt. Það væri óviðeigandi að taka upp sjónvarpsþátt um trúarleg efni meðal hælisleitenda og flóttafólks.

    Nick Baines sem er biskup í Leeds var einn af þeim sem svöruðu fyrir hönd kirkjunnar. Hann sagði tvær góðar ástæður fyrir taka þáttinn upp í flóttamannabúðunum. Sú fyrri er að kristin trú fjallar um Guð og manneskjuna í raunverulegum aðstæðum. Sú síðari er að kristið helgihald snýst líka um alvöru fólk, stundum á það sér einmitt stað þar sem aðstæður eru erfiðar.

    Þarna er fólk.
    Náungar okkar.
    Í alvöru og erfiðum aðstæðum.
    Sem hafa fundið og finna styrk í trúnni.
    Þess vegna hafa þau reist sér tjaldkirkju sem rís hærra en tjaldborgin.
    Og þegar hún brann reistu þau hana aftur.
    Ekki af auð sínum heldur af fátækt sinni.
    Og það eru forréttindi að fá að biðja með þeim.

    Jesús og útlendingarnir

    Jesús segir í 25. kafla Matteusarguðspjalls:

    „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. “

    Og:

    „Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“

    Og hvað er þetta allt sem hann talar um?

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

    Til þess erum við kölluð. Smellbeita Jesú – það sem grípur – er því ósköp einföld yfirlýsing: Vertu almennileg manneskja, ekki bara við þau sem standa þér næst heldur við þau sem gera það ekki. Til dæmis útlendinga. Flóttafólk. Hælisleitendur.

    Því þau eru Guðs.
    Eins og þú.

    Flutt í lesmessu í Háteigskirkju, 16. ágúst 2015.

  • Er það pólitískur rétttrúnaður að mæta fólki af virðingu?

    Í vikunni las ég um ungan mann sem skrifaði lítið forrit og tengdi það við vafrann í tölvunni sinni. Forritið gerir aðeins eitt: Þegar textinn „political correctness“ kemur fyrir á vefsíðu breytir það honum í „treating people with respect“. „Pólitískur rétttrúnaður“ verður „að mæta fólki með virðingu.“

    https://twitter.com/byronclarknz/status/628702214391902208

    Um pólitískan rétttrúnað sagði á Wikipediu laugardagsmorguninn 8. ágúst í texta sem er reyndar ekki allskostar hlutlaus:

    „Gjarnan er talað um pólitískan rétttrúnað í tengslum við tungutak um minnihlutahópa og átt við ofurvarfærni gagnvart niðrandi orðfæri, svo sem um kynþætti, konur, meðlimi trúarhópa, fatlaða, samkynhneigða og svo framvegis. Þó á hugtakið ekki aðeins við um tungutak heldur einnig gjörðir, pólitísk stefnumál, hugmyndafræði og hegðun, alla afvegaleidda viðleitni til að lágmarka móðganir og mismunun gagnvart hópum sem eiga undir högg að sækja.“

    Það er ótrúlegt hvað þessi litla breyting hefur mikil áhrif. Með því að taka hlaðið tungutak úr umferð og setja í staðinn lýsingu á því sem reynt er að ná fram: að mæta fólki af virðingu er nefnilega hægt að afhjúpa ofbeldið í samfélaginu og þannig berjast gegn því. Orð hafa nefnilega áhrif.

    Eva Hauksdóttir, sem er skarpur pistlahöfundur, skrifar á einum stað:

    „Málflutning skal gagnrýna með rökum. Merkimiðar eru ekki rök; þeir sem telja andmælendur sína á valdi pólitískrar rétthugsunar ættu þessvegna að útskýra hvað nákvæmlega er gagnrýnivert við skoðanir þeirra.“

    Hér hittir hún naglann á höfuðið. Merkimiðar geta vissulega verið gagnlegir til að flokka og skilja, en þegar þeir eru notaðir til að meiða – eins og stundum og jafnvel oft er raunin með merkimiðann „pólitískan rétttrúnað“ þá eru þeir skaðlegir. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að við megum ekki ræða um skoðanir og afstöðu. Það þýðir hins vegar að við eigum að eiga í samtali án þess að hafa þann ásetning að meiða aðra.

    Virðing fyrir manneskjunni er nefnilega ekki til umræðu, um hana verður ekki samið. Hún er grundvallaratriði og forsenda.

    Jesús er reiður

    Jesús er reiður í guðspjalli dagsins. Hann ávítar. Hann er ekki alltaf glaður – frekar en við.

    „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.“

    Þetta er öðrum þræði lýsing á vonbrigðum þess sem hefur ekki náð markmiði sínu. Jesús kom og prédikaði og fólkið hlustaði, hann gerði kraftaverk og fólkið horfði. En þau breyttu ekki hátterni sínu. Kannski af því að þau skildu ekki. Kannski af því að breytingar taka tíma og hann var ekki nógu lengi á staðnum. Við vitum það ekki.

    En hverju vildi hann breyta?

    Mörgu.

    Eitt af því var hvernig við lítum á og nálgumst annað fólk.

    Hvernig?

    • Hann umgekkst þau sem samfélagið úthýsti,
    • hann vildi að samfélagsreglurnar væru í þágu manneskjunnar – svo hann læknaði á hvíldardegi,
    • hann bar virðingu fyrir hverri manneskju sem hluta af sköpun Guðs.
      hann elskaði. Alla.
    • hann bað fyrir öðrum – líka þeim sem ofsóttu hann.

    Hann. Bar. Virðingu.

    Virðingin

    Það eru ekki allar breytingar jafn einfaldar og sú að setja upp forrit sem skiptir út merkimiða fyrir innihald. Breytir pólitískum rétttrúnaði í virðingu fyrir manneskjunni. Það er í sjálfu sér einfalt og tekur skamma stund – en getur auðvitað haft áhrif. Því orð hafa áhrif.

    Hitt tekur lengri tíma: að hætta að setja fólk niður og mæta þeim af virðingu. Og það gildir nota bene ekki bara um vini okkar eða nágranna heldur líka þau sem við skiljum sem öðruvísi eða sjáum jafnvel sem andstæðinga.

    Það er hin kristna afstaða.
    Að því vinnum við.
    Ekki síst um helgar eins og þessa þegar við stöndum með þeim sem hafa verið ofsótt um aldir.

    Og þegar það tekst segjum við ekki „vei og skamm“ heldur „vei og jibbí jei“.
    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

  • Jesús í Druslugöngunni

    Í dag er haldin í fimmta sinn Druslugangan í Reykjavík, sem er farin til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning með því að vísa ábyrgðinni þangað sem hún á heima – til gerendanna. Prinsip Druslugöngunnar er einfalt: Að standa saman og skapa samkennd með þolendum ofbeldis. Í stað þess að leita eftir afsökunum fyrir ofbeldinu í fari þolendans, hvernig hún eða hann var klæddur eða hvert hún eða hann lagði leið sína á tilteknum tíma, er sjónum beint að raunverulegri ástæðu ofbeldisins, sem er að einhver einstaklingur beitir annan ofbeldi. Slíkt er alltaf á ábyrgð gerandans. Aldrei þolandans.

    Gangan í ár leggur í stað frá Hallgrímskirkju, sem er ekki bara mest áberandi bygging í Reykjavík heldur ein frægasta kirkja í heimi. Mér finnst það einstaklega viðeigandi og eflandi að Druslugangan verði til með því að fólk safnist saman í skjóli við byggingu sem er ekki bara helsta kennileiti borgarinnar, heldur er reist í minningu og helguð okkar manni frá Nasaret, Jesú Kristi Jósepssyni.

    Það sem einkennir líf og starf Jesú er hvað hann gekk beint inn í aðstæður sem sköpuðust vegna fordóma og dómhörku í garð samferðafólks, ekki síst í tilfelli kvenna og reynslu þeirra. Jesús átti samneyti við druslur og mætti þeim á jafningjagrundvelli. Í guðspjöllunum lesum við um samtöl og samskipti sem Jesús átti við konur sem samfélagið hafði fordæmt á grundvelli reynslu af kynferðisofbeldi og kynhegðunar. Í samfylgd Jesú setjumst við niður með samversku konunni sem samfélagið leit niður á fyrir að hafa átt fullt af mönnum og við horfumst í augu við konuna sem átti að verða grýtt fyrir það að drýgja hór. Eins og Jesús stöndum við með konum sem samfélagið kallar druslur og skilum skömminni til þeirra sem beita aðra ofbeldi.

    Það er maklegt og réttvíst að ganga Druslugönguna og vita að Jesús er með í för þegar við upprætum fordóma, dómhörku og ranglæti. Frá Hallgrímskirkju sækjum við styrk og innblástur til að ganga með náungakærleik og gegn ofbeldi og sinnuleysi. Gleðilega Druslugöngu!

    Jesús í Druslugöngunni, birtist fyrst á Vísi.is.

  • Biblíublogg 7: Jesús berst við guðleysingjana

    Ein af forvitnilegustu Jesúmyndunum er Jesus Christ Vampire Hunter. Þetta er kanadísk B mynd sem fjallar um endurkomu Jesú til að kljást við vampírur. Sumir hafa kallað myndina blöndu af Jesú frá Montreal og Vampírubananum Buffy. Í myndinni er þetta atriði þar sem Jesús berst við guðleysingja.

    Þetta er auðvitað ekki Jesús sem friðflytjandi, en þetta er ein myndin sem birtist af Jesú í svonefndum Jesúmyndum. Stundum byggja þær með beinum hætti á texta Bibíunnar, stundum ekki.

  • Engillinn á Múrnum

    Krossinn og Múrinn eru bræður. Ég ræddi það í stuttu erindi sem ég flutti á ráðstefnunni World Without Walls sem Institute for Cultural Diplomacy hélt í Berlín. Það er hægt að lesa það og skoða myndirnar sem fylgdu á Medium.

  • Kubbað á hvíta tjaldinu

    Nema þér verðið eins og börnin sagði Jesús eitt sinn og hvatti til þess að við tækjum börnin okkur til fyrirmyndar. Í hverri skírnarathöfn lesum við svo um afstöðu hans til barnanna: Hann átaldi lærisveina sína fyrir að hleypa börnunum ekki að sér, tók þau sér í faðm og blessaði þau. Jesús vissi nefnilega hvað býr í börnunum: óendanlegir möguleikar, vonin í sinni tærustu mynd.

    *

    Ég fór í bíó með yngstu dótturinni í dag. Við sáum barnamyndina um Legókallana. Þetta er að sumu leyti dæmigerð saga um baráttu góðs og ills. Hópur góðra legókalla þarf að kljást við illan harðstjóra sem gín yfir öllu. Hann vill steypa alla í sama mót – vill að þeir fylgi leiðbeiningum og ber niður allt sjálfstæði og frumkvæði. Hann er kassa-legó-meistarinn. Hið endanlega markmið hans er svo að líma allan heiminn saman – svo enginn skemmi það sem hann hefur skapað. (more…)