Nema þér verðið eins og börnin sagði Jesús eitt sinn og hvatti til þess að við tækjum börnin okkur til fyrirmyndar. Í hverri skírnarathöfn lesum við svo um afstöðu hans til barnanna: Hann átaldi lærisveina sína fyrir að hleypa börnunum ekki að sér, tók þau sér í faðm og blessaði þau. Jesús vissi nefnilega hvað býr í börnunum: óendanlegir möguleikar, vonin í sinni tærustu mynd.
*
Ég fór í bíó með yngstu dótturinni í dag. Við sáum barnamyndina um Legókallana. Þetta er að sumu leyti dæmigerð saga um baráttu góðs og ills. Hópur góðra legókalla þarf að kljást við illan harðstjóra sem gín yfir öllu. Hann vill steypa alla í sama mót – vill að þeir fylgi leiðbeiningum og ber niður allt sjálfstæði og frumkvæði. Hann er kassa-legó-meistarinn. Hið endanlega markmið hans er svo að líma allan heiminn saman – svo enginn skemmi það sem hann hefur skapað.
Í baráttunni við harðstjórann dugar ekkert annað en ímyndunarafl og útsjónarsemi. Það þarf að hugsa út fyrir kassann og leiðbeiningarheftið. Hetjurnar – sem bæði eru dæmigerðar bíóhetjur og andhetjur – ná saman í þessari baráttu og leggja sitt af mörkum til að skapa betri heim handa öllum legóköllum. Ég segi ekki meira að sinni, enda ómögulegt að kjafta frá og spilla fyrir.
*
Legómyndin kallast á við viðhorf Jesú til barna. Til að öðlast frelsi er nauðsynlegt að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og leyfa huganum að reika. Það þarf að virða bernskuna í barninu og hinn óbeislaða huga sem sér ævintýri þar sem hinn fullorðni sér óreiðuna eina saman. Þetta er falleg saga sem má hiklaust mæla með, fyrir börn og fullorðna.
Það gerir myndina skemmtilegri að hægt er að fylgja áhorfinu eftir með því að kubba – eftir leiðbeiningum og eigin hugarflugi.
Ps. Hún stenst Bechdel prófið þótt flestir legókallarnir séu kallar.
Pps. Það vekur athygli að í myndinni er ekkert Lego Friends.
Leave a Reply