Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Frá Útlendingastofnun til Egyptalands

    Ég heimsótti Útlendingastofnun í fyrsta sinn í vikunni. Ég var þar með hópi fólks: sjálfboðaliða frá Rauða krossinum, tveimur prestum, múslimskum hjónum og svo voru fulltrúar frá þremur fjölmiðlum sem fylgdust með. Ég skal segja ykkur hvert tilefnið var rétt strax en fyrst langar mig að tala um jólaguðspjallið.

    Frá Betlehem

    Sagan af Jósef og Maríu sem hefur verið sögð um allan heim í næstum 2000 ár er saga af flóttafólki.

    Jólaguðspjallið er saga af hjónum sem þurftu að ferðast langan veg og fundu sig á stað þar sem þeim var uppálagt að láta skrásetja sig – kannski var eins konar Útlendingastofnun síns tíma. En í raun var staðurinn ókunnur og þau höfðu ekki húsaskjól og það voru engir ættingjar eða aðrir sem þau gátu reitt sig á.

    Jólaguðspjallið er sagan af því þegar þau voru á svona stað á tíma sem var snúinn fyrir því því þau áttu von á barni og barnið var að koma. Núna.

    Jólaguðspjallið er saga af einskonar fjölskylduboði sem varð til þegar gestir heimsóttu þau: Englar, hirðar, vitringar.

    Jólaguðspjallið er saga af flótta því þeim var ekki vært þarna. Yfirvöld sem fóru með hagsmuni þeirra og allra annarra og  áttu að gæta þegnanna – þessi yfirvöld voru og vildu barnið feigt.

    Það er jólaguðspjallið.

    Og svona sögur eru að gerast allt í kringum okkur. Þessa dagana … vikurnar … misserin.

    Frá Sýrlandi til Grikklands

    Fyrr í mánuðinum las ég um fjölskyldu sem reyndi að flýja frá Sýrlandi til Grikklands. Þau keyptu sér far með smyglurum og þeim var sagt að börnin og fullorðna fólkið þyrftu engin björgunarvesti af því þess að ferðalagið væri svo stutt.

    Gróðavon sem rak smyglarana áfram. Og þeir viðhöfðu ekki nauðsynlegar öryggiskröfur. Skipið varð vélarvana úti á sjó og sökk. Einn fjölskyldumeðlimur komst lífs af.  Pabbinn.

    Það er nefnilega ekki öruggt að vera flóttamaður í heiminum í dag.

    Kennitölur eða hjörtu

    Ég heimsótti Útlendingastofnun í vikunni. Í fyrsta sinn. Tilefnið var ekki skrásetning heldur hvatning. Afhending 4700 undirskrifta til stuðnings fjölskyldu frá Sýrlandi. Þau þurftu að flýja heimili sitt með tvær dætur sem voru þá á þriðja og fjórða ári. Þau komust til Grikklands.

    Heil á húfi.

    Þar bjuggu þau erfiðar aðstæður í rúmt ár. Svo komust þau til Íslands. Hér hafa þau verið í tæpt hálft ár og þeim líður vel. Þau eru að læra íslensku, dæturnar eru á leikskóla, það er vel búið að þeim. Einkunnin sem Íslendingar fengu sem tóku á móti þeim var ágætiseinkunn. Það sama heyrði ég í samtali við fulltrúa Rauða krossins á dögunum sem sagði að meðal almennings væri mikill velvilji í garð flóttafólks og hælisleitenda. Það er ágætiseinkunn þjóðar.

    En kerfið er ekki alltaf velviljað. Samkvæmt Dyflinarsamkomulaginu á þetta fólk bara að fara aftur til Grikklands. Þar komu þau inn í Evrópu og Grikkir eiga þá að sjá um þau. Á tölvumáli myndum við kalla þetta „computer says no“ því tölvan fylgir bara sinni forskrift. Hún sér ekki einstaklinga með nafn og sögu og hjörtu sem slá – hún sér bara fjórar kennitölur.

    Kannski þurfum við meira hjarta, meiri umhyggju og kærleika inn í reglurnar og lögin kringum mótttöku þeirra sem leita til okkar í neyð sinni. Það er verkefni stjórnmálamanna og það er best að þau gangi í það strax eftir hátíðirnar, gjarnan innblásin af jólasögunni.

    Til Egyptalands

    Á jólum rifjum við upp söguna af flóttafjölskyldunni sem flúði frá Betlehem til Egyptalands.

    Þau flúðu af því að þeim var ekki vært. Þau voru ekki með skilríki. Þau voru ekki sömu trúar og fólkið í landinu sem þau leituðu til. En það var tekið á móti þeim. Þau fundu sig örugg í nýja landinu. Þar til þau gátu snúið aftur.

    Þar gátu þau búið sér og barninu sínu þannig líf að þegar hann varð fullorðinn gat hann lifað það að vera kallaður af Guði til að prédika að við ættum að standa saman, hugsa um hvert annað. Og hann sagði um börnin:

    „Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér og hver sem tekur við mér tekur ekki aðeins við mér heldur og við þeim er sendi mig.“ (Mark. 9.37)

    Munum eftir þessu og munum líka að prédikun Jesú er ekki prédikun þess sem hafði búið við forréttindi alla ævi. Hún er ekki prédikun þess sem hafði það alltaf gott og þurfti aldrei að hafa fyrir lífinu.

    Hún er prédikun flóttamannsins sem var rifinn upp nýfæddur og flutti í annað land þar sem hann bjó þar til hann gat svo snúið aftur til síns heima.

    Hún er prédikun þess sem bjó við ógn ofbeldis, ofríkis og vantrausts en stóð  með boðskapnum sínum og fólkinu.

    Og hver er boðskapurinn? Þú skiptir máli. Eins og þú ert. Og það skiptir máli að þú látir aðra finna það að þeir skipta líka máli.

    Það er jólaguðspjallið.

    Það er hugsunin á bak við þetta allt saman.

    Guð elskar.

    Heiminn.

    Og þig.

    Þess vegna sendi hann Jesú.

    Þess vegna biður hann þig að lifa með opinn faðminn og opið hjarta.

    Þetta erum við beðin að taka með okkur inn í jólin.

    Þetta erum við beðin um að bera áfram til annarra.

    Sérstaklega þeirra sem eru á flótta og hafa fengið þau skilaboð að þau og þeirra hagsmunir skipti ekki máli.

    Sérstaklega til þeirra sem hafa fengið þau skilaboð þau séu ekki í lagi.

    Guð gefi þér gleðileg jól.

    Flutt í Brautarholtskirkju og Saurbæjarkirkju á aðfangadegi, 24. desember 2015.

  • Ósíuð aðventa 10: Dagur mannvirðingar og mannréttinda

    Tíundi desember, er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna. Haldið hefur verið upp á hann frá árinu 1948 þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Mannréttindayfirlýsinguna eða Heimsyfirlýsingu um mannréttindi eins og það var orðað á þeim tíma.

    #mannréttindi365

    Þema dagsins 2015 er #mannréttindi365 (#rights365) sem er áminning um grundvallarsjónarmið Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þar er gengið út frá því að mannréttindi er allra. Þau binda mannkynið saman sem heimssamfélag. Þetta gildir 24 tíma á sólarhring, 365 daga ársins.

    „Allir dagar eru mannréttindadagar. Þeir eru dagar sem við verjum við það að tryggja að allar manneskjur geti öðlast jafnrétti, reisn og frelsi,“ segir Zeid Ra’ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.

    Við stöldrum við á þessum degi og íhugum hver það eru í samfélagi okkar sem njóta ekki jafnrétti, reisnar og frelsis. Í hugann koma óneitanlega þau sem koma hingað í neyð og biðja um skjól. Landlausa fólkið sem oft fær ekki réttarmeðferð eða umfjöllun út frá sínum aðstæðum, heldur er sett í fyrirframgefinn flokk sem á að ganga yfir línuna óháð aðstæðum hvers og eins. Slík meðferð tekur ekki tillit til einstaklingsins, bakgrunns hans og aðstæða. Þess vegna virðir hún ekki manneskjuna og réttindi hennar.

    Fjölskylda á hrakningum

    Í Víðsjá dagsins – á degi mannréttinda – gerði útvarpsmaðurinn Guðni Tómasson mál hælisleitenda að umfjöllunarefni sínu. Hann tengdi þau við jólasöguna:

    „Viljum við búa í samfélagi sem er gjörsneitt mannúð og samkennd? Þar sem kaldhamraður veruleiki reglugerðarinnar er æðstur boðorða? Þar sem mannréttindi eru alltaf túlkuð eins þröngt og mögulega er hægt? Kannski, kannski viljum við bara fá að vera í friði, loka okkur af eins og hræddir fuglar í búri.

    En svo koma jól og við minnumst fjölskyldu á hrakningum í Mið-Austurlöndum forðum daga, ekki svo ýkja fjarri Sýrlandi þar sem sprengjur ríku þjóðanna falla sem ætlað er að leysa allt, frelsa okkur undan óttanum í lífi okkar. Já, það koma jól og við gleymum albönsku börnunum, Kleu og Kevi, og foreldrum þeirra. Eftir situr óbragð í munninum sem jafnvel jólasteikin og möndlugrauturinn eiga erfitt með að eyða.“

  • A prayer for refugees

    Almighty God, you so loved the world that you became one of us. Help us hear your calling to also love the world and serve our neighbour. Help us make room for those who come to our countries from afar and make them feel welcome. Make us willing to share the resources we are so blessed with.

    Loving God, you made us in your image. Help us see your image in every man, woman and child we meet. Let us remember that the sea of refugees in the world consists of individuals with their own names, own history, special experiences and dreams. Each and every one is created in your image, endlessly worthy and holy. Each and every one is precious to you and holds endless worth in your eyes.

    God of life, we thank you for your son, who became one of the many who are forced to leave their homes in search for security and shelter. We pray for all children who suffer and are afraid, because their homes are not safe. We pray for all children who are on the run, who are living in camps or in unsafe places. We pray for those children who did not make the journey to safety alive.

    Gracious Lord, we thank you for those who seek protection and new life in our homecountry. Let us see their gifts and talents so they can be included in a loving and serving community. Give authorities eyes of love and courage, so they might respect every human being, no matter where they come from. Give peace and righteousness in our world.

    We pray through your son and our brother, Jesus Christ. Amen.

    Written for the Ecumenical Prayer Cycle of the WCC.

  • Biblía flóttafólksins

    Einu sinni þegar við vorum að undirbúa messu hér í kirkjunni, sátum við nokkur og vorum að spjalla um Biblíuna og hvað hún væri eiginlega. Það er ekkert einfalt að svara því, og margskonar lýsingar geta náð utan um fyrirbærið. Stutt og algengt svar er að Biblían sé orð Guðs. Það svar skapar svo miklu fleiri spurningar um hvernig það gangi upp að samansett rit eftir ótal höfunda, skrifuð í ótal bókmenntastílum, í margs konar tilgangi, á ótrúlega löngum tíma, sé á einhvern hátt heilagt eða sérstakt.

    Fjölbreytt rit

    Þegar ég segi að Biblían sé fjölbreytt rit skrifuð í ólíkum tilgangi, á löngum tíma, þá á ég við að í henni eru til dæmis hreinræktaðir lagatextar ætlaðir inn í sérstakt samfélag; það eru langar frásögur um ævi og störf konunga og stjórnvalda á tilteknum tíma, það eru ævintýralegar upprunasögur, sem eiga að skýra tilkomu þjóða eða ástands sem allir þekkja, það eru helgisögur, það eru þjóðsögur, það eru ljóð og ljóðabálkar, það eru spekirit, sendibréf, uppeldisráð, o.s.frv.

    Við vitum nokkurn veginn hverjir skrifuðu sum þessara rita og við vitum ýmislegt um það við hvaða aðstæðurþau urðu til. Við vitum að sumir fengu lánuð minni úr eigin menningu eða úr sögum annarra þjóða, sem síðan urðu þeirra eigin sögur. Við vitum líka margt um hvað var að gerast í lífi þjóðarinnar sem skapaði þessi rit og hvað hún gekk í gegnum á þessum langa tíma.

    Sú staðreynd að Biblían er trúarrit kristinna manna, þarf að skoðast í þessu ljósi um fjölbreyttan og margskonar uppruna þess sem stendur í Biblíunni. Við þurfum líka að meta hana út frá því sem við vitum um fólkið sem skrifaði það sem stendur í henni. Við vitum nefnilega heilmikið um það. Og hér kemur það áhugaverða: eftir því sem við vitum meira um fólkið á bak við sögurnar í Biblíunni, því meira virði verða þær.

    Ég held að þar sé mjög einföld sálfræði að baki: manni fer að þykja vænt um þau sem maður kynnist. Þegar þú færð að skyggnast á bak við aðstæður fólks, færist þú nær því, skynjar hvernig reynslan mótar og stýrir og það rennur upp fyrir þér að þið eigið kannski eitthvað sameiginlegt. Það sem er sammannlegt færir okkur nær öðru fólki, í gegnum tíma og gegnum rúm. Það kemur í ljós að fólk sem okkur fannst vera órafjarri okkar eigin reynslu og eigin lífi, stendur okkur nær en okkur grunar.

    Fólk á flótta

    Þetta er reyndar eitthvað sem við höfum uppgötvað með nýjum þunga og nýjum hætti á Íslandi upp á síðkastið, þegar við höfum komist í snertingu við líf og aðstæður fólks sem hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka og ofsókna. Það eru engar nýjar aðstæður og flóttafólk hefur alltaf verið til, vegna þess að þess að það hefur aldrei verið skortur á átökum, stríði, hagsmunaárekstrum og landvinningum.

    En það er þegar við komumst í snertingu við það sem sameinar okkur fólki á flótta, sem við förum að horfast í augu við að þar eru á ferð manneskjur sem eru eins og þú og ég, hafa samskonar tilfinningar, hafa drauma og vonir, hafa elskað, saknað og misst, eins og ég og þú. Börn á flótta eru eins og okkar börn. Þau vilja leika, prófa, knúsa, læra og ná tökum á nýjum og spennandi hlutum. Þegar við föttum þetta, lítum við ekki sömu augum á fólkið sem núna streymir frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum, í leit að betra lífi.

    Hælisleitendur frá Íran

    Flóttafólk er mál dagsins í Evrópu og líka á Íslandi. Í dag eru með okkur hér í kirkjunni tveir menn sem við höfum fengið að kynnast og þykir mjög vænt um. Þeir eru á flótta frá heimalandi sínu Íran og hafa sótt um hæli hér á landi. Enn sem komið er hafa þeir ekki fengið raunverulega áheyrn hér. En þeir hafa fengið úrskurð um að þeir megi ekki vera hér og verði fluttir tilbaka þaðan sem þeir komu. Af því að þeir eru vinir okkar, snertir þetta okkur djúpt hér í Laugarneskirkju og aðstæður vina okkar hafa opnað augu okkar fyrir veruleika flóttafólks allt í kringum okkur.

    Reza verður með okkur í kaffinu á eftir og ég vona að þið notið tækifærið til að spjalla við þá, gefa þeim high-five eða eitthvað. Eftir viku verður það kannski of seint því búið verður að flytja þá úr landi.

    Rit flóttafólksins

    Tökum aftur upp þráðinn um Biblíuna, þetta margbrotna, fjölbreytilega og flókna rit sem við kristnir menn köllum trúarritið okkar. Það er eitt sem kemur í ljós þegar við förum að skoða hana: mörg rit hennar hafa mótast af aðstæðum fólks á flótta. Ótrúlega mikið sem hefur borist til okkar í gegnum aldirnar í orðum og hugmyndum Biblíunnar á rætur sínar að rekja til veruleika flóttafólksins.

    Finnst ykkur það ekki magnað?

    Þetta sést í beinum sögum af einstaklingum, hópum og þjóðum sem hrekjast til og frá, úr landinu sínu, inni í það aftur og innan þess. Sagan sem við heyrðum í dag um samskipti Rutar og Bóasar, er af þessum meiði. Við munum líka eftir sögunni um þegar Jósef tók Jesúbarnið og Maríu móður þess og flúði til Egyptalands, til að verða ekki fyrir ofsóknum Heródesar konungs.

    Sagan af Jósef er annað dæmi um hvernig fólk á flótta og flutningum mætir okkur í Biblíunni. Hann var seldur í annað land – þar sem hann náði svo að koma undir sig fótunum og komst reyndar til mikilla metorða þar sem hann starfaði fyrir sjálfan Faraó, réði drauma og sinnti ráðgjafastörfum. Jósef er frábært dæmi um útlendinginn sem “aðlagast” og fær að njóta þess.

    Dæmi um hið gagnstæða, um útlendinginn sem aðlagast alls ekki og hefur engan áhuga á því, er sagan af Daníeli sem endaði í ljónagryfjunni. Hans saga er á þann veg að þjóð hans er hertekin og flutt gegn vilja sínum í annað land, þar sem annar konungur ríkir og þar sem önnur trúarbrögð eru stunduð. Þar sem Daníel ætlar ekki að láta beygja sig undir siði móttökulandsins, lætur hann hart mæta hörðu og endar, eins og við vitum, í ljónagryfjunni, þar sem konungurinn ætlar að kenna honum almennilega lexíu.

    Úr jarðvegi flóttafólks

    Það eru ekki bara sögur um einstaklinga á flótta sem gera Biblíuna að sannkölluðu flóttamannariti heldur óx mikið af grunnhugmyndum í Biblíunni úr jarðvegi þjóðflutninga og flóttafólks. Það er t.d. þegar Ísraelsþjóðin er í útlegð við Babýlonsfljót, en Babýlónía hin forna var þar sem Írak er í dag, að hún komst í kynni við sköpunarhelgisögurnar sem síðan fundu leið sína inn í ritin sem við köllum Mósebækur. Þar komust þau í snertingu við helgisögur eins og Nóaflóðið, sem síðan varð ein þekktasta saga Gamla testamentisins, sem tjáir auðvitað í grunninn, óskina eftir því að ranglæti verði upprætt og friður og sátt ríki.

    Ef flóttafólk eru jaðarhópur samfélagsins á okkar tímum, þá getum við líka sagt að Biblían sé rit um jaðarhópa hvers tíma. Taktu eftir því hvað oft hópar eins og útlendingar, fatlaðir, sjúkir, skækjur, óhreinir, eru nefnd til sögunnar, ekki síst til að varpa ljósi á hvers eðlis samfélagið er. Taktu eftir því hvað Jesús tekur oft dæmi af fólki á kantinum til að útskýra samband Guðs við heiminn. Taktu eftir því að sjálfur Guðs sonur er barn á flótta undan ofsóknum yfirvalda og þarf að leita skjóls í öðru landi.

    Taktu eftir þessum sögum, lærðu að þekkja og elska meðbróður þinn og systur sem er í erfiðum aðstæðum, opnaðu hjarta þitt og líf fyrir því sem Guð vill segja þér, í gegnum orðið sitt og fólkið sem hann sendir til að verða á vegi þínum.

    Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svao sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

  • Ekki næs – Dyflinnarkerfið virðir ekki manneskjur

    eftir Kristínu Þórunni Tómasdóttur og Toshiki Toma.

    Hver myndi stíga um borð í bát með galla á botninum? Enginn. Eða léti annað fólk fara á sjóinn í honum? Hver myndi telja slíkt í lagi? Varla nokkur maður. Eða hvað?

    Því miður virðist þetta samt vera iðkað þegar kemur að málefnum hælisleitenda á Íslandi.

    Á föstudaginn sl. fengu tveir íranskir umsækjendur um alþjóðlega vernd, úrskurð um frávísun á grundvelli Dyflinnareglugerðar, en þeir eru búnir að vera hérlendis um eitt ár. Báðir sóttu fyrst um alþjóðlega vernd í Noregi. Annar eyddi þar átta árum, hinn sjö árum áður en þeir komu til Íslands. Í Noregi fengu þeir sömu niðurstöðu og átti að senda þá tilbaka til Írans.

    Norsk völdin senda flóttamenn til baka hvert sem er, og það er undrunarefni hvers vegna engin þjóð í Evrópu mótmælir þessu bersýnilega broti á alþjóðlegum flóttamannasamningum.

    Mennirnir tveir eru báðir kristnir og ef þeir verða sendir til Noregs og þaðan til Írans, er líf þeirra sannarlega í hættu. Annar þeirra greindi frá viðbrögðum norskra yfirvalda við þessum aðstæðum. Ráðið sem hann fékk var: ,,Ef þú talar ekki um trú þína, þá verður þú í fínu lagi“.

    Eins og margir hafa bent á, virðir Dyflinnarkerfið ekki mannslíf og er í raun ónýtt. Ástæðan er það ójafnvægi sem skapast vegna pólitískrar stefnu hvers ríkis sem á aðild að kerfinu og mismunandi fjölda flóttafólks í hverju landi.

    Það skýtur skökku við að einmitt núna þegar íslenskt þjóðfélag ræðir af einlægni um málefni flóttafólks í Evrópu og meirihluti þjóðarinnar ásamt löggjafanum tjáir vilja sinn að taka á móti auknum fjölda flóttafólks, skuli íslensk yfirvöld hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd án þess að hirða um að skoða aðstæður þeirra.

    Hér er ekkert samræmi. Hér veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir. Við getum ekki kastað fólki burt um leið og við segjum vilja taka á móti fleirum. Allir fæðast með rétt til virðingar og sérhvert mannslíf er óendanlega dýrmætt.

    Við biðjum í einlægni yfirvöld í málefnum útlendinga að horfa á málin út frá þessum raunveruleika. Dyflinnarkerfið er gallaður bátur sem ekki er hægt að senda fólk með á haf út. Slíkt felur ekki í sér virðingu fyrir mannslífum og slíkt er alls ekki næs.

    Sem prestar og kristið fólk skorum við því á íslensk stjórnvöld á að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni, og efla þannig mannvirðingu og sanngirni í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd.

    Birtist fyrst á Vísi.is 19. september.

  • Bænir fyrir fólki á flótta

    Lífsins Guð.

    Engin orð ná utan um það sem gerist í flóttamannabylgju samtímans og við verðum vitni að. Við sjáum hvernig manneskjur sem eru systur, bræður, feður, mæður, nýfæddar, aldraðar, elskaðar eða einmana, flýja heimili sín, sem einu sinni voru örugg en eru það ekki lengur. Við sjáum hvernig þau leggja í lífshættulega ferð í leit að öruggri höfn.

    Við skiljum ekki aðstæður þeirra sem flýja til að bjarga lífi sínu en við sjáum örvæntingu, ótta og sorg í augum þeirra. Við sjáum líka hugrekki og styrk sem veitir von í vonlausum aðstæðum.

    Gef að við tökum höndum saman til að vekja meiri von og koma systkinum okkar til bjargar. Gef að við sjáum hvað við erum aflögufær sem þjóð og einstaklingar og að við getum hjálpað. Gef að þau sem nú eru á flótta finni öruggan stað þar sem þeim er mætt með kærleika og opnum faðmi. Tak á móti þeim sem láta lífið inn í þitt eilífa ljós, þar sem enginn ótti og enginn ófriður ríkir. Hugga þau sem syrgja og lækna brotin hjörtu.

    Fyrir Jesú Krist Drottinn okkar, sem sagði: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra og systra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Amen.

    *

    Himneski faðir, frá þér er öll gæska, ást og örlæti.
    Við þökkum þér fyrir öll þau hjörtu sem standa opin þeim sem eru á flótta.
    Við biðjum þig að hjálpa okkur að opna líka fangið okkar til að bjóða þau velkomin og að bjóða fram hendur okkar til stuðnings og góðra verka.
    Gef von þeim sem eru vonlaus, græðslu inn í brotin líf
    og huggun í hræddar sálir.
    Fyrir Jesú Krist, Drottinn okkar, sem hóf líf sitt sem heimilislaust barn
    og flúði undan ofsóknum valdhafa. Amen.

    Bænir fyrir fólki á flótta og þeim sem taka á móti flóttafólki. Notist, breytist og bætist að vild. 

  • Að hýsa hælislausa

    Boðskapur Jesaja gamla spámanns er eins og talaður inn í aðstæður dagsins.

    Sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn…

    Þannig hljóðar hið heilaga orð og sæl eru þau sem heyra Guðs orð og varðveita það.

    Í skírninni hér áðan þegar litla stúlkan var vatni ausin og gefið fallega nafnið sitt, gerðist líka svolítið annað. Hún var tekin inn í fjölskyldu Guðs. Venjulega þegar við hugsum um fjölskyldu hugsum við um þau sem eru skyld, eða tengd, búa undir sama þaki. En við tilheyrum líka fjölskyldu allra þeirra sem lifa, því öll erum við börn Guðs.

    Síðustu daga höfum við verið óþyrmilega minnt á að sumir í þessari fjölskyldu búa við ömurlegar og lífshættulegar aðstæður. Það eru flóttamennirnir, karlarnir, konurnar og börnin sem streyma frá stríðshrjáðum löndum, skilja allt við sig og leggja allt í sölurnar til að komast á öruggari stað.

    Við höfum þessa síðustu daga fengið örlitla innsýn inn í aðstæður flóttafólksins sem streymir til Evrópu og hvernig lífi þeirra er ógnað við hættulegar aðstæður. Það er enginn ósnortinn af því að heyra um og sjá myndir af litlum börnum sem hafa drukknað á leiðinni yfir Miðjarðarhafið af því að þau voru á báti sem var allt of lítill og allt of óöruggur og með allt of mörgum.

    Einn vinur minn á facebook sem býr í Austurríki skrifaði á síðuna sína:

    Austurríkismenn eru í sjokki yfir fréttunum um flóttamennina, 71 talsins þar af 4 börn, sem fundust látnir í yfirgefnum flutningabíl skammt utan við Vínarborg í fyrradag. Allt í einu færðist dauðinn í Miðjarðarhafinu yfir á miðevrópska hraðbraut….Einn austurrískur stjórnmálamaður birti í morgun myndir á facebooksíðunni sinni af líkum barna sem drukknuðu í gær á leið frá Líbíu – myndir sem eru víða á internetinu – og sagði nauðsynlegt að horfa á þær. Viðbrögðin létu ekki á sér standa í kommentakerfinu. Margir tóku undir en enn fleiri gagnrýndu hann fyrir að birta myndir af líkum; sögðu það smekklaust. Hann svaraði um hæl og sagði smekklaust að láta sem ekkert sé. Ég er sammála honum. Það minnsta sem við getum gert er að sýna að við vitum að allt þetta flóttafólk dó á leiðinni til betra lífs. Ef við horfum í hina áttina, þá fyrst er útilokað að við finnum lausnir. Ef við látum sem ekkert sé, hvað er þá líka orðið um manneskjuna/mennskuna í okkur sjálfum?

    Svo mörg voru þau orð. Og í dag erum við með orðum Biblíunnar minnt á að þau sem við deilum þessari jörð með, koma okkur við. Það er skylda okkar að koma til hjálpar þeim í fjölskyldunni okkar, öðrum börnum Guðs, þegar þau þarfnast okkar.

    Öll orð Jesú í guðspjallinu hvetja okkur til þess:

    Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.

    Og hann hvetur okkur til að ganga langt – það er ekki nóg að elska þau sem elska okkur! Við eigum að elska þau sem við þekkjum ekki – líka þau sem við lítum á sem óvini okkar.

    Kannski er aðalatriðið hér að við eigum ekki að skipta fólki upp í hópa eins og vini, óvini, fjölskyldu og ókunnuga, útlendinga og Íslendinga, þegar kemur að því að bera ábyrgð og tryggja velferð. Við erum öll á sama báti, við erum ein fjölskylda.

    Og í orðum Jesú í guðspjalli dagsins býr svo mikill sannleikur, því hann bendir okkur á að þessari skyldu að elska náungann eins og sjálf okkur, er hvorki létt né einfalt að fylgja eftir. Það er heilmikið mál! Það væri heilmikið mál að taka við 5000 flóttamönnum á Íslandi, eins og hefur komið fram í umræðunni. Auðvitað! En það þýðir ekki að við eigum ekki að gera það.

    Við skulum bera gæfu til þess að axla ábyrgð okkar sem þjóð meðal þjóða, fylgja eftir þeirri góðu sátt sem þverpólitísk þingnefnd leggur til um stefnu í útlendingamálum, og setja mannúð og réttaröryggi í forgrunn, handa öllum sem hingað koma.

    Við þurfum ekki að vera hrædd um að missa eitthvað sem við höfum eða eitthvað sem er mikilvægt, ef við opnum Örkina okkar fyrir þeim sem þurfa á skjóli og hjálp að halda. Þar er aftur gamli skeggjaði hipsterinn hann Jesaja, með puttann á púlsinum og beinir okkur á rétta braut:

    Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
    hættir hæðnisbendingum og rógi,
    réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
    og seður þann sem bágt á,
    þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
    og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
    Drottinn mun stöðugt leiða þig,
    seðja þig í skrælnuðu landi
    og styrkja bein þín.
    Þú munt líkjast vökvuðum garði,
    uppsprettu sem aldrei þrýtur.

    Dýrð sé Guði sem lítur á okkur öll sem sín börn, er bróðir okkar allra, og endurnýjar von og hugrekki í hjörtum okkar.

    Flutt í Laugarneskirkju, 30. ágúst 2015.

  • Síðskeggjaður hipster vill fasta á ranglæti

    Þetta er merkilegur dagur.
    Einn af dögunum þegar við ættum eiginlega ekki að prédika.
    Bara láta textana tala.
    Mig langar samt að segja þrjú orð:

    • Þú.
    • Þjóðin.
    • Þau.

    Svo skal ég útskýra.

    Unga fólkið í kirkjunni á slagorð: Við erum hendur Guðs til góðra verka.
    Og fingur.
    Og munnar.
    Og fætur.

    Hvað þýðir þetta?

    Hvað sagði Jesaja?

    Sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.

    Svo kemur framhaldið:

    Nema auðvitað að hann sé útlendingur.
    Eða flóttamaður.
    Eða hælisleitandi.
    Eða úr annarri borg.
    Eða öðru hverfi.

    Þá skaltu bara sýna honum dyrnar.
    Skella í lás.

    Var það ekki annars?

    Nei.

    Jesaja skrifaði:

    Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
    hættir hæðnisbendingum og rógi,
    réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
    og seður þann sem bágt á,
    þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
    og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.

    Og hann var alveg með þetta, síðskeggjaði hipstera-spámaðurinn í Mið-Austurlöndum.

    Fólkið í strætó

    Ég átti stutt samtal á netinu við einn kunningja í vikunni. Hann tekur strætó á morgnana og hefur gaman af að fylgjast með fólki og þennan morguninn sá hann nokkuð sem kom á óvart.
    Fólkið í strætó var ekki með andlitin ofaní snjallsímunum sínum eins og þau eru alla jafna.

    Hvers vegna?
    Hvað hafði gerst?

    Ikea-bæklingurinn var kominn.

    Fólkið í strætó tók bæklinginn með sér og blaðaði í honum. Skoðaði myndir, stærðir, verð. Kannski til að fá hugmyndir eða innblástur, kannski til að láta sig dreyma.
    Um hvað?
    Betra líf með nýjum sófa?
    Nýtt skipulag í eldhúsinu?
    Mýkra rúm og litríkari rúmföt?
    Ég veit það ekki.

    En ég held að Ikea-bæklingurinn standi kannski fyrir það sama og matreiðslubækurnar og blöð eins og Hús og híbýli: Hugmyndina um eitthvað gott, betra líf sem við getum átt hlutdeild og kannski öðlast. Myndir og texti miðla því og kannski festir hugur og löngun sig við einhvern hlut sem gæti orðið okkar og þá verður allt.
    Miklu.
    Betra.

    Og það er bara allt í lagi að langa.
    Það er gott að láta sig dreyma.
    Og svo söfnum við og látum draumana jafnvel rætast.

    Draumarnir þeirra

    Fólkið í flóttamannabúðunum í Calais lætur sig líka dreyma.
    Fólkið í Sýrlandi lætur sig dreyma.
    Fólkið sem fer á litlum flekum yfir Miðjarðarhafið lætur sig dreyma.
    Um að lifa af.
    Um betra líf.
    Um eitthvað annað.
    Þau eiga sér von og það er hún sem rekur þau áfram.
    Það er jú enginn sem gerir það að gamni sínu að flýja land til að búa í flóttamannabúðum.

    En hvað kemur það okkur við?

    Ja, við erum hendur Guðs, til góðra verka.

    Hvött og eiginlega kölluð til að gefa hinum hungruðu af brauði okkar, hýsa bágstadda, hælislausa menn og ef við sjáum klæðlausan mann, að við klæðum hann – eins og spámaðurinn skrifaði.

    Það sama sagði Jesús þegar hann hvatti lærisveina sína.

    En Útlendingastofnun?

    Hvað er presturinn nú að spá?
    Vill hann bara opna landið?
    Veit hann betur en Útlendingastofnun?

    Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé sérfræðingur í málefnum flóttafólks.
    En ég veit til hvers við erum send.
    Hvaða viðhorf Jesús hafði og hvaða viðhorfi hann kallaði eftir hjá fylgjendum sínum.
    Til þeirra sem eru öðruvísi.
    Til þeirra sem búa við skort.
    Til þeirra sem þurfa.

    Þetta má orða með öðrum hætti.
    Farið ekki í manngreinarálit.
    Sinnið fólki jafnt.
    Gefið öllum tækifæri.
    Ekki bara Íslendingum á Íslandi heldur öllu fólki sem þið getið haft áhrif á til góðs.

    Það er ákall dags kærleiksþjónstunnar – og líka hinna 364-5 daganna á árinu.

    Mig langaði að deila því með ykkur.

  • Smellbeitan, útlendingarnir og Jesús

    „Rúss­ar hand­tekn­ir eftir „verslunarferð“ í Fjörðinn“
    „Litháarnir handteknir enn á ný“

    Þetta eru tvær fyrirsagnir frétta frá 2006 og 2008 sem ég fann á vefnum mbl.is. Framsetning af þessu tagi í umfjöllun um glæpi hefur verið gagnrýnd vegna þess að hún þykir ala á andúð á útlendingum. Þá er spurt hvaða máli það skipti hvers lenskur hinn meinti brotamaður er? Og hvers vegna það sé þá ekki nefnt hverju sinni sem Íslendingur er handtekinn að hann sé einmitt Íslendingur? Þetta rifjaðist upp fyrir mér í vikunni vegna þess að ég las frétt á Pressunni sem ég mátti svosem vita að væri ekki íslensk en það var samt aldrei tekið fram. Fyrirsögnin var svona:

    „Lögreglan stöðvaði konu fyrir hraðaakstur: Hún kom með besta svarið“

    Fréttin hófst svo á orðunum: „Athugið – eftirfarandi atburðir gætu ekki hafa gerst“ sem ég veit hvað eiga að merkja. Kannski að svona nokkuð geti ekki gerst, kannski að fréttin sé mögulega uppspuni.

    „Fréttir“ af þessum toga eru þekktar í vefheimum. Fyrirsagnirnar eru kallaðar „clickbait“ – smellbeita – því þær eru settar saman til að skapa forvitni og kalla fram smelli. Svo eru birtar auglýsingar með fréttinni og þannig fást tekjur á vefinn. Sannleiksgildi efnisins skiptir litlu máli eða jafnvel engu. Þess vegna er láta fylgja ábendingu til lesandans efst í fréttinni um að „þetta gæti ekki hafa gerst.“ Ég velti því fyrir mér við lesturinn hvort ekki mætti hafa þá meginreglu að láta þess getið í fyrirsögnum svona frétta hvers lenskir einstaklingarnir sem þær fjalla um eru, til dæmis:

    „Útlensk lögreglan stöðvaði erlenda konu fyrir hraðaakstur í útlöndum: Hún kom með besta svarið – á ensku“

    Ég held nefnilega að ólíkt innlendum glæpafréttum þá megi gjarnan fylgja gaman- og flökkusögum frá útlöndum upplýsingar um upprunaland. Bæði til að auðvelda okkur að sía fréttirnar á vefnum og til að leyfa erlendum sögum að vera einmitt það en láta ekki eins og þær séu íslenskar.

    Smellbeita og lofsöngvar

    Í vikunni bárust fréttir frá Englandi. Fyrir nokkrum dögum var  tekinn upp sjónvarpsþáttur sem heitir Songs of Praise. Hann er sendur út á sunnudagseftirmiðdögum og þessi tiltekni þáttur verður sendur út seinna í dag. Songs of Praise er þáttur með trúarlegri tónlist og þar er líka fjallað um málefni samtímans í ljósi kristinnar sýnar á manneskjuna og trúna. Þáttur dagsins var tekinn upp í flóttamannabúðum í Calais. Þar búa þúsundir flóttamanna – hælisleitenda – frá löndum eins og Sýrlandi, Lýbíu og Erítreu.

    Eitt götublaðið beitti sér í málinu og setti smellbeitufyrirsögn yfir frétt:

    Hymnigrants
    EXCLUSIVE: BBC blasted for filming Songs of Praise at Calais camp

    Í fréttinni kom fram að ríkisútvarpið breska ætti ekki að beita sér á sviði sem væri svona pólitískt. Það væri óviðeigandi að taka upp sjónvarpsþátt um trúarleg efni meðal hælisleitenda og flóttafólks.

    Nick Baines sem er biskup í Leeds var einn af þeim sem svöruðu fyrir hönd kirkjunnar. Hann sagði tvær góðar ástæður fyrir taka þáttinn upp í flóttamannabúðunum. Sú fyrri er að kristin trú fjallar um Guð og manneskjuna í raunverulegum aðstæðum. Sú síðari er að kristið helgihald snýst líka um alvöru fólk, stundum á það sér einmitt stað þar sem aðstæður eru erfiðar.

    Þarna er fólk.
    Náungar okkar.
    Í alvöru og erfiðum aðstæðum.
    Sem hafa fundið og finna styrk í trúnni.
    Þess vegna hafa þau reist sér tjaldkirkju sem rís hærra en tjaldborgin.
    Og þegar hún brann reistu þau hana aftur.
    Ekki af auð sínum heldur af fátækt sinni.
    Og það eru forréttindi að fá að biðja með þeim.

    Jesús og útlendingarnir

    Jesús segir í 25. kafla Matteusarguðspjalls:

    „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. “

    Og:

    „Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“

    Og hvað er þetta allt sem hann talar um?

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

    Til þess erum við kölluð. Smellbeita Jesú – það sem grípur – er því ósköp einföld yfirlýsing: Vertu almennileg manneskja, ekki bara við þau sem standa þér næst heldur við þau sem gera það ekki. Til dæmis útlendinga. Flóttafólk. Hælisleitendur.

    Því þau eru Guðs.
    Eins og þú.

    Flutt í lesmessu í Háteigskirkju, 16. ágúst 2015.

  • Það sem skiptir máli er að bjarga fólki í neyð

    Toshiki Toma, prestur innflytjenda:

    Ég veit að endurskoðun Dyflinnarsamstarfs Íslands við ESB er komin á borð alþingismanna. Af því tilefni, vil ég skora á þá sem geta breytt kerfinu, að einblína á að styrkja flóttamannastefnu landsins og beina sjónum að því sem skiptir máli, þ.e. að bjarga fólki í neyð og virða alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sínar, en ekki að fylgja Dyflinnarreglugerðum í blindni.

    Toshiki er starfsmaður á plani. Hann veit hvað hann er að tala um.