Árni og Kristín

Ósíuð aðventa 10: Dagur mannvirðingar og mannréttinda

Tíundi desember, er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna. Haldið hefur verið upp á hann frá árinu 1948 þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Mannréttindayfirlýsinguna eða Heimsyfirlýsingu um mannréttindi eins og það var orðað á þeim tíma.

#mannréttindi365

Þema dagsins 2015 er #mannréttindi365 (#rights365) sem er áminning um grundvallarsjónarmið Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þar er gengið út frá því að mannréttindi er allra. Þau binda mannkynið saman sem heimssamfélag. Þetta gildir 24 tíma á sólarhring, 365 daga ársins.

„Allir dagar eru mannréttindadagar. Þeir eru dagar sem við verjum við það að tryggja að allar manneskjur geti öðlast jafnrétti, reisn og frelsi,“ segir Zeid Ra’ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Við stöldrum við á þessum degi og íhugum hver það eru í samfélagi okkar sem njóta ekki jafnrétti, reisnar og frelsis. Í hugann koma óneitanlega þau sem koma hingað í neyð og biðja um skjól. Landlausa fólkið sem oft fær ekki réttarmeðferð eða umfjöllun út frá sínum aðstæðum, heldur er sett í fyrirframgefinn flokk sem á að ganga yfir línuna óháð aðstæðum hvers og eins. Slík meðferð tekur ekki tillit til einstaklingsins, bakgrunns hans og aðstæða. Þess vegna virðir hún ekki manneskjuna og réttindi hennar.

Fjölskylda á hrakningum

Í Víðsjá dagsins – á degi mannréttinda – gerði útvarpsmaðurinn Guðni Tómasson mál hælisleitenda að umfjöllunarefni sínu. Hann tengdi þau við jólasöguna:

„Viljum við búa í samfélagi sem er gjörsneitt mannúð og samkennd? Þar sem kaldhamraður veruleiki reglugerðarinnar er æðstur boðorða? Þar sem mannréttindi eru alltaf túlkuð eins þröngt og mögulega er hægt? Kannski, kannski viljum við bara fá að vera í friði, loka okkur af eins og hræddir fuglar í búri.

En svo koma jól og við minnumst fjölskyldu á hrakningum í Mið-Austurlöndum forðum daga, ekki svo ýkja fjarri Sýrlandi þar sem sprengjur ríku þjóðanna falla sem ætlað er að leysa allt, frelsa okkur undan óttanum í lífi okkar. Já, það koma jól og við gleymum albönsku börnunum, Kleu og Kevi, og foreldrum þeirra. Eftir situr óbragð í munninum sem jafnvel jólasteikin og möndlugrauturinn eiga erfitt með að eyða.“

You may also enjoy…