Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Hjartabrosin

    Guð.
    Hjartabrosin eru.
    eins og aflstöðvar
    kærleikans í lífinu.

    Viltu gefa okkur bros á hjarta.
    Til að lýsa upp lífið okkar í dag.

    Guð.
    Viltu gefa okkur bros á varir.
    Til að deila með öðrum.
    Og gera þannig daginn þeirra betri en hann væri ella.

    Guð.
    Viltu brosa til okkar í dag.
    Svo að við megum brosa til annarra
    og séum þannig farvegur fyrir kærleikann þinn.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 9. apríl 2013

  • Það er náungakærleikur

    Guð.
    Gæðum jarðar er misskipt.
    Sumir hafa mikið, aðrir lítið.

    Viltu gera okkur meðvituð og þakklát
    fyrir það sem við höfum.
    Viltu gera okkur meðvituð og örlát
    gagnvart þeim sem búa við skort.

    Viltu kenna okkur að gefa öðrum
    af því sem okkur hefur verið gefið.

    Því það er náungakærleikur.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 8. apríl 2013

  • Fullvissan og loforðið

    Guð.
    Í dag og aðra daga
    viljum við ganga með þér
    í trausti til þess sem þú gefur okkur í öllum aðstæðum lífsins
    sem er fullvissan um lífið
    og loforðið um lífið.

    Viltu láta loforðið þitt
    um sigurinn yfir dauðanum
    taka sér bólfestu í okkur
    og móta bæði líkamann okkar og sálina
    þannig að við verðum boðberar lífsins
    og þar með boðberar þínir.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 6. apríl 2013

  • Ég skil þig ekki Guð

    Guð.
    Stundum skiljum við ekki orðin þín.
    En þegar við horfum á Jesú,
    sjáum hvernig hann mætti fólki af umhyggju og í kærleika,
    þá þurfum við ekki að skilja allt.

    Því við skynjum hvernig þú mætir okkur
    og vitum hvernig við eigum að mæta öðrum.

    Af umhyggju og í kærleika.

    Viltu gefa okkur að mæta öðru fólki í dag
    eins og þú mætir okkur í Jesú.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 5. apríl 2013.

  • Það eru páskarnir

    Guð.
    Vorið heldur innreið sína.
    Lífið kviknar.
    Það birtir á landinu okkar
    og í hjörtunum okkar.
    Það eru páskarnir.
    Tími birtu, tími lífs og tími vonar.
    Fyrir það viljum við þakka.
    Og yfir því viljum við gleðjast.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 4. apríl 2013.

  • Morgunbænir kl. 6:36

    Morgunbænirnar á Rás 1 eru á dagskrá klukkan 6:36 alla daga nema sunnudaga. Það kom í minn hlut að sjá um þær næstu tvær vikurnar. Fyrsta skiptið var í morgun og það síðasta verður sextánda apríl. Ég ætla að deila bænunum sjálfum með lesendum bloggsins, þær munu birtast hér á hverjum morgni kl. 6:36 og þegar upptakan hefur ratað á vefinn bæti ég við vísun á hana. Þið getið því lesið og hlustað. Viðbrögð eru að sjálfsögðu vel þegin.

  • Guð, gerðu okkur þakklát í dag

    Guð,
    viltu hjálpa okkur að meta lífið
    í öllum sínum fjölbreytileika,
    meta það sem við þiggjum frá þér
    og frá fólkinu sem við mætum.
    Viltu minna okkur á að þakka fyrir allt
    sem er svo reglulegur hluti af lífinu að lítum á það sem sjálfsagðan hlut
    – og að þakka fyrir fólkið í kringum okkur og það sem aðrir gera fyrir okkur.

    Guð, gerðu okkur þakklát í dag.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 3. apríl 2013.

  • Játning kvennanna

    Ég trúi á GUÐ, skapara heimsins og alls sem er, sem skapaði konur og karla í mynd sinni og líkingu, sem skapaði heiminn og fól báðum kynjum ráðsmennsku jarðarinnar.

    Ég trúi á JESÚ, son Guðs, hinn útvalda Guðs, sem var fæddur af konu, hlustaði á konur og kunni að meta þær, gisti í heimilum þeirra og talaði við þær um Guðsríkið, sem átti konur að lærisveinum, sem fylgdu honum og lögðu honum lið.

    Ég trúi á Jesú sem talaði við konuna við brunninn um guðfræði og treysti henni, fyrst af öllum, fyrir því að hann væri Messías, og hvatti hana til að fara í þorpið og segja fagnaðarerindið – hún var fyrsta konan sem prédikaði fagnaðarerindið.

    Ég trúi á Jesú, sem konan hellti ilmsmyrslum yfir og smurði hann sem Guðs útvalda í húsi Símeons, sem skammaði mennina sem gagnrýndu hana, sem læknaði konu á hvíldardeginum og gerði hana heila af því að hún var manneskja.

    Ég trúi á Jesú sem líkti Guði við konu sem hafði tapað peningi og hreinsaði húsið allt í leit að honum.

    Ég trúi á Jesú sem sá í meðgöngu og fæðingu líkingu fyrir breytingu, nýja fæðingu frá sársauka til gleði.

    Sem var svikinn, krossfestur, yfirgefinn, og dó til að allt sem lifir mætti eiga líf í fullri gnægð.

    Ég trúi á hinn upprisna Jesú, sem birtist fyrst konunum sem komu saman með Maríu Magdalenu, fyrsta postulanum, og sendi þær til að bera áfram boðskapinn undursamlega: „Farið og segið …“

    Ég trúi á HEILAGAN ANDA, sem sveif yfir vötnunum við sköpunina og yfir jörðinni.

    Ég trúi á heilagan anda, helgandi anda Guðs, sem leiðir okkur saman, safnar okkur og verndar, eins og hæna umvefur kjúklinga með vængjum sínum.Úr litúrgíu fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna.

  • Lectio Divina fyrir prédikarann

    Við höfum verið að glugga í verk David Adam sem er viskubrunnur um kristna íhugunar- og bænahefð eins og hún hefur þróast í írskri og keltneskri trúarmenningu. Hann hefur meðal annars skrifað mikið fyrir presta og guðfræðinga um prédikunarvinnu í þessu ljósi.

    Útgangspunkturinn í nálgun hans er að prédikunin á að koma frá hjartanu og í gegnum íhugun á Guðs orði. Ein leið til að nálgast lestur Biblíunnar er Lectio Divina sem er aðferðarfræði úr fornkirkjunni og byggir á því að orð Guðs fái að móta og snerta manneskjuna alla. (more…)

  • Bæn við jólatréð – tilbeiðsluráð #1

    Hér er hugmynd að stuttri stund við jólatréð, þegar ljósin eru tendruð, hvort sem er í kirkjunni eða heima. Hún samanstendur af örstuttri hugleiðingu, ritningarlestri, bæn og söng. Lykilþemu stundarinnar er ást Guðs til heimsins og nærvera Guðs í barninu sem fæddist í Betlehem. Þetta er tilbeiðsluráð #1 á blogginu okkar. (more…)