Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bænir í geðveikri messu

    Í dag var geðveik messa í Laugarneskirkju. Okkur langar að deila bænarefnum dagsins með lesendum bloggsins.

    Geðsjúkdómar

    Elsku góði Guð, í dag felum við þér þau okkar sem glíma við eða hafa glímt við geðsjúkdóma. Takk fyrir gjafir þeirra og lærdóm sem þau færa samfélaginu okkar. Umvef þau með ást þinni og umhyggju og lát þau aldrei gleyma að þau eru óendanlega mikilvæg í þínum augum. Styrk aðstandendur og fagfólk og gerðu ráðamenn meðvitaða um ábyrgð og verkefni í málaflokknum. Við biðjum í Jesú nafni.

    Ebóla

    Almáttugi Guð, við komum fram fyrir þig með áhyggjur okkur út af ebólufaraldrinum sem geisar í Vestur-Afríku og teygir anga sína út um allan heim. Viltu styrkja þau öll sem glíma við sjúkdóminn – þau sem hafa smitast, búa á svæðum þar sem faraldurinn geisar, eiga ættingja sem hafa smitast eða dáið, við biðjum þig sérstaklega fyrir börnum sem hafa misst foreldra sína vegna ebólu. Viltu vera með þeim sem sinna læknis- og hjúkrunarstörfum og berjast við sjúkdóminn. Viltu gefa stjórnvöldum og alþjóðastofnunum visku og dómgreind til að bregðast við hratt og örugglega. Viltu gera okkur öll meðvituð um að það eru ekki Þau sem glíma við ebólu heldur Við öll. Við biðjum í Jesú nafni.

    Náunginn

    Drottinn Guð, við þökkum þér fyrir allar góðar gjafir sem frá þér eru komnar. Hjálpaðu okkur að nota þær sjálfum okkur og öðrum til blessunar og þínu nafni til dýrðar. Gerðu okkur meðvituð um neyð náungans og gefðu okkur hugrekki til að koma til hjálpar. Takk fyrir listir og listafólk, kennara og umönnunarstéttir, heilbrigðisstarfsfólk og þau sem gæta öryggis. Blessa þau sem hafa tekið að sér ábyrgðarstörf í þágu almennings og gef þeim visku og réttlætiskennd. Við biðjum í Jesú nafni.

    Friður

    Drottinn Guð, við biðjum fyrir kirkju þinni og öllum konur og körlum sem þjóna þér og útbreiða orð þitt og kærleika. Blessa öll þau sem láta kærleiksboðorðið sem þú gefur okkur móta líf sitt og veru. Í dag þökkum við þér fyrir hana Malölu og það sem hún kennir okkur, nefnilega að friður, samtal og menntun er alltaf betra svar en ofbeldi og yfirgangur. Hjálpaðu okkur að líkjast henni, eins og hún líkist þér. Við biðjum í Jesú nafni.

  • Kolaglóð og krýsólít: Reiðhjólabæn

    Vorið er tíminn þegar við tökum hjólin okkar fram og njótum hreyfingar og útiveru í sátt og samlyndi við umhverfið. Götur, torg og skólalóðir fyllast líka af ungu hjólreiðafólki með marglita hjálma og skrautlega lása.

    Ég tók saman stutta helgistund þar sem við nefnum hluti sem eru mikilvægir öllu hjólafólki. Fyrst kemur ritningarlestur – sem er soldið flippaður, enda frá þeim magnaða spámanni og presti Esekíel, sem lifði á 6. öld fyrir Krist. Mér finnst hann passa vel í reiðhjólabæn þar sem hann fjallar um hjól og það er mikið líf í tuskunum. Svo kemur bæn sem er sett upp eins og almenn kirkjubæn í venjulegri messu, þar sem einn les og hinir svara. Að lokum fylgir blessun og smurning – því bæði fók og hjól þurfa réttu olíuna til að ganga vel.  (more…)

  • Altarisganga – græn í garði Guðs

    Hér er form fyrir altarisgöngu sem er skrifuð til að nota í messu á Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar sem er haldinn 2. mars í ár. Þessi altarisganga gerir ekki kröfu um að vígð manneskja stjórni henni, heldur getur það verið unglingur eða leiðtogi í æskulýðsstarfinu. Ég birti hana sem tilbeiðsluráð hér á vefnum, til notkunar í kirkjunum.

    (more…)

  • Leyfðu okkur að vera hendur þínar

    Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar í þjóðkirkjunni. Í dag lyftum við upp þjónustunni við náungann sem er kjarnaatriði í kristinni trú og lífi og birtir okkur trúna í verki. Í sögunni af miskunnsama Samverjanum erum við minnt á okkur á að við spyrjum ekki um trú eða stétt eða stöðu þess sem er í neyð heldur nálgumst hann sem náunga sem þarfnast handa okkar í þjónustu. Í Matt 25.35-36 lesum við svo um inntak kærleiksþjónustunnar:

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

    Í dag viljum við deila þremur bænum með ykkur og gera það að okkar.

    I. Þakklæti

    Drottinn Guð, við þökkum þér fæðuna og minnumst þeirra sem hungur sverfur að.
    Við þökkum þér líf og heilsu og minnumst þeirra sem eru sjúk og deyjandi.
    Við þökkum þér vini og fjölskyldu og minnumst þeirra sem eru einmana.
    Við þökkum þér frelsið og minnumst þeirra sem eru í fangelsi, og í fjötrum fíknar og skulda.

    Leyfðu okkur að tjá þakklætið til þín í þjónustu við aðra.

    II. Vitnisburður

    Góði Guð. Hjálpaðu okkur að sjá son þinn, Jesú Krist, í hverjum bróður og systur sem við mætum.
    Líka þeim sem eru ólík okkur, hafa aðra trú, annað tungumál, annan bakgrunn og annan efnahag.
    Öll eru þau í þinni mynd og óendanlega dýrmæt í þínum augum, eins og við sjálf.

    Leyfðu okkur að bera trú okkar á þig vitni með þjónustunni við aðra.

    III. Hendur

    Lifandi Guð. Lát okkur minnast að allt sem við gerum einum okkar minnstu bræðra og systra, gerum við þér.
    Þegar við heimsækjum, heimsækjum við þig, þegar við gefum að borða, gefum við þér að borða,
    þegar við gefum, gefum við þér, þegar við elskum, elskum við þig.

    Leyfðu okkur að vera hendur þínar á jörðu í þjónustunni við aðra.

  • Lófinn og lífsins bók

    Guð.
    Á skírnardegi vorum við nefnd með nafni
    og þú skrifaðir nafnið okkar í lífsins bók
    og ristir nafnið okkar í lófa þinn
    eins og við gerðum á unglingsárum
    þegar við vorum skotin í einhverjum
    og skrifuðum nafnið þeirra í lófann.
    Þau nöfn dofnuðu og hurfu þegar lófinn var þveginn,
    en nöfnin okkar okkar dofna ekki,
    þau er að eilífu í lófanum þínum.
    Takk fyrir að þú þekkir okkur og þekkir nöfnið okkar.
    Takk fyrir að þú ert okkar Guð.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 16. apríl 2013. Innblásið af vini mínum Kristjáni Vali sem er uppáhaldsskáld.

  • Orðin okkar

    Guð.
    Þú skapaðir okkur með hjarta og huga og munn.
    Til að elska, hugsa og tala.
    Orðin okkar geta dregið fólk niður og sært.
    Og þau geta lyft í hæðir, huggað og hlýjað.
    Viltu gera hjartað okkar hlýtt í dag,
    hugsann umhyggjusaman
    og munninn farveg fyrir falleg orð.
    Þannig að þau sem við mætum í dag fari frá okkur
    léttari í spori og glaðari í hjarta.
    Vitandi að þau séu metin, virt og elskuð.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 15. apríl

  • Sólartakk

    Guð.
    Það er svo gott að upplifa sólina á morgnana.
    Sjá hana gægjast upp yfir fjöllin og lýsa upp landið.
    Horfa mót henni og píra augun og finna ylinn á andlitinu.
    Þiggja næringuna sem er í geislum hennar.
    Fyrir það viljum við þakka í dag
    og biðja þig að gera okkur að sólargeisla
    í lífi fólksins í kringum okkur.
    Bæði þeirra sem við þekkjum
    og hinna sem við þekkjum ekki.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 13. apríl.

  • Leik-, lífs- og trúargleði barnanna

    Guð.
    Þú sagðir okkur að vera eins og börnin
    til að skilja þig og nálgast þig.
    Viltu gefa okkur leikgleði barnanna, lífsgleði barnanna og trúargleði barnanna –
    sem eru svo opin gagnvart lífinu og gagnvart þér.
    Viltu hjálpa okkur að standa vörð um börnin sem minna mega sín og um barnið í okkur sjálfum.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 12. apríl.

  • Gefðu ró

    Guð.
    Á hverjum degi upplifum við augnablik
    sem gefa tilefni til að gleðjast og vera hamingjusöm.
    Stundum sjáum við þau ekki
    því við göngum svo hratt gegnum lífið
    eða erum upptekin af því slæma.
    Viltu gefa okkur ró í huga og hjarta
    til að lifa hægt og upplifa augnablikin
    þar sem gleðin er fullkomin.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 11. apríl.

  • Brennandi

    Guð.
    Viltu ganga með okkur til Emmaus, eins og með lærusveinunum forðum daga.
    Til okkar Emmaus.
    Viltu gefa okkur brennandi hjarta
    þegar við lesum um þig.

    Brennandi munn
    þegar við tölum um þig.

    Brennandi hendur þegar okkar hendur
    sem verða þínar hendur,
    til góðra verka í heiminum sem við lifum í.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 10. apríl.