Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Uppkast að kvikmyndahátíð samtalsins

    Ég fékk fyrirspurn á dögunum frá sóknarpresti á landsbyggðinni sem langar að halda kvikmyndahátíð í söfnuðinum. Hann var að leita að nokkrum myndum sem væri hægt að sýna í kirkjunni og eiga gott samtal um.

    Þetta þurftu að vera myndir sem höfða til ólíkra hópa og vekja með áhorfendum spurningar, ekki ósvipað því sem við leggjum til grundvallar þegar kvikmyndaverðlaun kirkjunnar eru afhent. Þetta voru myndirnar sem við enduðum með:

    Það væri gaman að heyra frá lesendum bloggsins. Hvaða myndir vilduð þið helst sjá á svona lista?

  • Íslensk heimsslit

    Christmess er íslensk heimsslitastuttmynd sem gerist á jólum. Hún er gerð af Frosta Jóni Runólfssyni og er sýnd í Sjónvarpi Mbl. Hrós til Mbl og Kvikmyndaskólans fyrir þetta góða framtak.

  • Hreindýraleikar

    Nýársdagsmyndin var að þessu sinni Hreindýraleikarnir – Reindeer Games – með Ben Affleck, Charlize Theron og Gary Sinise sem sýnir stórleik í þessum ágæta reyfara. Þetta er miðlungs spennumynd um svikahrappa sem mæta öðrum svikahröppum og hegða sér sem slíkir. Um leið er þetta þroskasaga söguhetjunnar Rudy sem Affleck leikur af stillingu.

    Þrennt vakti athygli trúarstefjaáhugafólksins: Þrjú nöfn í myndinni vísa til jólanna: Rudy (hreindýrið Rúdolf), Nick (Heilagur Nikulás) og Gabriel (engillinn sem vitraðist Elísabetu og Maríu). Þegar þrjótarnir í myndinni ræna spilavíti klæðast þeir sem jólasveinar. Og í lok myndarinnar sinnir Rudy hlutverki sem minnir sumpart á Nikulás frá Mýru, biskupinn sem jólasveinninn er kenndur við.

  • Jólamynd #3: Hvít jól

    Jólamyndin Hvít jól  kallast á við uppáhaldsþátt unga fólksins: Dans dans dans. Hún fjallar um félagana Bob Wallace og Phil Davis sem kynnast systrunum Betty og Judy Haynes. Saman dvelja þau á litlu sveitahóteli í Vermont þar sem þau ætla að koma fram, syngja og dansa.

    Ferðamannabransinn gengur ekki vel þessi jólin. Þegar Bob og Phil komast að því að eigandi hótelsins er leiðtogi þeirra úr hernum, Waverly hershöfðingi, ákveða þeir að leggja sitt af mörkum til að bjarga honum og hótelinu.

    Þetta er falleg mynd, full af skemmtilegum söngvum eins og titillaginu sem allir þekkja. Aðalleikarnir fjórir eru líka liðtækir dansarar. Hvít jól minnir á að jólin eru tími ástar og umhyggju og að þau eru tíminn þegar við látum gott af okkur leiða. Hún er ómissandi innlegg í jólamyndaáhorfið á aðventunni.

  • Jólamynd #2: Fæðing frelsarans

    Biblíumyndin Fæðing frelsarans segir frá ferðalagi þeirra Maríu og Jósefs frá Nasaret til Betlehem. Ferðalagið er erfitt og sem áhorfandi öðlast maður kannski dýpri skilning á því sem hjónin ungu þurftu að ganga í gegnum. Guðspjallið er myndskreytt.

    Eftir langa göngu komast þau til smábæjarins Betlehem. Og við vitum nú eiginlega hvernig þetta endar. Höfum nefnilega lesið bókina.

    Barnið fæðist í fjárhúsinu. Foreldrarnir fegnir og dást að litla kraftaverkinu. Dýrin eru allt um kring. Englar birtast hirðunum. Það er mikil dýrð og mikið ljós. Og vitringarnir mæta á staðinn. Og þetta er svona – svo vitnað sé í Baggalút – eins og í Biblíumyndunum.

    Í eftirminnilegu skoti sjáum í fjarmynd inn í hellinn sem er fjárhús. Hann er rækilega upplýstur. Það sést móta fyrir öllum lykilpersónunum. Ljósgeisli skín af himni. Allt er eins og það á að vera.

    Stundin er heilög og bíómyndin miðlar því vel og ber kannski með sér þá sýn að jólin séu tími þegar hið heilaga verður nálægt og sýnilegt.

  • Jólamynd #1: Snjóbrettajól Davíðs og Golíats

    Snjóbrettajól Davíðs og Golíats er nýjasta myndin um þá strákinn Davíð og hundinn Golíat. Hún gerist á jólum í litla ameríska smábænum sem er heimili þeirra félaga og gefur innsýn í jólahald og samband krakka sem aðhyllast ólík trúarbrögð.

    Davíð er kristinn. Hann heldur upp á jólin og fær jólagjafir. Jólagjöfin hans í ár er snjóbretti og það tengir hann einmitt við félagana Jasmín, sem er múslimi og Samma sem er gyðingur. Bæði eru snjallir snjóbrettakappar og saman eiga krakkarnir góðar stundir í fjallinu.

    Snjóbrettajólin eru mynd sem dregur upp mynd af ólíkum hefðum í kringum jólin og aðrar trúarlegar hátíðir s.s. Ramadan-föstuna og Ljósahátíð gyðinga. Hún er líka – eins og margir þættirnir um Davíð og Golíat – þroskasaga þess fyrrnefnda. Hér kynnist hann því að ekki halda allir upp á jólin og ekki gefa allir jólagjafir. Og „samt eru þeir bara glaðir“ svo vitnað sé í samtal hans og Golíats.

    Þetta er líka falleg saga um samvinnu og umburðarlyndi. Krakkarnir lenda í snjóflóði, mæta skógarbirni fer ásamt Golíat að sækja hjálp. Allt fer vel að lokum.

    Snjóbrettajólin eru vel þess virði að skoða á aðventunni. Ekki síst ef það eru krakkar á heimilinu.

    Ps. Á aðventunni ætlum við að blogga um um það bil eina jólamynd á dag. Þetta er sú fyrsta.

  • Bræður munu bregðast

    Submarino eftir Thomas Vinterberg var sýnd á RIFF í fyrra. Þá skrifaði ég stuttan pistil um myndina. Svo fékk kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra. Mögnuð mynd sem við rifjuðum upp í vikunni þegar hún var tekin til sýninga hjá Deus ex cinema.

  • Íslenskir prestar í íslenskum kvikmyndum

    Prestar eru sýnilegir í íslenskum bíómyndum og oft eru þjónandi prestar fengnir í hlutverkið. Sú er raunin í tveimur nýlegum kvikmyndum. Í Borgríki hefur sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson góða nærveru í sálgæsluviðtali við eina aðalpersónu myndarinnar og í Eldfjalli söng sr. Kristján Björnsson yfir moldum einnar aðalpersónunnar.

  • Eldfjall

    Úr Eldfjalli

    Manneskjan á krossgötum. Manneskjan andspænis því góða og slæma í eigin lífi. Manneskjan frammi fyrir dauðanum. Manneskjan sem þarf að standa vörð um eigin virðingu og annarra.

    Kvikmyndir miðla glímunni við lífið. Áhorfandinn speglar sig í sögunum á hvíta tjaldinu og þær verða vettvangur fyrir eigin vangaveltur um lífsreynsluna. Góð kvikmynd býður til þannig samtals, án þess að dæma eða þvinga.

    Góð kvikmynd hvílir á sterkri sögu, trúverðugum leik og góðu handverki. Þetta þrennt kemur saman í kvikmyndinni Eldfjalli undir styrkri stjórn Rúnars Rúnarssonar. Hún fjallar um efni sem er honum hugleikið, eins og sjá má í fyrri verkum Rúnars – hvernig manneskjan bregst við breytingum sem aldurinn færir óhjákvæmlega með sér.

    Aðstæður aldraðra, umönnun sjúkra og staða manneskjunnar þegar heilsan bregst er áleitið efni í samtímanum og snertir marga á Íslandi í dag. Aðalpersóna Eldfjalls stendur í þessum sporum og er knúin til að ganga í sig og axla ábyrgð. Hann þarf að horfast í augu við lífshlaupið sitt, það sem gekk vel og hitt sem fór aflaga.

    Eldfjall fékk kvikmyndaverðlaun kirkjunnar á nýafstaðinni Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF. Þjóðkirkjan hefur í sex ár verðlaunað myndir á RIFF í flokki nýrra leikstjóra, sem eru ekki bara vel gerðar kvikmyndir heldur eiga sérstakt erindi í glímuna við trúar- og tilvistarspurningar samtímans.

    Eldfjall sýnir ástina á sterkan og ágengan hátt. Hún miðlar fegurð og styrkleika í aðstæðum sem eru kreppandi og vonlausar. Hún minnir á mikilvægi nærverunnar í nekt og bjargarleysi manneskjunnar.

    Eldfjall knýr til umhugsunar og samtals um mikilvæg mál. Eldfjall á erindi við okkur vegna þess að hún er listaverk sem miðlar von og mannvirðingu.

    Birtist líka í Fréttablaðinu, á Vísi og á Trú.is.

  • Eldfjall og Rúnar

    Á miðvikudaginn kemur ætlar Rúnar Rúnarsson, leikstjóri Eldfjalls, að taka þátt í samtali um myndina að lokinni sýningu í Háskólabíói. Sýningin hefst kl. 20 og er öllum opin. Kirkjufólk er sérstaklega boðið velkomið.