Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 29: Hjarta og hold

    Pönnukökur

    Í dag er Megrunarlausi dagurinn. Í lexíu dagsins segir meðal annars: „Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi.“

    Okkur finnst viðeigandi að lexían fjalli um nýjan anda og um hold á megrunarlausa deginum sem er auðvitað líka dagur líkamsvirðingarinar.

    Í tilefni tuttugasta og níunda gleðidagsins deilum við með ykkur mynd af pönnukökum sem eru uppáhaldsmatur, á megrunarlausum dögum og líka alla hina dagana.

  • Gleðidagur 28: Grösin í garðinum

    Nykurrós frú Richmond

    Á tuttugasta og áttunda gleðidegi var komið við í Grasagarðinum í Reykjavík. Þar var meðal annars þessi Nykurrós sem gladdi augun. Í dag viljum við þakka fyrir blómin og það sem blómstrar.

    Við erum líka þakklát og glöð yfir þeim frábæra unaðsreit sem Laugardalurinn er. Þar skapast rými fyrir fjölskyldur og einstaklinga af öllum stærðum og gerðum til að eiga góðar stundir og njóta lífsins. Það er t.d. sérlega vel til fundið að setjast niður í Café Flóru eftir göngutúr í Grasagarðinum og Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum. Falleg og vinaleg kaffihús eru dýrmætir reitir og draga fram gæði borgarlífsins. Þau þurfa að vera út um allan bæ – ekki bara í 101.

  • Gleðidagur 27: Helgin

    Helgin

    Vikulega er skipt um takt í lífinu. Þá er helgi. Helgin er tími fjölskyldu og upplifana. Tími ferða í sundlaugarnar og Húsdýragarðinn. Tími grillsins. Tími leiksins og þess sem er skemmtilegt. Helgin er líka kirkjutími þegar við sitjum saman og upplifum samfélagið og þiggjum næringu til anna hversdagsins.

    Helgin er dýrmætur hluti af lífinu og fyrir hana viljum við þakka á tuttugasta og sjöunda gleðidegi.

  • Gleðidagur 26: Fjölmiðlafrelsi fylgir fjölmiðlaábyrgð

    UntitledÍ dag er Dagur fjölmiðlafrelsisins. Í tilefni dagsins viljum við rifja upp reglurnar fimm sem Dan Gillmor setur fram í Mediactive. Þær eru hugsaðar fyrir okkur sem miðlum á vefnum:

    1. Þú skalt vinna heimavinnuna þína. Svo skaltu bæta um betur. – Do your homework, and then do some more.
    2. Negldu það. Alltaf. – Get it right, every time.
    3. Vertu sanngjarn við alla. – Be fair to everyone.
    4. Hugsaðu sjálfstætt, einkum um eigin fordóma. – Think independently, especially of your own biases.
    5. Vertu gagnsæ og gerðu kröfu um gagnsæi. – Practice and demand transparency.

    Þetta eru góðar vinnureglur og ágætis útgangspunktur þegar við íhugum miðlun okkar bloggaranna á degi fjölmiðlafrelsisins.

    Á tuttugasta og sjötta gleðidegi viljum við þakka fyrir góð vinnubrögð og gleðjast yfir tækninni sem gerir fleirum mögulegt að miðla og halda úti eigin fjölmiðlum.

  • Gleðidagur 25: Almodóvar í góðra vina hópi

    Almodovar Leifs

    Að horfa á myndband er góð skemmtun. Það er enn skemmtilegra þegar horft er með góðum vinum. Í gærkvöldi sáum við kvikmyndina La piel que habito með félögum okkar í Deus ex cinema. Þetta er mögnuð mynd um úrvinnslu sárrar reynslu. Það voru heiðurshjónin Leifur og Sigga sem buðu til sýningarinnar. Leifur gerði listaverk í gestabókina sem prýðir þetta gleðidagsblogg.

    Á tuttugasta og fimmta gleðidegi gleðjumst við yfir kvikmyndalistinni, sköpunargáfu kvikmyndagerðarfólks um veröld víða og skemmtilega fólkinu sem við horfum reglulega á bíómyndir með.

  • Gleðidagur 24: Níu til fimm

    9 to 5 er eftirminnileg gamanmynd um glímu samstarfskvennanna Judy, Violet og Doralee (sem þær Jane Fonda, Lily Tomlin og Dolly Parton leika) við fordómafulla og yfirgangsríka yfirmanninn Franklin (leikinn af Dabney Coleman). Þær eru ósáttar við framkomu hans og taka til sinna ráða, ræna Franklin og taka sjálfar stjórnina í fyrirtækinu með góðum árangri.

    Sem betur fer eru fæstir yfirmenn eins og Franklin, en þetta er skemmtileg saga um baráttu minnimáttar við meiriháttar. Á baráttudegi verkalýðsins sem er líka tuttugasti og fjórði gleðidagur rifjum við upp þessa gamanmynd og deilum með ykkur titillagi myndarinnar sem Dolly Parton söng í dillandi kántrítakti.

  • Gleðidagur 23: Sóknarpresturinn og hversdagslífið

    Fyrir tæpum aldarfjórðungi, eða þann 31. mars 1988 birtist myndskreytt viðtal á þremur síðum í Morgunblaðinu (síða 41, síða 42 og síða 43) við sóknarprestinn á Hvanneyri, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Það er skemmtilegt að lesa þetta viðtal við Agnesi, sem verður fyrsta konan á biskupsstóli á Íslandi – og ekki síður gaman að skoða myndirnar (smellið til að sjá þær stærri).

    Morgunblaðið 31. mars 1988, bls. 41Morgunblaðið 31. mars 1988, bls. 42Morgunblaðið 31. mars 1988, bls. 43

    Viðtalið í Morgunblaðinu gefur innsýn í hversdagslíf sóknarprestsins úti á landi og hvernig fjölskyldulífið og þjónustan við söfnuðinn fléttast saman. Sr. Agnes var þriðja konan sem tók prestsvígslu á Íslandi – á eftir mæðgunum Auði Eir og Döllu – og því var innlit á prestsheimili þar sem húsmóðirin var jafnframt sóknarpresturinn framandi fyrir lesendur Morgunblaðsins á því herrans ári 1988.

    Á tuttugasta og þriðja gleðidegi gleðjumst við yfir því að konur og mæður, systur og dætur, eru kallaðar til þjónustu kirkjunnar, sem prestar og biskupar. Við óskum einnig þjóðkirkjunni til hamingju með nýja biskupinn og biðjum sr. Agnesi gleði, gæfu og blessunar í nýju hlutverki.

  • Gleðidagur 22: Valur

    Í ár fagnar íþróttafélagið Valur 100 ára afmæli. Það var stofnað í maí árið 1912 af séra Friðrik Friðrikssyni. Hann var hugsjónamaður og frumkvöðull á sviði æskulýðsstarfs í borginni, en hann stofnaði einnig KFUM og önnur íþróttafélög. Í dag var þessa minnst í messu í Háteigskirkju sem er sóknarkirkjan í Valshverfinu.

    Íþróttafélögin í borginni eru mikilvægur hluti af starfinu í nærsamfélaginu. Þangað sækir fjöldi barna og ungmenna mikilvæga þjónustu sem byggir upp líkama og sál. Á tuttugasta og öðrum gleðidegi viljum við óska Val og Valsfólki öllu til hamingju með aldarafmælið og þakka fyrir framlag íþróttafélaganna til samfélagsins okkar.

  • Gleðidagur 21: Komdu aftur

    Gleðigjafarnir í U900 eru í uppáhaldi hjá ungum sem öldnum á heimilinu. Tómas Viktor hefur tekið sérstöku ástfóstri við þá félaga og vill alls ekki fara í háttinn án þess að fá skammtinn sinn af U900.

    Á tuttugusta og fyrsta gleðidegi viljum við deila með ykkur uppáhaldslaginu I want you back í flutningi ukulelekanínunnar og bangsans í U900.

  • Gleðidagur 20: Fjölmenningin og bragðlaukarnir

    Pad thai

    Í kvöld nutum við matargerðar snillinganna á Ban thai sem gera dásamlegan tælenskan mat. Á tuttugasta gleðidegi erum við þakklát fyrir fjölmenninguna sem hefur leitt af sér unaðsstundir íslenskra bragðlauka og auðgað íslenska matarmenningu.

    Takk fyrir matinn.

    Myndina tókum við í þátttökuveislu þar sem við lærðum sjálf að elda tælenskan mat.