Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Níundi gleðidagur: Heillaskeytin

    Sumarnámskeið fermingarbarna í Dómkirkjunni

    Þessar vikurnar er fermt í kirkjum  um allt land. Glöð og falleg ungmenni sem standa á þröskuldi unglingsáranna standa upp í kirkjunni sinni og lýsa því yfir í heyranda hljóði að þau vilji hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

    Iðulega er svo haldin veisla í kjölfar fermingarinnar og þar safnast saman stórfjölskylda og vinir til að fagna með fermingarbarninu. Í boði eru dýrindis kökur og góður matur og gestirnir taka með sér gjafir. Fermingardagurinn er gleðidagur í fjölskyldunni, kirkjunni og samfélaginu öllu.

    Á fermingardegi berast líka heillaskeyti með bænum og óskum um gæfu og bjarta framtíð. Eitt slíkt barst einmitt á okkar heimili í gær, þótt elsta heimasætan fermist reyndar ekki fyrr en í júní. Skeytið kveikti minningar um öll heillaskeytin sem okkur hafa borist gegnum árin og vakti til umhugsunar um bænirnar sem eru sendar um allt land á formi svona skeyta.

    Á níunda gleðidegi viljum við þakka fyrir öll fallegu orðin sem berast í heillaskeytunum sem pósturinn kemur til skila.

    Myndin með bloggfærslunni er tekin á sumarnámskeiði fermingarbarna í Dómkirkjunni fyrir nokkrum árum.

  • Gleðidagur 8: Á sama tíma fyrir ári

    Heiðbjört og Heiðbjört

    Á þessum degi í fyrra heimsótti Heiðbjört Anna Heiðbjörtu langömmu sína í fyrsta sinn. Það voru fagnaðarfundir hjá tveimur nöfnum sem spanna fjórar kynslóðir.

    Á áttunda gleðidegi rifjum við upp góðan dag og þökkum fyrir ömmurnar og langömmurnar í lífinu.

  • Gleðidagur 7: Indjáninn hans Pálmars

    Indjáninn hans Pálmars

    Pálmar kaffimeistari á Pallett er einn besti kaffibarþjónn landsins og einn af uppáhalds kaffibarþjónunum okkar. Hann hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari í kaffilist og hefur í kjölfarið keppt á heimsmeistamótum. Í eitt skiptið sem hann keppti gerði svona indjána. Hann hefur greinilega engu gleymt því í gær gerði hann þennan fyrir Árna.

    Á sjöunda gleðidegi viljum við þakka fyrir uppáhalds kaffibarþjónana okkar sem kunna bæði að gera gott og fallegt kaffi.

    Ps. Í næsta tölublaði Kirkjuritsins er grein um Guð og kaffibollann þar sem meðal annars segir frá indjánanum hans Pálmars.

  • Gleðidagur 6: Vonarvakarnir og Eyþór Ingi

    Í síðustu viku mátti heyra fallegan söng í troðfullum kirkjum og safnaðarheimilum á Suðurnesjum. Þá setti kór Keflavíkurkirkju upp söngleikinn um rokkstjörnuna Jesú. Fremstur í flokki var söngvarinn Eyþór Ingi sem vann hug og hjörtu samlanda sinna með Evróvisjónlaginulaginu „Ég á líf“. Í kyrruviku flutti hann píslarsöngvana úr söngleiknum með kór og fleiri einsöngvurum. Framundan er svo á gleðidögum að flytja upprisulagið „Ég á líf“ á stóra sviðinu Malmö:

    Ég á líf, ég á líf
    yfir erfiðleika svíf.
    Ég á líf, ég á líf
    vegna þín …

    Hér er sungið til allra þeirra sem eru upprisu- og vonarvakar í lífi okkar. Til þeirra sem bjóða hjálparhönd þegar móti blæs og hjálpa okkur að sjá að lífið er þrátt fyrir alla erfiðleika harla gott. Kannski getum við litið svo á að Jesús hafi verið fyrstur þeirra og fyrirmyndin okkar í því.

    Á sjötta gleðidegi viljum við þakka fyrir þau sem rétta hjálparhönd.

  • Gleðidagur 5: Gleðin og dauðinn

    Untitled

    Getur dauðinn einhvern tímann verið uppspretta gleði og hláturs? Þannig spyr ung kona, þrjátíu og eins árs gömul, sem hefur núna sína lokabaráttu fyrir lífinu. Hún glímir við sjaldgæft krabbamein sem uppgötvaðist fyrir einu og hálfu ári síðan.

    Dr. Kate Granger er læknir sem sérhæfði sig í öldrunarlækningum. Hún horfist núna í augu við að hún er að deyja. Engar meðferðir duga til að lækna krabbameinið sem herjar á frumur hennar í beinum og víðar. Hún hefur ákveðið að deila hugsunum sínum og upplifunum með því að tísta og blogga og hleypa þannig öðrum að þessari reynslu.

    Mér líður alltaf betur þegar ég hlæ innilega.

    „Þegar við hugsum um hvaða tilfinningar tengjast dauðanum og því að vera að deyja, koma tilfinningar eins og ótti, óróleiki, sorg og depurð í hugann. En mig langar að velta því upp hvort ekki séu aðrar tilfinningar í spilinu líka“ segir Kate í viðtali við breskt dagblað.

    „Sjálfri líður mér alltaf betur þegar ég hlæ innilega og ég er alveg viss um að mitt jákvæða viðhorf hefur hjálpað til við að láta mér líða vel eftir að krabbameinsmeðferðinni lauk fyrir nokkru síðan. Ég vona innilega að gleðin fylgi mér til dauðastundarinnar og verði með í för allt til enda.“

    Á fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir gleðina í lífinu sem er svo sterk að hún hjálpar okkur að horfast í augu við dauðann.

    Myndin með bloggfærslunni er af blómum sem hugguðu á sorgarstundu.

  • Gleðidagur 4: Fætur á jörðu, hjarta á himni

    Tré ber við himinn

    Í morgun hlustuðum við á viðtal við skáldið og ritstjórann Sigurð Ingólfsson sem býr á Egilsstöðum. Sigurður er nýbúinn að gefa út ljóðabókina Fimmtíu og tvær þakkarbænir. Hann útskýrði fyrir hlustendum að þakklætið væri í hans huga stærst og mest þeirra dyggða sem við getum ræktað með okkur og látið móta okkur. Þakklæti fyrir litlu hlutina í lífinu og í kringum okkur.

    Það er alltaf betra að bregðast við uppákomum og aðstæðum með þakklæti heldur en pirringi.

    Sigurður segir að það sé alltaf betra að bregðast við uppákomum og aðstæðum með þakklæti heldur en pirringi og reiði. Hann tók skemmtilegt dæmi um þegar maður missir sultukrukkuna í gólfið og hún fer út um allt. Þegar það gerist og maður er búinn að þrífa hana upp, er svo miklu betra að finna fyrir þakklæti yfir því að ná að tína öll glerbrotin upp án þess að skera sig – eða eitthvað svoleiðis – heldur en að ganga pirringi og reiði á hönd.

    Fimmtíu og tvær þakkarbænir hvíla á viljanum og þörfinni á því að helga t.d. einn dag í viku því að þakka. Það getur verið í kirkjunni á sunnudögum,  heima hjá sér á miðvikudögum eða í fjallgöngu á föstudögum. Þakklætið tengir okkur við himinn og jörð, og tengir himinn og jörð saman, eins og tréð sem hefur rætur sínar í jörðinni og teygir greinar sínar til himins.

    Á fjórða gleðidegi viljum við taka undir með skáldinu fyrir austan. Pirringur er orku- og tímasóun. Þakklæti gefur af sér orku og vitund fyrir núinu. Iðkum þakklætið, stöndum föstum fótum á jörðinni og teygjum huga okkar upp til himins.

    Myndin með bloggfærslunni er af háu tré hinni fornu Rómaborg.

  • Gleðidagur 3: Einsömul, tvö saman

    Alveg að ná saman

    Einmanaleikinn er leiðinda fylgifiskur manneskjunnar. Þegar við mætum honum er gott að hafa í huga að ólíkt ýmsu öðru sem kreppir manneskjuna glímum við öll við einmanaleikann endrum og sinnum. Þá er líka gott að hafa í huga að við getum bægt einmanaleikanum frá okkur með einföldum hætti: með því að rétta út hendina og tengjast öðrum. Seth Godin skrifar:

    Um leið og við áttum okkur á því að manneskjan sem situr við hliðina á okkur þarfnast okkar … getum við nálgast hana og einmanaleiki beggja gufar upp.

    Á þriðja gleðidegi viljum við þakka fyrir annað fólk, sem við getum nálgast og nálgast okkur, sérstaklega þegar við erum einmana.

    Myndin með bloggfærslunni er tekin á listahátíð 2009 á loftfimleikasýningu fjöllistahópsins Strange Fruit.

  • Gleðidagur 2: Sjálfstraust í stað vonleysis

    Youth meets Technology

    Þegar við vöknuðum í morgun, dísæt eftir páskaeggjaát gærdagsins tóku morgunverkin við. Eitt þeirra var að líta yfir samfélagið á Facebook og þar fundum við vísun á grein í Guardian sem fjallar um ungt fólk sem hefur greinst á einhverfurófi og haslar sér nú völl í viðskiptalífinu. Þau eru öðruvísi en það reynist þeim styrkleikur.

    Ástæðan er líklega tvíþætt: Þau búa yfir miklum hæfileikum og fólkið í kringum þau hefur leyft þeim að blómstra þannig að þau eru full af sjálfstrausti:

    Þau koma út úr skólakerfinu, og sum hver hafa lokið doktorsprófi, full af sjálfstrausti og einbeitingu. Það leiðir til breytinga í fyrirtækjum sem áður fyrr lokuðu dyrunum fyrir hinum einhverfu. Breytingin á sér til að mynda stað hjá lögmannsstofum, bönkum og heilsugæslufyrirtækjum, þar sem ungt fólk sem áður var aðeins talið ráða við einföld verkefni, verður hluti af starfseminni.

    Það er gott verkefni að búa þannig að þeim sem eru öðruvísi í samfélaginu okkar að hinar raunverulegu gáfur þeirra fái notið sín.

    Á öðrum gleðidegi viljum við þakka fyrir sjónarhorn og framlag þeirra einhverfu og fyrir þau sem fylla hin einhverfu af sjálfstrausti gagnvart því sem þau geta frekar en vonleysi gagnvart því sem þau geta ekki.

    Myndin með færslunni af Tómasi Viktori sem er þræleinhverfur. Hann býr yfir undursamlegri forvitni og hefur innsæi í virkni snjalltækja langt umfram systkini sín. Okkar verkefni er að finna þessu farveg þannig að hann fái að njóta sinna gjafa, eins og systkinin öll.

  • Gleðidagur 1: Hlæjandi börn

    Glaðir leikfélagar á páskadegi í Háteigskirkju.
    Glaðir leikfélagar á páskadegi í Háteigskirkju.

    Við fórum í kirkju í morgun og nutum þess að heyra góða kórinn í Háteigskirkju syngja og organistann leika falleg tónverk og hlusta á Tómas, pabba Kristínar og afa barnanna, flytja sína síðustu páskaprédikun sem sóknarprestur í Háteigskirkju. Þetta var góð messa og hún miðlaði páskaboðskapnum vel.

    Ekkert miðlar upprisugleðinni betur en barnshlátur og barnaleikur.

    Það var samt ekki kórinn, organistinn eða presturinn sem miðlaði innilegustu páskagleðinni í kirkjunni í morgun. Það voru litlu börnin tvö sem gerðu það. Þau höfðu aldrei hist áður, en urðu vinir á örskotsstundu og gleymdu sér í leik og og skemmtu sér svo vel að það ískraði í þeim af hlátri.

    Kórinn, organistinn og presturinn stóðu sig ágætlega. En ekkert miðlar upprisugleðinni betur en barnshlátur og barnaleikur. Þannig er það bara. Kannski var það þess vegna sem Jesús sagði okkur að vera eins og börnin til að komast inn í himnaríki. Því hann vissi að í smábörnunum höfum við fyrirmynd að samfélagi án aðgreiningar og tortryggni og efa, samfélag í leik og gleði.

    Á fyrsta gleðidegi viljum við þakka fyrir hlátur barnanna í kirkjunni.

    Myndin hér að ofan er af leikfélögunum sem skemmtu sér svo vel í kirkjunni í morgun. Við vitum ekki hvað ungi maðurinn heitir, en vonum að okkur fyrirgefist að birta af af þessum gleðigjafa.

  • Gleðidagur 50: Von dregur úr fátækt

    Páskaliljur

    Í Economist sem kom út um miðjan mánuðinn segir frá rannsóknum Esther Duflo. Hún er hagfræðingur og starfar við MIT í Bandaríkjunum. Esther flutti erindi þriðja maí síðastliðinn þar sem hún færði rök fyrir því að sum átaksverkefni gegn fátækt hefðu meiri áhrif en ella vegna þess að þau leiddu til þess að þátttakendur í þeim öðluðust von um að þeirra gæti beðið meira en lífsbaráttan ein.

    Hún sagði m.a. frá verkefnum á Indlandi sem miðuðu ekki aðeins að þú að veita fjárhagslega aðstoð heldur gerðu fólk myndugt og veittu því reisn með því að láta þeim í té kú, geitur eða kjúklinga sem þau gátu notað til að framleiða afurðir sem mátti svo selja. Á bak við verkefnin stóð smálánafyrirtækið BRAC.

    Það sýndi sig að fólkið sem fékk þessa umframhjálp náði auknum árangri. Hvers vegna? Ein tilgátan er sú að það sé vegna þess að þau öðluðust von um að breytingar á kjörum þeirra og aðstöðu væru mögulegar. Vonin varð svo drifkraftur frekari breytinga.

    Þetta voru góð skilaboð á fimmtugasta og síðasta gleðideginum því gleðidagarnir hafa öðru fremur snúist um vonina.

    Við látum þetta vera síðustu orðin í gleðidagabloggi ársins 2012, þökkum ykkur samfylgdina og óskum lesendum öllum gleðilegrar hvítasunnuhátíðar.