Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Samherjar

    „Maður talar ekki illa um þá sem keppa um sama sæti í prófkjöri, því á endanum erum við samherjar. Stefnum að sama marki.“

    Eitthvað á þessa leið var boðskapur mannsins sem hringdi til að tala um sinn frambjóðanda og kalla eftir stuðningi við hann.

    Hann hafði skýra sýn: Við keppum að sama marki. Við viljum öll það sama.

    Ég kann að meta svona frambjóðendur.

    Ég kann að meta frambjóðendur sem sjá heildarmyndina, stilla sér ekki upp gagnvart öðrum sem andstæðingar eða óvinir væru, hafa skýra sýn á valddreifingu, vilja hlusta og vera sanngjarnir.

    Þannig frambjóðendur er ég til í að styðja.

    Því þannig pólitík vil ég sjá.

  • Georg Bjarnfreðarson, forsetinn og Icesave

    Ég ætla að tala um Ólaf Ragnar í dag.
    Og Jesú.
    Og Daníel.
    Og Georg.
    Ég ætla að tala um íslensku þjóðina.
    Og um Ísland og umheiminn.

    Þannig hefst útvarpsprédikun Kristínar Þórunnar sem var flutt í Lágafellskirkju í dag. Hún ræðir þar meðal annars um hrunið og Icesave, Georg Bjarnfreðarson og forsetann, lýðræði og uppbyggingu. Prédikunina má lesa á trú.is.

    Lesa prédikunina á trú.is …

  • Kirkjan þarf að taka þjóðarpúlsinn

    Hjalti Hugason ritar pistil um samband ríkis, kirkju og þjóðar í dag. Þar vísar meðal annars til nýlegrar skoðanakönnunar Gallup. Hann segir:

    Burtséð frá skoðanakönnun Capacent-Gallup þarf íslenska þjóðkirkjan að taka þjóðarpúlsinn, telja hjartslögin og spyrja: Erum við og viljum við vera þjóðkirkja? Þá skipta tengsl við ríksivaldið engu máli heldur tengslin við þjóðina sjálfa. Hvað merkja ¾ hlutarnir sem nefndir voru í upphafi? Er samleið kirkjunnar og þjóðarinnar að rakna?

    Þetta eru spurningar sem þjóðkirkjan verður að spyrja sig nú. Framtíðartengsl hennar og þjóðarinnar munu að miklu leyti ráðast af því hvernig kirkjunni tekst að standa með þjóðinni að uppbyggingunni eftir hrunið.

    Verður þjóðkirkjan í fararbroddi þeirra sem leita sannleikans um hrunið og berjast fyrir réttlátu uppgjöri eða stendur hún álengdar? Hvernig tekst henni að styðja og styrkja þau sem urðu illa úti í hruninu eða eiga eftir að gjalda afleiðinga þess? Sækir hún út eða hverfur hún inn í sig sjálfa? Verður hún fljót að endurheimta það traust sem hrunið svipti hana og flestar opinberar stofnanir eða ekki? Á því veltur staða hennar sem þjóðkirkju hvernig svo sem menn kjósa að marka henni lagalega stöðu í framtíðinni.

    Ég held að hann hitti naglann á höfuðið. Sem kirkja stöndum við nú frammi fyrir spurningu um sjálfsmynd: Hvers konar kirkja ætlum við að vera á tímum kreppu í samfélaginu, hvernig ætlum við að starfa, með fólki og fyrir fólk. Það eru bæði brýnar og spennandi spurningar!
  • Hvar erum við? Í skuldafangelsi

    Hvar erum við? Því miður er svarið að verða nokkuð ljóst. Við erum í skuldafangelsi. Það er staða sem fáir gátu gert sér í hugarlund að kæmi hér upp. Þjóðin á erfitt með að ímynda sér hvernig það gat gerst, harðduglegt, óspillt og heiðarlegt fólk!

    Úr nýjasta pistli G8 hópsins sem hefur yfirskriftina Vér mótmælum.

  • Hvaða erindi á kristinn boðskapur við Nýja-Ísland?

    Hvaða erindi á kristinn boðskapur við Nýja-Ísland? Svo spyr G8 hópurinn sem hefur skrifað snarpar og snjallar greinar um hrunið af sjónarhóli guðfræðinnar. Þau efna til málþings á Sólon í dag og bjóða til samtals um þessa spurningu. G8 hópurinn er samtals- og lausnamiðaður og það þurfum við svo sannarlega í dag. Um að gera að mæta klukkan 17 á Sólon.

  • Trúverðug kristni

    Við Kristín Þórunn stungum niður penna og skrifuðum stutta grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag og á trú.is. Hún fjallar um kristni í samtímanum – um trúverðuga kristni. Við segjum meðal annars:

    Það er ábyrgðarhluti að lifa í nútíma samfélagi, að vera upplýst, læs og geta tekið þátt í lýðræðisumræðu. En ábyrgðin stoppar ekki þar heldur felur hún líka í sér að við eigum að vera þjónar hins góða og talsmenn vonar í samfélaginu.

    Svo þarf stíga næsta skref. Jesúbarnið sem kemur býður okkur ekki aðeins að læra af sér og tala heldur kallar það okkur til þjónustu við lífið. Hin fjölþætta áskorun aðventunnar er þá þessi: Að við hlustum, horfum, lesum og þjónum. Tölum um hið góða líf og þjónum því í öllu sem við gerum. Höfum augun opin fyrir táknunum kringum okkur. Fyrir táknum um fegurð, gleði og von, lyftum þeim fram og minnum á þau. Fyrir táknum um það sem er ekki í lagi: um fjölskyldur sem líða skort, um fólk sem er troðið á, um misrétti, um misferli, um börn sem fá ekki að vera börn.

    Við eigum að haga eigin lífi þannig að það sé tími og rými til að láta gott af okkur leiða. Við eigum að láta okkur annt um þau sem þarfnast – til dæmis með því að gefa mat, peninga eða tíma til hjálparstofnanna sem sinna fólki nú fyrir jólin. Við eigum að forgangsraða þannig að börnin okkar finni hvers virði þau eru. Við eigum að vera málsvarar réttlætis, sáttar og vonar í samfélaginu.

    Lesið greinina á trú.is.

  • Á ártíð hrunsins

    Guðfræðingarnir átta sem stungu niður penna síðasta vetur eru farin aftur af stað. Á ártíð hrunsins spyrja þau meðal annars:

    „Ári eftir hrun er það  áleitin spurning hvað líði þeirri gagngeru uppstokkun sem búsáhaldabyltingin krafðist. Er „nýtt Ísland“ í vændum eða erum við á leið í gamla farið?“

  • Áttu fyrir vatni?

    Í dag og á morgun ganga um það bil 3000 fermingarbörn í hús og safna fyrir hreinu vatni. Féð sem þau safna rennur til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku. Ég hitti Bjarna Gíslason, fræðslu- og upplýsingafulltrúa Hjálparstarfsins, í dag og hann sagði mér frá söfnuninni. Skoðið myndbandið á YouTube.

  • Naglafata

    Listsýning

    Í Grensáskirkju stendur nú yfir myndlistarsýning þar sem getur að líta nokkur listaverk eftir listakonuna Huldu Halldór. Þarna er unnin á áhugaverðan hátt með þekkt trúarleg tákn. Þessi mynd sýnir eitt verkið.

  • Kirkjan og vöfflujárnin

    Hlutverk kirkjunnar er ekki að smella fólki, Matthíasi og öllum öðrum inn í eitthvert trúarlegt vöflujárn og fá fram sama mynstrið á alla. Það er mun fremur að efla lífið, orðræðuna, gleði, réttlæti, samfélag. – Sigurður Árni Þórðarson