Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Hlustum á börnin

    Guðni Már Harðarson prestur í Lindakirkju er vonarberi dagsins í jóladagatali kirkjunnar.  Hann bendir okkur á að hlusta á það sem börnin hafa að segja – í því sé fólgin mikil viska.

  • Ein von og þá er maður í góðum málum!

    Á degi rauða nefsins er Barbara trúður á bak við gluggann í jóladagatali kirkjunnar.

    Henni finnst ekkert auðvelt að tala um von – en kemst að þeirri niðurstöðu að vonin sé eins og kerti. Ef maður hefur eina von, getur hún kveikt fleiri.

    Takk Barbara og njóttu dagsins.

  • Trú sem veitir hugrekki

    Davíð Þór Jónsson er á bak við annan gluggann í jóladagatali kirkjunnar. Hann minnir okkur á að trúin veitir von og hugrekki.

  • Smokkar og trúfesti eru forvarnir í þágu lífsins

    Zimbabwe choir sings

    Árlega smitast 2.7 milljónir manna af HIV veirunni. Á hverjum degi smitast 3700 fullorðnir, 2500 ungmenni og 1200 börn.  Mikill meirihluti þeirra sem eru sýktir og þeirra sem deyja úr sjúkdómnum búa í Afríku sunnan Sahara. Eitt af því sem kirkjan í heiminum starfar við er að berjast við HIV/AIDS faraldurinn sem ógnar lífi og heilsu milljóna manna út um allan heim. Lútherskar kirkjur, og samtök þeirra, Lútherska heimssambandið, eru þeirra á meðal sem starfa í samfélögum sem hafa orðið illa úti vegna sjúkdómsins.

    LH hefur lengi lagt áherslu á fræðslu og ráðgjöf í samfélögum sem verða illa úti vegna sjúkdómsins. Í nýju átaki skuldbindur LH til að sinna sérstaklega fræðslu og samtali um forvarnir af öllum gerðum. Átakið ber yfirskriftina „HIV forvarnir – í þágu lífsins“ og eru kirkjur LH hvattar til að beita öllum ráðum til að bjarga lífi með því að nefna hlutina sínu rétta nafni.

    HIV veiran smitast fyrst og fremst með kynmökum. Það reynist hins vegar erfitt í mörgum samfélögum að tala um kynlíf í sambandi við forvarnir gegn HIV. Kirkjurnar hafa sérstaklega átt erfitt með að horfast í augu við að neikvæðar hugmyndir um kynlíf og kynhneigð eru afar skaðlegar þegar kemur að því að berjast við HIV/AIDS.

    Þar sem rétt og stöðug notkun smokksins hefur reynst áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir HIV smit í gegnum kynmök er það hlutverk kirknanna að minna á hana í forvörnum og fræðslu.  Öruggara kynlífi er lifað með því að vera trúr maka sínum, halda sig frá kynlífi alveg, og með því að nota smokkinn á réttan hátt.

    Það er ekki síst ábyrg umræða um notkun smokksins í forvörnum sem átakið setur á oddinn en einnig hvatning til kirknanna að nálgast samtalið um kynlíf almennt með opnari, jákvæðari og skilningsríkari huga og hætti, þannig að trúin verði varnarþáttur í lífinu hér og nú.

    Nánar

    Betseranai kórinn frá Zimbabwe syngur á heimsþingi LH í sumar. Kórinn er skipaður fólki sem HIV jákvætt.

    Aðventa á tímum alnæmis, aðventudagatal Evangelical Advocacy Alliance

  • 24 vonarberar

    „Þau sem bera von fyrir aðra og eru vonarberar samfélags, eru einnig fuglarnir sem syngja í dimmunni fyrir dögun“. Þetta skrifar Gunnar Hersveinn heimspekingur. Kirkjan vill vera vettvangur sem miðlar von, hugrekki og gleði, með því að setja vonarboðskapinn í öndvegi í jóladagatalinu.

    Jóladagatalið í ár ber yfirskriftina Að vænta vonar. Þar deila 24 vonarberar sýn sinni og reynslu af voninni með okkur. Fylgist með frá byrjun!

  • Stjórnlagaþingmaðurinn Arnfríður

    Þetta er Arnfríður Guðmundsdóttir. Fyrir stundu var tilkynnt að hún væri einn af tuttugu og fimm stjórnlagaþingmönnunum sem taka til starfa eftir áramót. Við óskum henni og hinum 24 til hamingju. Okkur líst vel á hópinn. Við væntum mikils af þeim.

  • Að vænta vonar

    Nýtt kirkjuár gengur í garð með aðventunni. Á fyrsta sunnudegi í aðventu er stóra þemað eftirvæntingin og vonin eftir því sem jólin færa okkur – fæðing Jesúbarnsins og friður með mannkyninu sem Guð elskar.

    Það er létt að skilja hvernig vonin tengist börnum – því börnin bera með sér fyrirheit um framtíð, vöxt og þroska. Í flottu viðtali við Halldóru Geirharðsdóttur leikara sem birtist í sunnudagsblaði Moggans í dag, segir hún frá lífinu sem hún kynntist í Úganda, þar sem stríð og átök hafa rústað lífi íbúanna og sett daglega tilveru úr skorðum. Þar bíður gríðarmikið uppbyggingarstarf sem beinist ekki síst að yngstu kynslóðinni, með þeirri von að hægt verði að leggja grunn að betra og öruggara samfélagi framtíðarinnar.

    Halldóra deilir með okkur hvernig aðstæður barna í heiminum eru að vissu leyti innblástur sýningarinnar um Jesú litla, sem nú er sýnd í Borgarleikhúsinu. Sýningin kennir okkur um leið hvers vegna við höldum jólin.

    …þetta er í raun tími til að fagna því að börn fæðast, að þau eru framtíðin og við eigum að vera þakklát fyrir það að hvert einasta barn sem fæðist er nýtt tækifæri fyrir heiminn.

    Þetta gildir um Jesúbarnið og þetta gildir um öll börn sem koma í heiminn. Við sjáum í Jesúbarninu hvað lítil og varnarlaus börn eru kröftugur vitnisburður gegn því sem er ógnandi og yfirþyrmandi.

    Aðventan er tíminn til að íhuga þetta.  Við skulum íhuga með hvaða hætti vonin vitjar okkar, í hvaða aðstæðum sem við finnum okkur.  Aðventan nærir vonina eftir að lífið haldi áfram, að allir dagar séu góðir dagar, að myrkrið víki fyrir ljósinu sem kemur í heiminn.

  • Á aðfangadegi stjórnlagaþings

    Hér er vitnisburðurinn okkar á aðfangadegi stjórnlagaþings. Af þeim gríðarmörgu frambærilegu frambjóðendum eru tveir sem við treystum best til að setjast við það mikilvæga verk sem undirbúningur nýrrar stjórnarskrár er.

    Arnfríður Guðmundsdóttir #8023

    Arnfríður er prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, menntuð á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hún hefur þetta að segja:

    Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri til að endurskoða grundvöll samfélagsins og móta stefnu til framtíðar.
    Ég tel mikilvægt að sú framtíðarstefna sem við setjum okkur leggi grunn að réttlátu samfélagi sem byggt er á jafnrétti og virðingu fyrir einstaklingum, óháð kyni, kynþætti, kynhneigð, fjárhagslegri stöðu, trúarsannfæringu eða búsetu. Til þess að Ísland framtíðarinnar verði slíkt samfélag þurfum við að efla lýðræðislega þátttöku allra Íslendinga og sjá til þess að allir hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Það þarf einnig að tryggja að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar og að þeim verði ekki fórnað fyrir stundarhagsmuni.
    Framtíðin er barnanna okkar og í þeirra þágu ber okkur að vinna.

    Myndband með Arnfríði.

    Hjalti Hugason #7132

    Hjalti er sérfræðingur í sögu þjóðar og kirkju. Hann er prófessor í kirkjusögu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hjalti skrifar:

    Ég býð mig fram vegna þess að nú gefst einstakt tækifæri til að taka þátt í að marka samfélaginu nýja stefnu. Stjórnarskrá þarf að byggja á grunngildum lýðræðis, jafnréttis, mannréttinda og andlegrar, efnalegrar og félagslegrar velferðar. Stjórnarskrá þarf að taka mið af reynslu þjóðarinnar en horfa jafnframt til framtíðar. Í ljósi reynslu síðustu missera verður m.a. að huga að beinni aðkomu þjóðarinnar að mikilvægum ákvörðunum og styrkja þar með lýðræði. Það þarf að efla þingræði og setja ramma um störf stjórnmálaflokka. Það þarf að ganga betur frá því hvernig stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar verða kallaðir til ábyrgðar. Það þarf að treysta eignar- og nýtingarrétt þjóðarinnar á auðlindum.

    Myndband með Hjalta.

    Við treystum Arnfríði og Hjalta og mælum hiklaust með þeim á kjörseðilinn þinn.

  • Aukapokinn er aðalpokinn

    Nammi

    Á nýútkominni jólaplötu syngur Sigurður Guðmundsson aðventukvæði eftir Braga Valdimar Skúlason sem hefst svona: „Á fyrsta sunnudegi aðventunnar ég ek til kaupmannsins í einum rykk. Því þó að fjárhirslunar gerist grunnar ég geri vel við mig í mat og drykk.“

    Í aðdraganda aðventu og jóla viljum við geta fyllt innkaupapoka af allskyns gúmmelaði. Í pokana okkar rata jafnvel hlutir sem við neitum okkur alla jafna um, en af því að jólin nálgast gerum við betur við okkur. Erum við til í að leyfa öðrum að njóta með okkur og leggja þeim lið sem hafa ekki tök á því að kaupa inn fyrir jólin vegna þess að þau eiga ekki fyrir mat?

    Í verslunarferðum aðventu og jóla gefst nú kostur á að setja í nauðsynjar og matvöru í Aukapoka til að gefa þeim sem þurfa á hjálp að halda. Um leið og við tínum í okkar eigin poka, getum við sett í Aukapokann handa náunga okkar.

    Aukapokanum komum við síðan til Hjálparstarfs kirkjunnar. Búðirnar Kostur, Krónan, Nettó, Bónus og Hagkaup á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Reykjanesbæ taka þátt í þessu hjálparstarfsátaki. Þar eru körfur og stampar til að setja aukapokana í. Hjálparstarfið sækir þá svo og kemur til þeirra sem þurfa.

    Aukapokinn þinn er aðalpoki þeirra sem hafa lítið milli handanna þessi jól. Aukapokinn er tækifæri fyrir hvert og eitt okkar að deila með öðrum því sem við viljum og getum, eftir okkar eigin efnum og aðstæðum.

    Kaup- og gjafmildi tilheyra þessum tíma árs. Með því að leyfa öðrum að njóta hans með okkur, vekjum við von og sýnum kærleika í verki. Þannig getur þessi dimmi tími verið gefandi og styrkjandi fyrir okkur öll. Gerum vel við okkur fyrir jólin og gerum vel við náungann.