Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bæn fyrir Japan

    USS Blue Ridge Sailors move humanitarian relief supplies while enroute to Japan following earthquake.
    GUÐ,

    það sem hefur gerst og er að gerast í Japan kveikir sterkar tilfinningar og margar hugsanir með okkur.

    Lífið getur kollvarpast á svipstundu.

    Það sem við göngum út frá að sé til staðar, getur horfið hvenær sem er.

    GUÐ,

    við biðjum fyrir þeim sem þjást í Japan,

    fyrir þeim sem hafa slasast og fyrir þeim sem syrgja,

    fyrir þeim sem hafa misst, heimilin sín, nærsamfélagið sitt,

    fyrir þeim sem bera áhyggjur og ótta í brjósti.

    GUÐ,

    þú sem hefur lofað að yfirgefa okkur ekki þegar leiðin liggur í gegnum dimmustu dalina,

    heyr vora bæn.

    Amen.

    (Þýtt úr sænsku)

  • Eyðsluklærnar í leikskólunum

    Tómas Viktor

    Í gær gátum við lesið þessa frétt á vísir.is um sparnað í Reykjavík:

    Samkvæmt tillögum sem lagðar verða fram í borgarráði á morgun er gert ráð fyrir að þrjátíu leikskólar verði sameinaðir í fjórtán og stjórnendum þeirra, leikskólastjórum og aðstoðarleikstjórum, sagt upp en sumir endurráðnir í yfirmannastöðurnar að nýju. Hinum verður boðið að starfa áfram með aðrar starfsskyldur og lægri laun.

    Í dag mun borgarráð sumsé ræða með hvaða hætti hægt sé að velta sparnaði í borgarkerfinu yfir á sjálft starfsfólkið í leikskólunum – og láta það standa undir nauðsynlegri hagræðingu í kerfinu.

    Aðgerðirnar um sameiningu leikskóla eiga að ná fram sparnaði. Við höfum ekki séð tölurnar um konkret sparnað sem af þessu hlýst. Þar þarf að taka inn í beina hagræðingu af fækkunum yfirmanna á leikskólunum, kostnað við breytingarnar sjálfar og raunverulega breytingu á rekstrarkostnaði. Reyndar er einsýnt að af þessum tilfæringum koma varla háar fjárhæðir til góða.

    Jafnvel þó svo væri, eru þessar tillögur fráleitar og skammsýnar.  Þær ganga út á að lækka laun og breyta starfsheitum hjá því starfsfólki sem nú ber mesta ábyrgð á stefnumótun, mannauði, samskiptum og stjórnun á leikskólunum okkar.  Þær dæla inn óöryggi og slæmum móral á vinnustaði þar sem mikið er í húfi að jafnvægi, fagþekking og gleði ríki.

    Með því að fækka leikskólum á þennan hátt, er gengið inn í kjör og starfsmöguleika fagfólks í leikskólunum og það mun bitna með einum eða öðrum hætti á börnunum sjálfum. Leikskólarnir okkar eru ekki þeir staðir þar sem illa hefur verið farið með fé eða bruðlað með eignir.

    Eins og eitt foreldri í Reykjavík segir í fínni grein á visir.is í dag:

    Leikskólarnir í Reykjavík eru frábærir, ótrúlega frábærir ef haft er í huga hvílík smánarlaun starfsfólk þeirra þarf að sætta sig við. Allar aðgerðir sem grafa undan starfsgleði og metnaði skila sér í verra skólastarfi. Þær bitna á börnunum okkar.

    Við skulum ekki þynna út þjónustuna við börn á þessum krepputímum. Við mótmælum skammsýnum hugmyndum um niðurskurð á leikskólum.

  • Slökkvum á internetinu

    Eftir viku á að halda Aftengda daginn í Bandaríkjunum – The National Day of Unplugging. Í sólarhring, frá sólsetri 4. mars til sólseturs 5. mars mun fjöldi fólks slökkva á farsímum, fartölvum, nettengingum – slökkva á netinu og eiga ótengdan dag. Þetta er hvatning til að lifa hægar.

    Þetta er skemmtileg tilraun. Hver veit nema við prófum ;)

  • Traustið og talenturnar

    Mold

    Kristín prédikaði í morgunmessu í Hafnarfjarðarkirkju í dag. Hún lagði út af Matt 25.14-30 og ræddi um traustið í samfélaginu. Þetta er prédikunin.

    Það er skortur á trausti í samfélaginu okkar. Skortur á trausti á stofnunum, flokkum og embættismönnum er í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Það ríkir traustskreppa á Íslandi.

    Við sem störfum í þjóðkirkjunni höfum fylgst með því hvernig traustið til hennar hefur dalað í skoðanakönnunum, oft í öfugu hlutfalli við það sem við reynum í samskiptunum í söfnuðunum okkar. Við spyrjum okkur að því hvað valdi því að traustið til kirkjunnar og æðsta embættismanns hennar er eins lítið og raun ber vitni.

    Er afstaða almennings til kirkjustofnunarinnar til að mynda önnur en til starfsins í sóknarkirkjunni og nærsamfélaginu? Er dvínandi traust til þjóðkirkjunnar því að kenna hvernig var tekið á málum þolenda Ólafs Skúlasonar? Er trúverðugt hvernig starfsreglur og vinnuferlar kirkjunnar taka á kynferðisbrotamálum? Hernig hefur kirkjan staðið sig í jafnréttis- og umhverfismálum? Hvert hefur framlag kirkjunnar verið í uppbygginguna eftir Hrun?

    Á málþingi í síðustu viku sem bar yfirskriftina Og hvað svo? Hvert stefna Íslendingar settu nokkrir guðfræðingar puttann á púlsinn sem slær í þjóðarsálinni um þessar mundir. Sérstaklega var staðnæmst við tímann sem það tekur einstaklinga og samfélög að ná sér eftir áföll. Hvað tekur það okkur langan tíma að rísa upp eftir Hrunið? 20 ár? Eða 40 ár? Hvað tók það Íslendinga langan tíma að ná sér eftir móðuharðindin? Áföll búa um sig í þjóðarlíkamanum og erfast.

    Á fundinum spurðum við líka erfiðra spurninga um hvernig hægt væri að byggja nýtt Ísland á rústum þess ranglætis sem Hrunið afhjúpaði. Í því sambandi var einmitt spurt um traust – og lýst eftir trausti í samskiptum og samneyti fólks.

    Einn frummælandinn tengdi þetta ástand við það hvar Guð væri að finna. Hann sagði “Guð er ekki fyrir ofan okkur, Guð er ekki fyrir neðan okkur – Guð er hérna, mitt á milli okkar.” En svo hélt hann áfram og sagði: “Ef Guð er til í tengslum milli þín og mín, ef Guð lifir mitt á milli fólks, þá er Guð að deyja eða er dáinn á Íslandi vegna þess að þar er ekkert traust, engin tengsl, bara óuppgert ranglæti”

    Þessi sterku orð vísa til þess að með Hruninu voru það ekki bara bankar og fjármálakerfi sem ultu um koll heldur grundvallartraust í samfélaginu. En slíkt grundvallartraust er forsendan fyrir því að réttlætið nái fram að ganga og að við lærum að gera gott. Á meðan ekki er gert upp við það sem olli traustshruninu, getur samfélagið ekki orðið heilt.

    Það eru þessar vangaveltur sem kvikna við lestur guðspjalls síðasta sunnudags. Það fjallar nefnilega um traust og það hvernig við upplifum Guð. Það fjallar annars vegar um sjálfsmynd þess sem treystir og hins vegar um sjálfsmynd þess sem þess sem treystir ekki – en býr við ótta og óöryggi gagnvart öðru fólki, sjálfum sér og viðfangsefnum lífsins.

    Þriðji þjónninn – þessi sem fékk talentuna í hendur og gróf hana í jörðu, til að týna henni ekki, stjórnaðist af ótta og vantrausti til húsbónda síns. Í huga hans var húsbóndinn harður og miskunnarlaus og hann bjóst ekki við neinu öðru frá húsbóndanum en hann fékk síðan.

    Vissulega virðast viðbrögð húsbóndans í sögunni óvægin og miskunnarlaus – jafnvel ranglát – því að hann launar hinum þjónunum tveimur fyrir þeirra viðskipti á meðan hann eys reiði yfir þriðja þjóninn sem reyndi bara að vera varkár. Hvað er það sem útskýrir þessi misjöfnu viðbrögð húsbóndans?

    Getur verið að svarið liggi í sjálfmynd og væntingum þjónanna sjálfra? Getur verið að svarið liggi í trausti – og skorti á trausti?

    Í raun þurfti húsbóndinn ekki að dæma þriðja þjóninn – því hann lifði sjálfur við grát og gnístran tanna. Þegar við gröfum talenturnar okkar í jörð af því við erum hrædd, í staðinn fyrir að blómstra og lifa, sköpum við okkar eigið helvíti. Og hér skiptir guðsmyndin okkar máli. Treystum við því að við höfum fengið lífið og talenturnar til að fá að blómstra og vaxa – eða fjötrar okkur óttinn við Guð?

    Kannski erum við í fjötrum vantrausts á Íslandi í dag. Kannski búum við okkur sjálfum grát og gnístran tanna. Leiðin út úr því liggur í gegnum fyrirheit Jesú um fögnuðinn sem bíður þeirra sem þiggja gjöf frelsisins. Það er gjöf sem stendur okkur til boða. Líka kirkjunni. Hugtakið „aggiornamento“ hefur verið notað yfir það sem umbreytist úr gömlu yfir í nýtt. Í kirkjulegu samhengi þýðir þetta að kirkjan uppfæri sig til dagsins í dag, svo erindi hennar um frelsi manneskjunnar og umhyggju Guðs hitti manneskjuna í hjarta stað og beri ávöxt.

    Til að þessi nauðsynlega uppfærsla geti átt sér stað, þurfum við að greina tíðarandann. Þótt okkur hugnist ekki niðurstaða skoðanakönnunarinnar um þverrandi traust, getum við ekki leitt hana hjá okkur. Hún er áminning, brýning og lærdómur. Um það sem betur má fara og hvernig við getum gefið okkur ótta og vantrausti á vald eða treyst því sem Guð gefur okkur, og ávaxtað talentur og gjafir lífsins.

  • Íslendingar borða ekki pöddur

    Snjórinn

    Nú hylur snjórinn bæinn okkar eins og mjúkt hvítt teppi sem hefur verið breitt yfir allt umhverfið. Þegar byrjaði að snjóa fyrir nokkrum dögum, breytti allt um svip. Hús og garðar fengu á sig dulúðlegan blæ, götur og ljósastaurar voru eins og klipptir út úr Narníu. Umferðarniðurinn og borgarhávaðinn sem fylgir íbúunum frá morgni til kvölds kæfðist undir þykkri snjóbreiðunni. Áætlanir og tímamörk riðluðust því enginn komst almennilega leiðar sinnar. Snjórinn fékk okkur til að staldra við.

    Nýfallinn snjór sem breiðir yfir allt kallar fram þrána í brjóstum okkar eftir góðum bernskudögum og eftir því sem er hreint og óspillt. Snjórinn fellur á skítugar götur og ruslahauga. Hann leyfir okkur að halda augnablik að umhverfið okkar sé einmitt þannig: hreint og óspillt. Þannig fylgir snjónum fylgir huggun og hugheysting.

    Þessa daga og misseri líður okkur á Íslandi eins og við sitjum á stórum haug þar sem ýmislegt leynist. Hruninn trúverðugleiki nær frá viðskiptaheiminum inn í embættismannakerfið,  stjórnmálin og samfélagið allt. Við bíðum eftir aðgerðum sem miða að réttlæti í samfélaginu okkar.

    Slíkar aðgerðir eru forsenda þess að sátt náist í samfélaginu. Án sáttar getur kreppa lifað í huga og hjarta ungra og aldinna. Aðgerðir sem miða að réttlæti í samfélaginu, nefna hlutina sínu rétta nafni og kryfja málin til margjar. Þær ganga jafnt yfir alla. Réttlæti snýst hvorki um hefnd né offors. Það miðar að jafnvægi og jafnrétti.

    Við bundum ákveðnar vonir við stjórnlagaþingið – að þar fengju kjörnir fulltrúar þjóðarinnar að fara yfir grundvallaratriðin sem lýðveldið okkar byggir á. Eitt af stóru málunum þar eru vitaskuld auðlindir þjóðarinnar og hvernig við umgöngumst þær. Sumir vilja meina að umdeildur dómur hæstaréttar sem dæmdi framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins ólöglega eigi einmitt rætur sínar að rekja til þeirra hörðu átaka sem standa yfir í þjóðfélaginu um auðlindir hafsins, fiskinn okkar og kvótakerfið.

    Kvótakerfið, sem að hluta til er byggt á verndunarsjónarmiðum, er núna til endurskoðunar sem ekki sér fyrir endan á eða hvernig muni fara. Helst er bent á tvo þætti sem gagnrýna má kvótakerfið fyrir: áhrifin á byggðirnar og umgengnin við aflann. Skuldsetning sjávarútvegsins er svo annað mál. Þar veldur hver á heldur.

    Brottkast afla og brottkast fólks

    Umgengnin við aflann – auðæfi hafsins sem manneskjan nýtur góðs af – er það sem við ætlum að staldra við í dag, sérstaklega það sem við heyrum svo oft talað um og þykir bera sjómennskunni slæmt vitni. Brottkastið. Það hefur snertir nefnilega guðspjallstextann sem er lesinn í dag:

    Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. (Matt 13.47-48)

    Hér er verið að lýsa á brottkasti. Brottkast á afla er notað til að útskýra aðgreininguna sem á sér stað „þegar veröldin endar“. Þá munu englarnir koma, „skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ (Matt 13.49-50)

    Í samhengi dagsins er brottkast afla mikið vandamál og stóralvarlegt frá sjónarhóli sjálfbærni og náttúruelsku. Kvótakerfið sjálft hvetur til brottkastsins vegna þess að sá sem er á veiðum og hefur bara tiltekinn kvóta fyrir tiltekna tegund, má hreinlega ekki koma að landi með aðrar tegundir. Þeim er því fleygt og nýtast hvorki til manneldis né viðgangs náttúrunnar sjálfrar.

    Ranglátt fyrirkomulag leiðir til ranglátra afleiðinga. Brottkast afla er því miður ekki eina dæmið um ranglátt brottkast sem viðgengst. Félagslegt brottkast er líka af hinu illa, þegar fólk er flokkað í æskilegt og óæskilegt, í skóla, á vinnustöðum, í þjóðfélaginu öllu. Við heyrðum eitt slíkt brottkastsdæmið orðað nú í síðustu viku þegar formaður samtaka atvinnulífsins talaði um að „allir sem einhverju máli skipta“ væri á tiltekinni skoðun. Óhjákvæmilega leiðum við hugann að því hverjir það séu sem skipti þá minna eða jafnvel engu máli.

    Íslendingarnir og pöddurnar

    Í guðspjallinu er brottkastið og aðgreiningin hins vegar af hinu góða – eða öllu heldur eitthvað sem veruleiki guðsríkisins kallar óhjákvæmlega á. Eða hvað? Þegar ég settist niður til að undirbúa þessa guðsþjónustu skrifaði Kristín stutta færslu og dreifði henni á facebook. Þar var þessi brottkaststexti einmitt nefndur og vinirnir á facebook spurðir hvað þetta þýddi í samhengi trúarinnar og kirkjunnar.

    Viðbrögðin sem létu ekki á sér standa komu úr ýmsum áttum. T.d. skrifaði einn vinur okkar það sem við höfum oft heyrt – það að aðgreiningin í guðspjallinu á góðum og illum eigi ennþá við og þarna sé t.d. verið að tala um trúaða og trúlausa. Trúaðir séu góðir og trúlausir vondir.

    Annar vinur benti á að textinn fengi okkur til að hugsa um það hvernig mat okkar á góðu og illu, ætu og óætu, nýtilegu og ónýtu breytist með tímanum. Það sem var álitið óætt í Genesaretvatni á dögum lærisveinanna væri löngu orðið að ætum fiski. Og ein vinkona bætti um betur og minnti okkur á að lengi vel var öllum humri sem veiddist hér við land fleygt – „ Íslendingar enda lítið gefnir fyrir pöddur!“

    Tímarnir breytast, en fólkið?

    Svona breytast tímarnir og svona breytist mat okkar, sýn og skilningur á því hvað er gott, hvað er hjálplegt, hvað styður við manneskjuna og lífið, og hvað er slæmt, hvað brýtur niður og viðheldur ranglæti.

    Brottkast er hluti af veruleikanum af því að við erum alltaf að greina hluti í sundur. Það er hluti af því að vera manneskja að þurfa að greina á milli, þurfa að dæma hvað er gott og hvað er hjálplegt. En við eigum ekki að stunda ranglátt brottkast, rangláta aðgreiningu. Þess vegna sjáum við að fiskveiðistjórnunarkerfi sem hvetur til brottkasts afla er ekki gott kerfi. Þess vegna spyrjum við okkur hvort réttmætt sé að kasta burt stjórnlagaþingi í því uppbyggingarferli sem við viljum sjá eiga sér stað á Íslandi.

    Einu sinni köstuðum við humrinum sem veiddist af því við vildum ekki borða pöddur. En svo uppgötvuðum við að þetta ófrýnilega skeldýr er í raun herramannsmatur og selst dýrum dómum. Þannig erum við minnt á að stundum er sitthvað nýtanlegt sem við héldum að væri það ekki. Það kemur á óvart hvað nýtist.

    Brýningin í textum dagsins og næringin sem við sækjum í samfélaginu við Guð og hvert annað á þessum bjarta og snjóþunga degi því kannski tvenns konar.

    Annars vegar að við séum tilbúin að endurskoða hvernig við höfum stundað brottkast með aðgreiningu sem stjórnast ekki endilega af kærleika og ábyrgð. Að við séum opin fyrir því sem kemur á óvart og fyrir hinu dýrmæta sem leynist meðal þess sem við töldum óætt, óalandi og óferjandi.

    Hins vegar að við berum gæfu til þess að greina á milli þess sem er gott og hjálplegt og þess sem rífur niður.

    Fagnaðarerindi guðspjallsins sem við megum taka með okkur út í daginn, út í vikuna er þetta: Við erum frjáls til að velja góðu götuna sem er okkur til blessunar, náunganum til góðs og Guði til dýrðar. Við erum frjáls að velja lífið.

    Þessa prédikun fluttum við í messu í Víðistaðakirkju í morgun. Hún er líka birt á trú.is.

  • Snjórinn og jafnvægið

    Enlightening

    Þegar byrjaði að kyngja niður snjó í gær breytti borgin um svip. Hús og garðar fengu á sig dulúðlegan blæ, götur og ljósastaurar voru eins og klippt út úr Narníu. Umferðarniðurinn og borgarhávaðinn sem fylgir íbúunum frá morgni til kvölds kæfðist undir þykkri snjóbreiðunni. Áætlanir og tímamörk riðluðust því enginn komst almennilega leiðar sinnar. Snjórinn fær okkur til að staldra við.

    Nýfallinn snjórinn kallar fram þrá eftir því sem er hreint og óspillt og saklaust. Snjórinn sem fellur sýnir umhverfið okkar einmitt þannig: hreint og óspillt. Snjónum fylgir þannig huggun og hugheysting.

    Þessa daga og misseri líður okkur á Íslandi eins og við sitjum á stórum haug þar sem ýmislegt leynist. Við bundum vonir við stjórnlagaþingið sem mikilvægt skref í rétta átt, en vitum nú ekki hvað verður.

    Aðgerðir sem miða að réttlæti eru forsenda þess að sátt náist í samfélaginu. Án sáttar fær kreppan að lifa í huga og hjarta ungra sem aldinna. Aðgerðir sem miða að réttlæti í samfélaginu, nefna hlutina sínu rétta nafni og kryfja málin til margjar. Þær ganga jafnt yfir alla. Réttlæti snýst hvorki um hefnd né offors. Það miðar að jafnvægi og jafnrétti.

    Góðverk og góður ásetningur koma aldrei í stað réttlætis. Á það benti Ágústínus kirkjufaðir á sinni tíð og á það minnum við núna. Við þurfum að vinna saman að réttlæti í samfélaginu. Þráin í hjarta okkar er til samfélags þar sem ríkir sátt og náungakærleikur.

    Þangað skulum við stefna.

    Við höfum áður skrifað um þetta. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.

  • Hér er Jósef, um Jesús

    Í Víðsjá á mánudögum gluggar Ævar Kjartansson í bækur. Bók gærdagsins var Jesús frá Nasaret eftir Jósef Ratzinger sem er kannski betur þekktur sem Benedikt XVI páfi. Árni Svanur var viðmælandi Ævars í þættinum. Hægt er að hlusta á vef Rúv og svo sjóræningjaupptöku á vefnum.

  • Ekki koma inn án leyfis

    Án leyfis - með leyfi

    Við sáum þessa skemmtilegu áletrun á dögunum, ungir menn með skýr mörk settu þetta á blað :)

  • Inngangur að ljóðlist

    Fyrir stuttu vorum við kynnt fyrir ljóðskáldinu Billy Collins (f. 1941). Hann er virtur rithöfundur í heimalandi sínu, Bandaríkjunum, þar sem hann hefur gefið út fjölda bóka og kennt ungu fólki um list ljóðsins. Þetta ljóð hefur yfirskriftina Inngangur að ljóðlist – og þar deilir hann með sér því sem virðist vera reynslan af því að láta háskólanema meðtaka ljóð.

    Kennarinn hvetur nemendurna til að kanna og upplifa undraheima ljóðsins – en þau vilja bara negla það niður í stól og kreista sannleikann úr því.  Okkur finnst margt í þessu ljóði vísa til þess hvernig margir umgangast texta – ekki síst trúarlega texta eins og Biblíuna. Hugsum um hvernig við getum búið til lifandi samband við textana í lífi okkar og uppgötvað fjölbreytileika þeirra, frekar en að smækka þá niður í einfaldaðan “sannleika”.

    Tökum texta alvarlega en ekki bókstaflega.

    Introduction to Poetry

    I ask them to take a poem
    and hold it up to the light
    like a color slide

    or press an ear against its hive.

    I say drop a mouse into a poem
    and watch him probe his way out,

    or walk inside the poem’s room
    and feel the walls for a light switch.

    I want them to waterski
    across the surface of a poem
    waving at the author’s name on the shore.

    But all they want to do
    is tie the poem to a chair with rope
    and torture a confession out of it.

    They begin beating it with a hose
    to find out what it really means.

  • Tafla, spjald eða bretti

    Rowan's Rule, upphafssíða

    Því hefur verið spáð að árið 2011 verði ár spjaldtölvunnar og nýlega bárust fréttir af því að Amazon bókaverzlunin seldi fleiri rafbækur en prentaðar bækur.

    Kannski verður árið 2011 eins konar bóka-byltingar-ár.

    Í því samhengi veltum við fyrir okkur hvað við eigum að kalla þessi fyrirbæri? Eigum við að kalla spjaldtölvuna (e. tablet computer) spjaldtölvu? Eða eigum við að stytta þetta yfir í spjald? Töflu? Bretti?

    Tæki eins og Kindle gæti til að mynda kallast lesbretti – og lesefnið sjálft heitið brettabók.

    Hvað segið þið?