Árni og Kristín

Traustið og talenturnar

Mold

Kristín prédikaði í morgunmessu í Hafnarfjarðarkirkju í dag. Hún lagði út af Matt 25.14-30 og ræddi um traustið í samfélaginu. Þetta er prédikunin.

Það er skortur á trausti í samfélaginu okkar. Skortur á trausti á stofnunum, flokkum og embættismönnum er í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Það ríkir traustskreppa á Íslandi.

Við sem störfum í þjóðkirkjunni höfum fylgst með því hvernig traustið til hennar hefur dalað í skoðanakönnunum, oft í öfugu hlutfalli við það sem við reynum í samskiptunum í söfnuðunum okkar. Við spyrjum okkur að því hvað valdi því að traustið til kirkjunnar og æðsta embættismanns hennar er eins lítið og raun ber vitni.

Er afstaða almennings til kirkjustofnunarinnar til að mynda önnur en til starfsins í sóknarkirkjunni og nærsamfélaginu? Er dvínandi traust til þjóðkirkjunnar því að kenna hvernig var tekið á málum þolenda Ólafs Skúlasonar? Er trúverðugt hvernig starfsreglur og vinnuferlar kirkjunnar taka á kynferðisbrotamálum? Hernig hefur kirkjan staðið sig í jafnréttis- og umhverfismálum? Hvert hefur framlag kirkjunnar verið í uppbygginguna eftir Hrun?

Á málþingi í síðustu viku sem bar yfirskriftina Og hvað svo? Hvert stefna Íslendingar settu nokkrir guðfræðingar puttann á púlsinn sem slær í þjóðarsálinni um þessar mundir. Sérstaklega var staðnæmst við tímann sem það tekur einstaklinga og samfélög að ná sér eftir áföll. Hvað tekur það okkur langan tíma að rísa upp eftir Hrunið? 20 ár? Eða 40 ár? Hvað tók það Íslendinga langan tíma að ná sér eftir móðuharðindin? Áföll búa um sig í þjóðarlíkamanum og erfast.

Á fundinum spurðum við líka erfiðra spurninga um hvernig hægt væri að byggja nýtt Ísland á rústum þess ranglætis sem Hrunið afhjúpaði. Í því sambandi var einmitt spurt um traust – og lýst eftir trausti í samskiptum og samneyti fólks.

Einn frummælandinn tengdi þetta ástand við það hvar Guð væri að finna. Hann sagði “Guð er ekki fyrir ofan okkur, Guð er ekki fyrir neðan okkur – Guð er hérna, mitt á milli okkar.” En svo hélt hann áfram og sagði: “Ef Guð er til í tengslum milli þín og mín, ef Guð lifir mitt á milli fólks, þá er Guð að deyja eða er dáinn á Íslandi vegna þess að þar er ekkert traust, engin tengsl, bara óuppgert ranglæti”

Þessi sterku orð vísa til þess að með Hruninu voru það ekki bara bankar og fjármálakerfi sem ultu um koll heldur grundvallartraust í samfélaginu. En slíkt grundvallartraust er forsendan fyrir því að réttlætið nái fram að ganga og að við lærum að gera gott. Á meðan ekki er gert upp við það sem olli traustshruninu, getur samfélagið ekki orðið heilt.

Það eru þessar vangaveltur sem kvikna við lestur guðspjalls síðasta sunnudags. Það fjallar nefnilega um traust og það hvernig við upplifum Guð. Það fjallar annars vegar um sjálfsmynd þess sem treystir og hins vegar um sjálfsmynd þess sem þess sem treystir ekki – en býr við ótta og óöryggi gagnvart öðru fólki, sjálfum sér og viðfangsefnum lífsins.

Þriðji þjónninn – þessi sem fékk talentuna í hendur og gróf hana í jörðu, til að týna henni ekki, stjórnaðist af ótta og vantrausti til húsbónda síns. Í huga hans var húsbóndinn harður og miskunnarlaus og hann bjóst ekki við neinu öðru frá húsbóndanum en hann fékk síðan.

Vissulega virðast viðbrögð húsbóndans í sögunni óvægin og miskunnarlaus – jafnvel ranglát – því að hann launar hinum þjónunum tveimur fyrir þeirra viðskipti á meðan hann eys reiði yfir þriðja þjóninn sem reyndi bara að vera varkár. Hvað er það sem útskýrir þessi misjöfnu viðbrögð húsbóndans?

Getur verið að svarið liggi í sjálfmynd og væntingum þjónanna sjálfra? Getur verið að svarið liggi í trausti – og skorti á trausti?

Í raun þurfti húsbóndinn ekki að dæma þriðja þjóninn – því hann lifði sjálfur við grát og gnístran tanna. Þegar við gröfum talenturnar okkar í jörð af því við erum hrædd, í staðinn fyrir að blómstra og lifa, sköpum við okkar eigið helvíti. Og hér skiptir guðsmyndin okkar máli. Treystum við því að við höfum fengið lífið og talenturnar til að fá að blómstra og vaxa – eða fjötrar okkur óttinn við Guð?

Kannski erum við í fjötrum vantrausts á Íslandi í dag. Kannski búum við okkur sjálfum grát og gnístran tanna. Leiðin út úr því liggur í gegnum fyrirheit Jesú um fögnuðinn sem bíður þeirra sem þiggja gjöf frelsisins. Það er gjöf sem stendur okkur til boða. Líka kirkjunni. Hugtakið „aggiornamento“ hefur verið notað yfir það sem umbreytist úr gömlu yfir í nýtt. Í kirkjulegu samhengi þýðir þetta að kirkjan uppfæri sig til dagsins í dag, svo erindi hennar um frelsi manneskjunnar og umhyggju Guðs hitti manneskjuna í hjarta stað og beri ávöxt.

Til að þessi nauðsynlega uppfærsla geti átt sér stað, þurfum við að greina tíðarandann. Þótt okkur hugnist ekki niðurstaða skoðanakönnunarinnar um þverrandi traust, getum við ekki leitt hana hjá okkur. Hún er áminning, brýning og lærdómur. Um það sem betur má fara og hvernig við getum gefið okkur ótta og vantrausti á vald eða treyst því sem Guð gefur okkur, og ávaxtað talentur og gjafir lífsins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may also enjoy…