Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 9: Sumar myndir

    Í dag vék snjórinn og kuldinn og í staðinn fengum við hlýja golu og sól og fyrirheit um yndislega sumardaga. Okkur langar því á níunda gleðidegi að deila nokkrum sumarmyndum sem tengjast minningum um góða sumardaga og bjóða þannig sumarið velkomið.

    Kría slær

    Er það þetta fjall?Fífurnar

    Gullregn

    Borgari hússinsBorgari hússins

    Afmælisveisluborðið

    Myndirnar með færslunni höfum við tekið á sumardögum.

  • Gleðidagur 8: Jesús tjillar og grillar

    Humargrill

    Fyrsti maí er Baráttudagur verkalýðsins og fyrsti sunnudagur eftir páska. Þá er guðspjallið um fiskidráttinn mikla í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls lesið í kirkjum landsins.

    Þetta er hluti af upprisutextum Nýja testamentisins sem vísa til tímans eftir krossfestinguna þegar Jesús birtist fylgjendum sínum, alltaf við óvæntar aðstæður. Þarna sjáum við að lífið eftir krossfestingu hefur gjörbreyst hjá lærisveinunum, því nú eru þeir teknir til við sitt lifibrauð sem eru veiðar.

    Eftir trega nótt með engum afla, gengur óþekktur maður að ströndinni þar sem þeir eru að leggja að landi og hvetur þá til að kasta netunum hinu megin við bátinn. Þeir gera það og netin fyllast á augabragði, af 153 stórfiskum. Þá ljúkast upp augu þeirra og þeir sjá að þetta er Jesús.

    Jesús tekur til við að grilla fisk og brauð á glóðum og þeir setjast niður til að eiga máltíð saman.

    Þessi saga er náttúrulega dásamleg á 1. maí.

    Í fyrsta lagi vegna þess að hún á sér stað í samhengi hinna vinnandi stétta. Baráttan fyrir brauðinu og fiskunum er sígild og ber ekki alltaf þann ávöxt sem nauðsynlegt er.

    Í öðru lagi vegna þess að hún lýtur að hlutverki og framkomu leiðtoga í samfélagi og sambandi hans við fólkið. Vendipunktur í sögunni er þegar Jesús bendir á leið sem virkar og leiðir til árangurs. Það er einkenni góðra leiðtoga að þeir ná til fólks og vita hvað þeir ætla að segja.

    Í þriðja lagi vegna þess að sagan hefur mjög víða skírskotun. Talan 153 getur staðið fyrir allar þekktar fisktegundir í Tíberíasarvatni á þessum tíma. Að þær rati allar í net lærisveinanna, sem veiða ekki bara fiska heldur fólk, tjáir sýn á útbreiðslu og vöxt sem nær yfir mörk og mæri.

    Í fjórða lagi vegna þess að hún tjáir náið og jarðbundið mannlegt samfélag í kringum mat og nærveru.

    Samfélag sem vex og blómstrar, góð kommúnikasjón, boðskapur sem mætir fólki óháð þjóðum og landamærum, og nærandi vinátta, er verðugt íhugunarefni á Baráttudegi verkalýðsins.

    Til hamingju með daginn.

    Myndin með færslunni var tekin í ágúst á síðasta ári þegar fjölskyldan fagnaði afmæli afans með stórkostlegu tjilli og humargrilli.

  • Gleðidagur 7: Í kvöld lýkur vetri

    Síðasti dagur aprílmánaðar er sumstaðar helgaður stúdentum. Ef þú værir staddur í stúdentaborg eins og Uppsala 30. apríl, kæmist þú ekki hjá því að verða var við mikil gleðilæti og fjöldasamkomur með stæl. Andinn sem svífur yfir vötnum á þessum degi, sem í Svíþjóð er kenndur við Valborgu, er í senn hylling til sumarsins sem er í vændum, til æskunnar sem skal erfa landið og til lífsins sem er framundan hjá ungum stúdentunum.

    Á Íslandi er ekki hefð fyrir þesskonar stúdentarómantík. Síðasti apríldagurinn er í huga þjóðarinnar dagurinn sem við syngjum Maístjörnuna og leyfum okkur að taka undir:

    En í kvöld lýkur vetri
    sérhvers vinnandi manns,
    og á morgun skín maísól,
    það er maísólin hans,
    það er maísólin okkar,
    okkar einíngarbands,
    fyrir þér ber ég fána
    þessa framtíðarlands.

    Kannski er það einmitt vegna þess að margir upplifa „erfiða tíma og atvinnuþref“ um þessar mundir, sem ljóðið hittir svona vel í mark. Þrátt fyrir kulda, hörkur og þrenging, er von um betri tíma.

    Vonin í ljóðinu snýr að fyrirheiti stjörnunnar sem titillinn vísar til. Hún skín þarna svo skært og fagurt og varpar þannig birtu á aðstæðurnar að við fáum styrk til að trúa því að eitthvað betra sé í vændum, fyrir land og þjóð.

    Myndbandið sem fylgir færslunni sýnir Gradualekór Langholtskirkju syngja Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson og Halldór Laxness í kórakeppni í Olomouc, Tékklandi, árið 2009. Graudeualekórinn er einn af hverfiskórunum okkar og við erum stolt af þeim.

  • Gleðidagur 6: Brúðkaupsdagur

    Á brúðkaupsdegi Vilhjálms og Katrínar viljum við ræða hjónabandið og deila viðtali við Rowan Williams. Hann er erkibiskup af Kantaraborg og gaf ungu hjónin saman í morgun. Hér segir hann meðal annars að í hjónabandinu felst tvenns konar skuldbinding. Annars vegar um að vera tilbúin að deila lífinu með annarri manneskju, hins vegar að kynnast þessari sömu manneskju betur, lífið á enda.

    Erkibiskupinn bætir við nokkrum orðum til þeirra sem fylgdust með hjónavígslunni í morgun:

    „Við eigum að vera vitni í virkri merkingu, ekki bara áhorfendur, heldur virk vitni sem styðja það sem á sér stað.“

    Og hvað þýðir það? Að vera virk vitni þýðir að leggja sitt af mörkum til góðs. Það er góð hvatning til okkar á gleðidögum, ekki bara varðandi hjónaband þeirra Vilhjálms og Katrínar, heldur varðandi allt gott í samfélaginu okkar.

    Við skulum vera virk vitni.

  • Gleðidagur 5: Róa sig

    Ukulele snillingarnir í u900 leika og syngja fyrir okkur á fimmta gleðideginum. Söngurinn þeirra heitir Isogabamaware.

    Í byrjun segir kanínan við björninn: „drífum í þessu svo við getum farið og fengið okkur að borða.“ Björninn segir stutt og laggott „jebb“ og kanínan segir „af stað“.

    Textinn er borinn uppi af orðinu „isogabamaware“ sem útleggst einhvern veginn þannig að með hraðanum týnist það sem skiptir máli. Þegar kanínan og björninn liggja á grasinu eru þeir einmitt að ræða um hvað það sé mikilvægt að slaka á og flýta sér hægt. Asi boðar ekkert gott.

    Í lok myndbandsins segir kanínan: „Fullkomið!“

    Boðskapurinn þeirra félaga í U900 er Hægur og minnir á Hægan mat og Hægar fréttir: Við skulum ganga í stað þess að hlaupa gegnum lífið.

    Líka á Gleðidögum :)

  • Gleðidagur 4: Traust er hamingjulykill

    IMG_1197

    Við fylgjumst með Dalai Lama á Twitter. Fimmtánda apríl skrifaði hann setningu sem við viljum taka undir og gera að okkar á fjórða gleðidegi:

    Human nature is such that the individual is most happy and relaxed when he or she can share happiness and trust with others.

    Hamingjuleiðin er að deila lífinu með öðru og lifa í samfélagi sem byggir á trausti.

    Myndin er af Kristínu og tveimur af börnunum okkar að mála brothætt páskaegg. Dásamleg iðja í tilefni páskanna.

  • Gleðidagur 3: Lífsdansinn

    Resurrection

    Lífsins Guð.
    Lof sé þér fyrir dansandi sól,
    brosandi jörð, syngjandi öldu,
    hina dásamlegu sköpun, sem þú hefur reist til lífs.

    Lausnari heimsins.
    Lof sé þér fyrir að þú veltir steinum við grafhvelfingar.
    Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífsgleði,
    til fagnaðar, réttlætis og friðar.

    Lof sé þér fyrir að þú sigraðir dauðann og ruddir lífinu braut.
    Leyfðu okkur að lifa í því vori og sumri veraldar,
    sem þín upprisa ól.

    Lof sé fyrir mátt þinn til að reisa við öll þau,
    sem eru líflítil og lífvana.
    Reis þú, Drottinn, þína veröld.

    Andi lífs.
    Hugga þau, sem vonlítil eru.
    Lækna hin sjúku.
    Vernda þau sem vandastörfum gegna.
    Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf.
    Farsæl heimilislíf, atvinnu – allt líf samfélags okkar.

    Blessa þau, sem útbreiða frið þinn,
    boða orð þitt, þjóna að altari þínu,
    hlúa að æsku, mennta fólk til lífsleikni.

    Gef vitur ráð í þjónustu við þig.

    Allt lífið skapar þú.
    Allt lífið leysir þú.
    Allt lífið nærir þú.

    Amen.

    Bænir verða til í samhengi helgihaldsins þar sem fólk kemur saman en líka í hjörtum og huga þegar fólk er eitt með sjálfu sér.

    Bænirnar sem eru fluttar í guðsþjónustunni eru oft samkvæmt gamalli hefð. Þær eiga samkvæmt hefðinni að vera byggðar upp á ákveðinn hátt og sækja efnivið og myndmál í Biblíuna. Bænirnar í handbók kirkjunnar er það sem oftast er flutt í messum en þær eru að grunni til ævafornar og mótaðar af hefðbundinni guðfræði.

    En stundum koma fram nýjar bænir sem nota önnur orð og aðrar líkingar til að tjá það sem bænin á að miðla. Vinur okkar, Sigurður Árni Þórðarson skrifaði þessa fallegu páskabæn sem okkur finnst tjá vel tilefni gleðidaganna sem nú standa yfir. Við þökkum honum og biðjum ykkur að njóta.

    Myndina tók Árni af Kristínu á páskadegi.

  • Gleðidagur 2: Við lifum góða tíma

    Páskabýflugan bleika

    Annar gleðidagurinn hófst á svipaðan hátt og aðrir dagar. Yngsta barnið vaknaði fyrir allar aldir og vildi fá hjól leikjalífsins til að snúast á ný. Smám saman rankaði heimilisfólkið við sér og stefnan var tekin á matarbúrið þar sem árbíturinn var borinn á borð.

    Þegar ísskápshurðinni var svipt upp til að ná í mjólkina út á morgunkornið rákum við augun í afskaplega fína kampavínsflösku. Við fengum hana að gjöf fyrir næstum því ári síðan og höfum ekki enn fengið það af okkur að njóta innihaldsins. Þetta er nefnilega svo fínt og lekkert vín.

    Kampavín í morgunmat

    Hvað er viðeigandi tækifæri til að njóta dýrra veiga sem voru gefin af dýrmætu tilefni?  Tom Wright sem var biskup í Durham og kennir núna guðfræði við St. Andrew’s skrifar um slíkt tilefni í hugleiðingum sínum um páskana:

    Easter ought not to be the time when all the clergy sigh with relief and go on Holiday. It ought to be an eight-day festival, with champagne served after morning prayer or even before, with lots of Alleluias and extra hymns and spectacular anthems.

    Páskarnir og gleðidagarnir eru svo merkilegir og mikilvægir að við ættum að halda hátíð og opna kampavín eftir morgunbænir – nú eða fyrir þær. Þessi hátíðahöld eiga að ná yfir marga daga og þau eiga að einkennast af gleði, fögnuði og því að gera nýja hluti.

    Gleðin tekur við af alvörunni

    Tom Wright hnykkir á því að gleðitíminn eftir páska sé eðlilegt framhald við föstutímanum í aðdraganda dymbilviku og bænadaga. Fastan er tími aðhalds, sjálfsfórnar, iðrunar og alvöru. Páskarnir eru tími gjafmildis, gleði, tækifæra og tilrauna.

    In particular, if Lent is a time to give things up, Easter ought to be a time to take things up. Champagne for breakfast, again; well, of course. Christian holiness wa never meant to be merely negative.

    Við tökum boðskap föstu og dymbilviku alvarlega. Við viljum líka vera páskafólk og gefa páskahátíðinni rými í lífinu. Páskarnir eru tákn um lífið og vonina og kristin trú er að lifa í þessari von.

    Núna lifum við góða tíma.

    Myndin er af páskabýflugunni sem yngsta dóttirin gerði á leikskólanum. Bleik af því að bleikur er uppáhaldsliturinn.

  • Gleðidagur 1: Sögur sem enda vel

    Páskaliljur

    Eftir fjörtíu daga föstu og bænadaga taka við fimmtíu gleðidagar þar sem lífinu er fagnað. Við ætlum að halda upp á gleðidagana hér á blogginu og birta gleðidagafærsur næstu fimmtíu daga. Sú fyrsta er páskaprédikunin sem Árni flutti í Dómkirkjunni í morgun. Hún fjallar um sögur sem enda vel.

    Sögur sem enda vel

    Á föstudaginn langa söfnuðumst við saman hér í kirkjunni og íhuguðum krossinn og sögur sem enda illa. Þá flutti ég fyrri hluta þessarar prédikunar. Nú kemur framhaldið. Og því að þessi prédikun er í tveimur hlutum, eins og sjónvarpsþættir, sem stundum eru sýndir í Ríkissjónvarpinu um páska, þá er við hæfi að byrja hana á upprifjun.

    Á föstudaginn heyrðum við þrjár sögur, um Jenny sem var misnotuð af föður sínum, af unga piltinum sem varð vitni af því þegar allir karlmennirnir og drengirnir í þorpinu hans voru myrtir og af Páli, ungum dreng sem varð vitni að því þegar móðir hans lést í hryllilegu bílslysi.

    Þrjár krosssögur.
    Þrjár sögur sem enduðu illa.

    Og við kynntumst því hvernig krossinn – og föstudagurinn langi – er ljótur og ranglátur, tilgangslaus og sár.

    Nú höldum við áfram.

    Framhaldssögur

    Kæri söfnuður.
    Ég ætla semsagt að segja framhald af sögunum í dag.
    Og það er rétt að hefja þessa prédikun á ábendingu.
    Þetta eru engar Hollívúddsögur.
    En þetta eru ekki sögur sem enda illa.

    Þetta eru sannar sögur og fallegar sögur.
    Þetta eru raunverulegar sögur.
    Páskasögur.

    Þetta eru sögur sem enda vel.

    Kæri söfnuður.
    Þessi prédikun er við hæfi barna.
    Eins og páskarnir.

    Tvær konur

    Jenny var misnotuð sem barn af föður sínum.
    Hún var beitt ofbeldi af manninum sínum.
    Á endanum sagði hún stopp og hún myrti hann.
    Og það var réttað yfir henni og hún var fundin sek og dæmd til fangavistar.
    Og henni var stungið bak við lás og slá.

    Hún ólgaði af reiði.

    Í fangelsinu kynntist hún Traude.
    Hún var aldraður píanókennara og hafði starfað þarna í fangelsinu í áratugi.
    Og þær náðu saman í tónlistinni því Jenny var ekki bara fórnarlamb, hún var líka undrabarn í tónlist.

    Traude var, eins og Jenny, fangi fortíðarinnar.
    Hún var samkynhneigð.
    Og hún hafði, á stríðsárunum, séð ástkonu sína tekna af lífi, fyrir það eitt að elska konur en ekki karla.
    Og hún hafði aldrei þorað að segja frá þessu.

    Aldrei.

    Svo kynntust Jenny og Traude.
    Og vináttan leiddi þær á nýjan stað.
    Þetta var ekki auðvelt ferðalag.
    En það leiddi þær á stað þar sem þær upplifðu traust og virðingu.
    Þar sem þær gátu staðið með reisn.
    Og sagt söguna sína.
    Saman.

    Jenny losnaði ekki úr fangelsinu,
    hún þurfti að afplána sinn dóm
    En var ekki lengur fangi fortíðarinnar.
    Ekki fangi reiðinnar.
    Og hún var ekki lengur fórnarlamb.
    Og Traude var ekki lengur fangi sektarkenndar
    yfir því hver hún var.
    Þær voru manneskjur.

    Páskarnir eru reisn.
    Páskarnir eru réttlæti.
    Páskarnir eru frelsi.

    Þetta var fyrsta sagan.

    Heilt þorp

    Önnur sagan fjallar um strák.

    Hann var barn að aldri þegar hermennirnir komu.
    Þeir svívirtu konurnar í þorpinu.
    Þeir myrtu karlmennina.
    Þeir myrtu drengina.

    Alla nema hann.

    Og hann varð vitni að þessu og þetta bjó með honum og mótaði hann.
    Og svarta hárið hans varð hrímhvítt.
    Og hann talaði aldrei framar.

    En lífið hélt áfram.

    Konurnar voru eftir.
    Og trúarleiðtoginn, sem var hniginn að aldri.
    Og þau stóðu saman.

    Þau gengu til verkanna
    sem tilheyrðu hverjum degi,
    og hverri árstíð.

    Þau rifjuðu upp og sögðu sögur af góðum dögum.
    Héldu utan um hvert annað.

    Og lífið gekk sinn vanagang.
    Það var ekki sama lífið og áður, en það var gott.

    Þetta var líf í samhjálp og samstöðu
    í litla þorpinu sem var þorpið þeirra.

    Og smátt og smátt var eins og það fenndi yfir erfiðu minningarnar.
    Nýjar komu í þeirra stað.
    Minningar sem endurspegluðu lífið.
    Hér og nú.

    Pilturinn talaði aldrei framar.
    En hann brosti.
    Og hann var öruggur.
    Með þeim.
    Þrátt fyrir allt sem hafði gerst.

    Páskarnir eru samstaða.
    Páskarnir eru friður.
    Páskarnir eru öryggi.

    Þetta var önnur sagan.

    Feðgar

    Páll var bara barn þegar mamma dó.
    Þetta var slys. Á hraðbrautinni.
    Hann og pabbi sátu í bílnum, mamma fór út.
    Og flutningabíllinn kom alltíeinu og hrifsaði hana frá þeim.
    Hún dó samstundis.

    Og í einni svipan var allt breytt.

    Og framtíðin sem hafði verið svo örugg, var horfin.
    Og það var Bara sárt.

    Og svo, eins og til að bæta salti í sárin,
    horfði hann upp á pabba brotna saman.
    Pabba.
    Sem hafði verið eins og klettur í huga hans.

    Pabbi varð einrænn og fjarlægur.
    Vildi ekki fara að gröfinni.
    Vildi ekki muna.
    Ýtti öllum frá sér.
    Vildi ekki tala.
    Hann vildi bara deyja.

    Og Páll fann sig einan.
    Hvernig gat hann borið þessa byrði?

    Að lokum sagði hann.
    Hingað.
    Og.
    Ekki.
    Lengra.

    Og horfðist í augu við pabba og sagði:
    Nú þurfum að standa saman.
    Því þú þarft að lifa.
    Og ég þarf að lifa.
    Og við þurfum að ganga saman.
    Nú erum við
    Tveir.

    Og lífið breyttist aftur.
    Ekki á augabragði
    heldur smátt og smátt.
    Þeir stóðu saman.
    Horfðust í augu við fortíðina
    og gengu til móts við framtíðina.
    Og báðir öxluðu ábyrgðina.
    Sonur og faðir.
    Lifðu.
    Saman.

    Páskarnir eru sátt.
    Páskarnir eru líf.
    Páskarnir eru von.

    Þetta var þriðja sagan.

    Kristur

    Þeir krossfestu Krist.
    Hann dó.
    Og öllu var lokið.

    Og á föstudaginn langa var sagan hans
    krosssaga.
    Saga sem endar illa.

    En.

    Hann reis upp.
    Og á páskadegi.
    Frá og með páskadegi er sagan hans
    páskasaga.

    Páskasögur eru ekki happíendingsögur.
    Þær enda vel.
    En í þeim mætum við líka ranglæti og reiði og sársauka.
    Lífinu og heiminum eins og hann er.

    En þær leyfa föstudeginum langa ekki að vera lokadegi.

    Og þetta er upprisuboðskapurinn:

    Að dauðinn
    og sársaukinn
    og vonleysið
    og ranglætið
    og tilgangsleysið
    Að fjarlægðin
    og illskan.

    Eru ekki lokasvarið.

    Hann er ekki hér sagði engillinn.
    Hann var hér á föstudaginn langa.
    En núna er hann ekki hér.

    Því hann er upprisinn.

    Krossinn er ekki lokasvarið.

    Heldur páskarnir.
    Lífið.
    Vonin.
    Réttlætið.
    Friðurinn.
    Samfélagið.

    Ekki dauði heldur líf.

    Ekki vonleysi heldur von.

    Ekki einmanaleiki heldur samfélag.

    Það er boðskapur,
    það er loforð páskanna.

    Það er páskasagan.

    Það er saga sem endar vel.

    Myndin er af páskaliljunum sem við plöntuðum í blómakeri á heimilinu. Þær sprungu út nú um páskana og eru mikil prýði.

  • Sögur sem enda illa

    Árni prédikaði í Dómkirkjunni í morgun. Prédikunin fjallar um sögur sem enda illa, viðeigandi sögur á föstudeginum langa. Þetta eru ekki Hollívúddsögur og þær eru eiginlega ekki við hæfi barna. Þær fjalla um misnotkun og stríð og hryllilegt bílslys og þar segir meðal annars:

    Svo varð hún fullorðin og hann hafði ekki lengur áhuga. Hún fór að heiman. Hitti eigin mann. Hann var ekki góður maður. Og eitt sinn, þegar hann fór yfir strikið, sagði hún. Hingað. Og ekki. Lengra. Og hún myrti hann.