Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 1: Dagatalið

    Aðventan er magnaður tími. Hún lýkur upp mörgum stefjum sem kristin trúarhefð leggur okkur á hjarta í aðdraganda jólanna. Eitt af þessum stefjum aðventunnar er vonin sem í kristinni trúar er ætluð öllum en ekki fáum útvöldum. Boðskapur aðventu og jóla um frið á jörðu og velþóknun Guðs gengur út á þetta og beinist sérstaklega að þeim sem eru jaðarsett. Þau eru sérstakur farvegur vonarinnar sem ætluð er öllu mannkyninu.

    Okkur langar að lyfta aðventunni upp sem innleggi í samtalið um manneskjur, merkingu og mátt í aðdraganda jólanna. Á hverjum degi fram að jólum ætlum við að setja fingurinn á eitthvert stef eða viðburð sem dregur fram skilaboð kristinnar trúar inn í aðstæður og reynslu manneskjunnar hér og nú.

    Aðventubloggið okkar heitir #ósíuð aðventa vegna þess að í textum og boðskap Biblíunnar er svo mikið raunsæi og nánd. Okkur hættir stundum til að missa sjónar af því í kapphlaupi samtímans.

    Takk fyrir að eiga #ósíaða aðventu með okkur.

    Færslurnar

    [display-posts category=”osiud-adventa” posts_per_page=”24″ include_date=”true” date_format=”j. F, Y”]

    #ósíuðaðventa

  • Jesús í Druslugöngunni

    Í dag er haldin í fimmta sinn Druslugangan í Reykjavík, sem er farin til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning með því að vísa ábyrgðinni þangað sem hún á heima – til gerendanna. Prinsip Druslugöngunnar er einfalt: Að standa saman og skapa samkennd með þolendum ofbeldis. Í stað þess að leita eftir afsökunum fyrir ofbeldinu í fari þolendans, hvernig hún eða hann var klæddur eða hvert hún eða hann lagði leið sína á tilteknum tíma, er sjónum beint að raunverulegri ástæðu ofbeldisins, sem er að einhver einstaklingur beitir annan ofbeldi. Slíkt er alltaf á ábyrgð gerandans. Aldrei þolandans.

    Gangan í ár leggur í stað frá Hallgrímskirkju, sem er ekki bara mest áberandi bygging í Reykjavík heldur ein frægasta kirkja í heimi. Mér finnst það einstaklega viðeigandi og eflandi að Druslugangan verði til með því að fólk safnist saman í skjóli við byggingu sem er ekki bara helsta kennileiti borgarinnar, heldur er reist í minningu og helguð okkar manni frá Nasaret, Jesú Kristi Jósepssyni.

    Það sem einkennir líf og starf Jesú er hvað hann gekk beint inn í aðstæður sem sköpuðust vegna fordóma og dómhörku í garð samferðafólks, ekki síst í tilfelli kvenna og reynslu þeirra. Jesús átti samneyti við druslur og mætti þeim á jafningjagrundvelli. Í guðspjöllunum lesum við um samtöl og samskipti sem Jesús átti við konur sem samfélagið hafði fordæmt á grundvelli reynslu af kynferðisofbeldi og kynhegðunar. Í samfylgd Jesú setjumst við niður með samversku konunni sem samfélagið leit niður á fyrir að hafa átt fullt af mönnum og við horfumst í augu við konuna sem átti að verða grýtt fyrir það að drýgja hór. Eins og Jesús stöndum við með konum sem samfélagið kallar druslur og skilum skömminni til þeirra sem beita aðra ofbeldi.

    Það er maklegt og réttvíst að ganga Druslugönguna og vita að Jesús er með í för þegar við upprætum fordóma, dómhörku og ranglæti. Frá Hallgrímskirkju sækjum við styrk og innblástur til að ganga með náungakærleik og gegn ofbeldi og sinnuleysi. Gleðilega Druslugöngu!

    Jesús í Druslugöngunni, birtist fyrst á Vísi.is.

  • Þar sem gleði og depurð búa saman

    Þessa dagana er teiknimyndin Inside Out sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. Hún fjallar um það sem gerist innra með okkur mannfólkinu – tilfinningalífið. Í brennidepli er samspil tveggja tilfinninga: gleði og depurðar.

    Boðskapur myndarinnar er að til að lífið sé í jafnvægi þurfi þessar tvær tilfinningar að vera í jafnvægi. Þar sem gleðin ein ræður verður manneskjan meðvirk, þegar depurðin hefur yfirhöndina verðum hún þunglynd. Þar sem gleði og depurð haldast í hendur verður til jafnvægi sem getur leitt til hamingju.

    Þetta er lexía um lífið og jafnframt góður boðskapur inn í heimilislífið. Heimilið og fjölskyldan sem þar býr eiga nefnilega að vera staðurinn þar sem við getum upplifað allan tilfinningaskalann og verið örugg. Um leið á heimilið að vera staður þar sem við þurfum ekki að bera sársaukann og depurðina í lífinu ein og staður þar sem við getum deilt og upplifað hina dýpstu gleði með öðrum.

  • Innkaupatangó á Klapparstíg

    Sviðið á Rósenberg við Klapparstíg er ekki stórt en í gær mættust þar tvær harmonikkur, tvær fiðlur, eitt klarinett, einn gítar og einn kontrabassi að viðbættum sjö hljóðfæraleikurum. Í einu lagi mátti jafnframt heyra leikið á greiðu. Þarna var hljómsveitin Mandólín mætt til að leika og syngja fyrir unnendur góðrar tónlistar.

    Sigríður Ásta Árnadóttir hafði orð fyrir hópnum og tilkynnti tónleikagestum að nú yrði leikinn tangó sem kallaðist á við ástina, tunglið, rauða kjóla, reiða eiginmenn og afbrýðisamar eiginkonur. Tónleikagestir voru hvattir til að taka sporið ef þá lysti. Ungt par sem stóð á stéttinni utan við staðinn tók hljómsveitina á orðinu og steig dans við fagra tóna. Það magnaði bara upplifunina og gerði kvöldið eftirminnilegra.

    Lögin komu úr ýmsum áttum, meðal annars var sungið á rúmensku, finnsku, jiddísku og þýsku að ógleymdu okkar ástkæra móðurmáli. Lögin fjölluðu um ást og nánd og fjarlægð og báru með sér nálægan og fjarlægan þokka. Eftirminnilegastur er líklega innkaupatangóinn sem gaf alveg nýja sýn á Nóatúnsverzlanirnar, franskbrauð og innkaupakerrur.

    Þetta var eftirminnilegt kvöld og það er full ástæða til að þakka fyrir sig og smella læki á bandið á Facebook svo við sjáum örugglega hvar og hvenær þau spila næst.

  • Líf og fjör á hverfishátíðinni

    Það var gaman að taka þátt í hverfishátíðinni Laugarnes á ljúfum nótum um helgina. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á torgið við Laugarneskirkju þar sem fulltrúar félaganna í hverfinu buðu upp á fjölbreytta dagskrá. Skólahljómsveitin lék, skátarnir reistu klifurvegg og seldu kandífloss, foreldrafélögin buðu upp á pylsur, félagsmiðstöðin leiddi miðaldaskylmingar, kórar og hljómsveitir kirkjunnar léku og Rebbi refur kíkti í heimsókn. Í safnaðarheimilinu var basar og kaffisala. Svo voru hoppikastalar og risa-fússball og sitthvað fleira.

    Allir skemmtu sér vel og glöddust í góða veðrinu eins og myndirnar bera með sér. Við hlökkum til að undirbúa hátíðina að ári og þökkum fyrir gott samstarf. Það gott að vera í Laugarneshverfinu!

  • Tjáningarfrelsið og trúin

    Rúv greinir í dag frá breytingum á norskri refsilöggjöf sem voru samþykktar í gær:

    Norðmenn geta frá og með deginum í dag lastað hverja þá guði og gyðjur sem þeim sýnist án þess að eiga yfir höfði sér ákærur eða refsingar af hálfu hins opinbera. Í gær samþykkti norska stórþingið endanlega breytingar á refsilöggjöfinni sem fólu í sér að grein 142 var felld úr lögunum.

    Í gær birtist líka pistill eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson sem fjallar um trúna og tjáningarfrelsið. Þar segir:

    Ég þarf því ekki að minna á að Jesús frá Nasaret var tekin að lífi fyrir guðlast. Það eitt ætti að nægja til að minna á að innri rök kristins trúarsamfélags styðja ytri kröfur nútímasamfélags um að ekki eigi að vera hömlur á tjáningarfrelsi um málefni og um trúmál eiga ekki að gilda aðrar reglur en um önnur samfélagsleg málefni. Það mætti orða þetta svo að skotleyfið er á skoðanir og hugmyndir en ekki á einstaklinga.

    Það er gott að hafa þetta í huga þegar rætt er um málefnið, fólkið og umræðuna.

  • Skóflustunga

    Í gær var tekin skóflustunga að nýrri viðbyggingu við Klettaskóla. Þetta þykir okkur alveg frábært því það mun gera Klettaskóla – sem er frábær skóli – enn betri. Því ber að fagna. Á vef skólans eru nokkrar myndir.

  • Biblíulestur í hádeginu

    Í Laugarneskirkju í hádeginu:

    Tíminn á milli páska og hvítasunnu eru gleðidagar. Á þessu tímabili ætlum við að íhuga sérstaklega gjafir lífsins sem við þiggjum úr Guðs hendi. Í hverju þriðjudagshádegi verður sóknarpresturinn með heitt á könnunni og opið hús, kl. 12.15 – 13, og leiðir samtal og biblíulestur út frá þema gleðidaganna.

    Kíktu í heimsókn ef þig langar að staldra við og eiga samtal sem vekur til umhugsunar um þakkarefni lífsins. Hlakka til að sjá þig!

  • Selirnir og sunnudagaskólinn

    Sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum 5. apríl 2015.

    Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

    Ein af skemmtilegustu upplifunum páskadags var sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum. Skemmtunin hófst með því að selunum fjórum var gefið og svo var haldið í tjaldið í garðinum þar sem við tók söngur, sögur og bænir undir handleiðslu presta og sunnudagaskólakennara úr Laugardalnum að viðbættum Þorvaldi Halldórssyni sem lék undir. Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

    Ps. Rúv mætti á staðinn.

  • Jón, séra Jón og skólareglurnar

    Ragnar Þór Pétursson kennari um skólana, sólmyrkvann, gleraugun og gjafirnar:

    Nær væri að nefna að fyrir utan hið augljósa, að þessar fráleitu reglur þarf að setja á höggstokkinn strax í dag, þá er ástandið í grunnskólum Reykjavíkur orðið pínlega vandræðalegt þegar kemur að öllum þessum misráðna graut tillitssemi og ofverndunar. Sjálft Skóla- og frístundasviðið undanþegur sjálft sig öllum reglum um hverju halda megi að börnum. Dómgreind miðstýringarvaldsins er ekki dregin í efa – aðeins dómgreindir allra annarra. Þannig gengst borgin sjálf fyrir því að vekja athygli á tilteknum bókum á hverri vertíð. Skiptir þar engu þótt bækur séu söluvara og börnin neytendurnir. Og það eru ekki sérlega margar vikur síðan börnum í reykvískum skólum var safnað saman til að hlusta á Friðrik Dór syngja lagið sem hann vildi að þau fjármögnuðu til Austurríkis.

    Það virðist ekki vera saman hvort Jón eða séra Jón mætir í skólana.