Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Kvennakirkjuvefur

    Kvennakirkjan er mögnuð. Í dag opnuðu þær nýjan vef. Það er falleg kveðja frá fallegum söfnuði á kvenréttindadegi.

  • Aukið samráð, meira gegnsæi

    Alþingishúsið

    Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir meðal annars:

    Áhersla verður lögð á að bæta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins, m.a. með auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, rafrænni stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa.

    Í yfirlýsingunni er líka talað um samráð. Orðið kemur alls átta sinnum fyrir í mismunandi samhengi og rætt er um samráð við aðila vinnumarkaðarins, sveitarstjórnir, samtök í sjávarútvegi, þá sem starfa í sjávarútvegi, þá sem starfa við matvælaframleiðslu, fagfélög heilbrigðisstétta og hagsmunaaðila í heilbrigðiskerfinu, hagsmunaaðila í menntakerfinu og sveitarfélög. (more…)

  • Það var þetta með frítímann

    Á mbl.is er áhugavert viðtal við Mark C. Taylor, prófessor við Columbia háskóla. Hann segir meðal annars:

    Hagfræðingurinn John Maynard Keynes hafi í fyrirlestri árið 1928 spáð því að eftir hundrað ár myndu allir aðeins þurfa að vinna 20 ár á viku. „Einu sinni var frítími mælikvarði á félagslega stöðu,“ segir hann. „Nú er það þannig að ef þú ert ekki tengdur allan sólarhringinn alla daga vikunnar ertu ekki mikilvægur. Sumir vinna því allt, allt of mikið. Aðrir vinna hins vegar allt of lítið. Þeir sem vinna of mikið eru flestir sérfræðingar á uppleið í efri stigum samfélagsins.“

    Taylor er aðalfyrirlesari á málþingi sem Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar heldur. Málþingið fjallar um stjórnleysi fjármálamarkaða og ósjálfbærni fjármálakerfisins og er öllum opið. Spennandi.

  • Gleðidagur 47: Börnin

    Börnin okkar
    Tómas Viktor, Jakob Agni, Unnur, Heiðbjört Anna, Guðrún María og Elísabet

    Aðra hverja helgi erum öll börnin okkar hjá okkur. Þá er hátíð í bæ og mikið líf í húsinu. Í október á síðasta ári fórum við með skarann okkar til ljósmyndara sem tók þessa góðu mynd af þessum undursamlega fallegu börnum. Það er mikilvægt að eiga fallegar myndir af börnunum sínum því góð ljósmynd er lykill að minningafjöld.

    Á fertugasta og sjöunda gleðidegi erum við glöð og þakklát fyrir börnin okkar öllsömul sem sem hvert og eitt bæta svo miklu við lífið og gera það dýpra, betra og magnaðra.

  • Gleðidagur 42: Fyrir alla sem ætla að ferðast í sumar

    Vísitasía í Bessastaðakirkju

    Í Hitchhikers Guide to the Galaxy segir frá samnefndri handbók sem er gagnlegur fylgifiskur allra ferðalanga um alheiminn. Þessi handbók geymir gagnlegar upplýsingar sem geta jafnvel bjargað lífi ferðalangsins og munu örugglega gera ferðina skemmtilegri.

    Í samtímanum er ferðahandbókin á formi snjallsíma sem ferðalangurinn virkjar með sim-korti til að hafa aðgang að margskonar upplýsingum sem henta ferðalöngum og geta gert ferðalögin eftirminnilegri og betri. Dave Caolo hefur tekið saman nokkur hagnýt ráð fyrir ferðalanga sem nota iPhone. Þau eiga að sjálfsögðu líka við þá sem nota snjallsíma af öðrum gerðum.

    Svo má líka nota snjallsímana til að lesa bækur, eins og þær sem Douglas Adams samdi um alheimsferðalanginn Arthur Dent og vini hans.

    Á fertugasta og öðrum gleðidegi þökkum við fyrir sumarið sem er í vændum og skemmtileg ferðalög.

    Myndin er af snjallsíma í Bessastaðakirkju.

  • Gleðidagur 39: Besti vinurinn

    I have conquered Asia, what will be my next conquest

    Tíkin Tobba er nýjasti fjölskyldumeðlimurinn. Hún er á fyrsta ári og enn að læra á lífið. Hún er full af leikgleði og finnst gaman að upplifa lífið, sérstaklega með börnunum. Það er gaman að uppgötva heiminn í fylgd með besta vini mannsins, sérstaklega þegar maður er lítill.

    Á þrítugasta og níunda gleðidegi þökkum við fyrir gæludýrin sem eru krydd í tilveru ótal margra fjölskyldna á Íslandi.

  • Gleðidagur 37: Bréf til morgundagsins

    Kæri morgundagur.

    Þegar við vöknuðum í morgun varstu ekki lengur þar. Þú hvarfst einhvern tímann á milli gærkvöldsins og þess þegar fuglarnir hófu upp sönginn í morgun og börnin okkar vöknuðu (að okkur fannst alltof snemma). Við söknuðum þín ekki vegna þess að við höfðum nóg að gera í morgunsárið og svo höfðum við líka daginn í dag. En dagurinn-í-dag rann úr greipum okkar kringum hádegið. Það var reyndar um það leyti sem við byrjuðum að gera lista yfir það sem við þurfum að gera saman. Við höfum heilmiklar áætlanir fyrir okkur tvö og þig kæri morgundagur, á morgun.

    Kær kveðja,
    Árni og Kristín

    Á þrítugasta og sjöunda gleðidegi viljum við deila með ykkur þessu bréfi til morgundagsins sem er þýtt og staðfært eftir bréfinu hans Brian Adams sem birtist á Medium. Það er gaman að hugsa um morgundaginn – og enn skemmtilegra að lifa hann.

  • Gleðidagur 30: Óttalaus og í góðu formi

    Ísafjörður

    Á dögunum lásum við skemmtilega bloggfærslu um foreldra, börn og hreyfingu. Hún fjallar um að ala upp óttalaus börn í góðu formi. Höfundurinn er einn af ketilbjöllusnillingunum sem Árni hefur lært mikið af. Hann nefnir fernt sem má hafa til umhugsunar og er sérlega viðeigandi nú þegar sumarið er að ganga í garð með öllum sínum dásamlegu stundum útivið:

    1. Sýndu gott fordæmi. Krakkar fylgjast með foreldrum sínum og vilja gera eins. Ef þú hreyfir þig reglulega leiðir það til þess að krakkarnir vilja líka hreyfa sig. 
    2. Leikur er lærdómsleið. Það má gera ýmisskonar æfingar allan daginn, til dæmis armbeygjur eða hnébeygjur meðan hafragrauturinn sýður á morgnana eða þegar þú ferð út að ganga með hundinn.
    3. Leyfðu krökkunum að horfast í augu við eigin ótta um leið og þú horfist í augu við þinn. Við skulum passa okkur á að ofvernda börnin ekki – það er til dæmis allt í lagi að príla í trjám 😉
    4. Skemmtið ykkur saman. Við skulum leyfa börnunum að vera börn og freista þess að gleyma okkur í leiknum með þeim – verða aftur börn sjálf.

    Þetta eru ágætar ábendingar sem minna okkur á að örlítið hnik getur haft mikil áhrif og aukið gleði og lífsgæði. Njótið þess að hreyfa ykkur í sumar! Á þrítugasta gleðidegi viljum við þakka fyrir sumarið og hlýjuna sem býður upp á svo mörg tækifæri til hreyfingar útivið.

    Ps. Kíkið líka á bloggfærslunar hans Guðjóns hjá kettlebells.is um leik-fimi og það að vera fyrirmynd. Hann lumar á góðum ráðum.

    Myndin með bloggfærslunni var tekin í sumarferðalag á Ísafirði fyrir nokkrum árum. Þá var heitt.

  • Gleðidagur 29: Allir vinna

    IMG_7359

    Dagurinn eftir kjördag er dagur sigra og sigurvegara. Á Íslandi er sú meginregla í pólitík að allir vinna. Hver sigrar að vísu með sínum hætti, en á endanum vinna allir. Þegar atkvæði úr öllum kjördæmum hafa verið talin liggur fyrir að sex flokkar eru á leið á þing.

    Allir vinna. Líka þeir sem töpuðu. Er það ekki björt sýn á tuttugasta og níunda gleðidegi?

    Ps. Þetta breytir auðvitað engu um það að sumir flokkar þurfa að ganga í sig og hefja uppbyggingarstarf, en samt 😉