Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Altarisganga – græn í garði Guðs

    Hér er form fyrir altarisgöngu sem er skrifuð til að nota í messu á Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar sem er haldinn 2. mars í ár. Þessi altarisganga gerir ekki kröfu um að vígð manneskja stjórni henni, heldur getur það verið unglingur eða leiðtogi í æskulýðsstarfinu. Ég birti hana sem tilbeiðsluráð hér á vefnum, til notkunar í kirkjunum.

    (more…)

  • Ég og Jesús

    Fimmtudagsmorgunn í Bústaðakirkju.

    Lífið og dauði mætast í kirkjunni.

    Í kapellunni eru ungir foreldrar – aðallega mæður – með nýfæddu börnin sín. Þær hittast á vikulegum foreldramorgni hér í kirkjunni. Þær koma saman til að deila reynslu, eiga samfélag, fá góð ráð. Börnin leika sér. Þær drekka kaffi og te og gott meðlæti sem þær leggja í púkk. Þær heyra sagt frá Jesú, þær biðja með börnunum sínum.

    Þetta er lífið í kirkjunni.

    Í kirkjunni er kista. Fulltrúar útfararþjónustunnar komu með hana. Hún var lögð á svartan pall og komið fyrir framan við altarið. Svo kom annað fólk með blóm og kransa í kirkjuna. Og kirkjan fylltist af ilmi blóma sem er eins og ilmur sorgarinnar. Því sorgin er ekki lyktarlaus eins og sumir halda. Hún er þrungin af lykt! Svo fylltist kirkjan af fólki eftir hádegið sem kom til að þakka fyrir lífið sem var lifað, rifja upp gamlar minningar, kveðja. Þau hlustuðu líka á orð um Jesú og báðu saman.

    Þetta er dauðinn í kirkjunni.

    Það er mikið um að vera í kirkjunni okkar í hverri viku. Hver viðburður segir okkur hluta af sögunni um kirkjuna. Saman myndar þetta eina heild og sýnir okkur kirkju sem er þar sem líf og dauði mætast. (more…)

  • Hvað merkja gjafir vitringanna?

    Gjafir vitringanna, gull, reykelsi og myrra, standa fyrir gæði af ólíkum toga sem við þurfum til að njóta lífsins til fulls. Efnislegt öryggi í formi skjóls og klæða, andlegan þroska og vöxt og leik skynfæranna sem gefa lífinu lit, bragð og tón. Lífið hvílir á þessum andlegu og líkamlegu gæðum og samfélagið sækir næringu til þeirra. Gjafirnar tákna auðlindir jarðarinnar sem við erum háð og njótum í þakklæti og með ábyrgð.

    Framtíðarhátíð, pistill á þrettánda degi jóla.

  • Við áramót

    Örlítil ljósadýrð á gamlárskvöldi.
    Örlítil ljósadýrð á gamlárskvöldi.

    Gleðilegt ár og takk fyrir árið sem senn er liðið. Guð blessi ykkur nýja árið.

  • Vaggan og varnarleysið

    Skólabörnin sem heimsóttu Vídalínskirkju á aðventunni voru með það á hreinu hvers konar staður fjárhús er: Heimili kinda og skjól fyrir búfénað. Varla staður fyrir manneskjur að dveljast á, hvað þá fyrir lítið barn að koma í heiminn. Samt var fjárhús fyrsta heimili Jesú.

    Þarna varð jólasagan tilefni til samtals um ólíkar aðstæður barna og þá staðreynd að ekki eiga allir heimili eða öruggt skjól. Það þekktu krakkarnir líka, úr fréttum utan úr heimi en líka úr nærumhverfi sínu.

    Sagan af Maríu, Jósef og Jesúbarninu lifnar við um hver jól. Jólasagan rúmar andstæður og miðlar heimssýn þar sem fulltrúar hinna hæstu og hinna lægstu koma fyrir. Persónur og leikendur koma frá himni og jörðu og tilheyra efstu stéttum lærdómsmanna, fjárhirðum af lægstu stéttum samfélagsins, fólki á ferð fjarri heimahögum og heimamönnum.

    Inn í þessar aðstæður fæðist Jesús sem í kristinni trú tjáir nærveru Guðs í heiminum með alveg sérstökum hætti. Barnið í jötunni birtir varnarleysi manneskjunnar, sem er lítil og lifir bara vegna tengsla og kærleika. Þegar við orðum jólaundrið með þeim hætti að Guð hafi orðið manneskja í Jesú Kristi felur það í sér róttæka sýn á valdaframsal hins hæsta og algjöra samstöðu með manneskjunni í viðkvæmustu aðstæðum hennar.

    Jólin eru tími tilfinninganna og við nálgumst jólaundrið frekar með hjartanu en höfðinu. Leyndardómur og kraftur jólasögunnar felst í því að á hverjum tíma speglum við okkur sjálf í henni og sjáum það kallast á við hugmyndir okkar um það sem er ekta, alvöru og varanlegt.

    Við erum alla ævina að vinna með tilfinningar okkar. Verkefni fullorðinsjólanna er ekki síst að vinna með tilfinningar bernskujólanna, vinna úr minningum og upplifunum sem varpa ljósi á jólin hér og nú og móta upplifun okkar og lífið allt. Í tilfinningavinnunni horfumst við í augu við varnarleysið sem felst í því að vera manneskja.

    Jólatíminn er sérstakastur tíma vegna þess að þá fæddist Jesús. Jólin eru tími til að horfa til hans, sem tjáir lífið og nærveru Guðs í heiminum á einstakan hátt en líka þannig að allir fá hlutdeild í henni í varnarleysi sínu. Töfrar jólanna lifna og snerta okkur þegar hjartað okkar fær að vera vaggan hans.

    Þessi hugvekja var skrifuð fyrir mbl.is og birtist þar á aðfangadagskvöldi.

  • Jóladagatalið: Agnes

    Kærleikurinn er afl.

  • Jóladagatalið: Þóra Björg

    Kærleikurinn er litla Jesúbarnið og tilfinningin fyrir því sem við eigum sameiginlegt.

  • Jóladagatalið: Ármann

    Kærleikurinn er pólitískur.

  • Rauð, græn og hvít

    Jólin eru tími tákna og tilfinninga. Táknin eiga sér ólíkan uppruna og þau eiga sér líftíma. Tilfinningarnar eru líka lífsförunautur sem tekur breytingum. Þetta tvennt mætist í jólunum á hverju ári. Eitt af því sem við stöndum alltaf frammi fyrir þegar jólin nálgast, er að vinna þannig með þetta tvennt þannig að það varpi ljósi á inntak jólanna hér og nú.

    Úr leiðara jólablaðs Kirkjuritsins 2013

  • Jóladagatalið: Guðrún María

    Ást og gleði, það er málið.