Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Stráið og fingurgómarnir

    Morgunbæn á Rás 1, föstudaginn 16. janúar.

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að nóttin hafi verið þér góð og að þú hafir hvílst vel.

    Ég skoðaði mynd um daginn. Sumarmynd af barni sem virti virða fyrir sér strá. Ósköp hversdagslegt strá eins og vex í hverjum garði alveg án þess að nokkur hafi milligöngu um það. Barnið horfði á stráið og snerti það með fingurgómunum.

    Manst þú hvernig tilfinning er að velta strái og öxum milli fingurgómanna? Manstu eftir áferð grassins sem grær undir húsveggnum? Eru fingur okkar sem eldri erum kannski kunnugri áferð lyklaborðsins á tölvunni eða snjallsímanum? (more…)

  • Tvö ákvæði

    Sigríður Guðmarsdóttir:

    Rétturinn til trúfrelsis er óendanlega mikilvægur réttur til tjáningar og lífssýnar. Ég vil geta farið í kirkju og tjáð mig opinberlega um trú mína og lífssýn án þess að sæta fjársektum, fangelsisvist eða ógnunum. En ég virði líka rétt annarra til að finnast lífsskoðanir mínar fáránlegar og að tjá þá skoðun með myndasögu og texta án þess að sæta fjársekt, fangelsisvist eða ógnunum.

    Já.

  • Velkominn

    Morgunbæn á Rás 1, fimmtudaginn 15. janúar.

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að nóttin hafi verið þér góð og að þú hafir vaknað vel í dag.

    Hvað leitar á hugann á morgnana? Eru það verkefni dagsins? Væntingarnar til hans? Hvað vilt þú að komi út úr þessum degi? Hvað langar þig að upplifa í dag? Hvernig vilt þú mæta öðrum og hvernig viltu að aðrir mæti þér?

    Mig langar að lesa fyrir þig söguna af því þegar Jesús mætti tveimur bræðum í fyrsta sinn. Það eru þeir Pétur og Andrés sem hann hitti við Galíleuvatn:

    Jesús gekk með fram Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið en þeir voru fiskimenn. Hann sagði við þá: “Komið og fylgið mér og mun ég láta ykkur menn veiða.” Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum. Matt 4.18-25

    Hann bað þá að fylgja sér. Bauð þá velkomna í hópinn og fól þeim verkefni. Eins biður hann okkur að fylgja sér. Og felur okkur verkefni. Hvert er verkefnið? Að gera heiminn örlítið betri í dag en hann var í gær, með nærveru, með tengslum við annað fólk. Með því að vera við. Eins og við erum. Ein leið til þess er að brosa til fólksins sem þú mætir í dag, hvort sem þú þekkir þau eða ekki.

    Í dag óska ég þér þess að þú finnir þig velkominn hvarvetna sem þú kemur. Í dag óska ég þér þess að þú látir aðra finna sig velkomna þegar þeir koma til þín.

    Við skulum biðja saman:
    
Góði Guð,
    hjálpaðu mér að skilja hvernig annað fólk er
    bara alveg eins og ég
    og bera virðingu fyrir því.
    Hjálpaðu mér að skilja hvernig annað fólk
    er öðruvísi en ég
    og bera virðingu fyrir því.

    Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

    Faðir vor, þú sem ert á himnum.
    Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
    verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
    Gef oss í dag vort daglegt brauð.
    Fyrirgef oss vorar skuldir,
    svo sem vér og fyrirgefum
    vorum skuldunautum.
    Og eigi leið þú oss í freistni,
    heldur frelsa oss frá illu.
    Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
    að eilífu.
    Amen.

    Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.

  • Saltið og síðasti söludagurinn

    Morgunbæn á Rás 1, miðvikudaginn 14. janúar.

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir átt góða nótt og vaknað endurnærður.

    Um daginn sótt ég nokkur krydd til að nota í uppáhaldsrétt. Þau eru ekki notuð á hverjum degi og þegar ég kíkti á baukana, þar sem síðasti söludagur er skráður, kom þetta í ljós: (more…)

  • Þegar okkur fallast hendur

    Morgunbæn á Rás 1, þriðjudaginn 13. febrúar 2015.

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður. Framundan er dagur sem líkast til er fullur af verkefnum eins og aðrir dagar. Kannski eru þau spennandi og vekja með þér tilhlökkun. Kannski eru þau erfið og vekja með þér ugg.

    Mig langar að lesa fyrir þig texta um Elía spámann. Hann átti fyrir höndum langa leið og honum féllust hendur. (more…)

  • Dagur vonar og væntinga

    Morgunbæn á Rás 1, mánudaginn 12. janúar 2015.

    Góðan dag kæri hlustandi.

    Ég heilsa þér í upphafi vinnuvikunnar og vona að nóttin hafi verið þér góð.

    Máltækið segir okkur að mánudagar séu til mæðu en kannski eru þeir fyrst og fremst dagar vonar og væntinga. Það er gott að ganga til móts við nýja viku með von í hjarta og væntingar um það góða sem dagarnir geta falið í sér. Það eflir okkur til góðra verka. Þannig líkjumst við líka börnunum sem eru jafnan opin gagnvart heiminum og mannfólkinu. (more…)

  • Rautt á hvítu

    Rautt á hvítu

    Rautt á hvítu. Mynd 12 af 365.

  • Tíu ráð til að verða barnslegri og nálgast þannig guðsríkið

    Árni:

    Kjarninn í þeim er kannski tvíþættur. Tvöfalda barnsboðorðið:

    Þú skalt vernda börnin og setja þau í forgang, því að þau skipta öllu máli. Þeirra er líka Guðs ríkið. Og annað er þessu líkt: Þú skalt vernda barnið sem býr innra með þér. Því að lykillinn að góðu lífi og að Guðs ríki er að vera í góðum tengslum við sitt innra barn.

    Prédikun í Bústaðakirkju á fyrsta sunnudegi eftir þrettánda.

  • Lestur á 33 snúningum

    Sigurður Pálsson:

    Eitt lærði ég tiltölulega fljótt: að lesa ljóðtexta hægt. Það er ekki einhvers konar vingjarnleg ráðlegging sem engu máli skiptir, það skiptir öllu máli.

    Gömlu plötuspilararnir voru með mismunandi stillingar, ein fyrir 33-snúninga plötur, önnur fyrir 45-snúninga (og ein fyrir gömlu 78-snúninga plöturnar).

    Prófið að setja 33-snúninga plötu á hraðann 45. Það heyrist vissulega eitthvað en það er ekki tónlist. Sama gerist ef þið lesið ljóðtexta á 45. Þið sjáið einhver orð á stangli en ekki merkingu, tilfinningu.

    Einfaldur prósi, venjulegar glæpasögur, framvindudrifnar línusögur skulu lesnar á 45, það hefur ekkert upp á sig að lesa þær á 33.

    Ég hygg að mikið af misskilningi fólks gagnvart ljóðtextum sé í raun innstillingaratriði, mótttökutækin eru vitlaust stillt. Leshraðinn er vitlaus. (Táningabók, s. 92-93)

    Ætli þeð megi ekki heimfæra þessa líkingu skáldsins á Biblíuna. Suma texta hennar má lesa á 45-snúningum, aðra þarf að lesa á 33-snúningum. Það mætti kannski líka hugsa þetta í samhengi við internetið þar sem texti er stundum skimaður en ekki lesinn. Mætti jafna slíku við 78-snúninga lestrarhraða?

  • Saga sóknargjalda

    Þessa dagana er heilmikið rætt um sóknargjöld. Í því samhengi má halda til haga yfirliti Sigríðar Guðmarsdóttur yfir sögu sóknargjaldanna frá 1096 til 1987. Þetta er gott yfirlit sem varpar ljósi á þennan tekjustofn trú- og lífsskoðanafélaga á Íslandi.