Morgunbæn á Rás 1, föstudaginn 16. janúar.
Góðan dag kæri hlustandi.
Ég vona að nóttin hafi verið þér góð og að þú hafir hvílst vel.
Ég skoðaði mynd um daginn. Sumarmynd af barni sem virti virða fyrir sér strá. Ósköp hversdagslegt strá eins og vex í hverjum garði alveg án þess að nokkur hafi milligöngu um það. Barnið horfði á stráið og snerti það með fingurgómunum.
Manst þú hvernig tilfinning er að velta strái og öxum milli fingurgómanna? Manstu eftir áferð grassins sem grær undir húsveggnum? Eru fingur okkar sem eldri erum kannski kunnugri áferð lyklaborðsins á tölvunni eða snjallsímanum?
Mig langar að lesa fyrir þig svar Jesú við spurningunni um það hver er mestur í himnaríki.
Um þetta leyti komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hver er mestur í himnaríki?“
Jesús kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: „Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.Svarið finnum við semsagt hjá börnunum. Kannski er verið að minna okkur á undur og mikilvægi uppgötvunarinnar. Kannski er himnaríki einmitt þegar við rennum fingrum gegnum grasið, finnum áferðina og um leið nærveru þess sem skapar og viðheldur alla tíð.
Við skulum biðja:
Góði Guð. Þú hvetur okkur til að vera eins og börnin. Viltu hjálpa okkur að upplifa það í dag, að líkjast þeim og líkjast líka Jesú í því sem við tökum okkur fyrir hendur.
Viltu opna augu okkar fyrir fegurðinni í því smáa í heiminum og gera okkur mótttækileg fyrir þinni nærveru, hvar sem við erum.
Viltu færa frið og kærleika þangað sem ófriður ríkir og miskunnsemi þar sem við dæmum hvert annað. Amen.Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:
Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.