Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Skynsemisandóf eða trúarleg nauðsyn?

    Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju:

    Að hafna einfeldningslegum hugmyndum um Guð er ekki andóf gegn trú heldur skynsamleg og trúarleg nauðsyn. En að halda að Guð sé ekki til vegna þess að maður finnur ekki Guð er ámóta óskynsamleg og niðurstaða geimfarans sem sá ekki Guð í geimferð og dró þá ályktun að Guð væri ekki til.

    Nákvæmlega.

  • Vísindin, skynsemin og Guð

    Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Neskirkju:

    Vísindin eru ekki í andstöðu við Guð, hann er þar að finna. Skynsemin er ekki í andstöðu við Guð, hún er okkur af Guði gefin. Þó skynsemi og vísindi séu gagnleg verkfæri til að lýsa og greina eru þau ekki upphaf og endir mannlegrar tilveru. Djúpt í sálu hvers manns býr þráin eftir tilgangi, elsku og samfélagi og öll erum við leitandi á þeirri vegferð.

    Vel orðað.

  • Biblíublogg 14: Guð í rauðri skikkju

    Eitt af því sem siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther lagði áherslu á var að Biblían væri þýdd á móðurmálið. Hann sinnti þessu þýðingarstarfi sjálfur, þýddi Nýja testamentið á meðan hann var í útlegð í kastalanum í Wartburg. Það kom út árið 1522. Svo hélt hann áfram þýðingarstarfinu í samvinnu við aðra eftir að hann sneri aftur til Wittenberg. Biblían öll kom svo út árið 1534.

    Myndin hér að ofan sýnir eina síðu úr Biblíu Lúthers, þetta er upphaf fyrsta kafla fyrstu Mósebókar þar sem við lesum fyrri sköpunarsöguna. Hér má sjá fallegar litmyndir sem eru bæði til prýði og skýringar. Heilsíðan til vinstri sýnir Guð í rauðri skikkju sem er að móta heiminn. Myndin kallast á við sjö daga skemað sem er lýst í sögunni. Hún auðveldar skilning og lestur og vitnar líka um heimsmynd 16. aldarinnar.

  • Það sem skiptir máli er að bjarga fólki í neyð

    Toshiki Toma, prestur innflytjenda:

    Ég veit að endurskoðun Dyflinnarsamstarfs Íslands við ESB er komin á borð alþingismanna. Af því tilefni, vil ég skora á þá sem geta breytt kerfinu, að einblína á að styrkja flóttamannastefnu landsins og beina sjónum að því sem skiptir máli, þ.e. að bjarga fólki í neyð og virða alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sínar, en ekki að fylgja Dyflinnarreglugerðum í blindni.

    Toshiki er starfsmaður á plani. Hann veit hvað hann er að tala um.

  • Föstudagsdans

    Guðrún Ögmundsdóttir, formaður landsnefndar UN Women á Íslandi:

    Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Í ár ætlum við að dansa af krafti fyrir allar þær konur og stúlkur sem upplifað hafa ofbeldi og sýna í verki að okkur stendur ekki á sama […]

    Byltingin hefst klukkan 12, föstudaginn 13. febrúar, í Hörpu í Reykjavík, í Hofi á Akureyri, í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, íþróttahúsinu í Neskaupstað, Hljómahöllinni í Reykjanesbæ og í Menntaskólanum á Ísafirði. Mætum, dönsum og krefjumst þess að mannréttindi kvenna og stúlkna séu virt.

    Í fyrra dönsuðu þrjú þúsund gegn ofbeldi, vöktu athygli á vandanum og sýndu samstöðu. Í ár skulum við vera fjögur þúsund hið minnsta.

  • Biblíublogg 12: Af máli má manninn þekkja

    Síraksbók

    Síraksbók er ein af apokrýfu bókunum í Biblíunni. Þetta er spekirit sem geymir siðaboð. Hún kallast á við Orðskviðina í Gamla testamentinu. Í 27. kafla hennar er þessi áhugaverði texti um það hvernig orðin okkar afhjúpa það hver við erum.

  • Biblíublogg 11: Gengið um regnbogann

    Your rainbow panorama

    „Og Guð sagði: „Þetta er tákn sáttmálans fyrir allar ókomnar aldir sem ég stofna til milli mín og ykkar og allra lifandi skepna sem hjá ykkur eru. Boga minn hef ég sett í skýin. Hann skal vera tákn sáttmálans milli mín og jarðarinnar. Þegar ég færi ský yfir jörðina og boginn sést í skýjunum mun ég minnast sáttmálans milli mín og ykkar og allra lifandi skepna, alls holds, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði sem tortímir öllu lífi. Hverju sinni sem boginn stendur í skýjunum mun ég sjá hann og minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi vera, alls sem lifir á jörðinni.“ 1. Mós 9.12-16

    Regnbogagangur

    Ofan á ARoS listasafninu í Árósum í Danmörku er nýtt listaverk eftir Ólaf Elíasson sem heitir Your rainbow panorama. Verkið er 150 metra langur gangur sem er þriggja metra breiður og stendur á súlum sem eru 3.5 metra háar. Ytri og innri veggir þess eru úr gleri í öllum regnbogans litum. Það er tilkomumikið að horfa á listaverkið að utan í margskonar birtu og sjá fólk ganga um það. Enn magnaðra er þó að stíga inn í regnbogann og leyfa honum að móta sýnina á umhverfið og skynjunina á heiminum.

    Rýmið og skynjunin

    Listamaðurinn lýsir verki sínu svona: „Your rainbow panorama opnar á samtal við byggingarlistina og styrkir það sem við þekktum fyrir, sem er sýnin á borgina. Ég hef búið til rými sem strokar úr mörkin milli þess sem er fyrir innan þess sem er utan við – þar sem fólk verður óöruggt um það hvort þau hafa stigið inn í listaverkið eða eru enn í safninu. Það óöryggi skiptir mig máli því það hvetur fólk til að hugsa út fyrir mörk hins hefðbundna rýmis sem við hreyfum okkur í og það opnar á annars konar skynjun.“

    Tákn himinsins

    Þegar gengið er um regnbogann opnast hugurinn fyrir nýrri skynjun sem getur allt eins verið trúarleg og kallast á við hugmyndina um regnbogann sem tákn um sáttmálann milli Guðs og manns. Þannig getur gangan um regnboga Ólafs Elíassonar orðið að trúargöngu, kannski eins konar pílagrímsgöngu þar sem pílagrímurinn tekur sér stöðu ofan við borgina og horfir á landslag bygginganna, fólkið og umferðina, íhugar það flóðin og það erfiða í lífinu og það falleg samskipti og það góða í lífinu, í fullri meðvitund um að við hvílum traust á loforðinu um að sáttmálinn haldi og Guð muni vel fyrir sjá.

    Myndir af regnboganum.

  • Þetta er nú meira veðrið

    Þetta er nú meira veðrið

    Mynd 41 af 365. Þetta er nú meira veðrið.

  • Biblíublogg 10: #emojibiblía

    Emojibiblía


    Það eru ýmsar leiðir til að miðla Biblíusögum í samtímanum. Ein er sú að nota emoji-tákn. Hér að ofan má sjá tilraun til að segja fyrri sköpunarsöguna með þessum hætti. Hvaða sögu myndir þú vilja segja? Deildu henni á twitter og merktu með #emojibiblía.

  • Ekki grafa talentuna

    Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur:

    Við gröfum okkar talentu eða trúna líka í jörðu, ef við geymum orð Guðs innan veggja kirkjunnar og gleymum því þar. Við erum öll flytjendur fyrirgefningar orðs Krist og eigum að láta orð hans hugga og styrkja okkur og aðra.

    Köllun kirkjunnar í samfélaginu og almennur prestsdómur í guðfræðilegri hnotskurn. Með guðfræðilegu orðfæri.

    Á mannamáli:

    Kirkjan á að vera sýnileg í samfélaginu og virk í umræðunni um málefni dagsins. Við eigum öll að sinna öðrum og biðja fyrir þeim, ekki bara þau sem fá borgað fyrir það.