Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Einhverju kannski stolið, skömmum kirkjuna

    Sigurvin Lárus Jónsson og Sunna Dóra Möller á Vísi:

    Árni Björnsson þjóðháttafræðingur viðurkennir að „helsta röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember er mánaðarnafnið” (1993:321), sem og sú staðreynd að fæðingarhátíð frelsarans tók á sig heitið jól á norðurlöndum.

    Hvað vitum við annars um heiðin jól í desember? Sigurvin Lárus og Sunna Dóra bæta við:

    Hverjar sem orðsifjar hugtaksins eru til forna er ljóst að heimildir okkar um forn-heiðna jólahátíð eru næsta engar. Við vitum ekki hvort slík hátíð var útbreidd, hvenær hún var haldin eða hvert inntak hennar var. Það sem við vitum er að orðsifjar hugtaksins jól tengjast fornu tímatali á norðurslóðum.

    Það er semsagt ekki vitað hverju var stolið því hátíðin er ekki þekkt. En orðið er þekkt. Snýst þessi kristni-sem-stal-jólunum kannski bara um orðið „jól“ en ekki hátíðina sem slíka?

    Er það ekki áhugavert í ljósi þess að kristnir menn á Íslandi hafa haldið jól á sama tíma og kristnir menn í útlöndum. Ekki nota útlendingarnir orðið jól um sína hátíð. Eru okkar jól þá stolin en þeirra ekki?

    Sigurvin og Sunna komast að þessari niðurstöðu:

    Fullyrðingar þess efnis að kristnir menn hafi stolið jólunum úr heiðnum sið eru áróður en ekki staðreyndir, eins og ítrekað er staðhæft í umræðunni.

    Sammála.

    Að lokum þetta: Ef einhverjum finnst úr lausu lofti gripið að segja að jólin séu kristin hátíð gildir það ekki síður um þá fullyrðingu að þau séu heiðin hátíð. Þegar upp er staðið eru jólin hátíð sem bera með sér þá merkingu sem við hvert og eitt leggjum í hana út frá lífi okkar og reynslu. Líf okkar, saga og reynsla er ólík, virðum það og eigum gleðileg jól.

  • Rammpólitísk kirkja I

    Herdís Þorgeirsdóttir skoraði á kirkjuna í ræðu á aðventukvöldi í Áskirkju fyrr í mánuðinum. Hún sagði meðal annars:

    Ég vona að kirkjan hiki ekki heldur stígi fram og umvefji það samfélag sem hún vill þjóna, sameini sína rödd þeirra sem enga hafa. Kærleikur og réttlæti eiga að ráða för en ekki bókstafur og blind lagahyggja.

    Hún kallar eftir pólitískari kirkju sem tekur skýrari afstöðu í pólitískari málum. Í því samhengi horfir Herdís meðal annars til Frans páfa í Róm sem hefur talað með skýrri röddu þegar kemur að ýmsum réttlætismálum.

    Þetta er ekki nýtt kall. Fyrir ári síðan fjallaði sr. Sigurvin Lárus Jónsson um pólitíska kirkju í prédikun. Þar sagði hann:

    [Í] mínum huga er óhugsandi að vera ópólitískur prestur, þar sem boðskapur Jesú frá Nasaret er hápólitískur. Jesús krefur okkur um réttlátt samfélag og setur í öndvegi alla þá sem standa höllum fæti í samfélagi manna; sjúka, synduga, útlendinga, fátæka, hvern þann sem handhafar hins veraldlega valds telja utangarðs eða beita valdi.

    Kannski má orða þetta þannig að kirkjan hljóti að vera pólítísk því hún fylgir Jesú sem lét sig varða um manneskjuna, aðstæður hennar og kjör. Það þýðir þó ekki að hún þurfi að vera flokkspólitísk.

    Á næstu dögum ætlum við að rýna aðeins í þetta og skoða dæmi um mál sem kirkjunnar þjónar hafa rætt í prédikunum sínum.

    Fylgist með.

  • Herra Jólaefi og fröken Fullkomnunarárátta

    Okkur hjónunum var boðið að skrifa jólahugvekju á Bleikt.is. Úr varð saga af hr. Jólaefa og frk. Fullkomnunaráráttu sem líka fjallar um hin fyrstu jól:

    Þetta voru jólin þegar jólagestirnir voru ekki prúðbúnir fjölskylduvinir og ættingar heldur dasaðir hirðar sem komu beint úr haganum eftir langan vinnudag og þrír sveittir vitringar sem höfðu ferðast langan veg á úlföldunum sínum.

  • Trúin á tjaldinu – jólahefti Kirkjuritsins 2014

    Kirkjuritið, jól 2014
    Trúin á tjaldinu er þema jólatölublaðs Kirkjuritsins.

    Kirkjuritið er komið út. Að þessu sinni beinum við kastljósinu að trúnni á hvíta tjaldinu og fjöllum um verðlaunamyndir, Jesúmyndir og myndir sem hafa áhrif á áhorfandann. Við birtum einnig nokkrar greinar í ritinu, eina uppskrift, jólaljóð og sitthvað fleira. Margar hendur vinna létt verk og það eru alltaf margir sem koma að útgáfu hvers tölublaðs Kirkjuritsins.

    Okkur langar að þakka öllum sem lögðu okkur lið við útgáfuna. Við þökkum Gunnari J. Gunnarssyni, Arnfríði Guðmundsdóttur, Ásgrími Sverrissyni, Sigríði Pétursdóttur, Sigurði Árna Þórðarsyni, Ragnhildi Bjarkadóttur, Svavari Alfreð Jónssyni, Sigríði Gunnarsdóttur, Sigfinni Þorleifssyni, Haraldi Hreinssyni, Sigurjóni Árna Eyjólfssyni, Kristjáni B. Jónassyni, Steinunni Jóhannesdóttur, Gunnari Kristjánssyni, Hildi Eir Bolladóttur og Sindra Geir Óskarssyni. Þau lögðu öll efni til ritsins.

    Við þökkum Guðnýju Hallgrímsdóttur, Jóni Ásgeiri Sigurvinssyni og Sigurjóni Árna Eyjólfssyni sem sitja í ritnefnd Kirkjuritsins. Jón Ásgeir fær sérstakar þakkir fyrir snarpan og vandaðan prófarkarlestur. Edda Möller er framkvæmdastjóri Kirkjuritsins, hún heldur utan um budduna og sér um praktísk mál. Það erum við mjög þakklát fyrir. Síðastur en ekki sístur er svo Brynjólfur Ólason. Hann hannaði ritið og setti það upp. Við þökkum honum fyrir að skapa svona fallega umgjörð utan um ritið okkar.

    Höfundum, aðstandendum og lesendum öllum þökkum við gott samstarf á árinu sem er að líða og sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól.

  • Jólastjarnan boðar sátt

    Jólastjörnur á Lúsíumarkaðinum í Berlín
    Jólastjörnur á Lúsíumarkaðinum í Berlín

    Eitt af uppáhaldsjólalögunum okkar er Jólastjarnan eftir Braga Valdimar Skúlason. Þar sækir hann í smiðju jólafrummyndanna um hlýju og öryggi, ljós í myrkri, börn og fjölskyldur. Jólastjörnunni sem boðar sátt og breiðir út hlýju, er sungið lof en líka er spurt hver huggi þann sem skærast skín. Við rákumst á þessar fallegu jólastjörnur á Lúsíumarkaði í Kulturbrauerei í Berlín á dögunum. Þær skína skært eins og jólaljósin fallegu á aðventunni á Íslandi.

  • Þegar skammdegið er mest

    Þegar skammdegið er mest
    kveiki ég aðventuljós og minnist

    jólanna sem nálgast …

    Jesú sem fæddist í Betlehem …

    boðskapar englanna um frið á jörð …

    stjörnunnar sem lýsir okkur til Jesú

    Megi ljós aðventunnar minna mig á ljós himnanna.

    Á öðrum sunnudegi í aðventu langar okkur að deila með þér þessari bæn úr Bænabók barnanna. Guð gefi þér góðan dag.

  • Bráðum

    Aðventan kom með látum þetta árið, með óveðri og aflýstum aðventukvöldum. Lætin eru skemmtileg andstæða við innreið Jesú í Jerúsalem sem einkenndist öðru fremur af látleysi. Aðventan er tími eftirvæntinganna, nú hefst undirbúningurinn fyrir alvöru, nú hefst biðin og allt miðar að stundinni helgu þann tuttugusta og fjórða.

    Okkur finnst sálmurinn hans Arnar Arnarsonar sem er tónlistarstjóri Fríkirkjunnar í Hafnarfirði ná vel að fanga kjarna þess tíma sem aðventan er. Þess vegna viljum við deila honum á blogginu í dag.

    Þótt dauf sé dagsins skíma
    og dimma okkur hjá,
    við bíðum bjartra tíma
    því bráðum kemur sá
    sem ljós af ljósi gefur,
    nú lífið sigrað hefur!
    Við lofum hann Guðs son
    sem gefur trú og von.

    Við fögnum því við fáum
    að halda heilög jól.
    Hann kom frá himni háum
    og hann er lífsins sól.
    Herskarar engla´ og manna
    nú syngja „Hósíanna!“.
    Við lofum soninn þann
    sem boðar kærleikann.

    Okkur langar, á fyrsta mánudegi aðventunnar, að bera fyrir lesendur bloggsins spurningu. Hún er þessi: Hvaða vonir berð þú í brjósti á aðventunni? Þið megið svara hér á vefnum eða senda okkur línu á arni (hjá) p2.is.

    Takk fyrir að lesa.

  • Tíu hversdagsleg þakkarefni og einn kalkún

    Þakkargjörðarkjúklingurinn Cobbler náðaður
    Þakkargjörðarkjúklingurinn Cobbler var náðaður af Obama Bandaríkjaforseta. Mynd: Pete Souza.

    Í dag er þakkargjörðardagur í Bandaríkjunum. Í tilefni hans viljum við bera fram nokkur þakkarefni:

    1. Að vakna snemma – því við eigum börn og elskum þau.
    2. Húsið sem þarf að þrífa – því við eigum heimili.
    3. Óhreina þvottinn – því við eigum föt til að klæðast.
    4. Óhreinu diskana og glösin – því við höfum nóg af mat.
    5. Matarleifarnar undir eldhúsborðinu – því fjölskyldan okkar borðar saman.
    6. Innkaupin – því við höfum peninga til að kaupa mat.
    7. Klósettin sem þarf að þrífa – því við búum við gott hreinlæti.
    8. Hávaðann á heimilinu – því börnin okkar skemmta sér.
    9. Endalaust margar spurningar – því börnin okkar eru fróðleiksfús.
    10. Háttatíma þegar við erum lúin og þreytt – því við erum ennþá á lífi.

    Fyrir hvað ert þú þakklát í dag?

    Chelsea Lee Smith samdi þessa þakkarbæn og birti á blogginu sínu Moments A Day Við fundum þetta hjá netmunkunum í Unvirtous Abbey sem eru óþrjótandi uppspretta.

  • Ha, bloggandi kirkja?

    Bloggið er komið aftur. Kannski fór það aldrei heldur fékk bara minni athygli með tilkomu samfélagsmiðlanna. Við hjónin höfum bloggað um árabil og hér á þessum vef í rúm fjögur ár. Við höfum reyndar slegið svolítið í klárinn á þessum vef. Það er svo gaman að blogga.

    Við ætlum líka að prófa svolitla nýsköpun í bloggi. Í vikunni opnuðum við nýjan vef fyrir Laugarneskirkju. Hann er frábrugðinn þeim fyrri, þjónustan í kirkjunni er sett í fókus, myndir eru notaðar til að miðla kirkjustarfinu og svo þarna blogg. Hugmyndin er semsagt sú að Laugarneskirkja verði bloggandi kirkja.

    Nýi vefurinn er á laugarneskirkja.is. Það væri gaman að fá þig í heimsókn, á vefinn og í kirkjuna.

  • Viltu kaupa ofurhetjublöð?

    „Þú færð eitt á hundrað krónur, en fimm fyrir tvö hundruð,“ sagði ungi maðurinn sem var kominn í Laugarneskirkju til að selja myndasögublöð um Ofurmennið og Köngulóarmanninn. Blöðin eru á íslensku og vel með farin en hann var búinn að lesa þau og vildi gjarnan að einhver annar fengi að njóta. Árni keypti af honum þrjú blöð sem munu án efa gleðja áhugamann um ofurhetjur á heimilinu.

    Viðskiptavit í safnaðarheimilinu, pistill á Trú.is.