Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • 24 vonarberar

    „Þau sem bera von fyrir aðra og eru vonarberar samfélags, eru einnig fuglarnir sem syngja í dimmunni fyrir dögun“. Þetta skrifar Gunnar Hersveinn heimspekingur. Kirkjan vill vera vettvangur sem miðlar von, hugrekki og gleði, með því að setja vonarboðskapinn í öndvegi í jóladagatalinu.

    Jóladagatalið í ár ber yfirskriftina Að vænta vonar. Þar deila 24 vonarberar sýn sinni og reynslu af voninni með okkur. Fylgist með frá byrjun!

  • Stjórnlagaþingmaðurinn Arnfríður

    Þetta er Arnfríður Guðmundsdóttir. Fyrir stundu var tilkynnt að hún væri einn af tuttugu og fimm stjórnlagaþingmönnunum sem taka til starfa eftir áramót. Við óskum henni og hinum 24 til hamingju. Okkur líst vel á hópinn. Við væntum mikils af þeim.

  • Að vænta vonar

    Nýtt kirkjuár gengur í garð með aðventunni. Á fyrsta sunnudegi í aðventu er stóra þemað eftirvæntingin og vonin eftir því sem jólin færa okkur – fæðing Jesúbarnsins og friður með mannkyninu sem Guð elskar.

    Það er létt að skilja hvernig vonin tengist börnum – því börnin bera með sér fyrirheit um framtíð, vöxt og þroska. Í flottu viðtali við Halldóru Geirharðsdóttur leikara sem birtist í sunnudagsblaði Moggans í dag, segir hún frá lífinu sem hún kynntist í Úganda, þar sem stríð og átök hafa rústað lífi íbúanna og sett daglega tilveru úr skorðum. Þar bíður gríðarmikið uppbyggingarstarf sem beinist ekki síst að yngstu kynslóðinni, með þeirri von að hægt verði að leggja grunn að betra og öruggara samfélagi framtíðarinnar.

    Halldóra deilir með okkur hvernig aðstæður barna í heiminum eru að vissu leyti innblástur sýningarinnar um Jesú litla, sem nú er sýnd í Borgarleikhúsinu. Sýningin kennir okkur um leið hvers vegna við höldum jólin.

    …þetta er í raun tími til að fagna því að börn fæðast, að þau eru framtíðin og við eigum að vera þakklát fyrir það að hvert einasta barn sem fæðist er nýtt tækifæri fyrir heiminn.

    Þetta gildir um Jesúbarnið og þetta gildir um öll börn sem koma í heiminn. Við sjáum í Jesúbarninu hvað lítil og varnarlaus börn eru kröftugur vitnisburður gegn því sem er ógnandi og yfirþyrmandi.

    Aðventan er tíminn til að íhuga þetta.  Við skulum íhuga með hvaða hætti vonin vitjar okkar, í hvaða aðstæðum sem við finnum okkur.  Aðventan nærir vonina eftir að lífið haldi áfram, að allir dagar séu góðir dagar, að myrkrið víki fyrir ljósinu sem kemur í heiminn.

  • Á aðfangadegi stjórnlagaþings

    Hér er vitnisburðurinn okkar á aðfangadegi stjórnlagaþings. Af þeim gríðarmörgu frambærilegu frambjóðendum eru tveir sem við treystum best til að setjast við það mikilvæga verk sem undirbúningur nýrrar stjórnarskrár er.

    Arnfríður Guðmundsdóttir #8023

    Arnfríður er prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, menntuð á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hún hefur þetta að segja:

    Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri til að endurskoða grundvöll samfélagsins og móta stefnu til framtíðar.
    Ég tel mikilvægt að sú framtíðarstefna sem við setjum okkur leggi grunn að réttlátu samfélagi sem byggt er á jafnrétti og virðingu fyrir einstaklingum, óháð kyni, kynþætti, kynhneigð, fjárhagslegri stöðu, trúarsannfæringu eða búsetu. Til þess að Ísland framtíðarinnar verði slíkt samfélag þurfum við að efla lýðræðislega þátttöku allra Íslendinga og sjá til þess að allir hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Það þarf einnig að tryggja að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar og að þeim verði ekki fórnað fyrir stundarhagsmuni.
    Framtíðin er barnanna okkar og í þeirra þágu ber okkur að vinna.

    Myndband með Arnfríði.

    Hjalti Hugason #7132

    Hjalti er sérfræðingur í sögu þjóðar og kirkju. Hann er prófessor í kirkjusögu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hjalti skrifar:

    Ég býð mig fram vegna þess að nú gefst einstakt tækifæri til að taka þátt í að marka samfélaginu nýja stefnu. Stjórnarskrá þarf að byggja á grunngildum lýðræðis, jafnréttis, mannréttinda og andlegrar, efnalegrar og félagslegrar velferðar. Stjórnarskrá þarf að taka mið af reynslu þjóðarinnar en horfa jafnframt til framtíðar. Í ljósi reynslu síðustu missera verður m.a. að huga að beinni aðkomu þjóðarinnar að mikilvægum ákvörðunum og styrkja þar með lýðræði. Það þarf að efla þingræði og setja ramma um störf stjórnmálaflokka. Það þarf að ganga betur frá því hvernig stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar verða kallaðir til ábyrgðar. Það þarf að treysta eignar- og nýtingarrétt þjóðarinnar á auðlindum.

    Myndband með Hjalta.

    Við treystum Arnfríði og Hjalta og mælum hiklaust með þeim á kjörseðilinn þinn.

  • Aukapokinn er aðalpokinn

    Nammi

    Á nýútkominni jólaplötu syngur Sigurður Guðmundsson aðventukvæði eftir Braga Valdimar Skúlason sem hefst svona: „Á fyrsta sunnudegi aðventunnar ég ek til kaupmannsins í einum rykk. Því þó að fjárhirslunar gerist grunnar ég geri vel við mig í mat og drykk.“

    Í aðdraganda aðventu og jóla viljum við geta fyllt innkaupapoka af allskyns gúmmelaði. Í pokana okkar rata jafnvel hlutir sem við neitum okkur alla jafna um, en af því að jólin nálgast gerum við betur við okkur. Erum við til í að leyfa öðrum að njóta með okkur og leggja þeim lið sem hafa ekki tök á því að kaupa inn fyrir jólin vegna þess að þau eiga ekki fyrir mat?

    Í verslunarferðum aðventu og jóla gefst nú kostur á að setja í nauðsynjar og matvöru í Aukapoka til að gefa þeim sem þurfa á hjálp að halda. Um leið og við tínum í okkar eigin poka, getum við sett í Aukapokann handa náunga okkar.

    Aukapokanum komum við síðan til Hjálparstarfs kirkjunnar. Búðirnar Kostur, Krónan, Nettó, Bónus og Hagkaup á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Reykjanesbæ taka þátt í þessu hjálparstarfsátaki. Þar eru körfur og stampar til að setja aukapokana í. Hjálparstarfið sækir þá svo og kemur til þeirra sem þurfa.

    Aukapokinn þinn er aðalpoki þeirra sem hafa lítið milli handanna þessi jól. Aukapokinn er tækifæri fyrir hvert og eitt okkar að deila með öðrum því sem við viljum og getum, eftir okkar eigin efnum og aðstæðum.

    Kaup- og gjafmildi tilheyra þessum tíma árs. Með því að leyfa öðrum að njóta hans með okkur, vekjum við von og sýnum kærleika í verki. Þannig getur þessi dimmi tími verið gefandi og styrkjandi fyrir okkur öll. Gerum vel við okkur fyrir jólin og gerum vel við náungann.

  • Búrkubann?

    Í skrúðgöngu

    „Finnst þér að það eigi að banna búrkur á Íslandi?“ Svo spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, dómsmálaráðherra á dögunum. Spurningin minnir okkur á djúpstætt þrætuepli í mörgum löndum í kringum okkur, þar sem takast á ólík sjónarmið tengd mannréttindum, svo sem trúfrelsi, tjáningarfrelsi og kvenfrelsi.

    Bann við búrkum hefur verið innleitt eða rætt í nokkrum nágrannalöndum okkar. Innleiðing bannsins hefur verið á ólíkum forsendum. Búrkan var bönnuð í frönskum skólum árið 2004. Þar var hún þá séð sem trúartákn og lögð af jöfnu við önnur slík tákn, s.s. krossinn, sem höfðu verið bönnuð í skólunum um áratuga skeið. Fyrr á þessu ári var samþykkt opinbert búrkubann í Frakklandi. Það á að taka gildi næsta vor. Rökin fyrir því banni eru sótt í kvenfrelsi og mannréttindi. Í Belgíu og á Ítalíu er bannað að klæðast fötum sem hylja andlitið opinberlega.

    Þorgerður Katrín segir í samtali við Pressuna að hún vilji stuðla að forvirkum umræðum með fyrirspurn sinni. En hún tekur líka fram að hún hafi gert upp hug sinn og vilji banna búrkuna: „Mér finnst hún ekki samræmast þeim grundvelli sem íslensk þjóð byggir á og hefur byggt á um aldir. Ég segi þetta með tilliti til menningar okkar, kristinnar trúar og ekki síst kvenfrelsis.“

    Íslenskt samfélag við upphaf 21. aldar er fjölmenningarsamfélag. Fjölmenningarsamfélög byggja á virðingu. Þetta orða Arnfríður Guðmundsdóttir og Hjalti Hugason vel í Pressupistli í dag:

    „Fjölmenningarsamfélag verður að byggja á virðingu fyrir þeim sem skera sig úr. Umburðarlyndi nægir ekki. Það er ekki nóg að við umberum þau sem falla ekki undir staðalmynd hins íslenska borgara. Við verðum að virða þau sem jafningja og læra að meta það sem þau vilja og geta lagt til samfélags okkar. Virðing en ekki umburðarlyndi er lykillinn að góðu og öruggu samfélagi þar sem margbreytileiki nýtur sín og auðgar samfélagið.“

    Við skulum ekki ganga út frá því kristin trú og menning knýi okkur til að banna trúar- og menningartákn sem koma annars staðar frá. Höfum það hugfast þegar við ræðum um búrkuna og önnur trúar- og menningartákn í opinberu rými. Stillum okkur ekki upp við hliðina á sjónarmiðum sem ganga út frá óttanum við „hina“.

    Látum frekar virðingu fyrir manneskjunni, jafnrétti og náungakærleika stjórna samtalinu og þar með útkomunni.

  • Skrifað í sandinn – gegn kynferðisofbeldi

    Stundum er ærið tilefni til að líta inn á við, sem einstaklingar og samfélag, skoða hvar skórinn kreppir og hvaða leiðir liggja til lausnar. Kynferðisofbeldi og allar þess ömurlegu afleiðingar eru okkur hugleiknar þessa dagana, þegar kirkjuþing þjóðkirkjunnar hefur nýlega sett starfsreglur og skipað rannsóknarnefnd sem fara á yfir ásakanir um vanrækslu og þöggun þegar Ólafur Skúlason biskup var borinn sökum um kynferðislegt ofbeldi.

    Síðustu helgi komum við nokkur saman í Langholtskirkju í nafni ljóssins Guðs sem er andstaða ofbeldis í öllum þess myndum. Í messunni voru flutt orð úr ritningunni sem tala gegn ranglæti, misnotkun og ofbeldi. Þar voru líka fluttar bænir sem settu orð á erfiðar og ruglingslegar aðstæður sem skapast þegar kynferðisofbeldi er beitt. Við hugsuðum til allra þeirra sem verða fyrir afleiðingum þess.

    Orð gegn kynferðisofbeldi eru máttug vegna þess að þau staðfesta andstöðu okkar og fordæmingu okkar á ofbeldisverkinu. Við tökum okkur stöðu gegn ofbeldinu og með þeim sem líða vegna þess. Orð í bæn og tilbeiðslu eru líka máttug vegna þess að við beinum ákalli okkar og sársauka til Guðs sem tekur sér stöðu með manneskjunni sem þjáist.

    Stundum er það þannig að við meikum ekki að segja orðin sem þarf að segja upphátt. Við meikum varla að hugsa þau með okkur sjálfum. En við trúum því að þá heyri Guð líka í hjartanu okkar – að Guð finni til eins og við finnum til.

    Þegar við getum ekki orðað tilfinningar okkar og hugsanir, er hægt að grípa til verka. Í Langholtskirkju um helgina notuðum við biblíulega aðferð við að tjá tilfinningar okkar með því að skrifa í sand sem hafði verið komið fyrir á gólfinu fyrir miðju altarisins. Sandurinn tók við orðum, táknum, hugsunum, reiði, sársauka, spurningum, hræðslu og von.

    Jesús skrifaði einu sinni í sandinn líka og enginn veit lengur hvað þar stóð. En af öllu því sem við vitum og lærum og trúum um Jesú, getum við tekið til okkar að hann stendur með réttlætinu og því sem reisir manneskjuna við. Sem kirkja viljum við koma þar inn í myndina, vera öruggur staður þar sem allir fá að vera sitt besta.

  • Þrisvar sinnum jafnrétti

    Gunnar Hersveinn er flottur heimspekingur. Í bókinni um Þjóðgildin ræðir um gildin tólf sem þjóðfundurinn 2009 valdi. Ég átti þess kost að hitta hann á dögunum þegar við tókum upp nokkrar þjóðgildayrðingar. Þessar þrjár fjalla um jafnrétti. Hver þeirra er þess virði að ræða og deila.



  • Hver kynnir hvar?

    Þóra Kristín brýnir fjölmiðla og ráðuneyti í Stjórnlagaþingspistli í dag:

    Í raun ættu frambjóðendur til Stjórnlagaþings að ganga fram fyrir skjöldu og krefjast þess að það verði almennilega staðið að kynningu á áherslum þeirra fyrir þingið. Það kostar sjálfsagt einhver aukablöð með dagblöðunum, sem ríkissjóður þarf að standa straum af, og það er erfitt því afar skammur tími er til stefnu. En eitthvað verður að gera, því kynning á netinu er ekki næg ein og sér og hún nær ekki til allra aldurshópa.

    Stjórnlagaþing er merkileg lýðræðisleg tilraun. Ef ætlunin er að gefa þinginu það vægi sem látið er í veðri vaka verður almenningur að vera virkur þátttakandi í að velja fólk inn á þingið. Til þess eru upplýsingar lykilatriði. Ef ætlunin er hinsvegar bara að friða þá sem vilja raunverulegar breytingar á stjórnarskrá með þátttöku almennings og gengisfella þingið eru menn á réttri leið.

    Á Íslandi eru gefin út nokkur stór dagblöð. Hvernig væri að stökkva nú til og gefa út myndarlegt kosningablað með örpistlum eftir frambjóðendur og greiningu á þeim eftir stefnumálum? Slíkt blað yrði svo sannarlega lesið.

    Er þetta ekki sóknarfæri? Hver verður fyrstur til?