Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Kók, lestir, tjáning og frelsi

    181220101168

    Undir kvöld var fjölskyldan á ferð í miðbænum og varð því vitni að því þegar kóklestin svokallaða hlykkjaðist niður Skólavörðustíg og Bankastræti. Þetta eru nokkrir vörubílar, kyrfilega merktir kóki og jólum, ljósum prýddir með amerískan jólasvein í framsætinu.

    Jólalest kókbílanna hefur undanfarin jól glatt borgarbúa. Hún viðheldur hugrenningatengslum milli jólatímans og kókakóla þeirra fjölmörgu sem ólust upp við hina ofur-rómantísku og fjölmenningarlegu jólaauglýsingu kók. I’d like to teach the world to sing.

    Nema hvað, á undan hæggengri kóklestinni í miðbænum í dag, höfðu nokkrir aðgerðarsinnar stillt sér upp með borða sem á stóð skýrum stöfum Kók er kúkur kapítalsins.

    Þessi stuðandi skilaboð blöstu við áhorfendum kóklestarinnar og sköpuðu sérstaka stemningu. Ungt fólk að þramma fyrir framan kóklestina með hugsunarvekjandi skilaboð um hið eiginlega erindi kóklestarinnar.

    Hér mætti í löngu máli ræða um kók sem jóladrykk, um kapitalisma sem stjórnmál eða um glamúrlegt jólahald neysluhyggjunnar.  En við viljum staldra við skilaboðin sem stungu okkur:

    Það er svona sem tjáningarfrelsið virkar. Sama hvað okkur finnst um kók sem drykk eða siðferðislegu lestina sem fylgja kók- og neysluvæddum jólum eða misvitur stjórnmálakerfi, þá má kóklestin aka um borgina – og hver sem er má mótmæla því.

    Í dag urðum við vitni að friðsamlegri andspyrnu þar sem sjónarmið um neyslu og stjórnmál, dygðir og lesti, komust til skila í ljósum prýddu skjóli hinna fagurrauðu kókbíla.

    Hér mættust lestir og frelsi.

  • Auðvitað getum við breytt heiminum

    Changemakers – Breytendur – eru kirkjulegir aðgerðarsinnar. Þetta er ungt fólk sem vill breyta heiminum til góðs. Þorsteinn Valdimarsson sem leiðir starf samtakanna á Íslandi segir að þótt enginn geti gert allt, geti allir gert eitthvað.

    Þorsteinn er átjándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.

  • Beðið eftir björgun

    Haukur Ingi er björgunarkall og trúmaður. Þess vegna er hann sautjándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hann virðir fyrir sér mikilvægi vonarinnar út frá sjónarhóli björgunarmannsins og þess sem bíður eftir björgun.  Hvað kennir það okkur?

  • Í vonarlandsins skóg

    Kristín Steinsdóttir rithöfundur er sextándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hún syngur lítið ljóð um vonina sem móðir hennar kenndi börnum sínum austur á Seyðisfirði.

  • Áhorfandi að undrum lífsins

    Svavar Knútur söngvaskáld er fimmtándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hann talar um möguleika morgundagsins  og eftirvæntinguna eftir því skrýtna og óvænta.

  • Von sem ber að landi

    Elínborg Sturludóttir Snæfellingur er fjórtándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.  Hún dregur upp mynd af von sem ber okkur að landi þegar öll sund virðast lokuð.

  • Hrúgur af skít og vonin um folaldið

    Jón Gnarr borgarstjóri er þrettándi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.  Hann segir að lífið sé allt of sjaldan auðvelt og einfalt en að vonin sé sérstaklega dýrmæt í erfiðleikum.  Vonin um að kannski leynist lítið folald inn í skítahrúgunni sem virðist óendanleg, gefur kraft til að halda áfram að moka sig í gegn.

  • Vonin um jafnrétti allra

    Sigurlín Margrét er tólfti vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hún talar við okkur á táknmáli um vonina að hvert einasta nýfætt barn muni njóta virðingar, jafnréttis og skilnings.

  • Úr viðjum vanans

    Harpa Arnardóttir leikari er ellefti vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hún segir sögu um hvernig bein reynsla kennir okkur um vonina og að viðjar vanans eru ekki órjúfanlegar.

  • Ný sýn og nýtt upphaf

    Þórhallur Heimisson er tíundi vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hann talar um hvernig erfiðleikar geta falið í sér nýja sýn og nýtt upphaf.