Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Fjölmenningin og ofbeldið

    Toshiki Toma er vekjandi í pistlinum Fjölmenning hafnar ofbeldi sem hann skrifar í tilefni af Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti:

    Að styðja fjölmenningarstefnu þýðir að viðkomandi hefur sjálfkrafa vilja til að berjast gegn rasisma og hvers konar ofbeldi. En sú barátta er ekki ofbeldi, þar sem fjölmenning neitar ekki manneskjunni um virðuleika hennar, möguleika á að iðrast eða að breyta hugmyndum sínum. Málstaður fjölmenningar er ekki eyðilegging, heldur uppbygging gagnkvæmrar virðingar.

  • Frelsi og fjötrar á fjórum mínútum

    Fjórar mínútur er verðlaunamynd eftir þýska leikstjórann Chris Kraus. Hún er ein þriggja mynda eftir Kraus sem er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís, hinar eru Glerbrot sem er fyrsta mynd leikstjórans og Dagbækurnar frá Poll sem er sú nýjasta. Allt afar áhugaverðar myndir. Með fyrstu mynd sinni steig Kraus fram sem fullburða leikstjóri og við sjáum það vel í þessari mynd hvað hann hefur gott vald á miðlinum. Sem áhorfendur finnum okkur í góðum höndum.

    Hundrað og tólf mínútur

    Fjórar mínútur er eitt hundrað og tólf mínútur að lengd. Titillinn vísar til um það bil fjögurra mínútna langs loksatriðis myndarinnar. Til magnaðrar lokasenu „þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls“ og við verðum vitni að kraftaverki endurlausnar og sigurs, svo vitnað sé í umsögn dómnefndarinnar sem veitti myndinni kvikmyndaverðlaun kirkjunnar árið 2005.

    Myndin fjallar um sekt og sorg, ofbeldi og atlæti, tónlist, náðargáfu, mennsku og ómennsku, fordóma og fyrirhugun – svo eitthvað sé nefnt. Fyrst og fremst má þó kannski segja að Fjórar mínútur fjalli um fjötra og um frelsi.

    Fjötrar og frelsi

    Söguhetjurnar tvær, tónlistarkennarinn Traude og fanginn Jenny eru báðar fjötraðar. Jenny situr bak við lás og slá, innilokuð vegna ofbeldisbrots. Traude hefur verið að sönnu verið frjáls til að gera það sem hún vill, en verið föst á sama stað í áratugi.

    Fangelsið táknar ytri fjötra þeirra beggja, en kannski eru fjötrarnir hið innra þeir sem eru bæði mikilvægari og sterkari í myndinni. Fortíðin er fjötur þeirra beggja, fordómar samfélagsins líka, sektarkennd og ofbeldi sem þær máttu þola hefur mótað sjálfsmyndina. Það er veganestið þeirra frá unga aldri á fullorðinsár.

    Frelsið er andstæða fjötranna. Í Fjórum mínútum birtist það í mótstöðu við regluverk sem deyðir, í tónlistinni sem tengir Jenny og Traude og í sköpunargleðinni.

    Til íhugunar við áhorf

    Þegar horft er á myndina má haga þetta samspil fjötra í frelsis í huga. Hvar er sterkustu fjötrana að finna í myndinni? Hvernig rakna þeir upp?

    Aðalpersónurnar tvær, Traude og Jenny, eru líka áhugavert umhugsunarefni. Hvað tengir þær saman? Hvað er ólíkt með þeim.

    Síðast en ekki síst er það svo sýnina á manneskjuna sem birtist í Fjórum mínútum sem er full ástæða til að íhuga. Ein af lykilspurningum Kraus í þessari mynd og reyndar fleiri myndum er: „Getur fólk breyst?“ Hvað segir Fjórar mínútur okkar um það?

    Byggt á innlýsingu sem var flutt á undan sýningu myndarinnar í Bíó Paradís, 19. mars 2011.

  • Fjórar mínútur á tæpum fjórum mínútum

    Fjórar mínútur var síðast sýnd í Tjarnarbíói. Þá fluttum við Oddný Sen stuttar innlýsingar áður en myndin hófst. Upptaka af innlýsingu Árna Svans er með þessari bloggfærslu. Hún er tæpar fjórar mínútur og fjallar meðal annars um vonina í Fjórum mínútum, frelsi og fjötra:

    „Myndin hreyfir líka við áhorfandanum. Það er unnið með samspil frelsis- og fjötra og sýnt með áhrifamiklum hætti hvernig það sem fjötrar manninn getur bæði verið hið innra og hið ytra. Erfið reynsla úr fortíðinni er nefnilega byggingarefni í mun sterkari fjötra en steinsteypan og stálið sem fangelsið er byggt út! Það sýnir Vier Minuten.“

    Verið velkomin á sýninguna í Bíó Paradís annað kvöld.

  • Fjórar mínútur

    Vier Minuten er önnur kvikmynd leikstjórans Chris Kraus í fullri lengd. Myndin greinir frá Jenny, ungri konu sem situr í fangelsi fyrir manndráp. Hin áttræða Traude Krüger, sem kennt hefur föngum á píanó síðan 1944, uppgötvar hæfileika Jennyar sem var undrabarn í tónlist. Samband þeirra tveggja verður sérstakt og flett er ofan af atburðum úr fortíðinni. Fjórar mínútur fjallar um viljann til að nýta hæfileika sína.

    Myndin er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís og á morgun, laugardaginn 19. mars kl. 20, verður dagskrá í tengslum við sýningu myndarinnar. Á undan sýningunni flytur Árni Svanur stutta innlýsingu og að  sýningu lokinni verða umræður um myndina.

    Chris Kraus er einhver áhugaverðasti leikstjóri Þjóðverja í dag. Fyrstu mynd hans, Brotið gler (Scherbentanz), var afar vel tekið og hlaut margvísleg verðlaun í heimalandi hans. Fjórar mínútur er önnur mynd hans og þriðja mynd hans Poll var frumsýnd nú í febrúar.

    Vier Minuten hlaut kvikmyndaverðlaun kirkjunnar þegar þau voru veitt í fyrsta sinn í október 2005. Í umsögn dómnefndar um myndina sagði:

    „Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.“

    Það er svo sannarlega hægt að mæla með þessari mynd.

  • Fjórar mínútur

    Vier Minuten er önnur kvikmynd leikstjórans Chris Kraus í fullri lengd. Myndin greinir frá Jenny, ungri konu sem situr í fangelsi fyrir manndráp. Hin áttræða Traude Krüger, sem kennt hefur föngum á píanó síðan 1944, uppgötvar hæfileika Jennyar sem var undrabarn í tónlist. Samband þeirra tveggja verður sérstakt og flett er ofan af atburðum úr fortíðinni. Fjórar mínútur fjallar um viljann til að nýta hæfileika sína.

    Myndin er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís og á morgun, laugardaginn 19. mars kl. 20, verður dagskrá í tengslum við sýningu myndarinnar. Á undan sýningunni flytur Árni Svanur stutta innlýsingu og að  sýningu lokinni verða umræður um myndina.

    Chris Kraus er einhver áhugaverðasti leikstjóri Þjóðverja í dag. Fyrstu mynd hans, Brotið gler (Scherbentanz), var afar vel tekið og hlaut margvísleg verðlaun í heimalandi hans. Fjórar mínútur er önnur mynd hans og þriðja mynd hans Poll var frumsýnd nú í febrúar.

    Vier Minuten hlaut kvikmyndaverðlaun kirkjunnar þegar þau voru veitt í fyrsta sinn í október 2005. Í umsögn dómnefndar um myndina sagði:

    „Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.“

    Það er svo sannarlega hægt að mæla með þessari mynd.

  • Íslensk trú

    Liljur vallarins er ný íslensk heimildamynd eftir Þorstein Jónsson, sem var frumsýnd sl. haust. Hún greinir frá lífinu í fallegri sveit og stórum sem smáum viðfangsefnum fólksins í sveitinni.

    Hlutverk prestsins í samfélaginu og samskipti hans við sóknarbörnin er ákveðinn útgangspunktur í myndinni. Þannig verða til spurningar hjá áhorfendanum um mót trúar og reynslu, hlutverk prédikunarinnar í pólitík dagsins í dag, og hvað það er sem mótar sýn manneskjunnar á stöðu hennar í sköpunarverkinu og mannlegu samfélagi.

    Stóru þemun í myndinni snerta til að mynda umgengni okkar við náttúruna, hina pólitísku prédikun, ásókn stóriðju og áhrif hennar á nærsamfélagið, og hlutverk trúarinnar í samtali og mótun menningarinnar. Sögusviðið er Kjósin og presturinn þar er dr. Gunnar Kristjánsson prófastur og sóknarprestur á Reynivöllum. Myndin er tekin á tíma sem nær yfir nokkur misseri og Þorsteinn fylgir Gunnari eftir í starfinu, m.a. sjáum við prestinn þar sem hann þjónar söfnuðinum sínum í helgihaldi og prédikun og í prófastshlutverki sínu á fundum í Kjalarnessprófastsdæmi með prestum og fleirum.

    Dr. Gunnar leikur stórt hlutverk í þessari mynd en stærsta hlutverkið er kannski í höndum sköpunarverksins sem flæðir yfir tjaldið – náttúra, dýr og manneskjur – í ólíkum klæðum eftir árstíðum og tilefnum.

    Þessi látlausa og hófsama mynd er í sjálfu sér prédikun um hina klassísku dyggð hófsemdina, sem segja má að nái yfir hið sanngjarna í samskiptum við náttúruna og við meðbræður okkar og – systur. Hún rekur hvernig hugmyndir um grundvallarþættina og það sem er mikilvægt í lífinu, þar með talin trúin á Guð og hlutverk kristinnar kirkju, birtast hjá fólkinu í sveitinni, og hvernig þessar hugmyndir eru ræddar út frá reynslu daglegs lífs og þess sem fengist er við hverju sinni.

    Meðmæli mín þegar horft er á Liljur vallarins eru þessi:

    Fylgstu með sterkri nærveru náttúrunnar og hvernig hún talar fyrir sig og fylgstu með hvernig lífið í sveitinni mótast af nálægðinni við þessa sterku náttúru.

    Fylgstu með trúarveruleikanum sem birtist í myndinni, í gegnum samtöl og yrðingar, frá leikum og lærðum.

    Og njóttu þess trausts sem þér sem áhorfenda er sýnt þegar fólkið í Kjósinni býður þér inn til sín og alla leið að hjartanu – því þar verða vangavelturnar um lífið til.

    Byggt á innlýsingu sem Kristín flutti á sýningu Kjalarnessprófastsdæmis á Liljum vallarins í Bíó Paradís 14. mars.

  • Bæn fyrir Japan

    USS Blue Ridge Sailors move humanitarian relief supplies while enroute to Japan following earthquake.
    GUÐ,

    það sem hefur gerst og er að gerast í Japan kveikir sterkar tilfinningar og margar hugsanir með okkur.

    Lífið getur kollvarpast á svipstundu.

    Það sem við göngum út frá að sé til staðar, getur horfið hvenær sem er.

    GUÐ,

    við biðjum fyrir þeim sem þjást í Japan,

    fyrir þeim sem hafa slasast og fyrir þeim sem syrgja,

    fyrir þeim sem hafa misst, heimilin sín, nærsamfélagið sitt,

    fyrir þeim sem bera áhyggjur og ótta í brjósti.

    GUÐ,

    þú sem hefur lofað að yfirgefa okkur ekki þegar leiðin liggur í gegnum dimmustu dalina,

    heyr vora bæn.

    Amen.

    (Þýtt úr sænsku)

  • Eyðsluklærnar í leikskólunum

    Tómas Viktor

    Í gær gátum við lesið þessa frétt á vísir.is um sparnað í Reykjavík:

    Samkvæmt tillögum sem lagðar verða fram í borgarráði á morgun er gert ráð fyrir að þrjátíu leikskólar verði sameinaðir í fjórtán og stjórnendum þeirra, leikskólastjórum og aðstoðarleikstjórum, sagt upp en sumir endurráðnir í yfirmannastöðurnar að nýju. Hinum verður boðið að starfa áfram með aðrar starfsskyldur og lægri laun.

    Í dag mun borgarráð sumsé ræða með hvaða hætti hægt sé að velta sparnaði í borgarkerfinu yfir á sjálft starfsfólkið í leikskólunum – og láta það standa undir nauðsynlegri hagræðingu í kerfinu.

    Aðgerðirnar um sameiningu leikskóla eiga að ná fram sparnaði. Við höfum ekki séð tölurnar um konkret sparnað sem af þessu hlýst. Þar þarf að taka inn í beina hagræðingu af fækkunum yfirmanna á leikskólunum, kostnað við breytingarnar sjálfar og raunverulega breytingu á rekstrarkostnaði. Reyndar er einsýnt að af þessum tilfæringum koma varla háar fjárhæðir til góða.

    Jafnvel þó svo væri, eru þessar tillögur fráleitar og skammsýnar.  Þær ganga út á að lækka laun og breyta starfsheitum hjá því starfsfólki sem nú ber mesta ábyrgð á stefnumótun, mannauði, samskiptum og stjórnun á leikskólunum okkar.  Þær dæla inn óöryggi og slæmum móral á vinnustaði þar sem mikið er í húfi að jafnvægi, fagþekking og gleði ríki.

    Með því að fækka leikskólum á þennan hátt, er gengið inn í kjör og starfsmöguleika fagfólks í leikskólunum og það mun bitna með einum eða öðrum hætti á börnunum sjálfum. Leikskólarnir okkar eru ekki þeir staðir þar sem illa hefur verið farið með fé eða bruðlað með eignir.

    Eins og eitt foreldri í Reykjavík segir í fínni grein á visir.is í dag:

    Leikskólarnir í Reykjavík eru frábærir, ótrúlega frábærir ef haft er í huga hvílík smánarlaun starfsfólk þeirra þarf að sætta sig við. Allar aðgerðir sem grafa undan starfsgleði og metnaði skila sér í verra skólastarfi. Þær bitna á börnunum okkar.

    Við skulum ekki þynna út þjónustuna við börn á þessum krepputímum. Við mótmælum skammsýnum hugmyndum um niðurskurð á leikskólum.

  • Slökkvum á internetinu

    Eftir viku á að halda Aftengda daginn í Bandaríkjunum – The National Day of Unplugging. Í sólarhring, frá sólsetri 4. mars til sólseturs 5. mars mun fjöldi fólks slökkva á farsímum, fartölvum, nettengingum – slökkva á netinu og eiga ótengdan dag. Þetta er hvatning til að lifa hægar.

    Þetta er skemmtileg tilraun. Hver veit nema við prófum ;)

  • Traustið og talenturnar

    Mold

    Kristín prédikaði í morgunmessu í Hafnarfjarðarkirkju í dag. Hún lagði út af Matt 25.14-30 og ræddi um traustið í samfélaginu. Þetta er prédikunin.

    Það er skortur á trausti í samfélaginu okkar. Skortur á trausti á stofnunum, flokkum og embættismönnum er í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Það ríkir traustskreppa á Íslandi.

    Við sem störfum í þjóðkirkjunni höfum fylgst með því hvernig traustið til hennar hefur dalað í skoðanakönnunum, oft í öfugu hlutfalli við það sem við reynum í samskiptunum í söfnuðunum okkar. Við spyrjum okkur að því hvað valdi því að traustið til kirkjunnar og æðsta embættismanns hennar er eins lítið og raun ber vitni.

    Er afstaða almennings til kirkjustofnunarinnar til að mynda önnur en til starfsins í sóknarkirkjunni og nærsamfélaginu? Er dvínandi traust til þjóðkirkjunnar því að kenna hvernig var tekið á málum þolenda Ólafs Skúlasonar? Er trúverðugt hvernig starfsreglur og vinnuferlar kirkjunnar taka á kynferðisbrotamálum? Hernig hefur kirkjan staðið sig í jafnréttis- og umhverfismálum? Hvert hefur framlag kirkjunnar verið í uppbygginguna eftir Hrun?

    Á málþingi í síðustu viku sem bar yfirskriftina Og hvað svo? Hvert stefna Íslendingar settu nokkrir guðfræðingar puttann á púlsinn sem slær í þjóðarsálinni um þessar mundir. Sérstaklega var staðnæmst við tímann sem það tekur einstaklinga og samfélög að ná sér eftir áföll. Hvað tekur það okkur langan tíma að rísa upp eftir Hrunið? 20 ár? Eða 40 ár? Hvað tók það Íslendinga langan tíma að ná sér eftir móðuharðindin? Áföll búa um sig í þjóðarlíkamanum og erfast.

    Á fundinum spurðum við líka erfiðra spurninga um hvernig hægt væri að byggja nýtt Ísland á rústum þess ranglætis sem Hrunið afhjúpaði. Í því sambandi var einmitt spurt um traust – og lýst eftir trausti í samskiptum og samneyti fólks.

    Einn frummælandinn tengdi þetta ástand við það hvar Guð væri að finna. Hann sagði “Guð er ekki fyrir ofan okkur, Guð er ekki fyrir neðan okkur – Guð er hérna, mitt á milli okkar.” En svo hélt hann áfram og sagði: “Ef Guð er til í tengslum milli þín og mín, ef Guð lifir mitt á milli fólks, þá er Guð að deyja eða er dáinn á Íslandi vegna þess að þar er ekkert traust, engin tengsl, bara óuppgert ranglæti”

    Þessi sterku orð vísa til þess að með Hruninu voru það ekki bara bankar og fjármálakerfi sem ultu um koll heldur grundvallartraust í samfélaginu. En slíkt grundvallartraust er forsendan fyrir því að réttlætið nái fram að ganga og að við lærum að gera gott. Á meðan ekki er gert upp við það sem olli traustshruninu, getur samfélagið ekki orðið heilt.

    Það eru þessar vangaveltur sem kvikna við lestur guðspjalls síðasta sunnudags. Það fjallar nefnilega um traust og það hvernig við upplifum Guð. Það fjallar annars vegar um sjálfsmynd þess sem treystir og hins vegar um sjálfsmynd þess sem þess sem treystir ekki – en býr við ótta og óöryggi gagnvart öðru fólki, sjálfum sér og viðfangsefnum lífsins.

    Þriðji þjónninn – þessi sem fékk talentuna í hendur og gróf hana í jörðu, til að týna henni ekki, stjórnaðist af ótta og vantrausti til húsbónda síns. Í huga hans var húsbóndinn harður og miskunnarlaus og hann bjóst ekki við neinu öðru frá húsbóndanum en hann fékk síðan.

    Vissulega virðast viðbrögð húsbóndans í sögunni óvægin og miskunnarlaus – jafnvel ranglát – því að hann launar hinum þjónunum tveimur fyrir þeirra viðskipti á meðan hann eys reiði yfir þriðja þjóninn sem reyndi bara að vera varkár. Hvað er það sem útskýrir þessi misjöfnu viðbrögð húsbóndans?

    Getur verið að svarið liggi í sjálfmynd og væntingum þjónanna sjálfra? Getur verið að svarið liggi í trausti – og skorti á trausti?

    Í raun þurfti húsbóndinn ekki að dæma þriðja þjóninn – því hann lifði sjálfur við grát og gnístran tanna. Þegar við gröfum talenturnar okkar í jörð af því við erum hrædd, í staðinn fyrir að blómstra og lifa, sköpum við okkar eigið helvíti. Og hér skiptir guðsmyndin okkar máli. Treystum við því að við höfum fengið lífið og talenturnar til að fá að blómstra og vaxa – eða fjötrar okkur óttinn við Guð?

    Kannski erum við í fjötrum vantrausts á Íslandi í dag. Kannski búum við okkur sjálfum grát og gnístran tanna. Leiðin út úr því liggur í gegnum fyrirheit Jesú um fögnuðinn sem bíður þeirra sem þiggja gjöf frelsisins. Það er gjöf sem stendur okkur til boða. Líka kirkjunni. Hugtakið „aggiornamento“ hefur verið notað yfir það sem umbreytist úr gömlu yfir í nýtt. Í kirkjulegu samhengi þýðir þetta að kirkjan uppfæri sig til dagsins í dag, svo erindi hennar um frelsi manneskjunnar og umhyggju Guðs hitti manneskjuna í hjarta stað og beri ávöxt.

    Til að þessi nauðsynlega uppfærsla geti átt sér stað, þurfum við að greina tíðarandann. Þótt okkur hugnist ekki niðurstaða skoðanakönnunarinnar um þverrandi traust, getum við ekki leitt hana hjá okkur. Hún er áminning, brýning og lærdómur. Um það sem betur má fara og hvernig við getum gefið okkur ótta og vantrausti á vald eða treyst því sem Guð gefur okkur, og ávaxtað talentur og gjafir lífsins.