Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 15: Elskar þú mig?

    http://www.youtube.com/watch?v=z-Bg1tTgxZ8

    Do you love me sló í gegn á popplistum vestanhafs árið 1963. Það var hljómsveitin The Contours sem lék og söng. Hljómsveitin endurútgaf lagið árið 1988 fyrir kvikmyndina Dirty Dancing og lagið hitti aftur í mark.

    Textinn fjallar um unga manneskju sem leitar að ástinni en hefur ekki haft árangur sem erfiði. Hún hefur orðið fyrir ástarsorg því sá sem hún hafði augastað á endurgalt ekki áhugann. Nú hefur unga manneskjan brugðið undir sig betri fætinum og kemur dansandi inn á sviðið:

    You broke my heart, cause I couldn’t dance
    You didn’t even want me around.
    And now I’m back, to let you know,
    I can really shake ‘em down.

    Do you love me? (I can really move)
    Do you love me? (I’m in the groove)
    Do you love me? (Do you love me)
    Now that I can dance
    Watch me now HEY!

    Spurningarnar í textanum kallast á við guðspjall þessa sunnudags sem er skrifað í Jóhannesarguðspjalli 21.15-19. Það geymir stutt samtal milli Jesú og Símonar Péturs. Í þrígang spyr Jesús þessarar spurningar:

    Elskar þú mig?

    Í hvert skipti svarar Símon Pétur:

    Já, þú veist að ég elska þig.

    Við þurfum öll ást, viðurkenningu, athygli, trúnað og tryggð. Við þurfum að heyra það frá þeim sem elska okkur. Fimmtándi gleðidagurinn er dagur ástarjátninganna.

  • Gleðidagur 14: Gleðin að gefa

    Jólaúthlutun 2008

    Það gerir okkur hamingjusöm að láta gott af okkur leiða og finnast við gera gagn fyrir aðra. Fjöldi fólks vinnur í sjálfboðavinnu á ólíkum vettvangi og auðgar samfélagið með framlagi sínu.

    Á prestastefnu í Reykjavík sem haldin var í vikunni flutti Kristín erindi um sjálfboðaliðastörf í kirkjunni. Kirkjan er einn stærsti vettvangur sjálfboðastarfs í samfélaginu og sjálfboðaliðar starfa á ólíkum sviðum þjóðkirkjunnar, svo sem stjórnun, fræðslu, boðun, tónlist og kærleiksþjónustu.

    Þegar fólk sem tekur þátt í sjálfboðastarfi nefnir það sem er því mikilvægt, eru nokkrir hlutir ofarlega á blaði. Félagsskapur, reynsla, viðurkenning, tækifæri til að hafa áhrif eru allt atriði sem höfða til fólks og eru eftirsóknarverð.

    Þannig haldast í hendur það sem við getum kallað eigingjarnar og óeigingjarnar hvatir til að taka þátt í sjálfboðastarfi. Við fáum helling út úr því sjálf að láta gott af okkur leiða.

    Besta gjöfin er að gefa það til baka sem maður hefur sjálfur þegið.

    Myndina með færslunni tók Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir af glöðum sjálfboðaliðum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

  • Gleðidagur 13: Elskaðu þig

    Þrettándi gleðidagurinn er Megrunarlausi dagurinns. Sigrún Daníelsdóttir skrifar í tilefni hans:

    Það er andstyggilegt og niðurrífandi að vera í sífelldri baráttu við sjálfan sig og líkama sinn – óþarfa barátta sem hefur ekkert með heilbrigði að gera.

    Dagurinn sem helgaður er engri megrun miðar að því að brjóta niður fordóma sem við höfum sjálf gagnvart okkur sjálfum og hvernig við lítum út. Hann er hugsaður til vitundarvakningar um hvað það er skaðlegt að vera of upptekin af því að telja hitaeiningar og láta þrönga staðla stjórna því sem okkur finnst fallegt.

    Okkur finnst megrunarlausi dagurinn snúast um sjálfselsku af því tagi sem er nauðsynleg og góð. Getan til að elska sjálfan sig og sýna sjálfun sér virðingu er grundvöllur heilbrigðra samskipta, heilbrigðra sambanda og heilbrigðs lífs.

    Ekki vera í stríði við sjálfan þig – mundu að ekki minni maður en Jesús frá Nasaret sagði (Mk 12.31): „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

    Myndbandið með færslunni er af uppáhaldsréttinum Gulrætur í svínaspiki. Uppskriftina má lesa hér á blogginu.

  • Gleðidagur 12: Fyrir ljósmæðurnar í lífinu

    Puntstrá

    Tólfti gleðidagurinn er jafnframt dagur ljósmæðra. Í dag viljum við þakka fyrir ljósmæðurnar góðu sem hlúa að upphafi lífsins. Í dag viljum við þakka fyrir þau öll sem taka að sér ljósmóðurhlutverk í lífi og samfélagi með því að hlúa að hinu viðkvæma og vernda það.

    Takk ljósmæður.

  • Gleðidagur 11: Vegurinn ert þú

    Á ellefta gleðidegi viljum við deila nýjum sálmi sem var frumfluttur á Prestastefnu í dag. Hann er þýddur úr japönsku af Kristjáni Vali Ingólfssyni og er svona:

    Látum tengjast hönd og hendi
    hér til starfs í trú.
    Kristur, á þinn kross við horfum,
    kærleikans á brú.
    Þessi heims- og himinsbörnin
    hrópa til þin nú:
    Jesús, vísa okkur veg þinn.
    Vegurinn ert þú.

    Í myndbandinu segir Kristján frá sálminum og við heyrum hluta af honum sunginn.

  • Gleðidagur 10: Tjáning í frelsi

    Twist to open

    Samskipti snúast í eðli sínu um að gefa af sjálfum sér. Þar er Kristur fyrirmynd okkar. Í boðun hans var enginn undanskilinn. Hin fátæku, sjúku, útilokuðu, kúguðu og valdalausu áttu sérstaka athygli og umhyggju hans. Samskipti í anda Krists eru því kærleiksverk sem hafa frelsið sem Jesús færði öllum sem tóku á móti honum að leiðarljósi.

    Í dag, 3. maí, er haldinn Alþjóðadagur tjáningarfrelsis. Sameinuðu þjóðirnar eiga frumkvæði að deginum. Við tökum undir með þeim á þessum degi og viljum styðja þau þau sem kalla eftir tjáningarfrelsi í öllum sínum myndum.

    Boðskapur Jesú Krists um frelsi og ást til handa manneskjunni er það sem knýr okkur. Köllun okkar sem kristnar manneskjur er að stunda samskipti djarflega og óttalaust, boða, vitna og segja frá “dýrð hans til vegsemdar” (Ef 1.12) og til að vera „samverkamenn að gleði ykkar“ (2. Kor 1.24).

    Munum það á tíunda gleðidegi.

    Nánar

    Frjáls samskipti, pistill eftir Kristínu á Trú.is

    Yfirlýsing WACC – World Association for Christian Communication í tilefni dagsins

    Myndin með færslunni er af lyklaborðinu hans Árna.

  • Gleðidagur 9: Sumar myndir

    Í dag vék snjórinn og kuldinn og í staðinn fengum við hlýja golu og sól og fyrirheit um yndislega sumardaga. Okkur langar því á níunda gleðidegi að deila nokkrum sumarmyndum sem tengjast minningum um góða sumardaga og bjóða þannig sumarið velkomið.

    Kría slær

    Er það þetta fjall?Fífurnar

    Gullregn

    Borgari hússinsBorgari hússins

    Afmælisveisluborðið

    Myndirnar með færslunni höfum við tekið á sumardögum.

  • Gleðidagur 8: Jesús tjillar og grillar

    Humargrill

    Fyrsti maí er Baráttudagur verkalýðsins og fyrsti sunnudagur eftir páska. Þá er guðspjallið um fiskidráttinn mikla í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls lesið í kirkjum landsins.

    Þetta er hluti af upprisutextum Nýja testamentisins sem vísa til tímans eftir krossfestinguna þegar Jesús birtist fylgjendum sínum, alltaf við óvæntar aðstæður. Þarna sjáum við að lífið eftir krossfestingu hefur gjörbreyst hjá lærisveinunum, því nú eru þeir teknir til við sitt lifibrauð sem eru veiðar.

    Eftir trega nótt með engum afla, gengur óþekktur maður að ströndinni þar sem þeir eru að leggja að landi og hvetur þá til að kasta netunum hinu megin við bátinn. Þeir gera það og netin fyllast á augabragði, af 153 stórfiskum. Þá ljúkast upp augu þeirra og þeir sjá að þetta er Jesús.

    Jesús tekur til við að grilla fisk og brauð á glóðum og þeir setjast niður til að eiga máltíð saman.

    Þessi saga er náttúrulega dásamleg á 1. maí.

    Í fyrsta lagi vegna þess að hún á sér stað í samhengi hinna vinnandi stétta. Baráttan fyrir brauðinu og fiskunum er sígild og ber ekki alltaf þann ávöxt sem nauðsynlegt er.

    Í öðru lagi vegna þess að hún lýtur að hlutverki og framkomu leiðtoga í samfélagi og sambandi hans við fólkið. Vendipunktur í sögunni er þegar Jesús bendir á leið sem virkar og leiðir til árangurs. Það er einkenni góðra leiðtoga að þeir ná til fólks og vita hvað þeir ætla að segja.

    Í þriðja lagi vegna þess að sagan hefur mjög víða skírskotun. Talan 153 getur staðið fyrir allar þekktar fisktegundir í Tíberíasarvatni á þessum tíma. Að þær rati allar í net lærisveinanna, sem veiða ekki bara fiska heldur fólk, tjáir sýn á útbreiðslu og vöxt sem nær yfir mörk og mæri.

    Í fjórða lagi vegna þess að hún tjáir náið og jarðbundið mannlegt samfélag í kringum mat og nærveru.

    Samfélag sem vex og blómstrar, góð kommúnikasjón, boðskapur sem mætir fólki óháð þjóðum og landamærum, og nærandi vinátta, er verðugt íhugunarefni á Baráttudegi verkalýðsins.

    Til hamingju með daginn.

    Myndin með færslunni var tekin í ágúst á síðasta ári þegar fjölskyldan fagnaði afmæli afans með stórkostlegu tjilli og humargrilli.

  • Gleðidagur 7: Í kvöld lýkur vetri

    Síðasti dagur aprílmánaðar er sumstaðar helgaður stúdentum. Ef þú værir staddur í stúdentaborg eins og Uppsala 30. apríl, kæmist þú ekki hjá því að verða var við mikil gleðilæti og fjöldasamkomur með stæl. Andinn sem svífur yfir vötnum á þessum degi, sem í Svíþjóð er kenndur við Valborgu, er í senn hylling til sumarsins sem er í vændum, til æskunnar sem skal erfa landið og til lífsins sem er framundan hjá ungum stúdentunum.

    Á Íslandi er ekki hefð fyrir þesskonar stúdentarómantík. Síðasti apríldagurinn er í huga þjóðarinnar dagurinn sem við syngjum Maístjörnuna og leyfum okkur að taka undir:

    En í kvöld lýkur vetri
    sérhvers vinnandi manns,
    og á morgun skín maísól,
    það er maísólin hans,
    það er maísólin okkar,
    okkar einíngarbands,
    fyrir þér ber ég fána
    þessa framtíðarlands.

    Kannski er það einmitt vegna þess að margir upplifa „erfiða tíma og atvinnuþref“ um þessar mundir, sem ljóðið hittir svona vel í mark. Þrátt fyrir kulda, hörkur og þrenging, er von um betri tíma.

    Vonin í ljóðinu snýr að fyrirheiti stjörnunnar sem titillinn vísar til. Hún skín þarna svo skært og fagurt og varpar þannig birtu á aðstæðurnar að við fáum styrk til að trúa því að eitthvað betra sé í vændum, fyrir land og þjóð.

    Myndbandið sem fylgir færslunni sýnir Gradualekór Langholtskirkju syngja Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson og Halldór Laxness í kórakeppni í Olomouc, Tékklandi, árið 2009. Graudeualekórinn er einn af hverfiskórunum okkar og við erum stolt af þeim.

  • Gleðidagur 6: Brúðkaupsdagur

    Á brúðkaupsdegi Vilhjálms og Katrínar viljum við ræða hjónabandið og deila viðtali við Rowan Williams. Hann er erkibiskup af Kantaraborg og gaf ungu hjónin saman í morgun. Hér segir hann meðal annars að í hjónabandinu felst tvenns konar skuldbinding. Annars vegar um að vera tilbúin að deila lífinu með annarri manneskju, hins vegar að kynnast þessari sömu manneskju betur, lífið á enda.

    Erkibiskupinn bætir við nokkrum orðum til þeirra sem fylgdust með hjónavígslunni í morgun:

    „Við eigum að vera vitni í virkri merkingu, ekki bara áhorfendur, heldur virk vitni sem styðja það sem á sér stað.“

    Og hvað þýðir það? Að vera virk vitni þýðir að leggja sitt af mörkum til góðs. Það er góð hvatning til okkar á gleðidögum, ekki bara varðandi hjónaband þeirra Vilhjálms og Katrínar, heldur varðandi allt gott í samfélaginu okkar.

    Við skulum vera virk vitni.