Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 5: Þú skiptir máli

    Jólin snúast um fólk. Sögur jólanna og þemu snúast um mannlega reynslu og áskoranir. Um það hvernig við rísum undir þeim verkefnum sem lífið leggur okkur á herðar.

    Jólin eiga snertiflöt við trúna gegnum sögur ritningarinnar og það hvernig þær hafa verið túlkaðar og tjáðar í gegnum aldirnar. Inntak Biblíunnar, líka í jólasögunni, er hvernig manneskjan sér sig sjálfa, og hvernig hún gefur reynslu sinni merkingu.

    Fólkið í textum Biblíunnar var eins og ég og þú. Það lifði lífi sem var fullt af áföllum, ótta, ranglæti en líka ást, gleði og eftirvæntingu. Textar Biblíunnar miðla til okkar í gegnum tímann hvernig þetta fólk tókst á við lífsreynsluna og leyfði henni að móta sig.

    Jólin snúast um þig og þína reynslu. Aðventan er tíminn sem við notum til að undirbúa jólin. Þess vegna felst í henni tilboð um að horfast í augu við lífið án þess að detta í fordóma um okkur sjálf og hvernig við eigum að vera. Notum aðventuna til þess að elska okkur sjálf, en ekki dæma okkur endalaust fyrir að vera ekki nógu góð, dugleg, falleg, skilningsrík, elskandi.

    Látum aðventuna snúast um kærleika en ekki kitsch, samhjálp en ekki samkeppni, innihald en ekki umbúðir. Þetta eru góð íhugunarefni á meðan við bíðum eftir því að komast á áfangastað og allt er snjóað í kaf.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 4: Í hvaða röð eru aðventukertin?

    Hvað heita kertin á aðventukransinum er spurning sem kemur oft upp á aðventunni. Þegar við rifjum það upp er gott að hafa í huga að kertin koma fyrir í tímaröð. Þannig vísa þau til sögunnar.

    1. Spádómskertið er fyrst, það vísar til spádómanna um fæðingu Jesú (t.d. Jes 9.5).
    2. Betlehemskertið er annað, það  sem vísar til staðarins þar sem Jesús fæddist (sbr. Lúk 2.4).
    3. Hirðakertið er þriðja, það vísar til hirðanna í haganum (sbr. Lúk 2.8).
    4. Englakertið er fjórða,  sem vísar til englanna sem sungu fyrir hirðana (sbr. Lúk 2.9-14).

    Þannig munið þið þetta.

    #ósíuðaðventa

    Myndin hér að ofan sýnir aðventukrans þar sem kveikt hefur verið á Spádómskertinu. Myndina tók Micha L. Rieser.

  • Ósíuð aðventa 3: Alþjóðlegur dagur fatlaðra

    Í dag er Alþjóðlegur dagur fatlaðra sem er haldið upp á þriðja desember. Í tilefni dagsins langar okkur að deila með ykkur pistli Ívu Marínar Adrichem sem skrifar um trú sem byggir upp og trú sem mismunar. Hún leggur út af sögunni um Jesús og blinda manninn:

    Þegar talað er um að blindur maður sjái vegna kraftaverks Jesús, tel ég að verið sé að meina orðið sjón í táknrænni merkingu. Í mínum huga gæti Jesús hafa gefið aðra sjón en veraldlega sjón. Ég myndi frekar halda að hann hafi hjálpað fötluðu fólki að finna tilgang með lífi sínu og opnað augu þess fyrir hinu fagra lífi sem hægt væri að lifa.

    Mér finnst alveg fráleitt og hreinlega lýsa barnaskap að fólk skuli túlka þessar dæmisögur svona bókstaflega og vísa svo í þær í daglegu lífi. Þau trúarrit sem bókstafstrúarfólk lifir eftir og þröngva upp á samferðarfólk sitt, voru barn síns tíma en hugsunarháttur breytist í tímanna rás og skoðanir samfélagsins með því.

    Við tökum að sjálfsögðu undir með Ívu Marínu um að fatlaðir eiga fagurt líf eins og þau einmitt eru og eina alvöru blindan sem þjakar fólk er að sjá ekki gæði margbreytileikans og mikilvægi framlags okkar allra hvernig svo sem við erum. Notum aðventuna til að skerpa sjónina okkar á tilfinningar, skynjun, fegurð, trú og von fyrir alla.

    #ósíuðaðventa

    Myndin hér að ofan sýnir Brotna stólinn sem er viðarskúlptúr sem stendur við Palais de Nations í Genf. Myndina tók Pierre Albouy fyrir UN Geneva

  • Ósíuð aðventa 2: Þæfingur

    Það er þæfingsfærð í höfuðborginni og víða um land. Snjónum hefur kyngt niður og þótt snjómokstri sé vel háttað verða til snjógarðar sem þrengja göturnar. Það er líka hált. Þetta hægir á allri umferðinni og stundum komumst við aðeins löturhægt – hvort sem ferðast er á bíl, strætó, hjóli eða fótgangandi.

    Við getum hvorki stjórnað umferðinni né færðinni, aðeins okkur sjálfum og eigin fararmóta. Við getum líka haft stjórn á því hvernig við mætum aðstæðunum. Hvernig við mætum biðinni þegar við erum því sem næst veðurteppt og komumst ekki úr stað.

    Aðventan og biðin heyra saman.
    Við bíðum á aðventunni.
    Mikið.

    Dygð aðventunnar er að bíða ekki í óþolinmæði heldur eftirvæntingu og von. Leyfa okkur að hvíla í aðstæðunum hverju sinni og upplifa gæðin sem felast í þeim. Það gildir líka um þæfinginn, aðstæðurnar sem eru óvæntar og koma illa við okkur.

    Gangi þér vel að bíða.

    #ósíuðaðventa

  • Ósíuð aðventa 1: Dagatalið

    Aðventan er magnaður tími. Hún lýkur upp mörgum stefjum sem kristin trúarhefð leggur okkur á hjarta í aðdraganda jólanna. Eitt af þessum stefjum aðventunnar er vonin sem í kristinni trúar er ætluð öllum en ekki fáum útvöldum. Boðskapur aðventu og jóla um frið á jörðu og velþóknun Guðs gengur út á þetta og beinist sérstaklega að þeim sem eru jaðarsett. Þau eru sérstakur farvegur vonarinnar sem ætluð er öllu mannkyninu.

    Okkur langar að lyfta aðventunni upp sem innleggi í samtalið um manneskjur, merkingu og mátt í aðdraganda jólanna. Á hverjum degi fram að jólum ætlum við að setja fingurinn á eitthvert stef eða viðburð sem dregur fram skilaboð kristinnar trúar inn í aðstæður og reynslu manneskjunnar hér og nú.

    Aðventubloggið okkar heitir #ósíuð aðventa vegna þess að í textum og boðskap Biblíunnar er svo mikið raunsæi og nánd. Okkur hættir stundum til að missa sjónar af því í kapphlaupi samtímans.

    Takk fyrir að eiga #ósíaða aðventu með okkur.

    Færslurnar

    [display-posts category=”osiud-adventa” posts_per_page=”24″ include_date=”true” date_format=”j. F, Y”]

    #ósíuðaðventa

  • Samtal um siðaskipti – önnur þáttaröð

    Önnur þáttaröðin um siðbótina sem við Ævar Kjartansson gerum hefur nú litið dagsins ljós á Rás 1. Þættirnir voru sendir út á sunnudagsmorgnum á Rás 1 frá 27. september til 8. nóvember. Þættirnir eru aðgengilegir í Sarpinum og verða það fram í desember.

    • 27. september: Dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu. Við ræddum við hann um ólíkar leiðir til að tala um siðbótina og um eðli hennar.
    • 4. október: Dr. Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Við ræddum við hana um sálma á tíma siðbótarinnar og eftir hana.
    • 11. október: Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur. Við ræddum meðal annars um Lúther og samviskuna og afdrif hugmynda hans á 20. öldinni
    • 18. október: Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði. Við ræddum við hana um það hvað fornleifafræðin kennir okkur um siðbótartímann og um hlutverk klaustranna á miðöldum og eftir siðbótina.
    • 25. október: Dr. Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Við ræddum við hann um arfleifð og áhrif Biblíunnar á Íslandi.
    • 1. nóvember: Dr. Guðrún Kvaran, prófessor emeritus. Við ræddum við hana um tungumálið og Biblíuþýðingarnar.
    • 8. nóvember: Sr. Bjarni Karlsson, prestur og ráðgjafi. Við ræddum við hann um sístæða siðbót í lútherskum kirkjum og nýbreytni í kristnihaldi á 21. öldinni.

    Ps. Þættirnir í fyrra hétu Samtal um siðbót, önnur þáttaröðin heitir Samtal um siðaskipti. Glöggir lesendur átta sig mögulega á því hver verður yfirskrift þriðju þáttaraðar, ef af henni verður.

  • #PrayForParis #PrayForBeirut

    Lífsins Guð. París og Beirut eru í huga okkar og hjarta.

    Við biðjum fyrir þeim sem týndu lífi sínu í gær og fyrradag. Fyrir þeim sem hafa misst ástvini. Fyrir þeim sem lifa í gíslingu og fyrir þeim sem finnst lífið aldrei verða samt. Við biðjum fyrir þeim sem bíða milli vonar og ótta við hlið þeirra sem þau elska og berjast fyrir lífi sínu.

    Við biðjum fyrir þeim sem hjálpa, fyrir heilbrigðisstarfsfólki og löggæslu, fyrir þeim sem gegna ábyrgðarstöðum í almannaþágu og taka ákvarðanir í okkar þágu.

    Fyrst og síðast biðjum fyrir heiminum okkar, sem þú elskar, en er svo brotinn og varnarlaus. Sendu ljós þitt og kærleika inn í aðstæður myrkurs og ótta. Komdu til okkar þegar við finnum bara reiði og vanmátt, hjálpaðu okkur að finna traust og kærleika í systrum okkar og bræðrum.

    Rjúf vítahring ofbeldis og fordóma, gef okkur kraft til að berjast fyrir hinu góða í þágu allra.

    Amen.

  • A prayer for refugees

    Almighty God, you so loved the world that you became one of us. Help us hear your calling to also love the world and serve our neighbour. Help us make room for those who come to our countries from afar and make them feel welcome. Make us willing to share the resources we are so blessed with.

    Loving God, you made us in your image. Help us see your image in every man, woman and child we meet. Let us remember that the sea of refugees in the world consists of individuals with their own names, own history, special experiences and dreams. Each and every one is created in your image, endlessly worthy and holy. Each and every one is precious to you and holds endless worth in your eyes.

    God of life, we thank you for your son, who became one of the many who are forced to leave their homes in search for security and shelter. We pray for all children who suffer and are afraid, because their homes are not safe. We pray for all children who are on the run, who are living in camps or in unsafe places. We pray for those children who did not make the journey to safety alive.

    Gracious Lord, we thank you for those who seek protection and new life in our homecountry. Let us see their gifts and talents so they can be included in a loving and serving community. Give authorities eyes of love and courage, so they might respect every human being, no matter where they come from. Give peace and righteousness in our world.

    We pray through your son and our brother, Jesus Christ. Amen.

    Written for the Ecumenical Prayer Cycle of the WCC.

  • Dagur minninga og þakklætis

    Sorgin er hluti af lífinu. Hún er fylgikona ástarinnar því allir sem hafa elskað eiga það á hættu að missa og syrgja. Sorgin getur verið sársaukafull og erfið en við eigum þó aldrei að bæla hana niður eða afneita henni, ekki frekar en við viljum skiljast við minningarnar um þau sem við höfum elskað eða bæla ástina okkar niður.

    Það er misjafnt hvernig syrgjendur vinna úr missi eftir andlát ástvinar. Sumir heimsækja gröf hins látna reglulega, aðrir sjaldan eða aldrei. Sumum líður best með að hlutir hins látna séu óhreyfðir í langan tíma, aðrir vilja taka til og fjarlægja þá sem fyrst. Margir tjá sig á Facebook. Sumir tala um hinn látna eða skrifa béf til viðkomandi. Öðrum finnst minningarnar dofna fljótt. Suma dreymir lifandi drauma oft, jafnvel á hverri nóttu, um þann sem þau hafa misst. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð.

    Þegar við syrgjum erum við að ná tökum á því sem hefur breyst í lífi okkar. Á sama tíma leitum við nýrra leiða til lifa áfram með því tómarúmi sem verður til við missinn. Til að lifa með sorg, söknuði, tómleika og ótta. Til að lifa án hennar eða hans sem hefur kvatt, til lifa án framtíðarinnar sem við töldum örugga. Þetta tekur tíma og rými í lífinu okkar, rétt eins og ástin og minningarnar.

    Í árinu eru nokkrir dagar sem eru teknir frá fyrir minningarnar og þakklætið. Einn þeirra er Allra heilagra messa sem við höldum upp á 1. nóvember. Í kirkjum landsins er boðið til fjölbreyttra bænastunda þar sem við minnumst látinna. Kirkjugarðarnir eru líka opnir. Þangað er hægt að fara, eiga sína stund, kveikja á kerti, minnast og þakka. Þú ert velkomin í garð og til kirkju, Guð blessi þig, blessi minningarnar þínar og ástina og helgi sorg þína.

    Ragnheiður Jónsdóttir og Árni Svanur Daníelsson.
    Sóknarprestar í Mosfellsprestakalli og Reynivallaprestakalli.

    Birtist fyrst í Mosfellingi, 22. október 2015.

  • Að greina og skilja ríki og kirkju

    Við hjónin skrifuðum stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Umræðan um þetta mál er í fullum gangi og það skiptir miklu að ekki sé gengið út frá röngum forsendum. Pistillinn okkar hefst á helsti sem er svohljóðandi:

    Stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Á Íslandi er ekki ríkistrú og trúfrelsi er óumdeilt grunngildi í samtímanum. Aðskilnaðurríkis og kirkju getur haft í för með sér að ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé tekið burt en það hefur ekki bein áhrif á fjárhagsleg samskipti þjóðkirkjunnar og hins opinbera. Öll trú- og lífsskoðunarfélög fá sóknargjöld sem ríkið innheimtir. Sérstök fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju byggja ekki á sambandi þeirra heldur samningi tveggja sjálfstæðra aðila. Ríkið sparar enga peninga með aðskilnaði.

    Lesa í Kjarnanum.