Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 36: Mamma

    Blómvöndurinn

    Á þrítugasta og sjötta gleðidegi gerum við þessa bæn að okkar.

    Náðugi Guð. Í dag biðjum við fyrir öllum mæðrum. Fyrir lífmæðrum, kjörmæðrum og stjúpmæðrum. Fyrir ungum og gömlum mæðrum, heilbrigðum og sjúkum, nálægum og fjarverandi. Fyrir þeim sem gefa kærleika og vinsemd með því að vera í móðurhlutverki. Gef þeim þolinmæði, gleði og þinn frið, sem er æðri öllum skilningi. Við biðjum í Jesú nafni.

    Ps. Bænin er sótt til ELCA.

  • Gleðidagur 35: Barbara og vatnið

    Barbara Rossing er prófessor við Lutheran School of Theology í Chicago. Við þekkjum hana af vettvangi Lútherska heimssambandsins. Í dag leiddi hún Biblíulestur á vefráðstefnu Lh um umhverfismál og réttlæti. Hún ræddi um vatnið í Biblíunni.

    Á þrítugasta og fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir vatnið og fyrir lífið.

  • Gleðidagur 34: Hugsaðu til vinar þíns

    In the name ...

    Hugsaðu til vinar þíns.

    Flettu svo upp í bænabókinni á Trú.is og finndu eina bæn sem þú vilt gefa þessum vini.

    Sendu hana í tölvupósti, sms-i eða skrifaðu hana á vegg á Facebook.

    Þrítugasti og fjórði gleðidagur er bænadagur.

  • Gleðidagur 33: Jöfn í augum laga og samfélags

    Mynd af Instagram síðu Barack Obama

    Hver einasti Bandaríkjamaður
    Hommar
    Gagnkynhneigðir
    Lesbíur
    Tvíkynhneigðir
    Transfólk

    Hver einasti Bandaríkjamaður
    Á skilið að vera mætt
    af jöfnuði
    í augum laganna
    og í augum samfélagins.

    Í gær lýsti Barack Obama því yfir að hann styddi hjónaband samkynhneigðra. Obama er okkar maður. Við kræktum í þessa mynd á síðunni hans á instagram og deilum henni með ykkur á þrítugasta og þriðja gleðidegi þegar við minnumst fagnaðarins yfir einum hjúskaparlögum á Íslandi 2010 og væntum einna hjúskaparlaga í fleiri löndum á komandi árum.

  • Gleðidagur 32: Hamingjan er hér

    Á þrítugasta og öðrum gleðidegi viljum við deila með ykkur hamingjulaginu sem Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar gerðu svo vinsælt árið 2010.

    Hamingjan er hér. Hún er svo sannarlega hér.

  • Gleðidagur 31: Krakkar hitta kindur og krabba

    Forvitin kind

    Krabbinn skoðaður

    Bjarteyjarsandur

    Við fórum í sveitaferð með leikskólanum í dag. Sveitaferðardagurinn var öðruvísi dagur þegar við vikum frá hefðbundinni dagskrá leikskólabarna og foreldra þeirra. Þetta var dagurinn þegar við hittum litlu lömbin og kindamömmurnar þeirra. Lékum okkur í heyinu. Tókum upp krossfiska og krabba. Nutum samvista við náttúru og hvert annað.

    Það er gott að eiga öðruvísi daga og það viljum við þakka á þrítugasta og fyrsta gleðidegi.

  • Gleðidagur 30: Alla daga

    Í sunnudagaskólanum í gær sungum við lagið Tikki tikki ta. Þar koma meðal annars fyrir línurnar

    Alla daga og allar nætur
    augu Jesú vaka yfir mér.

    Þetta er elskuyrðing því augnatillit Jesú er augnatillit elskunnar. Það eru skilaboðin okkar á þrítugasta gleðidegi.

  • Gleðidagur 29: Hjarta og hold

    Pönnukökur

    Í dag er Megrunarlausi dagurinn. Í lexíu dagsins segir meðal annars: „Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi.“

    Okkur finnst viðeigandi að lexían fjalli um nýjan anda og um hold á megrunarlausa deginum sem er auðvitað líka dagur líkamsvirðingarinar.

    Í tilefni tuttugasta og níunda gleðidagsins deilum við með ykkur mynd af pönnukökum sem eru uppáhaldsmatur, á megrunarlausum dögum og líka alla hina dagana.

  • Gleðidagur 28: Grösin í garðinum

    Nykurrós frú Richmond

    Á tuttugasta og áttunda gleðidegi var komið við í Grasagarðinum í Reykjavík. Þar var meðal annars þessi Nykurrós sem gladdi augun. Í dag viljum við þakka fyrir blómin og það sem blómstrar.

    Við erum líka þakklát og glöð yfir þeim frábæra unaðsreit sem Laugardalurinn er. Þar skapast rými fyrir fjölskyldur og einstaklinga af öllum stærðum og gerðum til að eiga góðar stundir og njóta lífsins. Það er t.d. sérlega vel til fundið að setjast niður í Café Flóru eftir göngutúr í Grasagarðinum og Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum. Falleg og vinaleg kaffihús eru dýrmætir reitir og draga fram gæði borgarlífsins. Þau þurfa að vera út um allan bæ – ekki bara í 101.

  • Gleðidagur 27: Helgin

    Helgin

    Vikulega er skipt um takt í lífinu. Þá er helgi. Helgin er tími fjölskyldu og upplifana. Tími ferða í sundlaugarnar og Húsdýragarðinn. Tími grillsins. Tími leiksins og þess sem er skemmtilegt. Helgin er líka kirkjutími þegar við sitjum saman og upplifum samfélagið og þiggjum næringu til anna hversdagsins.

    Helgin er dýrmætur hluti af lífinu og fyrir hana viljum við þakka á tuttugasta og sjöunda gleðidegi.