Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Tími kærleikans í Kjarnanum

    JólaKjarninn kom út í dag. Við hjónin eigum pistil í blaðinu sem heitir Tími kærleikans og fjallar um jólin sem tíma pakkanna og kærleikans. Kjarninn er uppáhaldsmiðill og það er gaman að hafa loks stungið niður penna fyrir Kjarnann. Það er margt fleira áhugavert í blaðinu, t.a.m. pistill eftir Auði Jónsdóttur skáld. Lesið blaðið í spjaldtölvunni eða pdf-skjalinu eða pistilinn okkar á vef Kjarnans.

  • Eitthvað fallegt

    Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur syngja á jólatónleikunum Eitthvað fallegt í Víðistaðakirkju
    Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur syngja á jólatónleikunum Eitthvað fallegt í Víðistaðakirkju

    Við fórum á jólatónleikana Eitthvað fallegt með Svavari Knúti, Kristjönu og Ragnheiði í vikunni. Þetta var dásamlegt kvöld með fallegu lögunum af samnefndri jólaplötu. Þau flétta saman klassísk og frumsamin jólalög, útsetningar eru lágstemmdar og mínimalískar og hæfa vel á aðventu. Þarna er engu ofaukið og ekkert skortir. Við skemmtum okkur konunglega og það gerði Heiðbjört Anna líka.

  • Trú, stríð og friður

    Kirkjuritið kom út í dag. Þetta er þriðja tölublaðið sem við hjónin ritstýrum. Að þessu sinni er meginþema ritsins umfjöllun um stríð, frið og sáttargjörð af sjónarhóli trúarinnar.

    Forsíðu Kirkjuritsins prýðir að þessu sinni mynd sem Svavar Alfreð Jónsson tók af Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur og nokkrum fermingarbörnum á Vestmannsvatni.
    Forsíðu Kirkjuritsins prýðir að þessu sinni mynd sem Svavar Alfreð Jónsson tók af Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur og nokkrum fermingarbörnum á Vestmannsvatni.

    Í þeim hluta ritsins eru fjögur viðtöl og ein stutt grein. Sólveig Anna Bóasdóttir og Sigurður Árni Þórðarson gefa okkur innsýn í afstöðu kristinna guðfræðinga og siðfræðinga til stríðs og friðar, Sigríður Víðis Jónsdóttir segir okkur frá starfi UNICEF á átakasvæðum eins og í Sýrlandi og Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg ræðir um það sem kirkjurnar hafa fram að færa þegar kemur að því að stuðla að sáttagjörð í samfélaginu. Grétar Halldór Gunnarsson, guðfræðingur, kemur líka inn á þema ritsins í Síðasta orðinu.

    Við fengum líka fjölda aðsendra greina, meðal þeirra eru umfjöllun Stefáns Pálssonar, sagnfræðings, um Lúther og bjór sem er skemmtilegt innlegg í umræðuna í aðdraganda siðbótarafmælisins 2017. Þá fjallar Sigfús Kristjánsson um nýútkomnar stuttmyndir trúaðanna Barböru og Úlfars út frá Biblíusögum og boðorðum.

    Á vef ritsins er hægt að lesa leiðarann sem fjallar um litríka kirkju og kynna sér efnisyfirlitið. Svo er hægt að gerast áskrifandi eða kaupa sér stakt eintak hjá konunum í Kirkjuhúsinu.

    Það er sérlega ánægjulegt verkefni að ritstýra Kirkjuritinu. Við erum þakklát okkar góða samstarfsfólki í ritnefndinni, Eddu sem heldur utan um fjármál og dreifingu, höfundum öllum og viðmælendum sem leggja okkur til gott efni og svo honum Brynjólfi sem hannar og setur upp ritið.

  • Olía slökkvir ekki eld

    Munib A. Younan og Martin Junge skrifa í Fréttablaðið í dag:

    Aldrei hefur gefið góða raun að nota olíu til að slökkva elda. Slíkar aðgerðir eru ekki varanleg lausn á vandanum og ýta undir öfga og ofbeldi. Það mun hafa í för með sér aukið ójafnvægi í Sýrlandi, Miðausturlöndum og heiminum öllum.

    Við þekkjum Martin og Munib frá starfi með Lútherska heimssambandinu. Martin er framkvæmdastjóri sambandsins og Munib biskup er forseti þess og biskup í Jórdaníu og Landinu helga. Hann talar talar af reynslu um ofbeldið og ójafnvægið í Miðausturlöndum. Hér lýsa þeir áhyggjum af skaðleika mögulegrar hernaðaríhlutunar Bandaríkjanna fyrir manneskjurnar sem um ræðir – sýrlensku þjóðina.

  • Hvað er til ráða þegar barnið horfir of mikið á sjónvarp?

    Handritshöfundurinn Mark Valenti bloggaði um sjónvarpsáhorf barna fyrr í þessari viku. Í bloggfærslunni sinni kynnti hann aðferð sem má beita til að draga úr sjónvarpsglápi barna. Útgangspunkturinn er sá að foreldri segir barni sínu að það megi horfa eins mikið á sjónvarp og það vill. Sá böggull fylgir þó skammrifi að fyrir hvern þátt eða bíómynd þarf að leysa nokkur verkefni:

    1. Nefna persónurnar sem komu fyrir í sögunni.
    2. Segja frá því um hvað sagan fjallar.
    3. Nefna eftirminnileg lög sem voru í þætti eða mynd og jafnvel syngja hluta af þeim.
    4. Segja frá því hvernig sagan endaði.
    5. Segja frá því hvort það væri eitthvað sem barnið hefði gert öðruvísi ef það væri ein af aðalpersónunum?

    Þessu má svara skriflega er barnið er nógu gamalt, annars í samtali foreldris og barns. Smátt og smátt venjast börnin á að horfa ekki gagnrýnislaust heldur rýna í það sem þau horfa á og íhuga sjónvarpsefnið. Úr þessu getur líka orðið ágætis samvera foreldris og barns.

    Þegar börnin þurfa að gera þetta eftir hvern einasta þátt fá þau um leið ástæðu til að velja áhugaverða þætti sem þau nenna að hugsa um, eins og Valenti skrifar: „Þau munu ekki lengur nenna að horfa á þætti sem grípa þau ekki því þau vilja ekki þurfa að svara spurningum um slíka þætti.“

    Þá er líka stigið skref í átt að því markmiði að kenna krökkunum að sjónvarpið er ekki miðill sem við eigum að meðtaka gagnrýnislaust heldur miðill sem er mest spennandi þegar við nálgumst hann á virkan hátt og og rýnum í það sem við horfum á.

    Þetta er snjöll nálgun sem við hlökkum til að prófa með krökkunum okkar.

  • Rósa og Malala, Jón og konurnar

    Pétur Björgvin Þorsteinsson:

    Ungu konurnar fimm sem eru komnar til að heimsækja þig eru allar fæddar hér á Íslandi, húðlitur þeirra er alls konar, þær tala reiprennandi íslensku og ráða við mörg önnur tungumál. Þar sem þú hefur þegið boð þeirra sitjið þið í strætó á leiðinni til bænahaldsins hlið við hlið og spjallið saman. En fyrir utan moskuna skilur leiðir. Ungu hetjurnar fimm þurfa nefnilega að nota annan inngang en þér er boðið til bænahalds með karlmönnunum. Ég vona að þú hugsir til Rosu Parks og ungu kvennanna fimm þegar þú tekur þátt í því bænahaldi og veltir því fyrir þér hvort þú getir sett reglur í borginni þinni um að kirkjur, moskur og önnur bænahús teljist jafnmikið opinberir staðir og strætó og að fólki sé ekki mismunað eftir kyni né öðrum einkennum um hvar það fær sér sæti eða krýpur.

    Borgarstjórinn okkar er mannréttindafrömuður sem hefur tekið sér stöðu með hópum sem þarf að berjast fyrir. Pétur Björgvin nefnir hér einn hóp til viðbótar.

  • Leyfðu okkur að vera hendur þínar

    Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar í þjóðkirkjunni. Í dag lyftum við upp þjónustunni við náungann sem er kjarnaatriði í kristinni trú og lífi og birtir okkur trúna í verki. Í sögunni af miskunnsama Samverjanum erum við minnt á okkur á að við spyrjum ekki um trú eða stétt eða stöðu þess sem er í neyð heldur nálgumst hann sem náunga sem þarfnast handa okkar í þjónustu. Í Matt 25.35-36 lesum við svo um inntak kærleiksþjónustunnar:

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

    Í dag viljum við deila þremur bænum með ykkur og gera það að okkar.

    I. Þakklæti

    Drottinn Guð, við þökkum þér fæðuna og minnumst þeirra sem hungur sverfur að.
    Við þökkum þér líf og heilsu og minnumst þeirra sem eru sjúk og deyjandi.
    Við þökkum þér vini og fjölskyldu og minnumst þeirra sem eru einmana.
    Við þökkum þér frelsið og minnumst þeirra sem eru í fangelsi, og í fjötrum fíknar og skulda.

    Leyfðu okkur að tjá þakklætið til þín í þjónustu við aðra.

    II. Vitnisburður

    Góði Guð. Hjálpaðu okkur að sjá son þinn, Jesú Krist, í hverjum bróður og systur sem við mætum.
    Líka þeim sem eru ólík okkur, hafa aðra trú, annað tungumál, annan bakgrunn og annan efnahag.
    Öll eru þau í þinni mynd og óendanlega dýrmæt í þínum augum, eins og við sjálf.

    Leyfðu okkur að bera trú okkar á þig vitni með þjónustunni við aðra.

    III. Hendur

    Lifandi Guð. Lát okkur minnast að allt sem við gerum einum okkar minnstu bræðra og systra, gerum við þér.
    Þegar við heimsækjum, heimsækjum við þig, þegar við gefum að borða, gefum við þér að borða,
    þegar við gefum, gefum við þér, þegar við elskum, elskum við þig.

    Leyfðu okkur að vera hendur þínar á jörðu í þjónustunni við aðra.

  • Snjallblogg

    Í tilefni Menningarnætur ákváðum við að gera örlitla breytingu á útlit bloggsins okkar. Það hefur verið eins í tæp tvö ár og hefur nú fengið örlitla andlitslyftingu. Vefurinn er líka orðinn snjall sem þýðir að hann virkar vel í tækjum af öllum stærðum og gerðum. Við snurfusum þetta líklega eitthvað áfram og höldum svo áfram að skrifa, mynda og vísa. Vonandi skilar þetta sér líka í því að bloggið verði líka snjallblogg sem verður bæði gagnlegt og áhugavert fyrir lesendur af öllu tagi.

  • Eitthvað hinsegin

    Hún er eitthvað hinsegin, manneskjan. Og samt nær hún athygli Jesú óskiptri. Kannski sá hún eitthvað hinsegin í honum líka, eitthvað sem passaði ekki inn í fínu veisluna. Kannski horfðist hún í augu við hinsegin Guð sem skildi tvöfaldan utangarðsmann.

    Sigríður Guðmarsdóttir: Hinsegin Guð neðan og utan frá