Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 2: Tíu ný boðorð

    Á twitter má finna reikning með mynd af gömlum hvíthærðum skeggjuðum og þungbrýndum karli. Hann kallar sig Guð. Að morgni páskadags deildi hann tíu nýjum boðorðum:

    1. Hlæðu
    2. Lestu
    3. Segðu „vinsamlegast“
    4. Notaðu tannþráð
    5. Vertu gagnrýnin, leyfðu þér að efast
    6. Stundaðu líkamsrækt
    7. Lærðu
    8. Ekki hata
    9. Enga vitleysu
    10. Slakaðu á

    Á öðrum gleðidegi viljum við deila þessu með ykkur, af því að það er alveg nóg pláss fyrir uppbyggileg boðorð í veröldinni okkar.

    Myndin sýnir Charlton Heston sem lék Móses í Boðorðunum tíu. Hann er líka gamall karl með skegg og sést með boðorðatöflurnar tvær sem Móses fékk á fjallinu.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 1: Mikilvægasta máltíð ársins

    Við heyrum stundum sagt að morgunmaturinn sé mikilvægasta máltíð dagsins. Hollur og góður matur í morgunsárið er veganesti sem skilar oftar en ekki betri degi. Ætli besti morgunmatur ársins – og þar með mikilvægasta máltíð ársins – sé ekki morgunmaturinn á páskadagsmorgni. Vel heppnaður páskadagsmorgunmatur er sætur og bjartur og vonandi líka svolítið trefjaríkur. Hann lyftir upp af krafti, er í senn innspýting og undirstaða.

    Dagur vonarinnar

    Páskadagsmorgunn er einn mikilvægasti dagur ársins. Ástæðan er sú að hann er dagur vonarinnar í lífi og samfélagi. Páskarnir standa fyrir trúna og hugrekkið, fyrir málstað Jesú sem rís upp í lífi þeirra sem trúa á hann. Upprisa hans gefur okkur kraft til að vona og elska og feta í fótspor Jesú. Boðskapur hennar er að ef við sýnum við sama hugrekki og hann getum við breytt samfélaginu til betri vegar.

    Þessu er fagnað í kirkjum og safnaðarheimilum um allt land. Á síðustu árum hefur sá skemmtilegi siður breiðst út að eftir messu á páskadagsmorgun sest söfnuðurinn niður og á sameiginlega máltíð, eins og til að undirstrika að fastan er liðin og páskarnir komnir.

    Gult marmelaði

    Morgunmatinn okkar snæddum við eftir morgunmessu í Bessastaðakirkju. Öllum kirkjugestum var boðið í safnaðarheimilið þar sem sjálfboðaliðar höfðu dekkað borð, þeytt rjóma og hrært súkkulaði, lagt brauðbollur í körfur og tekið til smjör og marmelaði, gult að sjálfsögðu af því að páskarnir eru gulir.

    Páskadagur er fyrsti gleðidagurinn og þetta er fyrsta gleðidagsbloggið. Framundan eru fimmtíu gleðidagar. Við hlökkum til að eiga þá með ykkur.

    Gleðilega páska.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Dauði á diskóbar

    Þett’er föstudagurinn langi
    aðeins fimmtíuogtvisvar á ári

    Í dag er fyrri dagurinn sem við skrifum um í pistlinum Dauði og upprisa á diskóbar.

  • Stafróf páskanna

    A — Altarið er afskrýtt í sérstakri athöfn á skírdagskvöld eftir kvöldmáltíðina. Ljósin eru slökkt og gengið út í kyrrð.

    Á — Áfengi er það sem hefð er fyrir að nota í altarisgöngunni þegar síðustu kvöldmáltíðarinnar er minnst. Venjulegast er að nota rauðvín eða styrkt vín eins og púrtvín.

    B — Barabbas var dæmdur maður sem fólkið valdi í staðinn fyrir Jesú þegar Pílatus reyndi að fá Jesú lausan.

    D — Dymbilvika er nafnið á vikunni sem hefst með Pálmasunnudegi. Hún er einnig kölluð kyrravika.

    Ungi á íslensku páskaeggi.
    Ungi á íslensku páskaeggi.

    E — Egg tengjast páskahaldi órjúfanlegum böndum. Eggin tákna lífið sem kviknar á vorin og enginn vill láta páskaeggin fram hjá sér fara.

    É — Él eru ekki óalgeng í íslenskum páskahretum.

    F — Föstudagurinn langi er dagurinn sem Jesús var krossfestur.

    G — Golgata var staðurinn sem kross Jesú var reistur og hann dó.

    H — Hallgrímur Pétursson skrifaði Passíusálmana sem eru lesnir á hverjum degi föstunnar og fjalla um píslarsögu Krists.

    I — Innreiðin í Jerúsalem átti sér stað á Pálmasunnudegi.

    Í — Íkonar eru helgimyndir sem eru mikið notaðir tilbeiðslu í kristinni trúarhefð.

    J — Jesús var hylltur á pálmasunnudegi, handtekinn í Getsemane á skírdagskvöldi, krossfestur, dó og var grafinn á föstudaginn langa.

    Krossfesting Jesú. Málverk frá 16. öld eftir Peter Gertner.
    Krossfesting Jesú. Málverk frá 16. öld eftir Peter Gertner.

    K — Krossfesting var almenn aftökuaðferð í Rómaríki. Jesús var krossfestur ásamt tveimur öðrum dæmdum mönnum á föstudaginn langa.

    L — Langafasta eru síðustu sjö vikurnar fyrir páska. Á sunnudögum föstunnar er ekki sunginn dýrðarsöngur og helgiklæði prestanna eru fjólublá.

    M — Malkus hét þjónn æðsta prestsins sem Símon Pétur hjó eyrað af í Getsemane garðinum.

    N — Náð þýðir að miskunn Guðs stendur manneskjunni til boða án endurgjalds. Dauði og upprisa Jesú ryður því úr vegi sem hindrar að miskunn Guðs nái til manneskjunnar.

    O — Obláta er það sem er notað í altarisgöngunni og minnir á ósýrðu brauðin sem var neytt á páskahátíð Gyðinga.

    Ó — Ó, þá náð að eiga Jesú eftir Matthías Jochumsson er einn ástsælasti sálmur Íslendinga.

    Pálmagreinar.
    Pálmagreinar.

    P — Pálmasunnudagur er fyrsti dagur í dymbilviku. Páskahátíðin er upprisuhátíð kristinnar kirkju.

    R — Rómverska heimsveldið náði m.a. yfir landið helga á tímum Jesú. Þess vegna ríktu þar rómversk lög sem var hrint í framkvæmd af rómverskum hermönnum.

    S — Skírdagur er fimmtudagur í kyrruviku. Á skírdagskvöld hélt Jesú páskamáltíðina með vinum sínum, svo hélt hann út í Getsemanegarðinn þar sem hann var handtekinn og færður í fjötra.

    T — Tómas hét lærisveinninn sem trúði ekki að Jesús hefði risið upp, fyrr en hann fengi að sjá sárin á höndu Jesú og snerta hann sjálfur.

    U — Upprisu Jesú er minnst á páskunum. Upprisan táknar sigur lífsins yfir dauðanum.

    Ú — Útivera og útivist er vaxandi þáttur í páskahaldi Íslendinga. T.d. með helgigöngum á milli kirkjustaða.

    V — Vinir Jesú áttu með honum síðustu kvöldmáltíðina á skírdagskvöld.

    X — X-laga krossar þekktust líka í Rómarríki. Postulinn Andrés á að hafa verið líflátinn á þannig krossi.

    Y — Ytri forgarður musterisins var sá staður þangað sem venjulegt fólk mátti koma. Fortjaldið sem afmarkaði hið allra heilagasta rifnaði við dauða Jesú, samkvæmt guðspjöllunum.

    Z — Zzzz … mörgum finnst gott að blunda í messu, undir langri prédikun prestsins. Lærisveinarnir gátu heldur ekki barist við svefninn og beðið með Jesú í Getsemane.

    Þ — Þvottur er nátengdur við skírdag því þá þvoði Jesús fætur lærisveina sinna.

    Æ — Æðstu prestarnir Annas og Kaífas yfirheyrðu Jesú um kenningar hans og starf áður en þeir sendu hann til Pílatusar.

    Ö — Öskudagur er fyrsti dagur lönguföstu.

  • Styttan og eplatréð

    „Þótt ég vissi að heimsendir yrði á morgun þá myndi ég planta eplatré í dag,“ á siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther einu sinni að hafa sagt. Þessi tilvitnun er rótin að fallegum minnisvarða um siðbótina í Wittenberg. Minnisvarðinn samanstendur af 500 trjám sem munu standa í svokölluðum Lúthersgarði. Við vorum stödd þarna í síðustu viku í góðri fræðsluferð með Biskupsstofu. Við það tækifæri plantaði Agnes biskup þjóðkirkjutré í garðinn.

    Við tókum myndir og gerðum myndband.

  • Fastað á stóru orðin

    Fasta er töfraorð í samtímanum. Allt árið er fastað til að koma skikki á líkamsþyngd, blóðsykur og mittismál. Sum okkar fasta á hveiti eða sykur, á kjöt, áfengi eða nammi. Markmiðið er að hnika hegðun og venjum sem gera okkur ekki gott.

    Fastan á sér trúarlegar rætur. Við lesum um föstur í Gamla og Nýja testamentinu. Jesús fastaði í fjörutíu daga í eyðimörkinni og kirkjan heldur föstu í aðdraganda jóla og páska. Múslímar fasta frá sólarupprás til sólarlags í Ramadanmánuði. Markmið hinnar trúarlegu föstu er að rækta andann og efla trúræknina með því að leggja líkamlegar þarfir eða hvatir til hliðar.

    Aðferðafræði föstunnar virkar líka í öðru samhengi og þarf ekki að takmarkast við að halda sig frá mat. Við getum fastað til góðs fyrir samfélagið okkar hér og nú, með því að leggja af hegðun og venjur sem draga okkur öll niður.

    Óvægin orð, illt umtal og uppnefni eitra andrúmsloft og menga sameiginleg rými okkar. Samhengi slíkra orða getur verið pólitískt eða persónulegt, þau eru sögð í fúlustu alvöru eða undir formerkjum húmors. Óháð samhenginu er slík umræða íþyngjandi. Hún getur orðið eins og illkynja æxli þegar hún grefur sig inn í þjóðarlíkamann. Hún stendur í vegi fyrir því að við þroskumst sem einstaklingar og samfélag og getum orðið besta útgáfan af okkur sjálfum.

    Á þessari föstu skulum við fasta á stóryrtar yfirlýsingar um annað fólk, hvort sem er í persónulegum samskiptum, á ræðustóli, í fjölmiðlum eða á netinu. Markmiðið með föstu er nefnilega að verða betri manneskja í betra samfélagi. Föstum á stóru orðin og sjáum hvort við njótum ekki öll góðs af.

    Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 6. mars 2014.

  • Hvað merkja gjafir vitringanna?

    Gjafir vitringanna, gull, reykelsi og myrra, standa fyrir gæði af ólíkum toga sem við þurfum til að njóta lífsins til fulls. Efnislegt öryggi í formi skjóls og klæða, andlegan þroska og vöxt og leik skynfæranna sem gefa lífinu lit, bragð og tón. Lífið hvílir á þessum andlegu og líkamlegu gæðum og samfélagið sækir næringu til þeirra. Gjafirnar tákna auðlindir jarðarinnar sem við erum háð og njótum í þakklæti og með ábyrgð.

    Framtíðarhátíð, pistill á þrettánda degi jóla.

  • Við áramót

    Örlítil ljósadýrð á gamlárskvöldi.
    Örlítil ljósadýrð á gamlárskvöldi.

    Gleðilegt ár og takk fyrir árið sem senn er liðið. Guð blessi ykkur nýja árið.

  • Tími kærleikans

    Við skrifuðum þennan pistil fyrir Kjarnann. Hann birtist í jólablaðinu sem kom út 19. desember, tæpri viku fyrir jól.

    Eru jólin tími pakkanna? Það finnst mörgum, bæði ungum og öldnum, ekki síst á þessum tíma þegar liðið er á aðventuna og landsmenn hafa eytt ótal stundum í að hugsa um hvað eigi að gefa þeim sem skipta okkur máli, finna út hvar við gerum bestu kaupin, kaupa og pakka inn og skreyta. Pakkastússið allt er mikilvægur hluti af jólahaldinu.

    Milljónir

    Kvikmyndin Milljónir eftir verðlaunaleikstjórann Danny Boyle er ein eftirminnilegasta jólamynd síðari ára. Þetta er dæmisaga um tvo bræður sem finna tösku fulla af peningum. Sagan gerist í Englandi, nokkrum dögum áður en skipta á um mynt í landinu. Bræðurnir vilja ekki skila peningunum því þeir óttast að enginn trúi því að þeir hafi fundið þá á víðavangi. Þeir vita líka að peningarnir verða verðlausir eftir nokkra daga.

    Hvað er til ráða? Eldri bróðirinn vill eyða þeim í sjálfan sig. Hann vill kaupa sér fallega hluti og spreða peningum til að stækka sjálfur. Yngri bróðirinn vill eyða þeim í fátæka og láta þannig gott af sér leiða.

    Milljónir gerist á aðventu og jólum. Hún spyr spurningar sem er kannski ein af lykil­spurningum vestræns samfélags: Hvað eigum við að gera við peningana okkar? Eyða í okkur sjálf eða aðra? Er það ekki spurningin sem brennur á svo mörgum þegar rætt er um fjárlög og þróunaraðstoð, framlög til Landspítala, starfsemi hjálparsamtaka, menntakerfið okkar? Er það ekki spurningin sem býr að baki þegar við erum hvött til að kaupa Gjöf sem gefur af Hjálparstarfi kirkjunnar eða Sanna gjöf af UNICEF? Þegar okkur er boðið að skilja aukapakka eftir undir jólatrénu í Kringlunni?

    Dýrmætustu pakkarnir

    Í jólaljóðinu „Ég þigg þennan pakka“ eftir Berg Þór Ingólfsson sem kom út á jólaplötunni Eitthvað fallegt á dögunum er sungið um þá pakka sem hjartanu eru kærastir:

    Pakkinn sem er
    næst hjartanu á mér
    dálítið beyglaður
    lætur lítið yfir sér
    en hann er frá þér
    og merki þess ber
    með smáum fingrum föndraður
    af kærleikanum ger.

    Um jólin er gott að staldra við, horfa til baka og íhuga hvaða pakkar það eru sem við höfum gefið eða þegið sem hafa skilið eftir sig dýpstu sporin í hjarta og huga. Það eru ekki endilega dýrustu pakkarnir heldur fremur þeir sem við völdum af kostgæfni og bjuggum til sjálf með eigin huga eða höndum. Dýrmætastir eru jafnvel þeir sem fóru til þess sem við þekktum aldrei, en þurfti mest á kærleiks­gjöfinni að halda og þáði hana fyrir milligöngu hjálparsamtaka.

    Jólin eru tími kærleikans. Kærleika til þeirra sem standa okkur næst og kærleika til þeirra sem við höfum aldrei þekkt. Fyrir það standa pakkarnir sem við gefum og tökum við þessi jól.

    Gleðileg jól.

  • Rauð, græn og hvít

    Jólin eru tími tákna og tilfinninga. Táknin eiga sér ólíkan uppruna og þau eiga sér líftíma. Tilfinningarnar eru líka lífsförunautur sem tekur breytingum. Þetta tvennt mætist í jólunum á hverju ári. Eitt af því sem við stöndum alltaf frammi fyrir þegar jólin nálgast, er að vinna þannig með þetta tvennt þannig að það varpi ljósi á inntak jólanna hér og nú.

    Úr leiðara jólablaðs Kirkjuritsins 2013