Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 12: Fastað fyrir loftslagið

    Viltu fasta fyrir loftslagið í dag?

    Loftslagsmál eru á dagskrá. Það rennur upp fyrir sífellt fleirum að við getum ekki skellt skollaeyrum við upplýsingum um afleiðingar hlýnunar loftslagsins. Við erum minnt á að manneskjurnar sem verða fyrir mestum áhrifum af þessu búa á svæðum sem eru nú þegar viðkvæm og undir miklu álagi. Við horfumst í augu við að hlýnun jarðar mun valda búsifjum á risamælikvarða.

    Loftslagsmálin eru pólitísk því þau samfélag okkar sem byggja jörðina. Leiðtogar ríkja og þjóða bera þannig mikla ábyrgð á því að mótvægisaðgerðum sé hrint í framkvæmd. Til þess hafa þau aðgang að fjármagni, þekkingu og visku þjóðanna. Fyrsta skrefið hlýtur að felast í því að viðurkenna staðreyndir og axla ábyrgð á sameiginlegum vanda.

    Það er líka þörf á almennri vitundarvakningu sem viðurkennir ábyrgð og hvetur til aðgerða. Kirkjur um allan heim hafa tekið þetta til sín og sett þessi málefni á dagskrá. Það er gert með sameiginlegum viðburði sem kallast „Fasta fyrir loftslagið“. Fasta sem á sér trúarlegar rætur miðar að því að bæta okkur sem einstaklinga og láta samfélagið njóta þess.

    Fastan fyrir loftslagið fer þannig fram að fastað er á mat og drykk fyrsta daginn í hverjum mánuði, fram til desember á þessu ári. Þá kemur Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna saman í Lima í Perú. Við getum fastað í samstöðu með fólki sem þjáist vegna loftslagsbreytinga. Við föstum í samstöðu með þeim fjölda fólks sem hefur misst heimili og afkomu vegna veðurhamfara tengdum hlýnun jarðar. Við föstum í minningu þeirra sem týna lífinu vegna hlýnunar jarðar.

    „Fasta fyrir loftslagið“ er tækifæri til að setja málefni loftslagsbreytinga á dagskrá og láta gott af sér leiða. Við skulum leggja okkar af mörkum, pólitískt og persónulega á tólfta gleðidegi og svo áfram þann fyrsta hvers mánaðar fram í desember.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 11: Hvað segir emúinn?

    Sumarið er komið. Ómissandi hluti af því eru ferðalögin um Ísland. Til að stytta okkur stundir í bílnum er hlustað á tónlist og sungið hástöfum með. Þetta er eitt af uppáhalds-ferða-lögunum okkar. Bragi Valdimar Skúlason á heiður af því. Á tíunda gleðidegi þökkum við fyrir ferðalögin og spyrjum eins og prófessorinn: Hvað segir emúinn?

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 10: Hægeldað að frönskum hætti

    Fátt dregur fram gæði augnabliksins betur fram en matreiðsla úr góðu hráefni þegar enginn asi ríkir.  Þetta á sannarlega við um eðalréttinn Boeuf Bourgignon sem Meryl Streep í hluverki Julia Child vakti svo rækilega athygli á fyrir nokkrum árum. Þennan rétt eldaði Kristín á mánudaginn og bar fram fyrir heimilisfólk auk ömmu og afa sem voru í heimsókn.

    Uppskriftin sem hún fylgdi kemur úr dönsku matreiðslubókinni Middelhavets køkken. Hún er svona:

    • 600 g nautakjöt
    • 100 g beikon
    • 25 g smjör
    • 1 1/2 msk hveiti
    • 2 msk tómatpúrré
    • 1 flaska rauðvín
    • 1/2 l kjötkraftur
    • 6-8 kvistir timían
    • 6 lárviðarlauf
    • 6 perlulaukar
    • 6 hvítlauksrif
    • 600 g gulrætur
    • 400 g sveppir
    • salt og nýmalaur svartur pipar

    Beikonið er steikt í stórum potti og svo lagt til hliðar. Kjötið skorið í litla teninga og steikt í smjöri, saltað og piprað. Hveiti drusað yfir, tómatpúrré bætt út í og hrært vel í. Bætið víni, kjötkrafti, kryddi og lauk út í og látið malla í 1 1/2 tíma. Svo er gulrótum og sveppum og beikoninu bætt út í og látið malla í hálftíma í viðbót. Ferskt timían notað til að skreyta þegar rétturinn er borinn fram, gjarnan með salati, hvítu brauði eða kartöflumús.

    Bon appetit!

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 9: Það er ekkert varið í ævintýri ef maður deilir þeim ekki með vinum

    „Það er ekkert varið í ævintýri ef maður deilir þeim ekki með góðum vinum,“ sögðu krakkarnir frá Vopnafirði sem heimsóttu Biskupsstofu á föstudaginn og sögðu frá mikilvægi vináttunnar og knúsanna. Á níunda gleðidegi viljum við deila með ykkur vináttuboðskapnum þeirra.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 8: Við höfum það bara ágætt

    Á sjöunda gleðidegi viljum við deila með ykkur þessu myndbroti úr Stjörnustríði. Við höfum það bara ágætt, eins og Han Solo, hvernig líður þér?

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 7: Súkkulaði í morgunmat

    Þegar við komum á uppáhaldskaffihúsið okkar í gærmorgun var í boði súkkulaðismakk frá omNom. Það fannst okkur sérstaklega viðeigandi á gleðidögum. Páskadagarnir eru fimmtíu talsins og þótt við borðum ekki páskaegg á hverjum degi þá er full ástæða til að gæða sér á góðu súkkulaði daglega – í hófi að sjálfsögðu. Það má jafnvel fá sér örlítinn súkkulaðimola í morgunmat.

    Finnst ykkur það ekki?

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 6: Tvær lykilspurningar

    Sagt er að Egyptar til forna hefðu haft þá trú að þegar þeir kæmu til himna væru þeir spurðir tveggja spurninga, sem hefðu úrslitaáhrif á það hvort þeir kæmust þar inn:

    • Hefur þú fundið gleði í lífinu?
    • Hefur þú fært öðrum gleði?

    Á sjötta gleðidegi deilum við þessum tveimur lykilspurningum með ykkur.

    Myndin er í eigu British Museum og sýnir egypska guðinn Anubis vega hjörtu mannanna við andlát þeirra.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 5: Sumarvinir

    Jónas yrkir um sumarvini sem gleðja augu og kannski nefið líka:

    Vissi ég áður voruð þér,
    vallarstjörnur um breiða grund,
    fegurstu leiðarljósin mér.
    Lék ég að yður marga stund.
    Nú hef ég sjóinn séð um hríð
    og sílalætin smá og tíð. –
    Munurinn raunar enginn er,
    því allt um lífið vitni ber.

    Á sjötta gleðidegi viljum við þakka fyrir skáldin okkar. Með fallegu orðunum sínum minna þau meðal annars á það smáa í lífinu sem er fullt af fegurð og kallar fram þakklæti í huga og hjarta.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 4: Hamingjudansinn

    Happy með Pharrel Williams er uppáhaldslag og hamingjudansinn er líka í uppáhaldi. Fjölmargir hafa tekið það upp hjá sér að dansa hann og gera myndband. Þetta er uppáhaldsmyndbandið okkar.

    Hér dansa krakkar með Downs og minna okkur á að hamingjan er allra en ekki bara þeirra sem samfélagið eða læknavísindin skilgreina sem „normal“. Boðskapur páskanna gengur einmitt út á þetta: upprisan er allra en ekki bara sumra.

    Það er boðskapurinn á fjórða gleðidegi.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 3: Kertið hennar Nadíu

    Nadía Bolz-Weber er einn af uppáhaldsprestunum okkar. Hún þjónar í kirkju í Denver í Bandaríkjunum sem heitir House for all Sinners and Saints. Þar er pláss fyrir alla.

    Þau bjuggu til páskakertið sem má sjá á myndinni hér fyrir ofan. Það er gert úr afgöngum af kertum sem hafa verið notuð í helgihaldinu síðasta árið.

    Það samanstendur af ótal hlutum. Hver þeirra þarf ekki endilega að vera fullkominn en saman mynda þeir fullkomna heild. Rétt eins og við.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.