Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Það er dýrt að vera fátækur

    Tónlistin okkar hljómar í sálinni, sagði kona í samtali við Fréttastofu Rúv í gærkvöldi. Hún var að segja frá þjóðlagasöng sem er iðkaður þessa helgi á Akureyri. Af orðunum mátti ráða að tónlistin skiptir máli. Hún snertir sálina,  getur nært hana og lyft henni upp.

    Mig langar að íhuga tónlist og trú í dag og ég ætla að gera það með því að leggja út af þremur tónleikum sem ég hef sótt á undanförnum vikum.

    Fyrst hlustaði ég á síðpönksveitina Trúboðana sem fagnaði útkomu plötunnar Óskalög sjúklinga. Þá tróð söngvaskáldið Svavar Knútur upp og fagnaði útkomu fjögurra platna á vínil. Það er stundum svolítið pönk í honum. Loks var það frumpönkarinn T. V. Smith sem gaf innsýn í sína tónlist. Ég lærði sitthvað á þessum tónleikum og mig langar að deila því með ykkur í kirkjunni í dag.

    *

    Trúboðarnir tróðu upp á Gauknum. Þeir syngja um smáatriðin í daglegu lífi  sem spegla samtímann og ljúka lífinu upp. Óskalög sjúklinga beina kastljósinu að því sama og kvöldfréttirnar: Heilbrigðiskerfinu og fólkinu sem þiggur þjónustuna:

    Færðu fatið undir lekann
    Sérðu ekki að húsið það er fokhelt
    Lyftan aftur föst aá milli hæða
    Hjartastuðtækið orðið straumlaust

    Söngvarinn er staddur á spítalanum og og það sem styttir stundir eru hin nostalgísku óskalög sjúklinga. Svo lýkur laginu á þessum hendingum:

    Ég hlusta á’ óskalög sjúklinga
    fæ ég lifrarígræðsluna
    náðu í nýrnavélina
    viltu græða í mig sálina.

    Undirliggjandi eru skilaboðin um að kerfið sé ekki í fullkomnu lagi þótt manneskjan þrauki.

    Það sama er uppi á teningnum í laginu Vantrúboð:

    Ei skal hafa annan guð en Glitni
    Glöð við beygjum höfum til Nastakk
    Gröfum síðan gömul hindurvitni
    Við Guð við segjum einfaldlega nei takk
    – Hvaða guð sé oss næstur

    Athygli hlustandans er líka beint að trú og trúarhefðum í skólastofunni og sungið um gildismat. Trúboðarnir spyrja hvort það geti verið að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Textinn er brýnandi og málefnið mikilvægt.

    Lög Trúboðanna eru þétt og kraftmikil, textarnir fullir af boðskap og spurningarnar um samfélagið okkar brýnandi. Þetta er gott stöff.

    *

    Svavar Knútur lék og söng á Rósenberg.
    Svavar Knútur heillaði gesti á Rósenberg.

    Svavar Knútur söng á Rósenberg og beindi hug og hjarta  að gildi einveru og íhugunar, sársaukanum sem getur fylgt því að vera manneskja og að ferðaþránni sem leiðir okkur á ókunnar lendur. Hann söng um lífið í hæðum og lægðum á minimalískan og einfaldan hátt sem snertir hjartað. Í lagasmíðum sínum hefur Svavar líka beint sjónum að ranglátum kerfum og lýst áhyggjum.

    Eitt besta dæmið um það er lagið Af hverju er ég alltaf svona svangur. Þar er sungið er á gamansaman hátt um uppvakninga – zombíur – sem kunna að meta Bauhaus og Bylgjulestina, Kringluna og Smáralind. Undirliggjandi eru áhyggjur af gildismati sem metur neysluna meira en manneskjur. Það er gildismat hagvaxtarins sem stundum virðist tröllríða öllu.

    *

    T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.
    T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.

    Svo var það pönkarinn T.V. Smith sem trommaði gítarinn sinn áfram á Dillon og kyrjaði hrá pönklög um kerfisbundið ranglæti. Laglínurnar voru einfaldar og textarnir boruðu sig undir kvikuna. Það er dýrt að vera fátækur syngur T. V. Smith:

    Það er dýrt að vera fátækur,
    því allt kostar meira,
    ég banka á luktar dyr.
    Það er dýrt að vera fátækur,
    vill einhver kasta til mín nokkrum brauðmolum,
    ég skal borða þá af gólfinu.
    Það er dýrt að vera fátækur,
    en ég lít kannski vel út þegar ég er fullur örvæntingar.

    Upp úr lögunum hans stendur ekki bara tilfinning fyrir ranglæti heldur spurningar: Ertu með? Eigum við að breyta heiminum?

    *

    Kæri söfnuður.

    Við erum enn inni á áhrifatíma Hvítasunnunnar. Hátíðar heilags anda. Og heilagur andi talar til okkar með margvíslegum hætti. Í gegnum reynsluna í lífinu, gegnum þrautir og sigra. Í daglegu lífi. Í tónlistinni sem við heyrum. Líka þegar við búumst bara alls ekki við því.

    Trúboðarnir brýna okkar. Ekki með því að segja: Eitt er best og miklu betra en annað heldur með því að spyrja út í gildismatið og spyrja um það hvernig og hvers vegna og setja fingurinn á það sem er kannski bara svolítið ranglátt og ætti að vekja okkur til umhugsunar. Það sama gera Svavar Knútur og T. V. Smith.

    Svo er það kirkjan.

    Hér syngjum við líka.

    Hér erum við líka að fást við sömu spurningar og tónlistarmennirnir gera í lögum sínum.

    Spurningar um það hvernig við búum til gott og réttlátt samfélag.

    Hjörtun okkar slá í takt og við ætlum að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

    Hvað þýðir það?

    Það þýðir að við viljum betri heim.

    Eins og Jesús.

    Það þýðir að við viljum gera heiminn betri. Sjálf.

    Eins og Jesús.

    Kannski þurfum við bara svolítið pönk í kirkjuna. Var Jesús ekki töluverður pönkari – svona miðað við viðbrögðin sem hann fékk? Kannski er kirkjupönk kall dagsins.

    Við þurfum að byrja núna.

    Því kerfið er ekki fullkomið.

    Og þá þarf að bretta upp ermarnar og gera breytingar.

    Annað var það nú ekki.

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé Jesú sem þorði að vera öðruvísi og orða hlutina eins og þeir eru, dýrð sé heilögum anda sem gefur hugrekki til að aðhafast.

    Þessi prédikun var flutt í síðdegismessu í Laugarneskirkju á öðrum sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 14. júní 2015.

  • Biblíublogg 26: Biblían er á toppi vinsældarlistans

    Í toppsæti vinsældarlista Rásar 2 þessa vikuna trónir lagið Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá með Jónasi Sigurðssyni og ritvélum framtíðarinnar. Lagið var frumflutt í mótmælum á Austurvelli í nóvember og gefið út á þessu ári. Í textanum er vísað í tollheimtumenn (sbr. Matt 9.10), sannleikann (sbr. Jóh 18.38), aldingarðinn Eden (sbr. 1Mós 2-3), gullkálfinn (sbr. 2Mós 32) og svo auðvitað orðatiltækið „af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ sem er sótt í 7. kafla Matteusarguðspjalls:

    Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. (Matt 7.15-20)

    Þannig getum við sagt að Biblían tróni á toppi vinsældarlista Rásar 2.

  • Biblíublogg 5: Biblían frá upphafi til enda … í popplögum

    Það má fara ýmsar leiðir til að fjalla um Biblíuna. Ein er sú að horfa til dægurmenningarinnar. Á YouTube fundum við þessa tilraun til að fanga kjarnann í Biblíunni með því að tengja þemu og sögur við þekkt popplög.

    Hvaða tenging finnst þér best heppnuð í myndbandinu?

  • Biblíublogg 3: Bent nálgast Biblíuna

    Í morgun hófst útvarpsþátturinn Virkir morgnar á laginu Bent nálgast með XXX Rottweiler hundar. Texti lagsins er dæmi um það hvernig flétta má Biblíustef inn í dægurlög.

    Þarna er m.a. vísað í sköpunarsöguna (1Mós 1.1–2.4) , engisprettuplágu (2Mós 10.1–20) og nafn Guðs kemur fyrir (2Mós 3). Í viðlaginu er þetta sett í samhengi þess heimurinn hafi verið skapaður á sjö dögum sem í meðförum rapparans verður upptaktur að heimsendi á sjö dögum:

    Skapaði heiminn á sjö dögum og eyði honum á jafn mörgum
    Náttúruhamfarir á fyrsta degi og engisprettur á öðrum
    Þriðja, fjórða, fimmta og sjötta mun ég bæta við ykkur kvölunum
    Kem svo sjálfur á sjöunda degi til að ráða ykkur af dögunum

    Guðsmyndin er eitt af viðfangsefnum langsins. Hér birtist hinn reiði Guð sem. Hann hefur í raun holdgerst í rapparanum eins og titill lagsins ber með sér.

    Guðsmyndin er eitt af stóru viðfangsefnunum í Biblíunni. Þar kynnumst við ólíkum myndum af Guð, Guði sem skapar heiminn (1Mós 1–2), Guði sem refsar (1Mós 6–7), Guði sem sýnir umhyggju (Hós 11.3–4, Lúk 13.34). Verkefnið okkar sem rýnum í Biblíuna er púsla þessum ólíka vitnisburði um Guð saman. Þegar við gerum það getur bæði verið gagnlegt og skemmtilegt að hafa hliðsjón af vinnu textaskáldanna sem yrkja í samtímanum.

  • Tónlistin sem brú þess einhverfa

    Tómas Viktor

    Frásagnir Biblíunnar af græðandi mætti tónlistarinnar kallast á við reynslu af því hvernig tónlist nýtist í lækningarskyni. Margt bendir til þess að tónlist hafi góð áhrif á líðan sjúklinga vegna þess að hún róar hugann og leysir upp streitu. Rétti tónninn og tíðnin getur líka hitt mannslíkamann fyrir með ótrúlegum árangri. Rannsóknir á því hvernig heilinn okkar skynjar og móttekur tónlist leiða ýmislegt í ljós sem getur stuðlað að framförum í umönnun og meðferð á ýmsum sjúkdómum og einkennum.

    Músíkþerapía er t.d. notuð með börnum með einhverfu. Einhverfa er taugaröskunarsjúkdómur sem uppgötvast í ungum börnum. Einhverfa hefur mikil áhrif á getu einstaklingsins og möguleika hans til að þroskast og dafna, en einstaklingur með einhverfu er sviptur getunni til að bregðast við og aðlagast áreitinu sem verður okkur að öllu eðlilegu til þroska. Rannsóknir hafa sýnt að tónlist í meðferðarskyni getur haft góð áhrif á einhverf börn.

    Tónlist getur haft bætandi áhrif á samskiptahæfni og félagsfærni þess einhverfa. Einhverfa barnið getur móttekið tónlistina á allt annan hátt en orð og tónlausa tjáningu. Tónlistin getur hjálpað hinum einhverfa að skapa tengingu við umhverfið og það sem er í kringum hann – og með því að læra á hljóðfæri getur skapast færni í að fást við ákveðna hluti.

    Þannig getur tónlistin orðið að brú milli einhverfa barnsins og umhverfisins og gefið barninu leið til að tjá sig. Þetta gerist gegnum söng, dans og hljóðfæraleik og verður þegar vel tekst stórkostleg lausn og frelsi fyrir barnið sem er lokað í eigin heimi og nýtur ekki góðs af félagslegum samskiptum.

    Ég prédikaði um Biblíu og trú og tónlist í Víðistaðakirkju í dag. Þar má meðal annars lesa um Biblíusögurnar. Myndin hér að ofan er af Tómasi Viktori, litla einhverfa stráknum okkar.