Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Við erum öll Lady Gaga

    Við erum öll Lady Gaga. Stöndum mitt á milli Júdasar og Jesú ef svo má að orði komast. Við skulum velja Jesús og við skulum velja umhyggjuna og þjónustuna. Við skulum líkjast Drottningunni af Montreuil.

    Prédikun um trúarstef og tónlistarmyndbönd og RIFF í Borgarholtsskóla.

  • Ástin blómstrar á Ítalíu

    Loksins tókst mér að gera gamanmynd án þess að dramað tæki yfir, sagði Susanne Bier í gær. Hún kynnti nýjustu kvikmynd sína um Hárlausa hárskerann stuttlega áður en sýningin hófst og nefndi meðal annars að fyrri tilraunir hefðu orðið full dramatískar á köflum. Eða jafnvel al-dramatískar.

    Umfjöllunarefnið í Hárlausa hárskeranum er samt alvarlegt. Ida, sú sem titillinn vísar til, er að ljúka krabbameinsmeðferð. Hún hefur tekist vel. Líklega. Í upphafi situr hún hjá lækninum sínum og hann spyr hvort hún vilji ekki íhuga að endurgera brjóstið sem þurfti að taka. „Nei, nei,“ svarar hún, því eiginmaðurinn Leif styður hana og elskar eins og hún er. Hann er ekkert fyrir útlitið. Svo fer hún heim og kemst þá að því að kauði er búinn að halda við ungpíu af skrifstofunni allan tímann sem hún var í meðferðinni.

    Heimurinn hrynur og ævintýrið getur hafist.

    Hárlausi hárskerinn er mynd um flókin fjölskyldutengsl, um Ítalíu sem er staður ástarinnar að mati danskra leikstjóra, um sorgina sem tekur yfir lífið, um óttann við sjúkdóminn sem hefur einu sinni tekið lífið yfir og gæti gert það aftur. Þetta er líka mynd um vonina sem er sterkasti drifkrafturinn og um mikilvægi þess að setja sér og öðrum mörk því vonarríkt líf og skynsamleg mörk eru lykillinn að hamingjunni, á Ítalíu, í Danmörku og kannski á Íslandi líka.

    Ég mæli með Hárlausa hárskeranum sem er mannbætandi mynd. Hún er sýnd í Háskólabíói að kvöldi 1. október og fer svo vonandi í almennar sýningar.

  • Sorgarsæljón

    Queen of Montreuil var opnunarmynd RIFF í ár. Hún var frumsýnd í Hörpu í gær að viðstöddu fjölmenni. Upphaf kvikmyndahátíðinnar er hátíðarstund og við erum líka full eftirvæntingar eftir þeim góðu myndum sem eru í boði á hátíðinni hverju sinni.

    „Þá verður þú Drottningin af Montreuil“

    Drottningin af Montreuil er látlaus mynd sem fær áhorfandann til að hugsa meðan á sýningu stendur og eftir að henni lýkur. Nafnið er sótt í sögusvið myndarinnar, hverfið Montreuil þar sem aðalpersónan Agata býr. Hún er ekkja og kemur í upphafi myndar með eiginmanninn til Frakklands. Hann er í duftkeri og myndin fjallar öðrum þræði um hina syrgjandi ekkju. Nafnið vísar líka til spakmælis frá Jamíaka: Þegar eiginkona kemst yfir lát eiginmanns síns verður hún drottning. Þegar Agata hefur komist yfir eiginmanninn verður hún semsagt: „Drottningin af Montreuil.“

    Á flugvellinum hittir Agata tvo Íslendinga, Önnu og son hennar Úlf. Þau eru eins konar kreppuflóttamenn, strönduð í Frakklandi af því að efnahagshrun á Íslandi hefur leitt til gjaldþrots flugfélags. Þau bjóða sér heim til Agötu og fá að búa hjá henni um stund. Hún reynist þeim þannig bjargvættur og það endurgjalda þau með því að reynast bjargvættar hinnar syrgjandi ekkju.

    Sorgin, sæljónið og Hrunið

    Myndin er fyndin og á köflum dálítið út úr kú. Inn í söguna fléttast leit Önnu að brúðarkjólnum sínum, löngunin til að ná aftur sambandi við soninn Krumma sem er strandaður á Jamaika og svo sæljónið Fifi sem verður eins konar táknmynd sorgarinnar (eða kannski eiginmannsins látna) í lífi Agötu. Fifi ryðst inn á óþægilegum tíma, tekur heilmikið rými, ógnar, en er um leið blíður. Á lykilstundu hverfur hann úr lífi Agötu og þá eru líka tímamót í sorgarferlinu. Sæljónið Fifi ber burt sorgina og sára reynslu þegar hann syndir út á haf – kannski til Íslands.

    Drottningin af Montreuil er mynd um falleg samskipti sem einkennast af umhyggju fyrir þeim sem er ókunnugur og framandi. Þetta er ein fyrsta íslenska leikna kvikmyndin sem fjallar um Hrunið og hún ber góðan og mikilvægan umhyggjuboðskap inn í samfélagið okkar.

    Queen of Montreuil er sýnd þrisvar á RIFF, 29. september, 1. og 4. október. Ekki missa af henni.