Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Viltu prófa að þegja í heila klukkustund?

    Viltu vera hluti af alveg sérstakri guðsþjónustu, sem fer fram í kyrrð og íhugun? Laugardaginn 29. nóvember verður guðsþjónusta að hætti kvekara í safnaðarheimili Laugarneskirkju.

    Kvekarar eru kristin kirkjudeild sem sker sig mjög úr í flóru kristinna safnaða, sérstaklega þegar kemur að helgihaldinu. Enginn einn leiðir stundina, engin tónlist er leikin, ekkert þarf að tala. Stundin fer þannig fram að við setjumst á stóla sem er raðað í hring, í miðjum hringnum er lítið borð með blómum og lesefni sem má blaða í á meðan stundinni stendur.

    Vina- og friðarstund í Laugarneskirkju
    Það er gott að taka frá tíma til að sitja og íhuga í kyrrðinni.

    Ef einhver finnur hjá sér að deila bæn eða ritningarversi má gera það. Það er líka partur af prógramminu að standa upp og hreyfa sig, fá kannski sér vatn að drekka og gera það sem líkaminn kallar á.

    Stundin tekur u.þ.b. klukkutíma og á eftir verður tími fyrir smá hressingu og samtal. Guðsþjónustan er í umsjón Kristínar og David Noble sem er einn af messuþjónum Laugarneskirkju. Hann tilheyrir trúfélagi kvekara í heimalandi sínu, Englandi.

    Húsið opnar kl. 11, stundin hefst kl. 11.30. Það væri gaman að sjá þig.

  • Notuð spariföt fá nýtt líf

    Það leynist margt í fataskápunum á heimilunum í borginni. Í sumum eru jafnvel falleg spariföt sem ekki hafa ekki verið notuð oft og eru kannski orðin of lítil. Næstu tvær vikurnar ætlum við í Laugarneskirkju að safna gömlum sparifötum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.

    Sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins ætla svo að flokka fötin og deila þeim út til síns fólks í desember. Það vantar alltaf falleg og góð föt á skólabörn, ekki síst drengi á aldrinum 5-14 ára. Ef þú, lesandi góður, lumar á fallegum fötum sem ekki eru lengur not fyrir þá væri gaman að fá þig í heimsókn.

    Kirkjan er opin alla daga nema mánudaga og það verður heitt á könnunni.

    Sjáumst.

  • Umgengni er aðgengi

    Umgengni er aðgengi heitir stuttur pistill sem ég skrifaði í Reykjavík: Vikublað í dag. Í þágu aðgengileikans birtist hann líka á Trú.is.

  • Gleðidagur 38: Í Laugarneshverfi

    Í gær fékk Kristín skemmtilegt símtal frá Agnesi biskupi þar sem hún fékk að vita að hún yrði næsti sóknarprestur í Laugarneskirkju. Það voru góðar fréttir og okkur langar að deila þeim með ykkur á þrítugasta og áttunda gleðidegi.

    Laugarneskirkja er sóknarkirkja sem er þjónustumiðstöð nærsamfélagsins. Þar eiga sóknarbörnin skjól og vettvang í gleði og sorg. Kirkjan er í góðum tengslum við hverfið, hefur átt miklu prestláni að fagna og ekki síður öflugu starfsfólki og hópi sjálfboðaliða sem eru tilbúin að leggja mikið á sig fyrir kirkjuna sína og hverfið sitt.

    Við erum full af gleði og þakklæti í dag og hlökkum til að leggja okkar af mörkum til góðs samfélags í Laugarneshverfi.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.