Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Selirnir og sunnudagaskólinn

    Sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum 5. apríl 2015.

    Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

    Ein af skemmtilegustu upplifunum páskadags var sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum. Skemmtunin hófst með því að selunum fjórum var gefið og svo var haldið í tjaldið í garðinum þar sem við tók söngur, sögur og bænir undir handleiðslu presta og sunnudagaskólakennara úr Laugardalnum að viðbættum Þorvaldi Halldórssyni sem lék undir. Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

    Ps. Rúv mætti á staðinn.

  • Stríð 0 – friður 1

    Kristín í prédikun að morgni páskadags:

    Þetta er það fallega og öfugsnúna við upprisuna, sem snýr ríkjandi gildismati á hvolf. Við lifum nefnilega í menningu sem er með þráhyggju á háu stigi fyrir hinu sterka, því að ná árangri, skara fram úr, vera best og mest. En Jesús tekur ekki þátt í því, heldur býður fram leið friðarins.

  • Kranarnir og krossinn

    Kristín í útvarpsprédikun á föstudeginum langa:

    Í dag er dagur krossins, föstudagurinn langi, sem opnar augu okkar fyrir þeim sem þjást. Og andspænis þjáningu krossins finnum við mennskuna sem tengir okkur hvert öðru, í auðsæranleika okkar og varnarleysi. Við finnum mennskuna sem gerir okkur bæði hæf til fremja óskiljanleg grimmdarverk og elska óhindrað. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á hvert öðru að halda, og við finnum að við þurfum á einhverju sem er stærra og meira en við sjálf að halda. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á Guði að halda.

  • Magnaðir unglingar mæla með trúfrelsi

    Það var ótrúlega gaman að ganga með Breytendum á Adrenalíni til að mæla með trúfrelsi á Íslandi. Við gengum frá Frú Laugu í Laugarneskirkju. Þar kynnti einn Breytandinn starfið stuttlega og svo tóku fulltrúar trúar- og lífsskoðanafélaga til máls. Inn á milli ávarpanna var flutt tónlist. Elín Sif og Ragnhildur fluttu lagið Í kvöld sem við heyrðum síðast á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar. Hljómsveitirnar Helíum og Neon stigu á stokk og fluttu flotta tónlist, meðal annars lagið Take me to church sem hefur notið mikilla vinsælda.

    Í ávörpum fengum við að kynnast ólíkum sjónarhornum á trúfrelsið, m.a. að trúfrelsi snerist um frelsið til að vera látinn í friði, frelsi frá fordómum og um gestrisni og örlæti. Upp úr stendur þó hvað unglingarnir sem starfa í Laugarneskirkju eru magnaðir að skipuleggja svona glæsilegan viðburð.

    Okkur taldist til að meðmælendurnir í gær hafi verið um 100 talsins. Það veit á gott.

    Ps. Viltu skoða fleiri myndir frá göngunni?

  • Þú, ég og fjarskylda frænkan í Biblíunni

    Kristín:

    Biblían er ekki texti sem við lesum frá upphafi til enda, hún er ekki einsleit í stíl og uppbyggingu, hún er samansett af textum úr ólíkum áttum frá ólíkum tíma. Aðferðafræði kristins fólks er að nálgast texta Biblíunnar í gegnum aðra texta hennar, þannig að Biblían verður gleraugun sem við lesum Biblíuna með.

    Þú og ég og fjarskylda frænkan í Biblíunni, prédikun í Laugarneskirkju.

  • Fíkjutréð og fyrirgefningin

    Kristín:

    Og kannski er rúsínan í pylsuendanum sú að fólk sem nær árangri dvelur ekki við hið liðna, það fyrirgefur sér og öðrum. Þetta er eitthvað sem æfa þarf upp, það virðist koma flestum okkar náttúrulega að ala á beiskju og biturð, ekki síst í eigin garð. Hætta því, tala við sig sjálf á jákvæðan hátt, ekki refsa þér fyrir mistök heldur halda áfram og gera þitt besta.

    Við aftansöng á gamlársdegi í Laugarneskirkju.

  • Jólin fyrir byrjendur (og lengra komna)

    Árni:

    Við getum sagt þetta:

    Jesús er sjálfa – hann er selfie Guðs.
    Af því að Jesús – sem er Guð – birtir líka Guð.
    Það er vegna Jesú sem við þekkjum Guð og getum séð Guð.

    Hann er samt ekki snapp.
    Sendur og birtist í stutta stund og hverfur svo
    Hann er ekki instagrammmynd í lágskerpu.
    Hann er ekki status á fésinu – þótt hann sé kallaður Orðið í Jóhannesarguðspjalli

    Jólin fyrir byrjendur (og lengra komna), prédikun í hátíðarmessu á jóladegi í Laugarneskirkju, 25/12/2014.

  • Vonin á flóttamannsveginum

    Kristín:

    Árið í ár var vont ár fyrir börn í heiminum, hörmulegar fréttir af fjöldamorðum í pakistönskum skóla í síðustu viku hnikkja bara á menningu þar sem börn eru ekki örugg. Börn og fjölskyldur þeirra hrekjast að heiman af mörgum ástæðum, einni þeirra kynnumst við í jólaguðspjallinu þar sem Jesúbarnið er á hrakningum í ókunnugri borg.

    Vonin á flóttamannsveginum, prédikun við aftansöng í Laugarneskirkju, 24/12/2014.

  • Þorlákur, jólin og hið heilaga

    Kristín:

    Ég held að við séum svolítið að sveiflast til baka frá því – af því að það þarf að vera jafnvægi á öllu. Við finnum að það getur verið gott að hvíla í því sem við getum gert með kroppnum okkar, höndum, fótum, augum og heyrum. Við finnum að Guð getur mótað okkur og haft áhrif á okkur í gegnum áþreifanlega hluti, hið heilaga mætir okkur í öðru fólki, í byggingum, í myndlist og tónlist. Allt sem lyftir andanum kennir okkur um hið heilaga og gerir okkur að þátttakanda í því.

    Prédikun í Laugarneskirkju á fjórða sunnudegi í aðventu, 21. desember 2014.

  • Bæn fermingarbarnanna í Laugarneskirkju

    Viltu vera með samfélaginu okkar yfir jólin. Viltu styðja okkur í því að gera Ísland að kærleiksríku heimili fyrir alla sem þar eiga heima.  Amen.

    Á aðventukvöldinu í Laugarneskirkju voru fermingarbörnin í einu af aðalhlutverkunum. Þau gengu inn í kirkjuna með kertaljós, klædd í hvíta kyrtla, sungu. Nokkur þeirra stigu líka fram og báðu fyrir hönd safnaðarins. Þetta er ein af bænunum þeirra og við gerum hana að okkar bæn í dag.