Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ósíuð aðventa 16: Bernskusögurnar snúa aftur

    Laust eftir miðnætti verður nýja Stjörnustríðskvikmyndin frumsýnd hér á landi. Forsala hefur gengið vel og fjöldi fólks á öllum aldri mun sjá myndina á morgun. Sagan af Loga geimgengli og fjölskyldu hans er stórsaga, goðsögn sem hreyfir við mörgum.

    Þetta er saga af baráttu góðs og ills sem er þó ekki svarthvít heldur full af litbrigðum. Áhorfandinn getur samsamað sig við persónur og íhugað hvernig væri að vera í sporum hetjanna, standa frammi fyrir freistingum og erfiðum ákvörðunum.

    Þannig má segja að Stjörnustríðssögurnar séu líkar sögunum af Jesú. Þær eru líka stórsögur sem fjalla um stóru spurningarnar í lífinu. Við óskum öllum sem ganga í barndóm í nótt góðrar skemmtunar og viljum líka deila með ykkur útfærslu munkanna í Unvirtuous Abbey á Stjörnustríðs-aðventukertunum fjórum.

  • Skósveinarnir, Grú og Jesús

    Í dag verður frumsýnd kvikmynd hér á landi sem er eins konar forsaga myndanna tveggja um Aulann Grú. Hún heitir Skósveinarnir eftir söguhetjunum litlu sem hafa heillað áhorfendur um allan heim. Þeir eru gulir og sætir og næstum hnöttóttir, sumir með eitt auga, aðrir með tvö og þeir bralla og babla hver í kapp við annan.

    Þegar við kynnumst þeim í fyrstu kvikmyndinni eru skósveinarnir þjónar Grú og þeir aðstoða hann fyrst við glæpi og spellvirki og síðar við gæskuverk af ýmsum toga. Í kvikmynd dagsins fáum við að kynnast forsögunni. Við sjáum hvernig þeir hafa verið hluti af sögu lífs á jörðu frá upphafi og hafa alla tíð þjónað sterkasta leiðtoganum. Jafnan þeim sem er verstur allra. Kannski er það líka háttur heimsins að upphefja þann sem valdið hefur.

    *

    Morgunlestur þessa miðvikudags (Róm 13.8-10) fjallar einnig um samband fylgjenda og leiðtoga. Við lesum:

    „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“

    Jesús kallar okkur til fylgis við sig. En ekki þó til að vera gagnrýnislausir skósveinar heldur til að beita huga og hjarta í þágu hins góða. Til uppbyggingar. Til að elska náungann. Það er hið sanna og eina lögmál sem okkur ber öllum að fylgja. Guð gefi okkur styrk sinn til þess og Guð gefi okkur einnig gleði skósveinanna hans Grú í þeirri þjónustu.

  • Kyndilsmessa og múrmeldýr

    Kyndilmessa

    Annar febrúar er kyndilmessa sem er í almanakinu okkar tengdur veðri og veðurspá. Frá Evrópu barst til Bandaríkjanna siður sem tengist íkornategundinni groundhog – er það ekki múrmeldýr? – sem gengur úr á að fylgjast með hegðun dýrsins þennan dag og spá um tíðarfarið út frá því.

    Ef dýrið, sem heldur sig í holum neðanjarðar, skýtur upp kollinum og sér skuggann sinn, vegna þess að sólin skín á það, er það til merkis um að veturinn verði langur og vari 6 vikur enn. Ef enginn skuggi sést, má vænta vorkomu upp úr þessu.

    Eins og gildir um allan almennilegan sannleik, er þessi bundinn í vísu sem er m.a. til í þessu formi á enskri tungu:

    If Candle-mas Day is bright and clear,
    There’ll be two winters in the year.
    If Candle mas be fair and bright,
    Winter has another flight.
    If Candlemas brings clouds and rain,
    Winter will not come again.

    Þótt múrmeldýrið lifi ekki á Íslandi er þessi ratar þessi pæling líka í vísu, sem er til í þessari útgáfu:

    Ef í heiði sólin sést
    á sjálfa kyndilmessu
    snjóa vænta máttu mest,
    maður, upp frá þessu.

    Kyndilmessan, sem vísað er til markar í kristinni hefð tímann sem hefði átt að líða þar til María móðir Jesú gat sýnt sig í musterinu, þar sem fjörutíu dagar voru liðnir frá því hún átti sveinbarnið sitt. Dagurinn markar í kirkjuárinu skilin á milli jólatímans og föstunnar, kristið fólk beinir sjónum sínum frá undrinu í Betlehem og yfir til átakanna í Jerúsalem sem enda í krossfestingunni á föstudaginn langa.

    Í dag ætlum við að sjálfsögðu að horfa á kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray og íhuga boðskap hennar um endurtekninguna (hæ Sören Kierkegaard!). Svo má hugsa um það að ef Jesús hefði verið stúlkubarn, hefði kyndilmessan ekki verið fyrr en 14. mars. Er það ekki eitthvað?

  • Aulinn, björninn, Jesús og þú

    Hvað eiga Grú í Aulinn ég, Paddington í samnefndri kvikmynd, Jesús í Markúsarguðspjalli og við sem erum kristin sameiginlegt? Eitt svar er að finna í prédikun dagsins í Bústaðakirkju:

    Manstu eftir aulanum? Hann vildi vera bestur og mestur í allri veröldinni? Af því hann var þrjótur þá vildi hann vera sá mesti meðal þrjóta. Mesti vondi-kallinn. Hann ákvað því að stela tunglinu. Til að ná markmiðinu þurfti hann á börnum að halda svo hann tók að sér þrjár munaðarlausar stelpur. En þetta gekk ekki alveg upp því þegar þær komu inn í lífið hans tóku þau yfir og hann breyttist. Það kom í ljós að inn við beinið var þrjóturinn bara allt í lagi.

    Lesið og hlustið á Trú.is.

  • Gleðidagur 48: Póstkort frá Sardiníu

    Vonin er eitt af því sem við tölum um þegar börn eru skírð. Nánar tiltekið um þann hluta uppeldisins að ala börnin okkar upp á vonarríkan hátt þannig að þau horfi eða geti alltaf horft vongóð til framtíðar og finni sig aldrei á þeim stað að þykja öll sund lokuð. Þetta er rauður þráður í kvikmyndinni Vonarstræti sem við sáum í gær. Þetta er frábær kvikmynd sem við hvetjum alla lesendur bloggsins til að sjá í bíó.

    Vonin í myndinni birtist meðal annars á formi póstkorts frá eyjunni Sardiníu sem er lýst sem besta stað í heimi. Þangað dreymir rithöfundinn Móra um að komast og drauminum deilir hann með Eik vinkonu sinni. Ætli við þurfum ekki öll að eiga okkar Sardiníu, en það er ekki nóg að dreyma bara, við þurfum líka að komast þangað. Gjarnan með fólkinu sem við elskum.

    Á fertugasta og áttunda gleðidegi erum við vonarrík um leið og við þökkum fyrir snilligáfu leikara eins og Þorsteins Bachmann og Heru Hilmarsdóttur og kvikmyndagerðarfólks eins og Baldvins Z sem færa okkur snilldarverk eins og Vonarstræti.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 24: Í upphafi

    Íslandsvinurinn Russel Crowe leikur Nóa í samnefndri kvikmynd sem Darren Aronofsky leikstýrði og tók upp að hluta til á Íslandi. Eitt magnaðasta atriðið í myndinni er frásögn í máli og myndum af sköpun heimsins. Hún byggir á sköpunarsögunni (og sögunni af fallinu) í fyrstu köflum fyrstu Mósebókar og það er hægt að sjá hana á YouTube.

    Á tuttugasta og fjórða gleðidegi fögnum við sköpuninni sem springur út þessa dagana og þökkum fyrir frásagnameistara eins og Aronofsky sem færa þekktar sögur í nýjan búning.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Alison Bechdel og Óskar frændi

    Óskarsverðlaunahátíðin var haldin í gær og nú liggur fyrir hverjir fengu styttuna eftirsóttu. Á Feminist Frequency er Bechdel prófið lagt fyrir myndirnar sem voru tilnefndar sem besta kvikmynd ársins. Af þeim standast aðeins tvær prófið. Útkoman er ekkert sérstaklega góð.

  • Tvenn jólin

    Við skrifuðum jólahugleiðingu í Valsblaðið í ár. Þar fjöllum við um jólin sem tíma ljóssins og um jólin eins og þau birtast í menningunni.

    Tími ljóss og skugga

    Jólin snúast um ljósið sem færir heiminum birtu og yl í svartasta skammdeginu. Við sjáum í guðspjöllunum hvernig Betlehemsstjarnan lýsti upp nóttina og vísaði vitringunum veginn til Jesúbarnsins í jötunni.

    Í sænsku verðlaunakvikmyndinni Verkamannabústaðirnir – Svinalängorna, eftir Pernillu August, erum við minnt á hvernig ljósið og skuggarnir geta fylgst að.

    Myndin hefst á aðventu, á Lúsíudeginum, þegar dæturnar tvær koma ljósum prýddar í svefnherbergi foreldranna sem þykjast vera sofandi. Lúsíuhátíðin minnir á að aðventan og jólin eru tími ljóssins.

    Ljósið skín líka á það ljóta í heiminum ogg varpar skugga. Við erum minnt á það í Svinalängorna. Aðalsöguhetjan Leena rifjar upp bernskujólin sín. Það er ekki falleg mynd. Ekkert jólabað og engir jólapakkar því pabbi eyddi öllum peningunum í vín.

    Jólatréð sem féll hálfskreytt um koll þegar foreldrarnir slógust í stað þess að skreyta það. Villt partý, drykkja og hávaði. Yfirgangur og ofbeldi. Pabbi sem öskrar á mömmu og slær hana svo. Á meðan fela börnin sig. Þannig eru bernskujólin hennar Leenu og þeim vill hún helst gleyma.

    Tími sannleika og nærveru

    Ástin í raun – Love Actually er ein vinsælasta jólamynd síðari ára. Sambönd fólks eru viðfangsefni myndarinnar og bakgrunnur hennar eru jólin.

    Eftir því sem sögunum vindur fram kemur grunnafstaða persónanna til jólanna í ljós – og það er augljóst að jólin sjálf hafa áhrif á gang mála.

    Jólin í Love Actually snúast um tvennt: að segja það sem manni býr í brjósti – segja sannleikann – og að vera hjá þeim sem maður elskar. Þetta tvennt knýr myndina áfram, vegna þess að það eru jól. Þegar við förum að segja það sem okkur í brjósti býr, horfumst í augu við tilfinningar, brotna erfið og gömul samskiptamynstur upp og nýir hlutir fá rými í lífinu.

    Að viðurkenna hvernig manni líður og segja frá því getur valdið manni sjálfum og öðrum erfiðleikum, eins og sumar persónurnar reyna. En jólin eru tími sannleikans og það er þess virði að mæta hindrunum til að uppfylla köllun jólastundarinnar.

    Tími öryggis og hlýju

    Í jólaguðspjallinu mætum við þrá okkar fyrir öryggi, skjól og hlýju. Í fjárhúsinu sem Jesúbarnið kom í heiminn brýst ljósið fram úr myrkviðum næturinnar.Jatan er tákn um næringu og umhyggju sem við þurfum til að lifa af og síðast en ekki síst er nýfædda barnið tákn um líf og upphaf, hreinleika og ást.

    Þessar frummyndir af ljósinu og jötunni hitta okkur í hjartastað og taka form í minningum okkar og reynslu. Það hvernig við höldum jólin tjáir þetta að einhverju leyti. Þörfin fyrir öryggi og næringu kemur fram í áherslunni á þægindi og góðgerðir sem einkennir hátíðahaldið. Köllunin til að sýna kærleika og veita umhyggju sýnir sig í því að við viljum gefa gjafir og gera öðrum gott.

    Verum ljósfólk

    Kristin trú er trú lífsins alls, trú heildarinnar. Hún nær bæði til dimmunnar í lífinu og til birtunnar. Áskorunin okkar er að dvelja aldrei í myrkrinu eða við það, heldur stíga þaðan yfir í ljósið. Kveikja ljós þar sem myrkur er. Á þann minna jólin okkur. Þau minna okkur á að horfast í augu við myrkrið og kveikja ljós. Þau minna á ljósþörfina í okkar lífi og annarra. Þau kalla okkur til að vera ljósfólk, sem kveikir ljós í eigin lífi og annarra.

    Guð gefi þér gleðileg jól.