Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Skóflustunga

    Í gær var tekin skóflustunga að nýrri viðbyggingu við Klettaskóla. Þetta þykir okkur alveg frábært því það mun gera Klettaskóla – sem er frábær skóli – enn betri. Því ber að fagna. Á vef skólans eru nokkrar myndir.

  • Gleðidagur 19: Róla fyrir stóla við skóla

    Í vikunni var tekin í notkun ný róla við grunnskóla í Reykjavík. Það er í sjálfu er ekki fréttnæmt, nema fyrir þær sakir að rólan er á leikvelli Klettaskóla og hún er fyrir hjólastóla. Frá þessu er sagt á vef Klettaskóla þar sem segir líka:

    „Ekki er annað að sjá af meðfylgjandi mynd, en að fyrsta prufukeyrsla hafi vakið lukku hjá heppnum nemanda, sem baðaði sig í góðri sveiflu í rólunni á sólríkum morgni með áhugasama starfsmenn allt í kring! Er enginn vafi á því, að þessi framkvæmd gerir frímínúturnar eftirsóknarverðari fyrir þá nemendur skólans, sem eru í hjólastólum.“

    Á nítjánda gleðidegi fögnum við nýju rólunni og gleðjumst með fötluðum og ófötluðum sem sveifla sér í frímínútum.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 49: Menntun fyrir lífið

    Krakkarnir föndra

    Í vikunni fengum við að heyra að litli einhverfi kúturinn okkar hefur fengið skólavist í Klettaskóla næsta vetur. Það voru góðar fréttir fyrir hann og fjölskylduna alla.

    Þegar við heimsóttum skólann fyrr í vetur leist okkur vel á það hvernig börnunum er mætt. Þau eru eins og gefur að skilja býsna ólík og þarna fá þau færi á að læra á sínum forsendum og eru þjálfuð í að takast á við lífið sem býður þeirra að skólagöngu lokinni.

    Slagorð Klettaskóla er Menntun fyrir lífið og það finnst okkur gott markmið fyrir skóla. Á fertugasta og níunda gleðidegi, sem er frídagur í skólum landsins, viljum við þakka fyrir kennarana í öllum skólum sem mæta börnum eins og þau eru og mennta þau vel fyrir lífið. Það er svo sannarlega þakkarefni.