Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Að greina og skilja ríki og kirkju

    Við hjónin skrifuðum stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Umræðan um þetta mál er í fullum gangi og það skiptir miklu að ekki sé gengið út frá röngum forsendum. Pistillinn okkar hefst á helsti sem er svohljóðandi:

    Stutt svar við Bakherbergispistli Kjarnans um aðskilnað ríkis og kirkju. Á Íslandi er ekki ríkistrú og trúfrelsi er óumdeilt grunngildi í samtímanum. Aðskilnaðurríkis og kirkju getur haft í för með sér að ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé tekið burt en það hefur ekki bein áhrif á fjárhagsleg samskipti þjóðkirkjunnar og hins opinbera. Öll trú- og lífsskoðunarfélög fá sóknargjöld sem ríkið innheimtir. Sérstök fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju byggja ekki á sambandi þeirra heldur samningi tveggja sjálfstæðra aðila. Ríkið sparar enga peninga með aðskilnaði.

    Lesa í Kjarnanum.

  • Skipulögð glæpastarfsemi, ekki trúarbrögð

    Ritstjórn Kjarnans:

    Mennirnir sem skutu blaðamenn Charlie Hebdo voru ekki sendiboðar trúarbragða eða hugmyndafræði, heldur stigu þeir með afgerandi hætti yfir línu réttarríkisins og gerðust sekir um hrikalegan siðlausan verknað samkvæmt okkar gildum og lögum. Þeir voru fjöldamorðingjar, studdir áfram af fólki sem heldur úti skipulagðri glæpastarfsemi. Ekki síst af þessum sökum, þá ættu þingmenn að tala varlega og færa umræðuna hér á landi, sem á rætur að rekja til hrikalegra glæpa úr í heimi, ekki beint inn á borð trúarbragðanna. Þar á hún ekki heima.

    Sammála. Þetta ættum við öll að hafa hugfast, ekki bara þingmennirnir sem ritstjórnin beinir orðum sínum til.

  • Mánudagsmeðmæli: Pabbi, mamma, börn og bíll

    Mánudagsmeðmælin fá Kjarninn og Guðmundur Pálsson fyrir hlaðvarpsþáttinn Pabbi þarf að keyra sem er bráðskemmtilegur. Guðmundur er auðvitað alvanur útvarpsmaður og góður pistlahöfundur og hér gefur hann skemmtilega innsýn í líf fjölskyldunnar sem kvaddi hversdagsbaslið og hélt á vit ævintýranna í Evrópu.

    Hlaðvarpið er á uppleið á Íslandi. Alvarpið ruddi því leið. Nú kemur Kjarninn sterkur inn og fleiri eiga vonandi eftir að bætast í hópinn. Mér finnst alveg frábært að geta hlustað á stutta og skemmtilega íslenska þætti á leiðinni í vinnuna. Takk fyrir mig.