Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Trúarjátning dagsins

    Játning kvennanna:

    Ég trúi á Jesú sem líkti Guði við konu sem hafði tapað peningi og hreinsaði húsið allt í leit að honum.

    Ég trúi á Jesú sem sá í meðgöngu og fæðingu líkingu fyrir breytingu, nýja fæðingu frá sársauka til gleði.

    Góðan og gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna.

  • Biblíublogg 9: Kvenmyndir af Guði

    Í Biblíunni eru notaðar margar líkingar til að lýsa Guði. Sumar líkingarnar tengjast konum, til dæmis þessar:

    Guð er eins og ljón, pardus og birna:

    Ég mun reynast þeim sem ljón,
    ligg í leyni við veginn eins og pardus,
    ræðst á þá eins og birna
    svipt húnum sínum (Hós 13.7-8)

    Guð er eins og móðir sem elur barn við brjóst sitt:

    Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
    að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
    Og þó að þær gætu gleymt
    þá gleymi ég þér samt ekki. (Jes 49.15)

    Guð er eins og móðir sem huggar:

    Eins og móðir huggar barn sitt,
    eins mun ég hugga yður,
    í Jerúsalem verðið þér huggaðir. (Jes 66.13)

    Svo líkir Jesús sér við hænu:

    Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi? (Matt 23.37)

    Það er misjafnt eftir því hvar við erum stödd í lífinu hvaða líking talar til okkar.

    Hvaða líking talar til þín núna?

  • Hagsmunamál, ekki hagsmunapot

    Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði:

    Á meðan mýtan segir að karlar eigi erfitt með að fá prestsembætti segir raunveruleikinn okkur hið gagnstæða. Ég held að það verði engin breyting hér á fyrr en fólkið í kirkjunni okkar kemst að þeirri niðurstöðu að það sé hagur kirkjunnar að hæfar konur og hæfir karlar gegni til jafns störfum og ábyrgðarstöðum innan kirkjunnar.

    Þetta er mergurinn málsins: jafnrétti er hagsmunamál, ekki hagsmunapot.

  • Biblíublogg 6: Konur eiga 1,1% orðanna í Biblíunni

    Á síðasta ári kom út bók eftir Lindsay H. Freeman um konur í Biblíunni og orðin sem eru höfð eftir þeim. Þar kemur fram 93 konur tala í Biblíunni. Af þeim eru 49 nefndar með nafni. Alls eiga þessar konur 14.056 orð (út frá enskri þýðingu) sem gerir u.þ.b. 1.1 % af orðum í Biblíunni.

    Þekktar og lítt þekktar konur

    Sumar konurnar eru vel þekktar eins og María móðir Jesú. Í bók Freeman kemur fram að hún eigi alls 191 orð í ritningunni. María Magdalena á 61 orð, en Sara, kona Abrahams segir 141 orð.

    Höfundurinn bendir á að margar af þeim konum sem koma fyrir í Biblíunni hafa gengið í gegnum áföll og ofbeldi. Hún spyr sig hvort þöggunin sem beið þeirra bætist ekki ofan á það.

    „Af einhverjum ástæðum hefur vitnisburður og reynsla kvenna verið sett skörinn lægra þegar kemur að trú, en það sem karlar hafa fram að færa“ segir Freeman. „Við erum loksins farin að leggja við hlustir þegar konur eru annars vegar.“

    Biblían skrifuð af körlum, fyrir karla?

    Biblíufræðingar taka undir þetta sjónarmið, því staðreyndirnar tala sínu máli. Miðað við þessar tölur er Biblían skrifuð af körlum og fyrir karla, þar sem rýmið er ekki mikið fyrir konur og reynslu þeirra. Lítil skref, eins og að lyfta upp þeim konum sem fá að tala í Biblíunni getur skipt sköpum í að gera trúarvitnisburðinn lifandi í lífi bæði karla og kvenna í dag.

    Gamla vs. Nýja….fleiri konur í Gamla?

    Eitt af því áhugaverða sem bók Freemans leiðir í ljós er að Gamla testamentið, sem er sannarlega grjótharður vitnisburður um rótgróið feðraveldi, inniheldur fleiri orð kvenna en Nýja testamentið. Auðvitað er fleiri blaðsíðum til að dreifa, en það er líka umhugsunarvert að í 1. Mósebók er hlutfallið 11 konur á móti 50 körlum. Það er mun hagstæðara en heildarhlutfallið.

  • Alison Bechdel og Óskar frændi

    Óskarsverðlaunahátíðin var haldin í gær og nú liggur fyrir hverjir fengu styttuna eftirsóttu. Á Feminist Frequency er Bechdel prófið lagt fyrir myndirnar sem voru tilnefndar sem besta kvikmynd ársins. Af þeim standast aðeins tvær prófið. Útkoman er ekkert sérstaklega góð.