Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bæn um frið á erfiðum tímum

    Guð réttlætis, friðar og sátta.

    Á tímamótum nýrra átaka í Mið-Austurlöndum, komum við fram fyrir þig, með brostin hjörtu vegna þjáningar, dauða og ranglætis sem hafa dunið yfir íbúa Landsins helga. 

    Öll erum við ein fjölskylda en upplifum samt daglega hvað samskipti okkar eru brotin. 

    Miskunnsami Guð, við biðjum að þú umbreytir hjörtum og huga, setjir virðingu fyrir öðrum í stað fjandskapar, og að ótti víki fyrir náungakærleika.

    Við biðjum fyrir friði í Landinu helga og Mið-Austurlöndum og að stríð og ofbeldi taki enda. 

    Endurnýja von okkar, ó Guð.

    Við biðjum um lausn gísla í haldi, við biðjum um vernd yfir saklausum, um að mannréttindi séu virt, að hjálparliðar njóti verndar.

    Gef leiðtogum visku og hugrekki til að velja frið framyfir stríð.

    Megi réttlæti umvefja íbúa Palestínu. 

    Opna framtíðarleiðir fyrir börn Ísraels og Palestínu að lifa saman í öryggi og friði. 

    Miksunnsami Guð, gef okkur frið inn í stríðandi aðstæður, til svæða sem upplifa átök og stríð:

    Í Úkraínu, Súdan, Myanmar og svo mörgum öðrum löndum.

    Gef okkur umbreytandi frið sem fær að ríkja, gef að þjóðir og samfélög sættist og fái lifað saman lífi í fulli gnægð, eins og þú hefur fyrirbúið þeim öllum.

    Amen. 

    Þessi bæn kemur frá Lútherska heimssambandinu, Kristín þýddi hana á íslensku.

  • Stríð 0 – friður 1

    Kristín í prédikun að morgni páskadags:

    Þetta er það fallega og öfugsnúna við upprisuna, sem snýr ríkjandi gildismati á hvolf. Við lifum nefnilega í menningu sem er með þráhyggju á háu stigi fyrir hinu sterka, því að ná árangri, skara fram úr, vera best og mest. En Jesús tekur ekki þátt í því, heldur býður fram leið friðarins.

  • Ef þú lemur Talibana ertu engu skárri en hann

    Friður er á dagskrá í heiminum þessa dagana. Við hjónin urðum vör við það þegar við tókum flugvallarlestina frá Gardemoen flugvelli inn til Oslóar á dögunum. Þá mátti sjá til skiptis nöfn fólks sem hafði verið orðað við friðarverðlaun Nóbels og svo nafn samtakanna sem fékk friðarverðlaunin.

    Meðal þeirra sem voru orðaðir við verðlaunin var pakistanska skólastúlkan Malala Yousafzai. Hún var skotin í höfuðið þegar hún var á leið í skólann. Malala hafði talað fyrir því að stúlkur mættu mennta sig og fyrir kvenfrelsi. Talibanar báru ábyrgð á tilræðinu við hana. Þeir eru þeirrar skoðunar að stúlkur eigi alls ekki að ganga í skóla. Malala lifði tilræðið af og hefur verið öflugur talsmaður kvenréttinda og skólagöngu.

    Kvensjúkdómslæknirinn Denis Mukwege frá Kongó var einnig nefndur sem mögulegur verðlaunahafi. Hann hefur sérhæft sig í meðferð kvenna sem hafa mátt þola hópnauðganir af hálfu uppreisnarmanna þar í landi. Hann hefur gagnrýnt alþjóðasamfélagið og stjórnvöld í Kongó fyrir að aðhafast ekkert í sautján ár til að stöðva grimmdarverk í Kivuhéraði í Kongó. Í október 2012 reyndu fjórir ofbeldismenn að myrða hann á heimili hans. Lífvörður Mukwege lét lífið en læknirinn lifði.

    Malala og Mukwege eru friðflytjendur, en þau fengu samt ekki verðlaunin í þetta skiptið. Friðarverðlaunin í ár falla í skaut samtakanna OPCW – Samtök um efnavopnabann. Á starfstíma þeirra hefur 80% af efnavopnum sem vitað er um í heiminum verið eytt, en það er samt nóg eftir. Efnavopn hafa verið í deiglunni upp á síðkastið vegna þess að þeim var beitt í Sýrlandi. Nú eru samtökin að starfi þar og hafa eftirlit með eyðileggingu á sýrlenskum efnavopnum. Vopnum sem var beitt gegn saklausum sýrlenskum borgurum sem eru þolendur hryðjuverks í borgarastríði. Ekki er vitað hver ber ábyrgðina, en ýmsir eru grunaðir.

    Í þágu hinna smæstu

    Friðflytjendurnir þrír: Unglingsstúlkan Malala, læknirinn Mukwege og samtökin OPCW starfa öll í þágu friðar en þau eiga fleira sameiginlegt: Þau beita sér í þágu uppbyggingar, til að draga úr ofbeldi, fyrir þau sem eru þolendur ofbeldis. Þau vilja gera heiminn öruggari – í þágu hinna smæstu.

    Friðarverðlaun Nóbels setja friðinn á dagskrá og heimsbyggðin öll hugsar um frið og fagnar friðflytjendunum í heiminum. Ekki bara samtökunum sem fá friðarverðlaunin heldur líka öllum hinum sem eru nefnd í tengslum við þau af því að þau eru sannarlega boðberar friðar.

    Friðarverðlaun snúast nefnilega ekki um að sigra því það fer enginn út í friðarstarf til að vinna friðarverðlaun. Við sinnum friðarstarfi til að gera heiminn okkar öruggari og betri.

    Ef þú lemur Talibana

    Ef þú lemur Talibana ertu engu skárri en hann, sagði Malala í samtali við bandaríska sjónvarpsmanninn Jon Stewart. Hún bætti svo við „Þú verður að berjast með friði og samtali og fræðslu.“

    Hún og allir hinir friðflytjendurnir skora á okkur að taka undir með þeim, berjast fyrir réttindum hinna smæstu, standa vörð um þá sem þola ofbeldi.

    Kannski er það hvatningin til okkar sem kristins samfélags: Að finna út úr því hvernig við getum verið boðberar friðar, ekki bara í orðum heldur í verkum. Hvað við getum lagt af mörkum.

    Þannig gætu kannski orðin um náð og frið sem prestarnir ávarpar okkur með í upphafi hverrar prédikunar fengið að taka sér bólfestu í lífinu okkar að við verðum sælir friðflytjendur, kölluð Guðs börn.

    Því hinn kristni Guð er friðarguð og við erum friðarfólk.

    Birtist fyrst í Kirkjuritinu í október 2013.