Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Trú, typpi og píkur

    Er trúin eins og typpi? Jón Gnarr skrifar um hliðstæðuna milli trúar og typpis í Fréttablaðspistli um helgina. Hann segir hvort tveggja ágætt til persónulegra nota „…en ekki tala mikið um það við ókunnuga eða troða því upp á fólk“. Líkingin er áhugaverð, en ekki endilega af þeirri ástæðu sem Jón telur. Til að hafa gagn af henni þarf að útvíkka hana svo hún nái yfir bæði typpi og píkur. Annars njóta hvorki trúin né typpin sannmælis.

    Rétt eins og allir karlar eru með typpi og allar konur með píku er trú og lífsskoðun órjúfanlegur hluti af hverri manneskju. Ekki í þeirri merkingu að hún trúi á Guð sem er handan þessa heims heldur hefur hún lífsskoðun sem tengir hana við meðvitundina um stöðu sína í tilverunni. Öll samfélög hvíla raunar á gildum sem tengjast slíkum lífsskoðunum.

    Kynfræðin kenna að kyn hefur raunveruleg áhrif á menninguna sem við sköpum og að tjáning kynverundar er heilbrigðismál og mikilvæg hverri manneskju. Það sama gildir um trú og lífsskoðanir. Af því að að trú og lífsskoðun er samofin einstaklingnum og sjálfsmynd hans er ekki gott að hann þurfi að bæla hana. Slík bæling tjáningarfrelsis er hliðstæð þeirri bælingu kynverundar sem við sjáum í löndum þar sem konum er gert að hylja líkama sinn – ekki aðeins píkur og brjóst – heldur líkamann allan. Það er hvorki heilbrigt né vænlegt að hunsa trú og lífsskoðanir og gera ekki ráð fyrir þeim í hinu opinbera rými, t.d. með því að taka hið trúarlega markvisst út fyrir rammann í skóla- og frístundastarfi.

    Þegar allt kemur til alls snýst þetta því ekki um það hvort „Guð sé til“ heldur hvort við viðurkennum trú og lífsskoðun sem heilbrigðan og eðlilegan þátt í lífi einstaklings og samfélags.

    Fréttablaðið, 17. febrúar 2014.

  • Fastað á stóru orðin

    Fasta er töfraorð í samtímanum. Allt árið er fastað til að koma skikki á líkamsþyngd, blóðsykur og mittismál. Sum okkar fasta á hveiti eða sykur, á kjöt, áfengi eða nammi. Markmiðið er að hnika hegðun og venjum sem gera okkur ekki gott.

    Fastan á sér trúarlegar rætur. Við lesum um föstur í Gamla og Nýja testamentinu. Jesús fastaði í fjörutíu daga í eyðimörkinni og kirkjan heldur föstu í aðdraganda jóla og páska. Múslímar fasta frá sólarupprás til sólarlags í Ramadanmánuði. Markmið hinnar trúarlegu föstu er að rækta andann og efla trúræknina með því að leggja líkamlegar þarfir eða hvatir til hliðar.

    Aðferðafræði föstunnar virkar líka í öðru samhengi og þarf ekki að takmarkast við að halda sig frá mat. Við getum fastað til góðs fyrir samfélagið okkar hér og nú, með því að leggja af hegðun og venjur sem draga okkur öll niður.

    Óvægin orð, illt umtal og uppnefni eitra andrúmsloft og menga sameiginleg rými okkar. Samhengi slíkra orða getur verið pólitískt eða persónulegt, þau eru sögð í fúlustu alvöru eða undir formerkjum húmors. Óháð samhenginu er slík umræða íþyngjandi. Hún getur orðið eins og illkynja æxli þegar hún grefur sig inn í þjóðarlíkamann. Hún stendur í vegi fyrir því að við þroskumst sem einstaklingar og samfélag og getum orðið besta útgáfan af okkur sjálfum.

    Á þessari föstu skulum við fasta á stóryrtar yfirlýsingar um annað fólk, hvort sem er í persónulegum samskiptum, á ræðustóli, í fjölmiðlum eða á netinu. Markmiðið með föstu er nefnilega að verða betri manneskja í betra samfélagi. Föstum á stóru orðin og sjáum hvort við njótum ekki öll góðs af.

    Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 6. mars 2014.

  • Dagur einhverfu er dagur fjölbreytni

    Hvað geta þau sem tala ekki, kennt okkur? Hvað sjá þau sem eru hugfangin af smáatriðunum? Hvernig upplifa þau sem hringsnúast lífið? Hvernig miðla þau sem bergmála, til okkar hinna?

    Á Degi einhverfunnar beinum við sjónum okkar og athygli að því sem hin einhverfu geta kennt okkur um fjölbreytileika lífsins. Álagið sem er fylgifiskur þess að eiga einhverft barn getur valdið því að við horfum framhjá gjöfunum sem sá einhverfi gefur og ljómanum sem hann varpar í kringum sig. Alltof oft vill umhverfið þvinga alla í sama mót og þau sem passa ekki inn í væntingar um það sem þykir „eðlilegt“ eru jafnvel álitin byrði og ógæfa.

    En barninu sem er einhverft fylgir ekki ógæfa heldur gæfa. Það er vissulega öðruvísi, það gengur ekki í takt, það umturnar væntingum um eðlilegan þroska og áreynslulaust uppeldi. Til að geta notið og glaðst yfir slíku barni þurfum við að tengja upp á nýtt og vera opin fyrir hinu óvænta.

    Fjölskyldur einhverfra barna á Íslandi standa ekki einar. Það er okkar reynsla að stuðningsnet leikskóla, félagsþjónustu og heilbrigðiskerfis er ómetanlegur samherji einhverfa barnsins og fjölskyldunnar allrar. Þessa þjónustu ber að þakka og meta.

    Fyrir kennara, stuðningsfulltrúa og ráðgjafa erum við þakklát. Fyrir samfélag sem metur, hvetur og styður, gefur rými og skapar möguleika, erum við þakklát. Við erum líka þakklát fyrir fræðimenn sem sinna rannsóknum á einhverfu og því sem gagnast einhverfum börnum í námi og leik. Við erum þakklát fyrir áhugasamtök og stuðningsfélög sem halda utan um systkini og aðstandendur.

    Þakklátust erum við fyrir drenginn okkar sem minnir okkur á gildi þess sem er öðruvísi og beinir sjónum okkar að leyndardómum lífsins.

    Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 2. apríl 2012.

  • Framtíðarhátíð

    Fyrsti Fréttablaðspistill ársins fjallar um Þrettándann sem framtíðarhátíð.