Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Frambjóðandi #4: Þórir Jökull Þorsteinsson

    Sr. Bára Friðriksdóttir og sr. Þórir Jökull Þorsteinsson

    Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson var fjórði frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessa mynd tók ég af Þóri Jökli og Báru Friðriksdóttur á Prestastefnu hér um árið. Þau voru bæði með svo fín höfuðföt í prósessíunni til kirkju.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #3: Sigurður Árni Þórðarson

    Dr. Sigurður Árni Þórðarson

    Dr. Sigurður Árni Þórðarson var þriðji frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessa mynd tók ég á fyrirlestri í Neskirkju sem var hluti af fyrirlestraröðinni Á nöfinni. Það var Framtíðarhópur kirkjuþings, sem Sigurður Árni leiðir, sem efndi til þessara fyrirlestra um kirkju og framtíð. Þarna er Sigurður Árni í essinu sínu, lifandi fyrirlesari með skarpa sýn.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #2: Kristján Valur Ingólfsson

    Sr. Kristján Valur Ingólfsson

    Sr. Kristján Valur Ingólfsson var annar frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessi mynd er tekin á vígsludegi Kristjáns Vals sem Skálholtsbiskups. Það var í mörg horn að líta og margir sem vildu hitta nývígðan vígslubiskup. Ég fylgdi honum í Skálholtsskóla þar sem hann afskrýddist og smellti svo af þessari mynd. Þetta er semsagt nývígði vígslubiskupinn Kristján Valur á gleðidegi.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Eru bara allir prestar landsins í framboði?

    Sjö prestar hafa boðið sig fram í biskupskjöri. Framboðsfrestur rennur út 29. febrúar sem er eftir rúmar þrjár vikur svo fleiri gætu átt eftir að bætast við. Þó er líklegt að ef einhver hyggst gefa kost á sér verði það fyrr en síðar því kosningabaráttan er farin af stað. Frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra skrifa á vefinn, hringja í kjörmenn, halda fundi og vekja á sér athygli með ýmsum hætti.

    Eru allir í kjöri?

    Ein spurningin sem við höfum séð og heyrt, meðal annars á Facebook, lýtur að fjölda þeirra sem bjóða sig fram. Einn vinur okkar á Facebook spurði:

    Eru allir prestar landsins í kjöri?

    Svarið við því er já. Það eru allir í kjöri, en einungis þeir prestar sem gefa kost á sér fá nafnið sitt ritað á kjörseðilinn.

    Sjö, níu, þrettán?

    Ekki liggur fyrir hversu margir munu bjóða sig fram. Þau er sjö þegar þetta er skrifað, en gætu allt eins orðið níu eða þrettán áður en yfir lýkur. Er það of mikið?

    Athugun á fjölda umsækjenda um sjö prestsembætti leiddi í ljós að umsækjendur hafa verið frá 6-15:

    Í þessu ljósi er fjöldi frambjóðenda til biskups Íslands afar eðlilegur. Um er að ræða flott djobb – krefjandi, ábyrgðarmikið, skemmtilegt, umfangsmikið og vellaunað starf með sérstökum skyldum og réttindum.

    Hvers vegna ætti fólk sem hefur til þess réttindi og hæfi ekki að sækjast eftir slíku starfi?

  • Reglunum breytt

    Starfsreglum um biskupskjör var breytt á aukakirkjuþinginu sem var haldið í dag. Í stað rafrænnar kosningar verður póstkosning eins og verið hefur.

    Á aukakirkjuþingi sem haldið var í dag í Grensáskirkju var starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa breytt í þá veru að taka aftur upp póstkosningar í stað rafrænna kosninga eins og var fyrirhugað. Það var gert að beiðni kjörstjórnar sem taldi að kosningin yrði öruggari með póstkosningu.

  • Aukakirkjuþing um biskupskjör – bloggað í beinni

    Ég er staddur á aukakirkjuþingi í Grensáskirkju. Til þess er boðað af því að kjörstjórn við biskupskjör telur að breyta þurfi nýjum starfsreglum um biskupskjör vegna þess að ekki sé hægt að tryggja öryggi og fullkomna framkvæmd ef kosningar eru rafrænar.

    Þingið stendur yfir í dag og tvö mál liggja fyrir því. Nú verður reynt að blogga þingið í beinni. Lesandinn athugi það við lesturinn.

    Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, setur þingið. Í setningarræðu sinni segir hann frá að tvívegis hafi verið kosið til kirkjuþings rafrænt. „Í hvorugt skiptið voru bornar brigður á framkvæmd þeirra kosninga. Það segir hins vegar ekki alla söguna um öryggi og áreiðanleika rafrænna kosninga. Þrátt fyrir tækniframfarir og tölvubyltingar hafa rafrænar kosningar ekki verið teknar upp við kjör sveitastjórna, þjóðþinga eða þjóðhöfðingja.“
    (more…)

  • Biskupsefnið slegið

    Enginn verður óbarinn biskup bloggar Sigurður Árni Þórðarson og deilir sögu af því þegar biskupsefnið var slegið (í góðu þó). – Meira um biskupskjör 2012.

  • Lýðræði og lagafrumvarp

    Hvernig samrýmist frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga því markmiði að efla lýðræði innan þjóðkirkjunnar? Sigríður Guðmarsdóttir bloggar. – Meira um biskupskjör 2012.

  • Guðfinnur og biskupskjörið

    Í Síðdegisútvarpi Rásar 2 hafa verið tekin viðtöl við þau þrjú sem hafa boðið sig fram í biskupskjöri. Guðfinnur Sigurvinsson hefur verið aðalspyrjandi og frambjóðendur hafa svarað. Viðtölin gefa  innsýn í afstöðu frambjóðendanna við upphaf biskupskjörs og eru fyrirheiti um spennandi samtal um kirkju og biskupsþjónustu á komandi vikum:

    Ef fleiri bætast í hóp frambjóðenda fáum við vonandi tækifæri til að heyra þau svara Guðfinnsspurningum.

    Uppfært 30/1: Tveir frambjóðendur hafa bæst í hóp frambjóðenda og viðmælenda. Færslan er uppfærð til samræmis við það. 6/2: Einum frambjóðanda bætt við. 20/2 Einum frambjóðanda bætt við.

  • Hverjir hafa kosningarétt í biskupskjöri?

    Blogginu hefur borist spurning. Hún er svohljóðandi: Hverjir hafa kosningarétt í biskupskjöri?

    KjörkassinnNýjar starfsreglur um kjör biskups Íslands og vígslubiskupa voru samþykktar á kirkjuþingi í haust. Þar var kjörmönnum fjölgað verulega og áherslum breytt. Áður voru prestar í meirhluta kjörmanna en nú eru leikmenn í meirihluta. Kosningarétt hafa:

    • biskup Íslands, tveir vígslubiskupar, þjónandi prestar þjóðkirkjunnar og þeir prestar þjóðkirkjunnar, sem settir eru til þjónustu til eins árs eða lengri tíma.
    • prestvígðir menn í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar, t.d. prestar á Biskupsstofu.
    • þjónandi djáknar í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar. Djákni skal vera ráðinn ótímabundið eða til a.m.k. eins árs til að njóta kosningaréttar.
    • kjörnir fulltrúar á kirkjuþingi og í kirkjuráði.
    • formenn allra sóknarnefnda sem og varaformenn sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmum eystra og vestra.
    • kennarar í föstu starfi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og eru guðfræðingar.

    Skilyrði kosningarréttar er að kjósandi sé skráður í þjóðkirkjuna við framlagningu kjörskrár. Ráðgert er að leggja kjörskrá fram 1. febrúar næstkomandi.