Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblía flóttafólksins

    Einu sinni þegar við vorum að undirbúa messu hér í kirkjunni, sátum við nokkur og vorum að spjalla um Biblíuna og hvað hún væri eiginlega. Það er ekkert einfalt að svara því, og margskonar lýsingar geta náð utan um fyrirbærið. Stutt og algengt svar er að Biblían sé orð Guðs. Það svar skapar svo miklu fleiri spurningar um hvernig það gangi upp að samansett rit eftir ótal höfunda, skrifuð í ótal bókmenntastílum, í margs konar tilgangi, á ótrúlega löngum tíma, sé á einhvern hátt heilagt eða sérstakt.

    Fjölbreytt rit

    Þegar ég segi að Biblían sé fjölbreytt rit skrifuð í ólíkum tilgangi, á löngum tíma, þá á ég við að í henni eru til dæmis hreinræktaðir lagatextar ætlaðir inn í sérstakt samfélag; það eru langar frásögur um ævi og störf konunga og stjórnvalda á tilteknum tíma, það eru ævintýralegar upprunasögur, sem eiga að skýra tilkomu þjóða eða ástands sem allir þekkja, það eru helgisögur, það eru þjóðsögur, það eru ljóð og ljóðabálkar, það eru spekirit, sendibréf, uppeldisráð, o.s.frv.

    Við vitum nokkurn veginn hverjir skrifuðu sum þessara rita og við vitum ýmislegt um það við hvaða aðstæðurþau urðu til. Við vitum að sumir fengu lánuð minni úr eigin menningu eða úr sögum annarra þjóða, sem síðan urðu þeirra eigin sögur. Við vitum líka margt um hvað var að gerast í lífi þjóðarinnar sem skapaði þessi rit og hvað hún gekk í gegnum á þessum langa tíma.

    Sú staðreynd að Biblían er trúarrit kristinna manna, þarf að skoðast í þessu ljósi um fjölbreyttan og margskonar uppruna þess sem stendur í Biblíunni. Við þurfum líka að meta hana út frá því sem við vitum um fólkið sem skrifaði það sem stendur í henni. Við vitum nefnilega heilmikið um það. Og hér kemur það áhugaverða: eftir því sem við vitum meira um fólkið á bak við sögurnar í Biblíunni, því meira virði verða þær.

    Ég held að þar sé mjög einföld sálfræði að baki: manni fer að þykja vænt um þau sem maður kynnist. Þegar þú færð að skyggnast á bak við aðstæður fólks, færist þú nær því, skynjar hvernig reynslan mótar og stýrir og það rennur upp fyrir þér að þið eigið kannski eitthvað sameiginlegt. Það sem er sammannlegt færir okkur nær öðru fólki, í gegnum tíma og gegnum rúm. Það kemur í ljós að fólk sem okkur fannst vera órafjarri okkar eigin reynslu og eigin lífi, stendur okkur nær en okkur grunar.

    Fólk á flótta

    Þetta er reyndar eitthvað sem við höfum uppgötvað með nýjum þunga og nýjum hætti á Íslandi upp á síðkastið, þegar við höfum komist í snertingu við líf og aðstæður fólks sem hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka og ofsókna. Það eru engar nýjar aðstæður og flóttafólk hefur alltaf verið til, vegna þess að þess að það hefur aldrei verið skortur á átökum, stríði, hagsmunaárekstrum og landvinningum.

    En það er þegar við komumst í snertingu við það sem sameinar okkur fólki á flótta, sem við förum að horfast í augu við að þar eru á ferð manneskjur sem eru eins og þú og ég, hafa samskonar tilfinningar, hafa drauma og vonir, hafa elskað, saknað og misst, eins og ég og þú. Börn á flótta eru eins og okkar börn. Þau vilja leika, prófa, knúsa, læra og ná tökum á nýjum og spennandi hlutum. Þegar við föttum þetta, lítum við ekki sömu augum á fólkið sem núna streymir frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum, í leit að betra lífi.

    Hælisleitendur frá Íran

    Flóttafólk er mál dagsins í Evrópu og líka á Íslandi. Í dag eru með okkur hér í kirkjunni tveir menn sem við höfum fengið að kynnast og þykir mjög vænt um. Þeir eru á flótta frá heimalandi sínu Íran og hafa sótt um hæli hér á landi. Enn sem komið er hafa þeir ekki fengið raunverulega áheyrn hér. En þeir hafa fengið úrskurð um að þeir megi ekki vera hér og verði fluttir tilbaka þaðan sem þeir komu. Af því að þeir eru vinir okkar, snertir þetta okkur djúpt hér í Laugarneskirkju og aðstæður vina okkar hafa opnað augu okkar fyrir veruleika flóttafólks allt í kringum okkur.

    Reza verður með okkur í kaffinu á eftir og ég vona að þið notið tækifærið til að spjalla við þá, gefa þeim high-five eða eitthvað. Eftir viku verður það kannski of seint því búið verður að flytja þá úr landi.

    Rit flóttafólksins

    Tökum aftur upp þráðinn um Biblíuna, þetta margbrotna, fjölbreytilega og flókna rit sem við kristnir menn köllum trúarritið okkar. Það er eitt sem kemur í ljós þegar við förum að skoða hana: mörg rit hennar hafa mótast af aðstæðum fólks á flótta. Ótrúlega mikið sem hefur borist til okkar í gegnum aldirnar í orðum og hugmyndum Biblíunnar á rætur sínar að rekja til veruleika flóttafólksins.

    Finnst ykkur það ekki magnað?

    Þetta sést í beinum sögum af einstaklingum, hópum og þjóðum sem hrekjast til og frá, úr landinu sínu, inni í það aftur og innan þess. Sagan sem við heyrðum í dag um samskipti Rutar og Bóasar, er af þessum meiði. Við munum líka eftir sögunni um þegar Jósef tók Jesúbarnið og Maríu móður þess og flúði til Egyptalands, til að verða ekki fyrir ofsóknum Heródesar konungs.

    Sagan af Jósef er annað dæmi um hvernig fólk á flótta og flutningum mætir okkur í Biblíunni. Hann var seldur í annað land – þar sem hann náði svo að koma undir sig fótunum og komst reyndar til mikilla metorða þar sem hann starfaði fyrir sjálfan Faraó, réði drauma og sinnti ráðgjafastörfum. Jósef er frábært dæmi um útlendinginn sem “aðlagast” og fær að njóta þess.

    Dæmi um hið gagnstæða, um útlendinginn sem aðlagast alls ekki og hefur engan áhuga á því, er sagan af Daníeli sem endaði í ljónagryfjunni. Hans saga er á þann veg að þjóð hans er hertekin og flutt gegn vilja sínum í annað land, þar sem annar konungur ríkir og þar sem önnur trúarbrögð eru stunduð. Þar sem Daníel ætlar ekki að láta beygja sig undir siði móttökulandsins, lætur hann hart mæta hörðu og endar, eins og við vitum, í ljónagryfjunni, þar sem konungurinn ætlar að kenna honum almennilega lexíu.

    Úr jarðvegi flóttafólks

    Það eru ekki bara sögur um einstaklinga á flótta sem gera Biblíuna að sannkölluðu flóttamannariti heldur óx mikið af grunnhugmyndum í Biblíunni úr jarðvegi þjóðflutninga og flóttafólks. Það er t.d. þegar Ísraelsþjóðin er í útlegð við Babýlonsfljót, en Babýlónía hin forna var þar sem Írak er í dag, að hún komst í kynni við sköpunarhelgisögurnar sem síðan fundu leið sína inn í ritin sem við köllum Mósebækur. Þar komust þau í snertingu við helgisögur eins og Nóaflóðið, sem síðan varð ein þekktasta saga Gamla testamentisins, sem tjáir auðvitað í grunninn, óskina eftir því að ranglæti verði upprætt og friður og sátt ríki.

    Ef flóttafólk eru jaðarhópur samfélagsins á okkar tímum, þá getum við líka sagt að Biblían sé rit um jaðarhópa hvers tíma. Taktu eftir því hvað oft hópar eins og útlendingar, fatlaðir, sjúkir, skækjur, óhreinir, eru nefnd til sögunnar, ekki síst til að varpa ljósi á hvers eðlis samfélagið er. Taktu eftir því hvað Jesús tekur oft dæmi af fólki á kantinum til að útskýra samband Guðs við heiminn. Taktu eftir því að sjálfur Guðs sonur er barn á flótta undan ofsóknum yfirvalda og þarf að leita skjóls í öðru landi.

    Taktu eftir þessum sögum, lærðu að þekkja og elska meðbróður þinn og systur sem er í erfiðum aðstæðum, opnaðu hjarta þitt og líf fyrir því sem Guð vill segja þér, í gegnum orðið sitt og fólkið sem hann sendir til að verða á vegi þínum.

    Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svao sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

  • Roðdregna Biblíu? Nei, takk

    Í kvikmyndinni Super Size Me sem var sýnd hér á landi fyrir rúmum áratug ræðir kvikmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock meðal annars um kjúklinganagga og hann spyr: „Úr hvaða hluta kjúklingsins er kjúklinganaggurinn eiginlega?“

    Svarið er: Naggurinn er ekki úr einu stykki af kjúklingi heldur úr næstum því heilum kjúklingum sem eru maukaðir. Því næst spurði Spurlock: „Hvað er hráefni úr mörgum kjúklingum í einum nagga?“ Svarið var: Mörgum.

    Kæri söfnuður.

    Ég ætla ekki að prédika um kjúklinganagga. Ég ætla að tala um Biblíuna. Og um fisk. En kjúklinganaggurinn er gagnlegur sem líking og þannig verður hann meðhöndlaður í dag. Meira um það á eftir.

    Hvernig lesum við Biblíuna?

    Biblían er á dagskrá á þessu ári. Hún er auðvitað alltaf á dagskrá í kirkjum og samfélagi en í ár fær hún aukið rými af því að Hið íslenska Biblíufélag er tvö hundruð ára. Það liggur því beint við á einum af lykildögum kirkjuársins – Sjómannadeginum – að íhuga hvað Biblían er og hvernig við meðhöndlum hana.

    Hvað gerum við þegar við lesum, íhugum og notum Biblíuna? Hvernig nálgumst við hana og hvernig berum við hana áfram?  Það er kannski viðeigandi að taka líkingu af fiski af því að það er Sjómannadagur. Ef Biblían er fiskur og við erum fisksalinn, hvað gerum við?

    • Afhendum við hana heila? Gjörðu svo vel, hér er hún, gerðu endilega eitthvað með hana. Viltu uppskriftabækling?
    • Skerum við hausinn og sporðinn af af því að það er efni í henni sem á ekki erindi við fólk, efni sem við skömmumst okkar fyrir? Hér er Biblían þín, hér eru sögurnar, en ég ætla að halda nokkrum eftir af því að þær eru leiðinlegar, skipta ekki máli, gagnast ekki eða ég skammast mín kannski fyrir þær.
    • Roðdrögum við Biblíuna (roðflettum fyrir okkar sunnanfólkið) þannig að flakið eitt sé eftir? Snyrtum hana og gerum fallega og höldum svo eftir kjarnanum? Skerum hana kannski í bita af því að fólk höndlar hana ekki í heild en getur meðtekið smá búta í einu?
    • Sjóðum við hana kannski – eldum úr rétt? Búum við til rétt – til dæmis prédikun?

    Hvað gerum við og hvernig meðtekur fólk Biblíuna í dag? Gerum við kannski allt þetta og jafnvel meira til?

    Ótúlkað, túlkað, oftúlkað

    Það hefur verið eitt af einkennum hinnar lúthersku nálgunar við Biblíuna að fólk eigi að hafa aðgang að henni sjálft. Til að lesa og íhuga, rýna, gagnrýna. Það þýðir ekki að við veljum ekki úr texta til að lesa í kirkjunum – eins og textana þrjá sem við lesum hér í dag. Það þýðir að við notum þá sem dæmi um heildina, en þeir eiga ekki að koma í stað hennar.

    Það er meira. Við erum meðvituð um að Biblían er opið rit. Hún er túlkuð. Raunar finnum við fjölda dæma um það í Biblíunni sjálfri – það eru textar sem kallast á gegnum ritin, árin og aldirnar.

    En það eru ekki allir sem vilja gera þetta. Tveir hópar andæfa þessari nálgun. Báðir hafa bókstafstrúarnálgun við Biblíuna:

    • fundamentalískir vantrúarmenn
    • fundamentalískir trúmenn

    Það einkennir slíka nálgun við Biblíuna að vilja líta svo á að það sé bara til ein rétt túlkun á textum. Og að hún sé augljós. Það einkennir þessa nálgun að vilja velja og hafna, snyrta burt óheppilegu textana (eða kannski þá heppilegu eftir því hvernig á það er litið) en vilja halda öðrum á lofti. Slíta þá úr samhengi og hafa uppi stóra yfirlýsingar: „Svona segir Biblían.“

    Þetta er ekki góð nálgun. Við eigum ekki að búta Biblíufiskinn svona niður og halda á lofti einstökum versum, án samhengis og túlkunar.

    Hvers vegna?

    Vegna þess að hér er gefið í skyn að samhengið skipti ekki máli. Vegna þess að hér er ekki tekið tillit til þess hvað Biblían er og hvernig hún varð til. Vegna þess að hér verður til hætta á misnotkun Biblíunnar. Til dæmis til að berja á fólki sem á  undir högg að sækja í samfélaginu.

    Fúndamentalistarnir segja: Það er ein túlkun og aðeins ein sem er möguleg. Hin lútherska áhersla er andstæð þessu: Textinn er túlkaður, hann kallar á túlkun, hann krefst túlkunar.

    Biblían er fiskur

    Biblían er fiskur. Eða eins og fiskur.

    Fiskflak.

    Hnakkastykki.

    Heill.

    Fúndamentalisminn vill ekki aðeins roðdraga Biblíuna, hann vill gera úr henni nagga: taka það sem var lífræn heild og búa til úr því eitthvað nýtt sem samanstendur af mörgum smáeiningum en þiggur ekki bragð af þeim heldur af kryddi sem er bætt í og ónáttúrulegum bragðefnum.

    Að nálgast Biblíuna í trú er hins vegar að virða heildina, leyfa henni að tala til sín og leita að þræðinum eða þráðunum sem koma saman. Á hverjum sunnudegi hafa til dæmis verið valdir saman lestrar sem miðla afstöðu trúarinnar til lífsins. Í dag er einn þráðurinn svohljóðandi:

    Treystu Guði.

    Vonaðu á Guð.

    Því að Guð er trausts verð/ur og þar getur þú fundið logn í stormum lífsins.

    En ekki bara þetta.

    Treystu líka sjálfum eða sjálfri þér til að lesa Biblíuna og hlusta eftir orði Guðs.

    Treystu þér.

    Við gerum það.

    Það er hin lútherska nálgun.

    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýðr sé heilögum anda sem er þessi ást.

    Flutt í Áskirkju á Sjómannadegi, 7. júní 2015. Mynd: August Linnmann.

  • Burður og bæn í beinni

    Torfbær verður steinhús

    Pabbi ólst upp í torfbæ. Hann bjó norður í landi á litlum bæ ásamt foreldrum sínum og bræðrum. Á næsta bæ bjó föðurbróðir hans. Þau sinntu bústörfum – tóku örugglega á móti miklum fjölda lamba.

    Það var ekki rafmagn í torfbænum, slíkur lúxus þekktist fyrr en seinna, kannski um það leyti sem þau fluttu í reisulegt steinhús sem reist var á staðnum. Þá breyttist margt.

    Svo varð pabbi unglingur og ungur maður og ofaná vinnuna í sveitinni bættist líka vinna í sláturhúsinu í þorpinu sem var nálægt og sjálfsagt var sitthvað fleira sem gripið var í. Svo kynntist hann mömmu sem var ævintýragjörn borgarstelpa sem vann sumarlangt í hótelinu í kaupstaðnum. Þau fluttu síðan í borgina. Þannig var sú saga.

    Þetta er ekkert merkileg saga þótt hún sé mér kær. Þetta er saga þúsunda, jafnvel tugþúsunda sem hafa á síðustu áratugum hafið lífið úti á landi og flutt búferlum til til höfuðborgarsvæðisins.

    Ísland er að breytast.
    Sveitasamfélagið dregst saman.
    Borgin stækkar.

    Við höfum flutt úr torfbæjum í timburhús og steinhús.
    Flutt úr sveit í bæ í borg.
    Og timburkirkjan þar sem allir þekktu alla er orðin að steinkirkju þar sem sumir þekkja suma.

    Sveitaferðin og burður í beinni

    Sveitaferðir eru ómissandi hluti af vori leikskólabarna. Þið sem eruð í yngri kantinum hér munið örugglega eftir nokkrum slíkum og foreldrarnir líka. Íslensku þjóðinni var boðið í sveitaferð í vikunni, nánar tiltekið var okkur boðið að fylgjast með sauðburði að Syðri-Hofdölum í Skagafirði í heilan sólarhring. Þessi sveitaferð átti meira að segja sitt eigið hashtagg:

    #beintfráburði

    Rúv bauð til ferðarinnar sem stóð frá hádegi á uppstigningardegi fram að hádegi daginn eftir. Fyrirmyndin er norsk og útsendingin var vel heppnuð.

    Athygli þjóðarinnar var fönguð og við fengum innsýn í það sem sumir þekkja en ekki margir. Landinn var mættur inn í stofu til að kenna okkur um lífið og dýrin.

    Stóru spurningarnar

    Sem manneskjur stöndum við frammi fyrir sístæðum spurningum:
    – Hver erum við?
    – Hvaðan komum við?
    – Hvað er að vera manneskja?
    – Hvað er að vera Íslendingur?

    Og svo eru það auðvitað spurningarnar um tilgang og merkingu:
    – Til hvers erum við?
    – Hvað er gott og hvað er illt?
    – Hvernig er maður góð manneskja?

    Ein leið til að leita svara svona spurningum er með því að horfa til hefða og umhverfis. Horfa til þess hvar við höfum verið. Ég held #beintfráburði hafi einmitt verið slík tilraun. Tilraun til að minna okkur á að Ísland var einu sinni sveitasamfélag og er það að hluta til ennþá. Áminning um að við eigum að vera stolt af því.

    Við sjáum víða vísanir til þessa, til dæmis þegar íslenskar vörur eru kynntar:

    „Lambakjöt. Á diskinn minn.“
    „Íslenskt grænmeti. Þú veist hvaðan það kemur.“

    #beintfráburði kallast á við sjónvarpsþáttinn Landann sem hefur notið mikilla vinsælda. Eitt af markmiðum hans er að leiða okkur á staði sem virðast fjarlægir en eru það ekki í raun.

    Þetta er áhugaverð, gagnleg og mikilvæg dagskrá og hún snerti svolítið við prestinum af því að fjárhúsið er kristnu fólki mikilvægt.

    Beint frá …

    Hvað fleira í samfélaginu þarf að taka svona til meðferðar? Í kynningu sinni á dagskránni nefndi Rúv fjórar sambærilegar útsendingar sem norska ríkissjónvarpið hefur staðið fyrir:

    Fyrir þremur árum sigldi skemmtiferðaskip með strönd Noregs. Þar fékkst innsýn í landið. Svona lítur landið okkar út – frá öðru sjónarhorni voru skilaboðin.
    Fyrir tveimur árum var helgarútsending um eldivið og arineld. Þar gafst tækifæri til að íhuga hitann í húsunum. Svona hitum við húsin.
    Sama ár var sýnt frá norsku prjónakvöldi. Svona verður peysan þín til.
    Og í fyrra var öll norska sálmabókin sungin í beinni útsendingu. Svona er sungið um Guð.
    Mig langar að staldra við þetta seinasta. Enda er ég prestur og við í kirkju. Ég held nefnilega að við gerðum gagn í því að beina sjónum landans að hinum trúarlega þræði í lífsmynstri okkar Íslendinga. Hann þykir ekki alltaf hipp-og-kúl en hann er þarna. Og hann er mikilvægur og hefur verið um aldir.

    Bænir og Biblía

    Um allt land – í sveitinni og í borginni – eru til dæmis börn sem læra bænir af mæðrum og feðrum. Læra vers eins og Vertu Guð faðir, faðir minn og Nú er ég klæddur og Vertu nú yfir og allt um kring og öll hin versin sem eru okkur kær og fylgja frá upphafi lífsins til enda þess.

    Um allt land eru börn sem læra Biblíusögurnar. Læra um Adam og Evu í aldingarðinum, Nóa og dýrin í örkinni, Davíð og Golíat, Jesú sem gerði kraftaverk.

    Þetta er þáttur heimilisins. Sum börn taka líka þátt í kirkjustarfinu og flest þeirra fermast og sum halda áfram í unglingastarfi kirkjunnar. Hvers vegna? Vegna þess að trúin skiptir máli og vegna þess að þetta er vandað og gott félagsstarf fyrir ungt fólk – sem er að auki ókeypis.

    Uppeldið í trúnni er málefni heimilisins í samstarfi við kirkjuna.
    Fræðslan um trúna fer þar fram og hún fer líka fram í kirkjunni.
    En það eru fleiri aðilar sem koma að þessu.
    Til dæmis skólinn.

    Í skólanum, í skólanum

    Og það skiptir máli að vel takist til á þeim vettvangi. Að fræðslan sé vönduð og það sé nóg af henni.

    Þess vegna er vont að krakkar fái ekki lengur Nýja testamentið og Sálmana að gjöf í skólum í Reykjavík. Ástæðan er sú að það sendir röng skilaboð, sendir þau skilaboð að ritin í Nt eigi ekki heima í skólunum. Samt eru þau hluti af grundvelli menningar okkar og þekking á þeim nauðsynleg til að skilja bækur og bíómyndir, tónverk, leikrit og tungumál. Við þurfum að bæta úr þessu.

    Við þekkjum jú til bókakynninga í grunnskólum – til dæmis fyrir jólin. Þar fer ekki fram ritskoðun eða ritrýning á innihaldi hennar. Höfundum er einfaldlega treyst. Við þurfum líka að treysta þeim sem þekkja Biblíuna.

    „Þetta er eðlilegt“

    Norðmenn sungu alla sálmabókina sína síðasta vetur. Það var sent í beinni í Ríkissjónvarpinu þeirra og á vefnum.

    Útsending af þessu tagi „normalíserar“.
    Hún segir ekki aðeins: þetta gerist
    Hún segir: þetta er eðlilegt.
    Svona fæðast lömbin.

    Og:
    Þegar lömbin fæðast er þeim sýnd umhyggja.
    Þau mæta ekki bara, tilbúin og plastpökkuð í frystikisturnar í Bónus.

    Það hefur gildi fyrir samfélagið að „normalísera“.
    VIð eigum að gera meira af því.

    Til dæmis með:

    60 klukkustundum af sálmasöng.
    60 klukkustundum af morgun- hádegis- kvöldbæn.
    60 klukkustundum af kirkjulífi.
    60 klukkustundum af leik barna í borginni.
    Við skulum byrja fljótt. Ekki seinna en í haust.

    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð se heilögum anda sem er þessi ást.

  • Biblíublogg 28: Biblían í tölum

    Bækurnar í Biblíunni eru 66 talsins, þar af eru 39 í gamla testamentinu og 27 í því nýja. Við það bætast apokrýfu bækurnar. Stysta bókin í Biblíunni er 2. Jóhannesarbréf, sú lengsta er Saltarinn.

    Kaflarnir í Biblíunni eru 1189, versin eru 31173, þar af eru 929 kaflar og 23214 vers í gamla testamentinu og 260 kaflar og 7959 vers í því nýja. Orðin eru næstum 800 þúsund, þar af eru þrír fjórðu í gamla testamentinu og fjórðungur í því nýja (nákvæmur orðafjöldi fer að sjálfsögðu eftir þýðingum).

    Stysta versið Biblíunnar er að finna í Jóh. 11.35:

    Þá grét Jesús.

    Það lengsta er í Ester 8.9:

    Á tuttugasta og þriðja degi þriðja mánaðar, mánaðarins sívan, voru ritarar konungs kallaðir saman. Rituðu þeir hvað eina, sem Mordekaí mælti fyrir, til Gyðinga, til skattlandsstjóranna, landshöfðingjanna og höfðingja héraðanna hundrað tuttugu og sjö, allt frá Indlandi til Eþíópíu, til hvers héraðs með letri þess héraðs, til hverrar þjóðar á tungu hennar og jafnframt til Gyðinga með þeirra letri og á þeirra tungu.

    Í Biblíunni miðri er Sálmur 117:

    Lofið Drottin, allar þjóðir,
    vegsamið hann, allir lýðir,
    því að miskunn hans er voldug yfir oss
    og trúfesti Drottins varir að eilífu.
    Hallelúja.

    Hann er líka stysti kafli Biblíunnar. Sá lengsti er Sálmur 119 sem stendur þar hjá.

    Þessar tölur höfum við af síðunni GotQuestions og við viljum deila þeim með ykkur ykkur í tuttugasta og áttunda Biblíublogginu. Hér með lýkur þessari tilraun til að fjalla um Biblíuna í 28 bloggfærslum. Guð geymi ykkur í dag og alla daga.

  • Biblíublogg 27: Við getum ekki annað

    Í dag verður haldið málþing í tilefni af sjötugsafmæli Gunnars Kristjánssonar prófasts á Reynivöllum í Kjós um framlag Gunnars í ræðu og riti á ólíkum sviðum kirkjulífs, menningar og samfélagsumræðu.

    Eitt af því sem skoðað verður er prédikunarguðfræði Gunnars en hann er ekki bara mikilhæfur prédikari sjálfur heldur hefur hann skrifað og þýtt prédikunarfræði.

    Í samtíma prédikunarfræðum er mikið horft á prédikarann sjálfan og hvernig hann eða hún miðlar trúarreynslunni. Í bókinni Á mælikvarða mannsins sem Gunnar þýddi, kemur fram að eldri áherslur litu á prédikunarþjónustuna sem þjónustu boðberans eða kallarans. Hlutverk boðberans er jú að flytja það sem honum er trúað fyrir, hvorki meira né minna, og láta sig síðan hverfa. Innihaldið skiptir hann engu máli, engu skiptir hvað hann sjálfur hugsar og honum má standa á sama um þýðingu þess sem honum er falið að flytja.

    Samkvæmt prédikunarguðfræði sem byggir á mikilvægi einstaklingsins í miðlun fagnaðarerindisins, er því ekki þannig farið. Hliðstæðan við prédikarann eða prestinn er miklu fremur vitnið heldur en boðberinn, sbr. Post. 4.20 um fólkið sem tjáir sig um það sem það hefur sjálft séð og heyrt og getur ekki þagað yfir. “Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“

    Næstsíðasta biblíubloggið okkar rifjar því upp fordæmið sem við finnum í hinum fyrstu kristnu sem fóru með boðskapinn út í heiminn af því þau gátu ekki annað en talað það sem þau höfðu séð og heyrt.

  • Sá Golíat Davíð?

    Malcom Gladwell:

    Well, it turns out that there’s been a great deal of speculation within the medical community over the years about whether there is something fundamentally wrong with Goliath, an attempt to make sense of all of those apparent anomalies.

    Ein tilgátan sem Gladwell nefnir er að Golíat hafi þjáðst af því sem er kallað acromegaly, einn fylgikvilli þess sjúkdóms er döpur sjón. Það getur því vel hugsast að Golíat hafi ekki séð Davíð.

  • Biblíublogg 25: Maríukjúklingur

    Biblíumatur er bragðgóður og hollur. Í uppskriftirnar er notað hráefni sem var til á tíma Biblíunnar. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, er einn þeirra sem hefur eldað Biblíumat og sagt frá honum í ræðu og riti. Þessi uppskrift er sótt á vefinn hans.

    Maríukjúklingur fyrir fjóra

    Maríukjúklingur
    Maríukjúklingur.
    4 kjúklingabringur
    4-6 hvítlauksgeirar
    1 tsk kúmmín
    1,5 tsk túrmerik
    1 tsk kanill malaður
    Salvía, helst fersk annars þurrkuð
    1 stór rauðlaukur
    3 skalottulaukar (sbr. Askelon en líka oft kallaður vorlaukur á íslensku)
    Sítrónubörkur rifin með rifjárni
    Safi úr einni sítrónu (helst lífrænni) ca 70 ml. má líka vera appelsínubland
    150 gr. spínat
    300 ml. grænmetiskraftur
    10 döðlur – langskornar. Mega líka vera fíkjur/sveskjur í staðinn.
    Maldonsalt
    Heslihnetur – til skreytingar

    Maldonsalt og olía á heita pönnu. Kjúklingurinn á pönnuna og meira maldon yfir sem og salvían. Laukurinn skorinn fínt og steiktur, settur við hlið kjúklingabitanna. Kryddað yfir allt og sítrónubörkur yfir. Ekki síðra að leyfa síðan standa í sólarhring í kæli. Sítrónuvökvi, spínat og hnetur yfir og síðan fært í ofn eða pott og látið malla í fjörutíu mínútur. Gæta að vökvinn fari ekki allur, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með soðnu bulgur (eða byggi eða kúskús).

    Verði þér að góðu.

  • Biblíublogg 24: Hugleikur og heimsendir

    Opinberun eftir Hugleik Dagsson
    Tveir rammar úr myndasögunni Opinberun eftir Hugleik Dagsson.

    Myndasagan Opinberun eftir Hugleik Dagsson fjallar um það þegar nokkrar geimverur setja upp sjónvarpsleikrit – eins konar raunveruleikasjónvarp – sem er byggt á Opinberun Jóhannesar. Það er síðasta bókin í Biblíunni, hún fjallar um heimsslit og geymir margar afar myndrænar lýsingar.

    Það er bæði forvitnilegt og gagnlegt að lesa bókina, ekki síst fyrir það hvernig hún bregður ljósi á bókastafstúlkun á Biblíutextunum. Í meðförum Hugleiks er það beinlínis spurning um líf og dauða.

  • Biblíublogg 21: Elskhugi minn

    Samband kristinnar trúar og kynlífssviðsins er margrætt og flókið. Bent hefur verið á að á sínum tíma hafi áhrifamiklir kristnir guðfræðingar hreinlega farið í stríð við kynhvötina og séð hana sem óvin og keppinaut trúarinnar.

    Það breytir ekki mannlegri reynslu og vitnisburðinum um hana, sem við finnum í Biblíunni. Ein áhugaverðasta bók ritningarinnar er Ljóðaljóðin sem innihalda ástarjátningar tveggja elskenda og mjög litríkar og fallegar lýsingar á unaði ástarinnar.

    Þessi vers úr fjórða kaflanum eru gott dæmi um það:

    Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
    og augu þín dúfur
    undir andlitsblæjunni.
    Hár þitt er sem geitahjörð
    sem rennur niður Gíleaðfjall,
    tennur þínar ær í hóp,
    nýrúnar og baðaðar,
    allar tvílembdar
    og engin lamblaus.
    Varir þínar eru sem skarlatsborði
    og munnur þinn yndislegur,
    gagnaugun eins og sneitt granatepli
    undir andlitsblæjunni.
    Háls þinn er eins og turn Davíðs
    sem vopnum er raðað á,
    þar hanga þúsund skildir,
    öll hertygi garpanna.
    Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
    dádýrstvíburar
    að leik meðal lilja.
    Þegar kular í dögun
    og skuggarnir flýja
    mun ég halda til myrruhólsins
    og reykelsishæðarinnar.
    Öll ertu fögur, ástin mín,
    lýtalaus með öllu.

    Hér eru engir 50 gráir skuggar á ferð, heldur eintóm litadýrð, ást og unaður.

  • Biblíublogg 20: Fastan og ferðaþjónustan

    Er sú fasta sem mér líkar
    sá dagur er menn þjaka sig,
    láta höfuðið hanga eins og sef
    og leggjast í sekk og ösku?
    Kallar þú slíkt föstu
    og dag sem Drottni geðjast?
    Nei, sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
    Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
    og sár þín gróa skjótt,
    réttlæti þitt fer fyrir þér
    en dýrð Drottins fylgir eftir. (Jes 58.5-8)

    Margir hafa þá mynd af föstunni að hún sé tíminn þegar við neitum okkur um eitthvað, til dæmis kjöt, að við fórnum einhverjum af lífsgæðunum til að geta betur einbeitt okkur að Guði. Í 58. kafla spádómsbókar Jesaja birtist önnur mynd. Hér er fastan ekki fórnartími heldur þjónustutími þegar hagsmunir þeirra sem hafa það ekki eins gott og við eru settir í forgrunn. Út frá því mætti segja að fastan í ár væri til dæmis góður tími til að klára lagfæringar á ferðaþjónustu fatlaðra.