Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Skröksögur

    Ég á sjö ára gamla stelpu. Um daginn var hún að leika heima með vinkonu sinni sem býr rétt hjá okkur. Þær höfðu unað lengi uppi í herbergi en það var komið eitthvert óþol í stelpurnar svo við leyfðum þeim að fara út í garð með tvö vasaljós. Svo hoppuðu þær og skoppuðu og af því að það var komið myrkur sáum við ekkert hvað þær voru að gera en við sáum geislana frá vasaljósunum skjótast um.

    Svo kom að því að vinkonan þurfti að fara heim og við gengum með henni af því að manni er alltaf vel við að börnin gangi ein í myrkrinu. Á leiðinni sögðu þær vinkonur mér út á hvað leikurinn hefði gengið. Þær vildu deila sögunni af sér því hún skipti þær máli. Þetta reyndist semsagt hafa verið mikil barátta góðs og ills þar sem þær voru í hlutverki verndara hins góða, vopnaðar ljóssverðum, að bægja burtu uppvakningum – Zombíum – og annars konar óværum sem herjuðu á heiminn. Þær börðust við litlar og stórar Zombíur og höfðu sigur. Þær unnu saman og það skipti sköpum. Þær voru hetjur í frásögunni sinni og glaðar með hlutskipti sitt. (more…)

  • Pútín á fjallinu

    Við hjónin fórum í stutta heimsókn til Stokkhólms um síðustu helgi. Þar var auðvelt að verða var við mikla stemningu í aðdraganda vetrarólympíuleikanna í Sochi, sem nú eru hafnir.

    Svíar taka íþróttirnar sínar mjög alvarlega og vetrarólympíuleikarnir eru þar engin undantekning. Á annað hundrað keppenda taka þátt og Svíar eru in-it-to-win-it. Vangaveltur og spádómar um hversu mörg verðlaun falla þeim í skaut eru alvöru umfjöllunarefni fjölmiðla og manna á milli. H&M, sem ekki þarf að kynna fyrir Íslendingum, er af tilefni ólympíuleikanna með sérstaka fatalínu til sölu í verslunum sínum, sem kallast á við búninga sænsku keppendanna og minnir á hverja ber að hvetja til sigurs. Og ef allt fer eins og lítur út fyrir, má búast við mörgum gulum og bláum á verðlaunapöllunum í Sochi. (more…)

  • Ég og Jesús

    Fimmtudagsmorgunn í Bústaðakirkju.

    Lífið og dauði mætast í kirkjunni.

    Í kapellunni eru ungir foreldrar – aðallega mæður – með nýfæddu börnin sín. Þær hittast á vikulegum foreldramorgni hér í kirkjunni. Þær koma saman til að deila reynslu, eiga samfélag, fá góð ráð. Börnin leika sér. Þær drekka kaffi og te og gott meðlæti sem þær leggja í púkk. Þær heyra sagt frá Jesú, þær biðja með börnunum sínum.

    Þetta er lífið í kirkjunni.

    Í kirkjunni er kista. Fulltrúar útfararþjónustunnar komu með hana. Hún var lögð á svartan pall og komið fyrir framan við altarið. Svo kom annað fólk með blóm og kransa í kirkjuna. Og kirkjan fylltist af ilmi blóma sem er eins og ilmur sorgarinnar. Því sorgin er ekki lyktarlaus eins og sumir halda. Hún er þrungin af lykt! Svo fylltist kirkjan af fólki eftir hádegið sem kom til að þakka fyrir lífið sem var lifað, rifja upp gamlar minningar, kveðja. Þau hlustuðu líka á orð um Jesú og báðu saman.

    Þetta er dauðinn í kirkjunni.

    Það er mikið um að vera í kirkjunni okkar í hverri viku. Hver viðburður segir okkur hluta af sögunni um kirkjuna. Saman myndar þetta eina heild og sýnir okkur kirkju sem er þar sem líf og dauði mætast. (more…)

  • Hjónaband er vanaband

    Hvað komast margir fyrir í kirkjunni?
    Er hægt að fjölga sætum eitthvað?
    Er hún laus þennan dag í júní eða júlí eða ágúst?
    Hvernig er hljómburðurinn?
    Hvernig kemur birtan gegnum gluggann?
    Hvar verða stólarnir sem við sitjum í?
    Megum við ganga inn saman?
    Hvernig gengur þetta eiginlega fyrir sig?

    * * *

    Brúðkaupstíminn er hafinn.
    Eða öllu heldur, hann stendur nú yfir því hann er sístæður.
    Í hverri viku er fjöldi para að hugsa um brúðkaupið sitt.
    Karlar og konur, karlar og karlar, konur og konur, sem hafa verið lengi eða stutt saman. Sem hafa fellt hugi saman og vilja eyða lífinu saman.
    Sem vilja mætast í kirkjunni sinni, með presti og vitnum, vinum, fjölskyldum og heita því að eiga hvort annað í blíðu og stríðu. (more…)

  • 65% meiri gleði

    Brúðkaupið

    Ein af stærstu gleðistundum lífsins er þegar við göngum í hjónaband. Eða þegar við erum viðstödd þegar einhver okkur nákominn heitir því fyrir augliti Guðs og safnaðarins að elska og virða makann sinn í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þeim að höndum bera.

    Brúðkaup eru líka sívinsælt viðfangsefni kvikmyndanna, þar sem innihald stundarinnar þegar fólk játast hvort öðru opinberlega, virðist bjóða upp á sérlega marga möguleika til að draga upp áhugaverð samskipti og draga upp litríka mynd af mannlegum tilfinningum.

    Myndir eins og Four Weddings and a Funeral, My Best Friend’s Wedding og Bridesmaids koma upp í hugann, líka íslenskar kvikmyndir eins og Brúðguminn og Sveitabrúðkaup. (more…)

  • Ert þú Walter Mitty?

    Afi las ástarsögur.

    Hann var smiður og vann alla ævina með höndunum sínum og var sterkur kall og duglegur. Naut þess að vera úti við og ferðast. En hann las ekki bara Íslendingasögur eða dæmigerðar karlabókmenntir heldur las hann líka ástarsögur. Ég man eftir því að mamma sagði mér frá þessu eftir að hann dó og mér fannst það svolítið flott.

    Það gerði hann sérstakan.

    Ég ætla að tala um ástarsögur við ykkur í dag. Við hjónin skelltum okkur nefnilega í bíó og sáum hina myndina sem allir eru að tala um þessa dagana – þ.e.a.s. ekki Hobbitann heldur söguna um Íslandsvininn Walter Mitty. Það er eitthvað heillandi við þessa bíómynd og janúar er góður bíómánuður þegar við lyftum okkur upp með ljósinu á hvíta tjaldinu í skammdegismyrkrinu. (more…)

  • Það eru ekki alltaf jólin

    Á jólatónleikum í sjónvarpssal sem fylgdu plötunni Nú stendur mikið til með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni ávarpar Sigurður áhorfendur og segir eitthvað á þessa leið.

    Það eru ekki alltaf jólin,
    En þegar þau eru þá er gaman.

    Það er gaman á jólunum. Við upplifum gleðina í undirbúningi þeirra og við upplifun hana þegar jólin hafa gengið í garð. Hún skín í gegn þótt stundum sé streitustigið hátt – að vísu gleymist það furðufljótt og á tólfta degi jóla er maður næstum búinn að gleyma öllu sem var erfitt í aðdraganda jólanna.

    Það er samt alvarlegur undirtónn á jólunum. Við heyrum hann í guðspjöllunum þegar við lesum í kringum jólasöguna sjálfa. Matteus guðspjallamaður talar um Heródes konung sem óttaðist barnið. Jóhannes um heiminn sem þekkti soninn ekki og fólkið tók ekki á móti honum. Við heyrum líka alvarlegan undirtón í áramóta- og nýársræðum ráðamanna hér á landi: við stöndum frammi fyrir brýnum úrlausnarefnum og það dugar ekki að kasta til höndunum. (more…)

  • Engin sátt án sannleika

    Vitaskuld er auðveldara að fylgjast með og dáðst að manni eins og Mandela, heldur en að líkja eftir honum. Að ná réttlæti með miskunn, iðka von með raunsæi, örlæti með ábyrgð. Mandela átti raunverulega, áþreifanlega fjandmenn sem höfðu unnið honum illt. Þeim fyrirgaf hann og vann þannig sjálfum sér, þeim og allri þjóð sinni frelsi. Engin sátt án sannleika

  • Tíminn læknar engin sár

    „Þeir segja að tíminn lækni öll sár.
    Það er helvítis lygi.“

    Sagði pabbinn.
    Þá voru liðin níu eða kannski tíu ár frá því litli strákurinn hans dó.
    Það varð slys og aðkoman var hræðileg og brenndi sig inn í augun hans og hugann og hjartað.
    Sárin voru enn til staðar. Sársaukinn var til staðar. Kannski ekki alltaf, en hann bjó þarna. Stundum í leynum. Stundum augljós.

    „Þeir segja að tíminn lækni öll sár.
    Það er … lygi.“

    Hann hefur alveg rétt fyrir sér. (more…)

  • Úr djúpinu

    Það er hægt að drepa fólk án þess að skjóta það niður – með því t.d. að hunsa mannréttindi og mannvirðingu þeirra sem hafa þurft að flýja heimaland sitt en komast ekki inn í kerfið og fara því á mis við eðlilegan stuðning og tækifæri til að leggja sitt af mörkum og blómstra.

    Úr djúpinu ákalla flóttamenn og hælisleitendur, úr djúpinu ákalla börn og fullorðnir í stríðshrjáða Sýrlandi. Þau leita eftir lífi og öryggi, bíða þess að einhver heyri grátbeiðni þeirra, þrá miskunn, lausn og morgun.

    Úr djúpinu