Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Er það pólitískur rétttrúnaður að mæta fólki af virðingu?

    Í vikunni las ég um ungan mann sem skrifaði lítið forrit og tengdi það við vafrann í tölvunni sinni. Forritið gerir aðeins eitt: Þegar textinn „political correctness“ kemur fyrir á vefsíðu breytir það honum í „treating people with respect“. „Pólitískur rétttrúnaður“ verður „að mæta fólki með virðingu.“

    https://twitter.com/byronclarknz/status/628702214391902208

    Um pólitískan rétttrúnað sagði á Wikipediu laugardagsmorguninn 8. ágúst í texta sem er reyndar ekki allskostar hlutlaus:

    „Gjarnan er talað um pólitískan rétttrúnað í tengslum við tungutak um minnihlutahópa og átt við ofurvarfærni gagnvart niðrandi orðfæri, svo sem um kynþætti, konur, meðlimi trúarhópa, fatlaða, samkynhneigða og svo framvegis. Þó á hugtakið ekki aðeins við um tungutak heldur einnig gjörðir, pólitísk stefnumál, hugmyndafræði og hegðun, alla afvegaleidda viðleitni til að lágmarka móðganir og mismunun gagnvart hópum sem eiga undir högg að sækja.“

    Það er ótrúlegt hvað þessi litla breyting hefur mikil áhrif. Með því að taka hlaðið tungutak úr umferð og setja í staðinn lýsingu á því sem reynt er að ná fram: að mæta fólki af virðingu er nefnilega hægt að afhjúpa ofbeldið í samfélaginu og þannig berjast gegn því. Orð hafa nefnilega áhrif.

    Eva Hauksdóttir, sem er skarpur pistlahöfundur, skrifar á einum stað:

    „Málflutning skal gagnrýna með rökum. Merkimiðar eru ekki rök; þeir sem telja andmælendur sína á valdi pólitískrar rétthugsunar ættu þessvegna að útskýra hvað nákvæmlega er gagnrýnivert við skoðanir þeirra.“

    Hér hittir hún naglann á höfuðið. Merkimiðar geta vissulega verið gagnlegir til að flokka og skilja, en þegar þeir eru notaðir til að meiða – eins og stundum og jafnvel oft er raunin með merkimiðann „pólitískan rétttrúnað“ þá eru þeir skaðlegir. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að við megum ekki ræða um skoðanir og afstöðu. Það þýðir hins vegar að við eigum að eiga í samtali án þess að hafa þann ásetning að meiða aðra.

    Virðing fyrir manneskjunni er nefnilega ekki til umræðu, um hana verður ekki samið. Hún er grundvallaratriði og forsenda.

    Jesús er reiður

    Jesús er reiður í guðspjalli dagsins. Hann ávítar. Hann er ekki alltaf glaður – frekar en við.

    „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.“

    Þetta er öðrum þræði lýsing á vonbrigðum þess sem hefur ekki náð markmiði sínu. Jesús kom og prédikaði og fólkið hlustaði, hann gerði kraftaverk og fólkið horfði. En þau breyttu ekki hátterni sínu. Kannski af því að þau skildu ekki. Kannski af því að breytingar taka tíma og hann var ekki nógu lengi á staðnum. Við vitum það ekki.

    En hverju vildi hann breyta?

    Mörgu.

    Eitt af því var hvernig við lítum á og nálgumst annað fólk.

    Hvernig?

    • Hann umgekkst þau sem samfélagið úthýsti,
    • hann vildi að samfélagsreglurnar væru í þágu manneskjunnar – svo hann læknaði á hvíldardegi,
    • hann bar virðingu fyrir hverri manneskju sem hluta af sköpun Guðs.
      hann elskaði. Alla.
    • hann bað fyrir öðrum – líka þeim sem ofsóttu hann.

    Hann. Bar. Virðingu.

    Virðingin

    Það eru ekki allar breytingar jafn einfaldar og sú að setja upp forrit sem skiptir út merkimiða fyrir innihald. Breytir pólitískum rétttrúnaði í virðingu fyrir manneskjunni. Það er í sjálfu sér einfalt og tekur skamma stund – en getur auðvitað haft áhrif. Því orð hafa áhrif.

    Hitt tekur lengri tíma: að hætta að setja fólk niður og mæta þeim af virðingu. Og það gildir nota bene ekki bara um vini okkar eða nágranna heldur líka þau sem við skiljum sem öðruvísi eða sjáum jafnvel sem andstæðinga.

    Það er hin kristna afstaða.
    Að því vinnum við.
    Ekki síst um helgar eins og þessa þegar við stöndum með þeim sem hafa verið ofsótt um aldir.

    Og þegar það tekst segjum við ekki „vei og skamm“ heldur „vei og jibbí jei“.
    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

  • Barnatrú og mannþjónusta

    Í Fræðunum minni fjallar Marteinn Lúther um grundvallaratriði kristinnar trúar og leggur meðal annars út af Faðirvorinu, postullegu trúarjátningunni og boðorðunum tíu. Þetta hefur stundum verið kallað kjarninn í íslenskri barnatrú. Lúther byrjar Fræðin á umfjöllun um Boðorðin. Þar vekur athygli að í meðförum hans verður boðorðið þú skalt ekki að jákvæðri þú skalt-yrðingu:

    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að varðveita eigur sínar.
    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að hlúa að hjónabandi sínu.
    • Þú skalt hjálpa náunga þínum að lifa vel.

    Verslunarmannahelgin er að þessu sinni á milli tveggja mannréttindahelga hér á Íslandi: fyrir viku síðan var haldin Drusluganga í Reykjavík. Athyglin beindist að mannhelgi, mörkunum milli fólks og virðingu fyrir konum. Eftir viku verða mannréttindi hinsegin fólks í brennidepli í Gleðigöngu á Hinsegin dögum.

    Mannréttindi og -skyldur

    Mannréttindi er orð sem heyrist víða og mannréttindabarátta er fyrirferðarmikil í samfélaginu okkar. En við ræðum sjaldnar um hina hliðina á því: Skyldurnar sem fylgja réttindum.

    Hvað gerist ef við nálgumst mannréttindi eins og Lúther nálgaðist boðorðin? Þá horfum við ekki lengur á lágmarks réttindi annarra heldur hámarks skyldur okkar. Tökum dæmi:

    • Fólk á ekki bara rétt til að tjá sig (tjáningarfrelsið). Það er skylda okkar að tryggja að þau geti það.
    • Börn eiga ekki bara rétt á góðu atlæti, uppeldi, öryggi (réttindi barna). Það er skylda okkar að tryggja að svo sé.

    Mannréttindin standa vörð um ákveðinn grundvöll. Þau slá ramma kringum manneskjuna. Skyldurnar lúta aftur á móti að því hvernig við hugsum til og aðhöfumst í þágu annarra, náungans, lífsins og sköpunar Guðs.

    Kannski er það þetta sem Páll á við þegar hann talar um að berjast góðu baráttunni í pistli dagsins. Og nota bene ekki aðeins að við berjumst fyrir mannréttindum – sem er gott og blessað út af fyrir sig – heldur að við göngum lengra.

    Barnatrúin og mannþjónustan

    Kjarni kristinnar trúar – líka barnatrúarinnar – er að nálgast náungann og þjóna honum í kærleika. Þegar það er gert þá hætta skyldurnar kannski að vera skyldur og verða að innblásinn löngun til að sinna þeim sem þarf að sinna, af einlægum vilja til vinna verkin.

    Sem kristnar manneskjur erum við kölluð til láta okkur ekki aðeins varða grundvallar- eða lágmarks- mannréttindi heldur til að grípa hvert tækifæri til að sinna um og hlúa að lífinu þannig að sérhver einstaklingur megi og geti lifað lífi sínu í fullri gnægð.

    Við getum kallað það mannþjónustu sem birtist í manngæsku. Það er að vera kristin manneskja.

    Það er okkar barna- og fullorðinstrú.

    Flutt í guðsþjónustu í Hóladómkirkju, sunnudaginn 2. ágúst 2015.

  • Skósveinarnir, Grú og Jesús

    Í dag verður frumsýnd kvikmynd hér á landi sem er eins konar forsaga myndanna tveggja um Aulann Grú. Hún heitir Skósveinarnir eftir söguhetjunum litlu sem hafa heillað áhorfendur um allan heim. Þeir eru gulir og sætir og næstum hnöttóttir, sumir með eitt auga, aðrir með tvö og þeir bralla og babla hver í kapp við annan.

    Þegar við kynnumst þeim í fyrstu kvikmyndinni eru skósveinarnir þjónar Grú og þeir aðstoða hann fyrst við glæpi og spellvirki og síðar við gæskuverk af ýmsum toga. Í kvikmynd dagsins fáum við að kynnast forsögunni. Við sjáum hvernig þeir hafa verið hluti af sögu lífs á jörðu frá upphafi og hafa alla tíð þjónað sterkasta leiðtoganum. Jafnan þeim sem er verstur allra. Kannski er það líka háttur heimsins að upphefja þann sem valdið hefur.

    *

    Morgunlestur þessa miðvikudags (Róm 13.8-10) fjallar einnig um samband fylgjenda og leiðtoga. Við lesum:

    „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“

    Jesús kallar okkur til fylgis við sig. En ekki þó til að vera gagnrýnislausir skósveinar heldur til að beita huga og hjarta í þágu hins góða. Til uppbyggingar. Til að elska náungann. Það er hið sanna og eina lögmál sem okkur ber öllum að fylgja. Guð gefi okkur styrk sinn til þess og Guð gefi okkur einnig gleði skósveinanna hans Grú í þeirri þjónustu.

  • Það er ekki of seint

    Lestin

    Við byrjum í lestarferð.

    Ung blaðakona er stödd í lestinni sem er á leið milli tveggja borga í Bandaríkjunum. Hún heyrir útundan sér símtal manns sem er háttsettur hjá Umhverfisstofnun ríkisins. Hann tjáir sig óvarlega. Blaðakonan gengur svo á hann, kynnir sig og segist hafa heyrt í honum. Af því að hann hafi verið að tala í lestinni – sem er opinber staður – njóti hann engrar friðhelgi. Þarna hefur semsagt átt sér stað leki úr Umhverfisstofnuninni. Á mikilvægum upplýsingum.

    Þetta atriði kemur fyrir í sjónvarpsþáttunum Newsroom sem voru sýndir fyrir nokkrum árum í Bandaríkjunum. Framhaldið er ekki síður áhugavert. Blaðakonan unga er með pálmann í höndunum og getur sagt krassandi frétt en hún vill ekki stilla manninum upp við vegg. Þau semja: Hann lætur hana fá skýrslu á undan öðrum fjölmiðlum og samþykkir svo að koma í viðtal út af henni.

    Viðtalið fer síðan á annan veg en við er að búast. Umfjöllunarefnið er plánetan okkar og hnattræn hlýnun – sem sumir virðulegir menn vestanhafs ræða undir sömu formerkjum og efnahagshrunið á Íslandi: Meint hnattræn hlýnun. Sem er hún er ekki.

    Nema hvað, í viðtalinu er spurt sömu spurninga og alla jafna er spurt í svona viðtölum: hvernig er staðan? Hverju þarf að breyta til að snúa hlýnunarferlinu við? Hverjar verða afleiðingarnar ef við snúum þessu ekki við. Og viðmælandinn – sérfræðingur á þessu sviði svarar: Staðan er ómöguleg. Það er ekkert hægt að breyta þessu. Þessu verður ekki snúið við. Það er of seint. Við horfum fram á hörmungar.

    Frans sendir bréf

    Það var greint frá öðrum leka í fjölmiðlum í vikunni. Úr sjálfu Vatikaninu. Nýjasta páfabréfið sem hefur yfirskriftina Lof sé – Laudato si. Það hefst á bæn eftir dýrlinginn Frans frá Assisi:

    „Lof sé þér Drottinn minn, fyrir systur okkar, Móður Jörð, sem nærir okkur og viðheldur og sem gefur margvíslega ávexti, lituð blóm og jurtir.“

    Frans sem var ítalskur munkur og lifði á Ítalíu á 13. öld er meðal annars þekktur fyrir hófsemi og virðingu fyrir dýrum og umhverfi en ekki bara manneskjunni.

    Bréf nafna hans sem situr á páfastóli fjallar um umhverfismál og það kannski var eins gott að það lak því það þurfti að milda höggið sem því fylgir. Umfjöllunarefnið er svolítið franslegt: umhverfið, nægjusemin.
    Undirliggjandi og þó ekkert svo mikið undir heldur á yfirborði er kerfisgagnrýni á það hvernig við umgöngumst jörðina. Meginatriðin í bréfinu má draga svona saman:

    1. Loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Þetta er ekki að batna, það er að versna. Páfinn segir að í þeim felist ein mesta áskorun mannkyns á okkar tímum og við stöndum frammi fyrir áður óþekktum breytingum á vistkerfum sem hafa verulegar afleiðingar fyrir okkur öll.
    2. Mannfólkið ber höfuðábyrgð á loftslagsbreytingum.
    3. Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á hin fátæku í heiminum – hlutfallslega meiri en á aðra.
    4. Við getum og verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að bæta úr þessu.
    5. Einstaklingar geta lagt sitt af mörkum en stjórnmálamenn verða að leiða þessa vinnu.

    Enski presturinn Giles Fraser lagði út af páfabréfinu í pistli í dagblaðinu Guardian í gær þar sem hann sagði Frans páfa líkjast baráttukonunni Naomi Klein – í hempu. Fraser segir þar meðal annars: Manneskjan er í grundvallaratriðum eins og stórt barn, knúin áfram af löngunum sínum: ég ég ég, vil vil vil. Kapítalískt hagkerfi reynir að uppfylla þessar langanir alveg óháð því hverjar þær eru.

    Hann bætir við að kapítalisminn sé öflugt kerfi til að mæta eða koma til móts við það sem fólk vill – til að uppfylla langanir – en að hann geri engan greinarmun á því sem manneskjur vilja og því sem þær þurfa. Afleiðingarnar séu skelfilegar fyrir plánetuna okkar og fyrir hamingju eða velferð einstaklinganna.

    Týndir synir, týndar dætur

    Söguna um týnda soninn sem við lesum í kirkjunni í dag má heimfæra á þetta. Sonurinn sem fór að heiman er stóra barnið – sem heimtar peninga, fer út í heim, lifir lífinu óháð öðrum og endar í svaðinu. Hófsami bróðirinn varð eftir heima. Faðirinn fagnar þegar týndi sonurinn kemur aftur heim og tekur hann að sér.

    En það er hinsvegar ekki í boði að lifa áfram hinu ýkta lífi sóunarinnar. Það er í boði að lifa í samfélagi og yrkja jörðina. Lifa í nægjusemi. Þótt það sé haldin veisla endrum og sinnum þá er lífið semsagt ekki veisla 24 tíma á sólarhring, 7 daga vikunnar. Frans páfi er því kannski að kalla á týnda syni og dætur þessa heims. Hættið að sóa, gerið greinarmun á þörfum og löngunum, komið heim.

    Um leið er hann að kalla eftir því að við sjáum okkur öll sem hluta af heild. Skiljum að náunginn er ekki bara sá sem býr undir sama þaki og við og ekki bara sá sem býr í sömu borg eða sama landi eða sömu heimsálfu og við heldur allir sem við getum haft áhrif á með höndunum okkar, huganum og hjartanu – og þar liggur allur heimurinn undir.

    „Auðvitað getum við breytt heiminum“

    Þess vegna er svo gott að við höfum í þessari messu með okkur góðan kór frá systurþjóðinni í austri, frá dómkirkjunni í Niðarósi sem var einu sinni ein af okkar dómkirkjum. Við erum þakklát fyrir þá nærveru hér og líka fyrir tónlistina sem er hið sammannlega tungumál. Mér finnst líka sérlega dýrmætt að hafa ykkur hér því frá Noregi höfum við fengið ungliðahreyfinguna Changemaker sem vinnur eftir slagorðinu: Auðvitað getum við breytt heiminum og hefur kennt okkur að við erum hendur Guðs til góðra verka í heiminum.

    Forsvarsmaður umhverfisstofnunarinnar í Newsroom var ómyrkur í máli og hann var líka vonlaus. Frans páfi er ómyrkur í máli en hann á von. Hún byggir á skýrri sýn á vandamálin og kallar á samstöðu við lausn þeirra. Hún krefst kerfisbreytingar. Ég held við eigum að fylgja honum að máli í þessum efnum.

    Við ætlum að bjarga þessari plánetu.
    Við ætlum að bjarga þessu fólki.
    Það er ekki of seint.
    Við ætlum að gera það saman.

    Ertu með?

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn.
    Dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást.
    Dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

    Flutt í Langholtskirkju, á þriðja sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 21. júní 2015.

     

  • Gróðursett í landinu

    Að vera Íslendingur

    Það á sér stað – og hefur lengi átt sér stað – mjög frjó og skemmtileg umræða um hvað það er að vera Íslendingur, í hverju íslensk menning felist og hver séu hin íslensku gildi. Á 17. júní kemur þessi umræða sérstaklega í hugann. Þá kalla á okkur spurningar um tengsl sögunnar við okkur sem lifum í dag, um áhrif þess sem gengnar kynslóðir áorkuðu og upplifðu á okkur, um hugmyndir sem hrifu og hreyfðu við fólki sem lifði í landinu okkar á öðrum tímum, við aðrar aðstæður.

    17. júní er lýðveldisdagurinn, valinn af því að hann er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar, sem var talsmaður sjálfstæðis og sjálfræðis sinnar litlu og smáu þjóðar. Hann talaði máli Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar og hans er ekki síst minnst fyrir að hafa spyrnt við fótum og mótmælt þegar átti að koma því þannig fyrir að meiriháttar ákvarðanir um Ísland gætu átt sér stað án aðkomu Íslendingra sjálfra.

    Nafn Jóns Sigurðssonar og arfleifð hans er því nokkuð tengd mótmælum. Mótmæli spretta ekki upp úr tómarúmi, þau eru ekki það sama og að vera með leiðindi og vesen. Mótmæli spretta upp úr jarðvegi sem ræktar hluti sem fólki finnst vera þess virði að berjast fyrir, sem gefur fólki sjálfsmynd sem fylgir því og mótar gildi og verðmætamat.

    Mótmælt á Austurvelli

    Akkúrat núna er verið að mótmæla á Austurvelli. Sumum finnst það ekki vera réttur tími eða réttur staður, vegna þess að það geri lítið úr því sem við höldum á lofti á 17. júní. Ég er ekki viss um að það sé svo. Kannski blæs 17. júní, fæðingardagur þjóðarhetjunnar Jóns Sigurðssonar, sem mótmælti svo sannarlega og blés anda kjarks og vonar í brjóst fólks. Kannski vekur 17. júní trú á að sannfæring okkrar sjálfra, skilningur og dómgreind, sé þess virði að halda á lofti. Þá eru mótmæli leið til að koma til skila og tjá eigin trú á hvað það er sem gerir samfélagið okkar betra og hvar pottur sé brotinn.

    Ég trúi því að þau sem mótmæla geri það af því að réttlætiskennd þeirra bjóði þeim að láta í sér heyra. Að þau taki undir með Jóni Sigurðssyni sem vildi að heildarhagsmunir þjóðar væru heiðraðir í ákvörðunum og valdboðum. Við hljótum að spyrja hvernig þessir heildarhagsmunir líta út í dag – þegar kemur að nýtingu náttúrunnar, ráðstöfun sameiginlegra auðlinda og forgangsröðun samfélagsins.

    Á 17. júní erum við minnt á söguna og við rifjum upp hugmyndir og líf þeirra sem gengu á undan okkur, þeirra sem eiga svo stóran hlut í því sem við köllum að vera Íslendingar. Við orðum þessa sögu og mátum hana við aðstæður okkar í dag. Við spyrjum, hverjar voru hugmyndir þeirra sem sköpuðu samfélagið okkar sem við búum við í dag, um hið góða líf, um jafnan rétt til gæða og gjafa hafs og jarðar, um lýðræði, um virðingu og helgi mannlegs lífs?

    Hrútar og það sem vekur von

    Margir hafa séð kvikmyndina Hrúta sem óhætt er að segja að fari sigurför um heiminn einmitt núna. Hrútar miðla til okkar ýmsu sem við þekkjum þegar við veltum fyrir okkur því hvað það er að vera Íslendingur. Það er sveitaumhverfið og bændasamfélagið sem við vorum flest eða öll hluti af fyrir örfáum kynslóðum. Það er samfélag sem byggir á jafnvægi og gagnkvæmni lands og manneskju, dýra og manna. Hún notar mynd- og hljóðmál sem kveikir og hreyfir okkur til eigin minninga, um hvernig tengsl við foreldra og nánasta samferðafólk mótar, meiðir og reisir upp. Hún tekur okkur í ferðalag sem spannar tilfinningaróf syndar og sáttar, ofbeldis og kærleika, fjarlægðar og hlýju.

    Er þetta þjóðlegt eða mannlegt? Eru ekki íslensku gildin og gæðin þau sömu og hreyfa við hjörtum mannanna hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu? Og eru það ekki sömu hlutirnir sem hrífa okkur, vekja von og trú, í dag og fyrir 204 árum þegar Jón Sigurðsson fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð?

    Land sem gefur líf

    Fyrirheitið í orði dagsins, úr spádómsbók Jeremía, fjallar meðal annars um tengsl fólksins við landið sitt. Þar mælir spámaðurinn fyrir munn Drottins og segir:

    Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð…Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.

    Hér er tengslum fólksins við landið sitt lýst með orðfæri gróðurs og jarðvegs. Við erum gróðursett í landinu okkar. Það þýðir að við nærumst af því, við lifum á því, við erum því háð. Rætur okkar liggja bókstaflega í landinu, af auðæfum þess þiggjum við lífsafkomu okkar, af sögu þess þiggjum við sjálfsmynd okkar. Við löskumst af áföllum þess og ágangur og rányrkja landsins kemur niður á okkur og lífsgæðum barna okkar.

    Myndin sem Jeremía dregur upp um fólkið sem er gróðursett í landinu minnir okkur líka á hvað afkoma okkar er nátengd jörðinni sjálfri og samferðafólki okkar. Samhengi alls sem lifir er staðreynd. Þegar jarðvegurinn mengast, sýkist það sem grær í honum. Sjúkt land getur ekki gefið af sér líf sem dafnar, rétt eins og riðan í kvikmyndinni Hrútum leggur sauðféð í Bárðardal – og þar með mannlífið – í rúst.

    „Ég gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti“ segir í orðinu. Hér erum við, leitandi og spyrjandi að því hvað sé landinu okkar til heilla og mannlífinu til blessunar. Sumu er ekki hægt að breyta – eins og t.d. veðrinu, sem hefur sinn gang og spyr ekki um útihátíðir eða sumarfrí. Þar þurfum við æðruleysi til að sætta okkur hið óbreytanlega. Sumu er hægt að breyta – þar þurfum við kjark til að takast á við viðhorf og hefðir sem mismuna og sundra.

    Svo er það nítjándinn

    Eftir aðeins tvo daga höldum við aðra hátíð vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Í aðdraganda hennar höfum við heyrt upprifjun á ýmsu sem varð á vegi þeirra sem börðust fyrir jöfnun rétti kynja og stétta. Því var breytt og kosningaréttur og tjáningarfrelsi er síðan órjúfanlegur þáttur af sýn okkar á mannréttindi allra á Íslandi.

    Á 17. júní rifjum við upp söguna og spyrjum, hverju þarf að breyta svo að landið sem Guð hefur gróðursett okkur í, hlúi að öllum kynjum og stéttum og gefi öllum af gæðum sínum. Látum það vera brýninguna til okkar sem hér erum komin saman, Guði til dýrðar og hvert öðru til blessunar. Amen.

    Kristín flutti þessa prédikun í messu í Rósagarðinum í Laugardalnum, 17. júní 2015.

  • Það er dýrt að vera fátækur

    Tónlistin okkar hljómar í sálinni, sagði kona í samtali við Fréttastofu Rúv í gærkvöldi. Hún var að segja frá þjóðlagasöng sem er iðkaður þessa helgi á Akureyri. Af orðunum mátti ráða að tónlistin skiptir máli. Hún snertir sálina,  getur nært hana og lyft henni upp.

    Mig langar að íhuga tónlist og trú í dag og ég ætla að gera það með því að leggja út af þremur tónleikum sem ég hef sótt á undanförnum vikum.

    Fyrst hlustaði ég á síðpönksveitina Trúboðana sem fagnaði útkomu plötunnar Óskalög sjúklinga. Þá tróð söngvaskáldið Svavar Knútur upp og fagnaði útkomu fjögurra platna á vínil. Það er stundum svolítið pönk í honum. Loks var það frumpönkarinn T. V. Smith sem gaf innsýn í sína tónlist. Ég lærði sitthvað á þessum tónleikum og mig langar að deila því með ykkur í kirkjunni í dag.

    *

    Trúboðarnir tróðu upp á Gauknum. Þeir syngja um smáatriðin í daglegu lífi  sem spegla samtímann og ljúka lífinu upp. Óskalög sjúklinga beina kastljósinu að því sama og kvöldfréttirnar: Heilbrigðiskerfinu og fólkinu sem þiggur þjónustuna:

    Færðu fatið undir lekann
    Sérðu ekki að húsið það er fokhelt
    Lyftan aftur föst aá milli hæða
    Hjartastuðtækið orðið straumlaust

    Söngvarinn er staddur á spítalanum og og það sem styttir stundir eru hin nostalgísku óskalög sjúklinga. Svo lýkur laginu á þessum hendingum:

    Ég hlusta á’ óskalög sjúklinga
    fæ ég lifrarígræðsluna
    náðu í nýrnavélina
    viltu græða í mig sálina.

    Undirliggjandi eru skilaboðin um að kerfið sé ekki í fullkomnu lagi þótt manneskjan þrauki.

    Það sama er uppi á teningnum í laginu Vantrúboð:

    Ei skal hafa annan guð en Glitni
    Glöð við beygjum höfum til Nastakk
    Gröfum síðan gömul hindurvitni
    Við Guð við segjum einfaldlega nei takk
    – Hvaða guð sé oss næstur

    Athygli hlustandans er líka beint að trú og trúarhefðum í skólastofunni og sungið um gildismat. Trúboðarnir spyrja hvort það geti verið að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Textinn er brýnandi og málefnið mikilvægt.

    Lög Trúboðanna eru þétt og kraftmikil, textarnir fullir af boðskap og spurningarnar um samfélagið okkar brýnandi. Þetta er gott stöff.

    *

    Svavar Knútur lék og söng á Rósenberg.
    Svavar Knútur heillaði gesti á Rósenberg.

    Svavar Knútur söng á Rósenberg og beindi hug og hjarta  að gildi einveru og íhugunar, sársaukanum sem getur fylgt því að vera manneskja og að ferðaþránni sem leiðir okkur á ókunnar lendur. Hann söng um lífið í hæðum og lægðum á minimalískan og einfaldan hátt sem snertir hjartað. Í lagasmíðum sínum hefur Svavar líka beint sjónum að ranglátum kerfum og lýst áhyggjum.

    Eitt besta dæmið um það er lagið Af hverju er ég alltaf svona svangur. Þar er sungið er á gamansaman hátt um uppvakninga – zombíur – sem kunna að meta Bauhaus og Bylgjulestina, Kringluna og Smáralind. Undirliggjandi eru áhyggjur af gildismati sem metur neysluna meira en manneskjur. Það er gildismat hagvaxtarins sem stundum virðist tröllríða öllu.

    *

    T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.
    T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.

    Svo var það pönkarinn T.V. Smith sem trommaði gítarinn sinn áfram á Dillon og kyrjaði hrá pönklög um kerfisbundið ranglæti. Laglínurnar voru einfaldar og textarnir boruðu sig undir kvikuna. Það er dýrt að vera fátækur syngur T. V. Smith:

    Það er dýrt að vera fátækur,
    því allt kostar meira,
    ég banka á luktar dyr.
    Það er dýrt að vera fátækur,
    vill einhver kasta til mín nokkrum brauðmolum,
    ég skal borða þá af gólfinu.
    Það er dýrt að vera fátækur,
    en ég lít kannski vel út þegar ég er fullur örvæntingar.

    Upp úr lögunum hans stendur ekki bara tilfinning fyrir ranglæti heldur spurningar: Ertu með? Eigum við að breyta heiminum?

    *

    Kæri söfnuður.

    Við erum enn inni á áhrifatíma Hvítasunnunnar. Hátíðar heilags anda. Og heilagur andi talar til okkar með margvíslegum hætti. Í gegnum reynsluna í lífinu, gegnum þrautir og sigra. Í daglegu lífi. Í tónlistinni sem við heyrum. Líka þegar við búumst bara alls ekki við því.

    Trúboðarnir brýna okkar. Ekki með því að segja: Eitt er best og miklu betra en annað heldur með því að spyrja út í gildismatið og spyrja um það hvernig og hvers vegna og setja fingurinn á það sem er kannski bara svolítið ranglátt og ætti að vekja okkur til umhugsunar. Það sama gera Svavar Knútur og T. V. Smith.

    Svo er það kirkjan.

    Hér syngjum við líka.

    Hér erum við líka að fást við sömu spurningar og tónlistarmennirnir gera í lögum sínum.

    Spurningar um það hvernig við búum til gott og réttlátt samfélag.

    Hjörtun okkar slá í takt og við ætlum að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

    Hvað þýðir það?

    Það þýðir að við viljum betri heim.

    Eins og Jesús.

    Það þýðir að við viljum gera heiminn betri. Sjálf.

    Eins og Jesús.

    Kannski þurfum við bara svolítið pönk í kirkjuna. Var Jesús ekki töluverður pönkari – svona miðað við viðbrögðin sem hann fékk? Kannski er kirkjupönk kall dagsins.

    Við þurfum að byrja núna.

    Því kerfið er ekki fullkomið.

    Og þá þarf að bretta upp ermarnar og gera breytingar.

    Annað var það nú ekki.

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé Jesú sem þorði að vera öðruvísi og orða hlutina eins og þeir eru, dýrð sé heilögum anda sem gefur hugrekki til að aðhafast.

    Þessi prédikun var flutt í síðdegismessu í Laugarneskirkju á öðrum sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 14. júní 2015.

  • Roðdregna Biblíu? Nei, takk

    Í kvikmyndinni Super Size Me sem var sýnd hér á landi fyrir rúmum áratug ræðir kvikmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock meðal annars um kjúklinganagga og hann spyr: „Úr hvaða hluta kjúklingsins er kjúklinganaggurinn eiginlega?“

    Svarið er: Naggurinn er ekki úr einu stykki af kjúklingi heldur úr næstum því heilum kjúklingum sem eru maukaðir. Því næst spurði Spurlock: „Hvað er hráefni úr mörgum kjúklingum í einum nagga?“ Svarið var: Mörgum.

    Kæri söfnuður.

    Ég ætla ekki að prédika um kjúklinganagga. Ég ætla að tala um Biblíuna. Og um fisk. En kjúklinganaggurinn er gagnlegur sem líking og þannig verður hann meðhöndlaður í dag. Meira um það á eftir.

    Hvernig lesum við Biblíuna?

    Biblían er á dagskrá á þessu ári. Hún er auðvitað alltaf á dagskrá í kirkjum og samfélagi en í ár fær hún aukið rými af því að Hið íslenska Biblíufélag er tvö hundruð ára. Það liggur því beint við á einum af lykildögum kirkjuársins – Sjómannadeginum – að íhuga hvað Biblían er og hvernig við meðhöndlum hana.

    Hvað gerum við þegar við lesum, íhugum og notum Biblíuna? Hvernig nálgumst við hana og hvernig berum við hana áfram?  Það er kannski viðeigandi að taka líkingu af fiski af því að það er Sjómannadagur. Ef Biblían er fiskur og við erum fisksalinn, hvað gerum við?

    • Afhendum við hana heila? Gjörðu svo vel, hér er hún, gerðu endilega eitthvað með hana. Viltu uppskriftabækling?
    • Skerum við hausinn og sporðinn af af því að það er efni í henni sem á ekki erindi við fólk, efni sem við skömmumst okkar fyrir? Hér er Biblían þín, hér eru sögurnar, en ég ætla að halda nokkrum eftir af því að þær eru leiðinlegar, skipta ekki máli, gagnast ekki eða ég skammast mín kannski fyrir þær.
    • Roðdrögum við Biblíuna (roðflettum fyrir okkar sunnanfólkið) þannig að flakið eitt sé eftir? Snyrtum hana og gerum fallega og höldum svo eftir kjarnanum? Skerum hana kannski í bita af því að fólk höndlar hana ekki í heild en getur meðtekið smá búta í einu?
    • Sjóðum við hana kannski – eldum úr rétt? Búum við til rétt – til dæmis prédikun?

    Hvað gerum við og hvernig meðtekur fólk Biblíuna í dag? Gerum við kannski allt þetta og jafnvel meira til?

    Ótúlkað, túlkað, oftúlkað

    Það hefur verið eitt af einkennum hinnar lúthersku nálgunar við Biblíuna að fólk eigi að hafa aðgang að henni sjálft. Til að lesa og íhuga, rýna, gagnrýna. Það þýðir ekki að við veljum ekki úr texta til að lesa í kirkjunum – eins og textana þrjá sem við lesum hér í dag. Það þýðir að við notum þá sem dæmi um heildina, en þeir eiga ekki að koma í stað hennar.

    Það er meira. Við erum meðvituð um að Biblían er opið rit. Hún er túlkuð. Raunar finnum við fjölda dæma um það í Biblíunni sjálfri – það eru textar sem kallast á gegnum ritin, árin og aldirnar.

    En það eru ekki allir sem vilja gera þetta. Tveir hópar andæfa þessari nálgun. Báðir hafa bókstafstrúarnálgun við Biblíuna:

    • fundamentalískir vantrúarmenn
    • fundamentalískir trúmenn

    Það einkennir slíka nálgun við Biblíuna að vilja líta svo á að það sé bara til ein rétt túlkun á textum. Og að hún sé augljós. Það einkennir þessa nálgun að vilja velja og hafna, snyrta burt óheppilegu textana (eða kannski þá heppilegu eftir því hvernig á það er litið) en vilja halda öðrum á lofti. Slíta þá úr samhengi og hafa uppi stóra yfirlýsingar: „Svona segir Biblían.“

    Þetta er ekki góð nálgun. Við eigum ekki að búta Biblíufiskinn svona niður og halda á lofti einstökum versum, án samhengis og túlkunar.

    Hvers vegna?

    Vegna þess að hér er gefið í skyn að samhengið skipti ekki máli. Vegna þess að hér er ekki tekið tillit til þess hvað Biblían er og hvernig hún varð til. Vegna þess að hér verður til hætta á misnotkun Biblíunnar. Til dæmis til að berja á fólki sem á  undir högg að sækja í samfélaginu.

    Fúndamentalistarnir segja: Það er ein túlkun og aðeins ein sem er möguleg. Hin lútherska áhersla er andstæð þessu: Textinn er túlkaður, hann kallar á túlkun, hann krefst túlkunar.

    Biblían er fiskur

    Biblían er fiskur. Eða eins og fiskur.

    Fiskflak.

    Hnakkastykki.

    Heill.

    Fúndamentalisminn vill ekki aðeins roðdraga Biblíuna, hann vill gera úr henni nagga: taka það sem var lífræn heild og búa til úr því eitthvað nýtt sem samanstendur af mörgum smáeiningum en þiggur ekki bragð af þeim heldur af kryddi sem er bætt í og ónáttúrulegum bragðefnum.

    Að nálgast Biblíuna í trú er hins vegar að virða heildina, leyfa henni að tala til sín og leita að þræðinum eða þráðunum sem koma saman. Á hverjum sunnudegi hafa til dæmis verið valdir saman lestrar sem miðla afstöðu trúarinnar til lífsins. Í dag er einn þráðurinn svohljóðandi:

    Treystu Guði.

    Vonaðu á Guð.

    Því að Guð er trausts verð/ur og þar getur þú fundið logn í stormum lífsins.

    En ekki bara þetta.

    Treystu líka sjálfum eða sjálfri þér til að lesa Biblíuna og hlusta eftir orði Guðs.

    Treystu þér.

    Við gerum það.

    Það er hin lútherska nálgun.

    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýðr sé heilögum anda sem er þessi ást.

    Flutt í Áskirkju á Sjómannadegi, 7. júní 2015. Mynd: August Linnmann.

  • Gestrisni, hvíld og náð

    Marteinn Lúther sagði á efri árum að merkilegasti dagur lífs sins hefði verið löngu áður en hann mundi eftir sér, nefnilega skírnardagurinn hans. Skírnardagurinn er sannarlega hátíðisdagur, þar sem barnið sjálft er í miðpunkti og umvafið góðum óskum safnaðarins og fjölskyldu sinnar. Skírnin er stundin þar sem við fáum að leggja fram þakklæti okkar fyrir undrið sem nýtt líf er, hún minnir okkur á gang lífsins og tímann sem líður. Hún vekur hugleiðingar um tilgang lífsins, hvaðan við komum og hvert við förum.

    Í skírninni mætir barnið trúarhefð sem formæður og forfeður hafa haft í heiðri og miðlað áfram kynslóð eftir kynslóð í trú og trausti til þess að trúin geymi þau lífsgildi sem standast áföll tímans. Skírnin er beinir huganum á vit hins heilaga, þess sem er stærra en við sjálf og nær út fyrir hið skiljanlega og áþreifanlega. Barnið er helgað í skírninni með tákni krossins sem minnir á samkennd og samlíðan Guðs með öllum mönnum, vegna þess að Jesús birtir okkur Guð í lífi sínu, dauða og upprisu.

    Kannski er ekkert sem minnir okkur sterkar á hið heilaga en lítið barn sem okkur er treyst fyrir og skírnin tengir einhvern veginn saman þá upplifun að við tilheyrum samhengi sem er stærra en við sjálf og að í gegnum tengsl við aðrar manneskjur verðum við þau sem við erum.

    Í dag, þegar Hrafnar Rökkvi er skírður, er þrenningarhátíð, dagurinn sem við íhugum fyrst og fremst tvennt, annars vegar það hvernig tengsl móta og skilgreina ekki bara okkur sjálf heldur líka Guð, og hins vegar guðsmyndirnar í lífi okkar – hvernig Guð birtist okkur.

    Gömul og hefðbundin framsetning á Guðdóminum í kristinni trú er að tala um þrenninguna eða heilaga þrenningu, sem er ein heild en þrjár persónur. Guð er faðirinn, sonurinn og heilagur andi.

    Hugmyndin um þrenninguna og hlutverk hinna ólíku persóna Guðs er t.d. útfærð í postullegu trúarjátningunni sem við förum með þegar barn er skírt. Það er Guð faðir sem skapar himinn og jörð, allt hið sýnilega og ósýnilega. Það er Jesús Kristur, sem lifði á sínum stað og sinni stund, tengdist fólkinu sem er nefnt í trúarjátningunni og gekk í gegnum atburðina sem eru taldir upp. Það er heilagur andi sem býr til kirkjuna, býr til samfélagið sem við upplifum með hvert öðru, leiðir fram forsendur fyrir sáttum og fyrirgefningu og lífi í fullri gnægð.

    Allt þetta á myndin af Guði að ná utan um og miðla til okkar, óháð stund og stað. Þrenningarpælingin á líka að miðla til okkar því að tengsl tilheyra innsta eðli og veru hins heilaga, vegna þess að persónurnar þrjár tengjast og eru þær sem þær eru vegna þess hvernig þær tengjast.

    Þrenningin er oft sett fram með myndrænum hætti, við sjáum það meira að segja hér í kirkjunni okkar sem lumar á nettum og fallegum myndtáknum sem skírskota m.a. til þrenningarinnar. Eitt frægasta listaverk sögunnar sem gerir tilraun til að miðla heilagri þrenningu er íkonamálverk eftir Rússann Andrei Rublev sem hann málaði snemma á sextándu öld.

    Myndin sýnir þrjá engla sitja í kringum borð og á borðinu stendur bikar eða kaleikur. Í bakgrunni sést hús og tré. Fyrirmyndin sem Rublev studdist við er sagan sem við heyrðum lesna áðan af því þegar Drottinn birtist Abraham og Söru í tjaldinu þeirra í Mamrelundi. Þessi ævaforna saga gerist á þeim tímum þegar engin Ísraelsþjóð var til, hún er í Gamla testamentinu vegna þess að hún útskýrir aðdraganda og tilkomu Guðs útvöldu þjóðar, sem Abraham og Sara urðu frumforeldrar að.

    Lífið sem Abraham og Sara lifðu var hirðingjalífið sem fólst í því að fjölskyldur, sem voru stórar, karlar áttu kannski fleiri en eina konu og flestar áttu fullt af börnum, fluttu sig stað úr stað með hjarðirnar sínar í leit að vantsbólum og beitilöndum. Abraham var auðugur maður og átti margar skepnur og marga þræla – en hann átti engin börn með eiginkonu sinni Söru og þegar hér var komið sögu, voru þau bæði orðin það roskin að engin von var til þess að þau gætu eignast eigið barn.

    En þennan heita dag, þegar Abraham sat í tjalddyrunum sínum í Mamrelundi koma til þeirra þrír menn – eða einn maður – því sagan skiptir svolítið á milli þess að tala um mennina þrjá og einn. Stundum tala mennirnir þrír, stundum bara einn – og það er Drottinn sjálfur sem þarna er á ferðinni.

    Við sjáum hvernig hin forna dyggð gestrisninnar er í hávegum höfð í hirðingjasamfélaginu, því Abraham og Sara rjúka til og matreiða fyrir gestina á meðan þeir hvíla sig undir trénu, þar sem er skuggi og skjól. Þau gefa þeim steiktan kálf, flatkökur, skyr og mjólk. Gestirnir, sem Rúblev túlkar sem heilaga þrenningu, taka sér góðan tíma og njóta gestrisni Söru og Abrahams. Þar kemur að sögu að Drottinn opinberar áætlun sína um að Abraham eigi að verða ættfaðir heillar þjóðar sem telur eins marga niðja og stjörnur himins.

    Það er þarna sem Sara fer að hlæja – vegna þess að hún veit að gangur lífsins er sá að við ákveðinn aldur fara konur úr barneign og karlar slappast. En gestirnir eru afar sannfærandi þegar þeir segja: Er Drottni nokkuð ómáttugt? Ég mun koma til þín aftur á sama misseri að ári og Sara hefur þá eignast son.

    Þessi forna saga sem útskýrir uppruna Ísraelsmanna er jafnframt elsta myndin sem er notuð til að tákna heilaga þrenningu, Guð sem er þrjár persónur sem í tengslum sínum mynda hið heilaga.

    Þegar við segjum í skírninni, í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda, vísum við til þessarar þrenningar um leið og við áköllum hið heilaga og leggjum okkur sjálf og barnið sem við elskum svo ótrúlega heitt, í faðm þess. Við gerum það í bæn um að líf þess einkennist af gestrisni Söru og Abrahams, hvíldinni undir trénu í Mamrelundi, náð hins heilaga og veginum sem Jesús bendir á.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem sýnir okkur þessa ást, dýrð sé andanum sem er þessi ást.

  • Mýkingarefni handa hjörtum

    Ég ætla að kenna þér boðorð sem getur breytt lífinu þínu. Boðorð sem er einfalt og stutt svo allir geta munað það og hefur umbreytandi áhrif í lífinu. Það er svona:

    „Þú skalt ekki eiga óvini og ekki eignast óvini.“

    Hvers vegna? (more…)

  • Við byggjum brýr

    Við vorum mörg sem sátum við skjáinn í gærkvöldi þegar söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna stóð yfir. Opinber yfirskrift Júróvisjón í ár, sem lauk í gær með sigri Måns frá Svíþjóð, er “Building bridges” eða við byggjum brýr. Í keppninni var unnið með þetta þema á margvíslegan hátt, í grafík og tónlist en ekki síst í  uppfrifjunum á því að í ár eru 70 ár síðan heimsstyrjöldinni miklu lauk en þau tímamót skipta vitanlega miklu máli í Evrópu og í mörgum þeim löndum sem taka þátt í söngvakeppninni. (more…)