Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 41: Skonsur

    The Barn

    Á uppstigningardegi hófst mikið Downtown Abbey maraþon á heimilinu. Það er gaman að kynnast heimilisfólki, ættingjum, vinum og kunningjum í þeim þáttum. Í tilefni þess langar okkur að deila með ykkur mynd af uppáhaldsmat sem er reglulega á borðum í Englandi: Skonsum. Þessar eru reyndar frá kaffihúsinu The Barn í Berlín, en þær eru enskar í anda!

  • Gleðidagur 40: Hjólað í vinnuna og vinnunni

    Í gær hófst heilsu- og hreyfingarátakið Hjólað í vinnuna. Árni smurði keðju og pumpaði í dekkin á gamla sænska herhjólinu sínu og tók það formlega í notkun sem aðalfarkost sumarsins. Hjólakeppnin stendur til 28. maí en að sjálfsögðu verður hjólað í allt sumar.

    Á fertugasta gleðidegi hjólum við og deilum með ykkur laginu Glow með Retro Stefson. Þar má sjá bræðurna í bandinu tvímenna á reiðhjóli um Reykjavíkurborg.

  • Gleðidagur 39: Besti vinurinn

    I have conquered Asia, what will be my next conquest

    Tíkin Tobba er nýjasti fjölskyldumeðlimurinn. Hún er á fyrsta ári og enn að læra á lífið. Hún er full af leikgleði og finnst gaman að upplifa lífið, sérstaklega með börnunum. Það er gaman að uppgötva heiminn í fylgd með besta vini mannsins, sérstaklega þegar maður er lítill.

    Á þrítugasta og níunda gleðidegi þökkum við fyrir gæludýrin sem eru krydd í tilveru ótal margra fjölskyldna á Íslandi.

  • Gleðidagur 38: Sálmabókin á YouTube

    Sálmabókin er mikilvægt hjálpartæki trúarlífsins. Margir geyma hana á náttborðinu og grípa til sálmanna þegar beðist er fyrir kvölds og morgna. Svo eru margir með snjallsímann eða spjaldtölvuna á náttborðinu og hana má líka nota til að nálgast sálmabókina. Svo er líka hægt að horfa til samtímasálmanna eru eru víðsvegar á YouTube. Þeir geyma góðan innblástur fyrir trúarlífið, uppörvun og hvatningu og orðun á tilfinningunum sem við berum innra með okkur.

    Á þrítugasta og áttunda gleðidegi þökkum við fyrir samtímasálmaskáldin sem flétta saman tóna og orð og færa okkur í hæðir. Ásgeir Trausti er eitt þeirra.

  • Gleðidagur 37: Bréf til morgundagsins

    Kæri morgundagur.

    Þegar við vöknuðum í morgun varstu ekki lengur þar. Þú hvarfst einhvern tímann á milli gærkvöldsins og þess þegar fuglarnir hófu upp sönginn í morgun og börnin okkar vöknuðu (að okkur fannst alltof snemma). Við söknuðum þín ekki vegna þess að við höfðum nóg að gera í morgunsárið og svo höfðum við líka daginn í dag. En dagurinn-í-dag rann úr greipum okkar kringum hádegið. Það var reyndar um það leyti sem við byrjuðum að gera lista yfir það sem við þurfum að gera saman. Við höfum heilmiklar áætlanir fyrir okkur tvö og þig kæri morgundagur, á morgun.

    Kær kveðja,
    Árni og Kristín

    Á þrítugasta og sjöunda gleðidegi viljum við deila með ykkur þessu bréfi til morgundagsins sem er þýtt og staðfært eftir bréfinu hans Brian Adams sem birtist á Medium. Það er gaman að hugsa um morgundaginn – og enn skemmtilegra að lifa hann.

  • Gleðidagur 36: NútímaNói

    Sagan af Nóa og flóðinu er ein af þeim sem er sögð í sunnudagaskólanum um allt land. Á þrítugasta og sjötta gleðidegi viljum við deila með ykkur öðruvísi framsetningu á sögunni þar sem við notum myndbandsvefinn Vine. Njótið dagsins!

  • Gleðidagur 35: Lest á Íslandi

    Háskólalestin á Ísafirði
    Háskólalestin á Ísafirði

    Í næstu viku heldur Háskólalestin af stað í skemmtilegt ferðalag um Ísland. Lestarstjórarnir ætla að stoppa á þremur stöðum að þessu sinni. Í Vesturbyggð 10. og 11. maí, á Sauðárkróki 17. og 18. maí og í Fjarðabyggð 24. og 25. maí. Á hverjum stað verður nemendum í eldri bekkjum grunnskóla boðið upp á spennandi námskeið og svo verður líka efnt til vísindaveislu fyrir alla íbúana á svæðinu.

    Háskólalestin er fyrirmyndarverkefni sem springur svo út í Háskóla unga fólksins í júní. Það er alveg frábært verkefni sem við höfum nokkrum sinnum tekið þátt í og hlökkum alltaf til að fylgjast með. Á þrítugasta og fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir Háskólalestina og lestarstjórana góðu sem miðla ungum sem öldnum af fróðleik sínum.

    Myndina með bloggfærslunni tókum við af vef Háskólalestarinnar.

  • Gleðidagur 34: Vonin um sumarið

    Sumarkirkjan í Nónholti

    Það er kalt á Íslandi þessa dagana og sumarið virðist fjarri. Þá er gott að orna sér við ofnana sem heita vatnið vermir og minningar um liðin sumur. Til dæmis með því að skoða gamlar myndir.

    Á þrítugasta og fjórða gleðidegi berum við í brjósti von um græna sumardaga.

  • Gleðidagur 33: Júlí er kólerutími

    Í pistli í Fréttablaðinu í dag segir Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum, frá verkefni sem gerir starfsfólki þeirra í Síerra Leóne kleift að senda fjölda-SMS með lífsnauðsynlegum skilaboðum:

    „Júlí er kólerutími. Skolið hendur með vatni og sápu eftir klósettferð og fyrir matmálstíma.“

    „Rigningar eru að hefjast. Hreinsið rusl úr niðurföllum, grafið farveg fyrir vatnið í kringum kofana svo vatnselgurinn fari fram hjá en flæði ekki inn.“

    „Farið með börn sem fá malaríu strax á næstu heilsugæslustöð. Gefið þeim nóg vatn og haldið þeim úr sólinni.“

    Tæknin bjargar mannslífum, en til að hún geti það þarf snjallt og iðið hugsjónafólk sem starfar í þágu mannúðar. Eins og Þóri og allt hið fólkið sem vinnur fyrir Rauða krossinn.

    Á þrítugasta og þriðja gleðidegi viljum við þakka hugsjónafólki sem bjargar mannslífum.

  • Gleðidagur 32: Sumardagur á Ólympsfjalli

    Connor forsetasonur og Mike Banning leyniþjónustukappi í Olympus has Fallen.
    Connor forsetasonur og Mike Banning leyniþjónustukappi í Olympus has Fallen.

    Við hjónin skelltum okkur í bíó í gærkvöldi, keyptum popp og kók og komum okkur vel fyrir í flennistórum sal í Kringlubíói til að horfa á sumarmyndina Olympus has Fallen. Tæknilega er hún reyndar vormynd því hún var frumsýnd í mars, en hér á Íslandi fögnum við sumri snemma.

    Þetta er dæmigerð hasarmynd sem fjallar um yfirtöku hryðjuverkamanna á Hvíta húsinu í Washington. Að þessu sinni koma þrjótarnir frá Norður-Kóreu, en þeir hafa sömu einkenni og hryðjuverkaþrjótar í amerískum stórmyndum: Eiga harma að hefna og berjast í þágu réttlætisins og beita til þess óvönduðum meðölum.

    Þeir hafa hins vegar ekki reiknað með ofurhetju myndarinnar sem er leyniþjónustumaðurinn Mike Banning. Hann er að jafna sig eftir áfall í starfi en það kemur ekki í veg fyrir að hann afklæðist sorg og áfallatstreitu og klæðist búningi bandaríska ofurmennisins sem bjargar öllu nokkurn veginn einn og sýnir hryðjuverkamönnunum í tvo heimana – og reynist vera jafn ósvífinn og þeir. Í þágu réttlætisins.

    Banning er starfsmaður á plani, þjónustu- og verkamaður, og sem slíkur hetja sem kallast á við á fyrsta dag maímánaðar.

    Myndin var æsispennandi á köflum en kannski full einföld. Hún vekur samt til umhugsunar um baráttuna fyrir réttlæti og dýrkun ofbeldisins sem margar svona myndir fela í sér. Stiklurnar á undan gáfu svo fyrirheit um spennandi bíósumar.

    Á þrítugasta og fyrsta gleðidegi látum við okkur hlakka til sumarsins og alls sem því fylgir, til dæmis að sjá hressilegar og háværar bíómyndir á stóru tjaldi.