Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 22: Endurræsum kroppinn og kollinn

    Ingimar Karl Helgason er ritstjóri vikublaðsins Reykjavík. Hann hafði samband við Árna um daginn og bauð honum að skrifa pistil í blað vikunnar. Það kom út í gær og við viljum gjarnan deila pistlinum með ykkur.

    Endurræsing á gleðidögum

    Heiðbjört Anna hjálpar okkur að endurræsa
    Heiðbjört Anna hjálpar okkur að endurræsa.

    Á dögunum las ég bók sem fjallaði um hreyfingu og líkamsrækt. Þar var sagt frá því að það er ekki bara nauðsynlegt að endurræsa tölvur, það þarf líka að endurræsa líkamann. Höfundar bókarinnar sögðu að með því að gera fjórar æfingar daglega mætti ná þessu markmiði. Við þurfum að:

    1. Rúlla okkur eins og ungabörn,
    2. Skríða eins og börn,
    3. Rugga okkur á fjórum fótum og
    4. krossa hné í olnboga.

    Sé þetta gert daglega skilar það árangri, líkaminn endurnærist og endurræsist og rifjar aftur upp hvernig það var að hreyfa sig þegar við vorum pínuponsulítil.

    Við þurfum að verða eins og börnin sögðu höfundar líkamsræktarbókarinnar. Eitthvað svipað er haft eftir Jesú Matteusarguðspjalli: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.“ Kannski átti hann við að við þyrftum að hreyfa okkur eins og börn. Kannski var hann að tala um að endurræsa hjartað og hugannn. Slíkar æfingar gætu t.d. byggt á því hvernig börn nálgast annað fólk og umhverfið:

    1. Þau sýna traust,
    2. þau gefa af sér skilyrðislausa ást,
    3. þau hafa vonarríka afstöðu til lífsins,
    4. þau gefa mikið af því sem er ókeypis en getur breytt heiminum: Brosum.

    Nú eru gleðidagar í kirkjunni. Það eru dagarnir fimmtíu frá páskum til hvítasunnu. Páskadagarnir fimmtíu einkennast af gleði, umhyggju og bjartsýni. Má ekki hugsa sér að nota þennan tíma til að endurræsa líkamann með því að hreyfa sig eins og barn og endurræsa hugann og hjartað með því að nálgast annað fólk og umhverfi okkar eins og börnin gera? Með því að brosa og mæta öðrum í umhyggju og hlýju, með því að sýna ást í verki, að treysta því að allt fari vel.

    Ertu til í að endurræsa?

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 21: Pollastolt

    Í kvöld keppa Pollapönkararnir fyrir hönd Íslands í söngvakeppni íslenskra sjónvarpsstöðva. Þeir hafa verið í miklu uppáhaldi hjá okkur og krökkunum okkar um árabil og við erum ánægð með að þeir séu séu fulltrúar Íslands í keppninni í ár.

    Boðskapur lagsins þeirra er skýr og þeir miðla honum í orði og verki. Gott dæmi um það var þegar þeir mættu á einn opnunarhátíð söngvakeppninnar í kjólum til að styðja við réttindabaráttu kvenna:

    „By wearing dresses we are supporting women, mothers, daughters, sisters friends being discriminated against because they are women, like not getting equal pay for the same job as men.“

    Á tuttugasta og fyrsta gleðidegi erum við stolt af Pollapönki sem fer alla leið í baráttunni sinni, sama í hvaða sæti þeir lenda í dag.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 20: Múltíkúltí í Reykjavík

    Fjölmenningardagur er haldinn hátíðlegur í Reykjavík á morgun, laugardaginn 10. maí. Fjölmenningardagurinn er haldinn til að fagna fjölbreytileika í menningu og mannlífi sem borgin og borgarbúar njóta ríkulega.

    Á morgun hefst dagskráin kl. 13.00 með skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju og niður Skólavörðustíg að Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar verður markaður með handverki og mat frá ólíkum löndum.

    Við njótum fjölmenningarinnar á hverjum degi. Í morgun drukkum við ljósristað og ljúffengt kaffi frá Kólumbíu, við borðuðum indverskan mat í gærkvöldi og hjólum um á ensku og bandarísku hjólunum okkar.

    Á tuttugusta gleðidegi fögnum við yfir fjölbreytileika menningar og mannlífs og þökkum fyrir öll þau sem hafa flust hingað frá öðrum löndum og auðga lífið hér á Íslandi.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 19: Róla fyrir stóla við skóla

    Í vikunni var tekin í notkun ný róla við grunnskóla í Reykjavík. Það er í sjálfu er ekki fréttnæmt, nema fyrir þær sakir að rólan er á leikvelli Klettaskóla og hún er fyrir hjólastóla. Frá þessu er sagt á vef Klettaskóla þar sem segir líka:

    „Ekki er annað að sjá af meðfylgjandi mynd, en að fyrsta prufukeyrsla hafi vakið lukku hjá heppnum nemanda, sem baðaði sig í góðri sveiflu í rólunni á sólríkum morgni með áhugasama starfsmenn allt í kring! Er enginn vafi á því, að þessi framkvæmd gerir frímínúturnar eftirsóknarverðari fyrir þá nemendur skólans, sem eru í hjólastólum.“

    Á nítjánda gleðidegi fögnum við nýju rólunni og gleðjumst með fötluðum og ófötluðum sem sveifla sér í frímínútum.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 17: Megrunarlausi dagurinn

    Sautjándi gleðidagur er megrunarlausi dagurinn. Í tilefni af honum skrifuðum við þennan pistil sem birtist í Fréttablaðinu. Við viljum einnig deila honum með ykkur hér.

    Af öllum stærðum

    Venus frá Willendorf.
    Venus frá Willendorf er þekkt höggmynd sem er talin vera gerð frá 25000-28000 fyrir okkar tímatal.
    Kona um þrítugt kaupir inn. Hún heyrir pískur og þegar hún lítur upp sér hún ungt fólk sem tekur myndir af henni með símunum sínum. Hún veit hvað vekur athygli þeirra en bregst ekki við. Hún klárar innkaupin og segir manninum sínum ekki frá því sem gerðist fyrr en þau koma heim. Hún skammast sín og grætur.

    Karl á þrítugsaldri er úti að ganga með hundinn sinn. Maður sem hann mætir snýr sér við, tekur símann upp úr vasanum og smellir af. Sá heldur sína leið og hundaeigandinn klárar hringinn og fer síðan heim. Hann segir engum frá því sem gerðist.

    Þetta eru sannar sögur frá Íslandi í dag. Í báðum tilvikum er um að ræða fólk í mikilli yfirþyngd. Þau eru mjög meðvituð um hvað þau eru stór og verða fyrir fordómum vegna þess á hverjum degi. Stærðin þeirra kallar fram viðmót sem mótast af neikvæðri sýn á stórt fólk. Það mótar þjónustu í búðum, veitingastöðum og afgreiðslustofnunum. Lítilsvirðing snýst jafnvel upp í ofbeldi eins og í dæmunum hér að ofan, þegar þau verða skotspónn ókunnugra og eru sett í stöðu sem niðurlægir og meiðir.

    Það þarf að skera upp herör gegn fitufordómum. Megrunarlausi dagurinn er m.a. haldinn til að vekja athygli á þjáningum sem hljótast af þráhyggju um grannan vöxt og almennri andúð á fitu. Við erum hvött til að sjá fyrir okkur veröld þar sem fólk í ólíkum stærðum er metið fyrir hvað það er en ekki hvort það er feitt eða grannt.

    Yfirvöld þurfa líka að horfast í augu við veruleika fólks í ofþyngd. Ástæðurnar eru margslungnar og ofþyngdin leiðir til vandamála af félagslegum, heilsufarlegum og tilfinningalegum toga. Við því þarf að bregðast.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 16: Prestsvígðu konurnar

    Í gær var því fagnað að tuttugu ár eru liðin frá því fyrstu konurnar voru vígðar til prestsþjónustu í ensku kirkjunni. Í haust eru fjörutíu ár liðin frá vígslu fyrstu konunnar á Íslandi. Í dag halda svo prestsvígðar konur í þjóðkirkjunni aðalfund félagsins síns.

    Á sextánda gleðidegi viljum við því fagna afmælisárum og þakka fyrir þjónustu allra kvennanna í kirkjunni, þeirra sem eru sjálfboðaliðar og starfa í anda almenns prestsdóms allra skírðra, þeirra sem þjóna sem djáknar, prestar og biskupar.

    Myndin að ofan sýnir enskar prestsvígðar konur sem komu saman við St. Paul dómkirkjuna í London gær. Við fundum hana á Twitter.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 15: Gulleggið

    Egg leika stórt hlutverk á páskunum og reyndar líka í matreiðslu hversdagsins. Öll notum við egg í einhverju formi, í bakstri, soðin, steikt, hrærð, spæld. Egg úr hamingjusömum hænum sem fá að vappa og lifa í náttúrunni af og til, í staðinn fyrir að eyða ævinni í þröngum vírbúrum, eru sannkölluð ofurfæða – fullt hús matar eins og sagt var í gamla daga.

    Af því að við hjónin erum örlitlir eldhúsnördar fylgjumst við með hlutum á netinu sem tengjast mat og matargerð. Á fimmtánda gleðidegi viljum við deila með ykkur afskaplega einfaldri – en framandi – aðferð til að matreiða egg. Hún felst í því að hræra eggið inni í skurninni áður en það er brotið.

    Með rétta hristingnum hrærist eggið í skurninni og hvítan og rauðan blandast. Síðan er eggið soðið á venjulegan hátt og þegar skurnin er plokkuð utan af, blasir við gullið egg sem er fullkomlega hrært.

    Þetta verður á boðstólnum í næsta bröns hér á Langholtsveginum, ekki spurning!

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 14: Skírnarbörnin

    Í dag fáum við hjónin að skíra tvö börn. Þá er alltaf hátíð í kirkju og fjölskyldu. Við hverja skírn lesum við oft stuttan texta úr Markúsarguðspjalli:

    Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá.Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. (Mark 10.13-16)

    Á fjórtánda gleðidegi viljum við þakka fyrir börnin öll sem eru vatni ausin, nefnd og þess beðið að Guð riti nafnið þeirra í lífsins bók. Það er falleg tjáning á ást og von.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 13: Sólirnar

    Veður.is er einn af uppáhaldsvefjunum okkar. Þar fæst innsýn í það hvernig veðrið verður – eða gæti orðið – næstu daga. Svona átti veðrið að vera á hádegi í dag. Kannski rætist það, kannski ekki. Í öllu falli vekur það gleði að sjá svona margar sólir á Íslandskortinu.

    Á þrettánda gleðidegi þökkum við fyrir Veðurstofuna og sólina sem yljar hug, hjarta og húð. Njótið dagsins.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

  • Gleðidagur 12: Fastað fyrir loftslagið

    Viltu fasta fyrir loftslagið í dag?

    Loftslagsmál eru á dagskrá. Það rennur upp fyrir sífellt fleirum að við getum ekki skellt skollaeyrum við upplýsingum um afleiðingar hlýnunar loftslagsins. Við erum minnt á að manneskjurnar sem verða fyrir mestum áhrifum af þessu búa á svæðum sem eru nú þegar viðkvæm og undir miklu álagi. Við horfumst í augu við að hlýnun jarðar mun valda búsifjum á risamælikvarða.

    Loftslagsmálin eru pólitísk því þau samfélag okkar sem byggja jörðina. Leiðtogar ríkja og þjóða bera þannig mikla ábyrgð á því að mótvægisaðgerðum sé hrint í framkvæmd. Til þess hafa þau aðgang að fjármagni, þekkingu og visku þjóðanna. Fyrsta skrefið hlýtur að felast í því að viðurkenna staðreyndir og axla ábyrgð á sameiginlegum vanda.

    Það er líka þörf á almennri vitundarvakningu sem viðurkennir ábyrgð og hvetur til aðgerða. Kirkjur um allan heim hafa tekið þetta til sín og sett þessi málefni á dagskrá. Það er gert með sameiginlegum viðburði sem kallast „Fasta fyrir loftslagið“. Fasta sem á sér trúarlegar rætur miðar að því að bæta okkur sem einstaklinga og láta samfélagið njóta þess.

    Fastan fyrir loftslagið fer þannig fram að fastað er á mat og drykk fyrsta daginn í hverjum mánuði, fram til desember á þessu ári. Þá kemur Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna saman í Lima í Perú. Við getum fastað í samstöðu með fólki sem þjáist vegna loftslagsbreytinga. Við föstum í samstöðu með þeim fjölda fólks sem hefur misst heimili og afkomu vegna veðurhamfara tengdum hlýnun jarðar. Við föstum í minningu þeirra sem týna lífinu vegna hlýnunar jarðar.

    „Fasta fyrir loftslagið“ er tækifæri til að setja málefni loftslagsbreytinga á dagskrá og láta gott af sér leiða. Við skulum leggja okkar af mörkum, pólitískt og persónulega á tólfta gleðidegi og svo áfram þann fyrsta hvers mánaðar fram í desember.

    Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.