Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 10: Börnin í borginni

    Listilega skreyttar múffur

    Í dag var Barnamenningarhátíð sett í Hörpunni. Jón Gnarr, borgarstjóri, flutti ávarp og sagði meðal annars við börnin:

    Látið engan segja ykkur að þið getið ekki verið listamenn. Munið að þið getið allt!

    Stundum er sagt að börnin séu framtíðin og það má til sanns vegar færa. En börnin eru líka samtíðin og því skulum við halda á lofti. Þess vegna sagði borgarstjórinn ekki „þið munuð geta allt“ heldur „þið getið allt“.

    Hér endurómar borgarstjórinn orð postulans í Fyrra Tímóteusarbréfi í Nýja testamentinu þar sem segir: “Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi”(1. Tím 4.12).

    Á tíunda gleðidegi gleðjumst við yfir börnunum í borginni sem eru góðar fyrirmyndir.

  • Gleðidagur 9: Forsetaterturnar í afmælisboðinu

    Hnallþórur á veisluborði

    Við héldum upp á afmælið hans Árna í gær. Þar var boðið upp á forsetatertur sem voru nefndar eftir 5 forsetum lýðveldisins, uppáhaldsforsetaframbjóðandanum okkar og sjálfstæðishetjunni Jóni Sigurðssyni. Sjö bragðgóðar og fallegar tertur, sem gátu myndað hugrenningatengsl við einhver einkenni viðkomandi þjóðhöfðingja.

    Allt til gamans gert og án allrar græsku! (more…)

  • Gleðidagur 8: Hrós er ljós

    Barnastarf kirkjunnarSkötuhjúin Hafdís og Klemmi hafa verið fastagestir í barnastarfi og fjölskylduguðsþjónustum í vetur. Í dag var seinasta fjölskylduguðsþjónusta vetrarins í Brautarholtskirkju og við horfðum saman á þátt þar sem Hafdís og Klemmi velta fyrir sér orðum Jesú um að við séum ljós heimsins.

    Hvað merkir það eiginlega?

    Vinirnir átta sig á því að ein leið til að skilja þetta er að sjá orðin sem hvatningu til að láta gott af sér leiða. Til dæmis með því að hrósa. Þetta er dregið saman í lokaorðum þáttarins: Hrós er ljós –  hrósandi verðum við ljós heimsins.

    Þetta er falleg og góð hvatning á áttunda gleðidegi.

  • Gleðidagur 7: Fallegur matur

    Rauðsprettan á Jómfrúnni

    Lambið á Jómfrúnni

    Stjörnuhrapið á Jómfrúnni

    Maturinn á Jómfrúnni er í uppáhaldi. Rauðsprettan stendur fyrir sínu, bæði í hefðbundnum búningi og á Stjörnuhrapsdiski. Lambið er dásamlegt. Skammtarnir eru hæfilega stórir og svo eru Jómfrúarréttirnir líka fallegir eins og myndirnar bera með sér.

    Á sjöunda gleðidegi viljum við þakka fyrir góðan mat sem er fallega fram borinn.

  • Gleðidagur 6: Bjartsýnin og Dalai Lama

    Samtrúarleg friðarstund í Hallgrímskirkju

    Við fylgjumst með Dalai Lama á Twitter. Í dag skrifaði hann:

    Ef við erum bjartsýn, horfum til lengri tíma og notum raunsæjar aðferðir, leggjum við okkar af mörkum til að bæta heiminn.

    Einfalt, skýrt og hvetjandi á sjötta gleðidegi.

    Myndina tók Árni af Dalai Lama á samtrúarlegri friðarstund í Hallgrímskirkju.

  • Gleðidagur 5: Kampavín í morgunmat

    Í ísskápnum okkar er afskaplega fín kampavínsflaska sem hefur verið óopnuð síðan við fengum hana að gjöf fyrir tveimur árum. Við höfum ekki enn fengið okkur til þess að njóta innihaldsins vegna þess að þetta er svo dýrt og fínt kampavín. Hvaða tilefni er viðeigandi til njóta slíkra veiga?

    ChampagnePáskar og gleðidagar eru gott tilefni. Tom Wright sem var biskup í Durham og kennir núna guðfræði við háskólann í St. Andrew’s skrifar um páskana sem tíma langvarandi hátíðar og gleði. Páskarnir vara í fimmtíu daga og þá eigum að halda veislur og bera fram kampavín fyrir og/eða eftir morgunbænir. Og helgihaldið í kirkjunni á að einkennast af miklum söng, mörgum hallelújaversum og grípandi tónlist.

    Eftir fjörutíu daga föstu, tíma aðhalds og iðrunar, með fjólubláan lit í forgrunni, freistingarsögur, detox andans og persónuleikaræktun, taka núna við fimmtíu gleðidagar páskanna. Tími hinna ljósu lita, gjafmildis, gleði, tækifæra og tilrauna. Eins og að bera fram kampavín eftir morgunbænir – því lífið á gleðidögum er líf í fullri gnægð.

    Á fimmta gleðidegi erum við þakklát fyrir glatt helgihald og óopnuðu flöskuna í ísskápnum.

  • Gleðidagur 4: Kúrfurnar

    Í dag fórum við með nýjasta fjölskyldumeðliminn á þriggja mánaða skoðun á heilsugæslustöðinni í hverfinu. Þar var hún vegin og mæld og niðurstöðurnar merktar á kúrfu. Þetta er gert til að kanna hvort hún þroskast eðlilega og kúrfan er einn mælikvarði á það.

    Litla stúlkan fékk líka fyrstu sprauturnar sínar. Hún fylgdist með öllu af mikilli athygli og veitti málbandinu sem var notað við lengdarmælinguna sérstaka athygli.

    Kúrfurnar í lífinu eru margar og vissulega eru þær mikilvægar. Ein kúrfa er þó sjaldan eða aldrei nefnd. Það er gleði- og ástarkúrfan sem sýnir hversu mikla gleði börn færa inn í líf foreldranna, óháð því hvar þau standa á öðrum lífskúrfum.

    Á fjórða gleðidegi viljum við þakka fyrir börnin okkar og gleðina sem þau veita inn í lífið. Bæði þau sem halda sig á kúrfum og eru dæmigert dæmigerð og hin sem eru dæmigert ódæmigerð. Börnin eru gleðigjafar og þakkarefni og við skulum alltaf muna eftir kúrfu gleði og ástar – kannski er það mikilvægasta kúrfan.

  • Gleðidagur 3: Gult og grænt

    GrasVið vorum úti á landi á bænadögum og um páska. Á bænadögunum þremur var dumbungur og við sáum ekki til sólar. Á páskadagsmorgni höfðu skýin flutt sig annað, heiðgul sólin glennti sig örlítið og við sáum í bláan himininn og fjöllin í fjarlægð. Þannig hefur það verið síðan.

    Þegar heim var komið blasti græni liturinn við okkur af því að það vorar örlítið fyrr í borginni en í sveitinni. Grasið í garðinum er að verða iðagrænt og á runnunum blasa við grænir sprotar. Vorið er í nánd og lífið lætur á sér kræla.

    Sólin gula og grasið græna eru þakkarefni á þriðja gleðidegi.

  • Gleðidagur 2: Til hamingju fermingarbörn

    Annar páskadagur er einn af fermingardögunum í kirkjunni. Um allt land gengur glæsilegt ungt fólk í átt að altari og svarar játandi spurningunni: Vilt þú hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins? Í vetur hafa þau tekið virkan þátt í starfinu í kirkjunni sinni, rætt við hvert annað, prestana sína, djákna og æskulýðsleiðtoga um trúna og lífið – um vonir og þrár og framtíðarsýn.

    Fermingarbörn úr Hafnarfirði heimsækja SkálholtVið vorum svo heppin að fá að fylgja nokkrum fermingarhópum á síðsumarnámskeiðum í Skálholti í fyrra. Það voru glæsilegir fulltrúar ungu kynslóðarinnar, forvitin og fróðleiksfús sem hófu fermingarferðalagið sitt í Skálholti og eru að fermast þessar vikurnar. Unga fólkið í kirkjunni gerir okkur bjartsýn á framtíðina.

    Fermingin er hátíð og gleðiefni í fjölskyldum. Litlu krakkarnir sem voru bornir að skírnarlauginni fyrir rúmum áratug eru orðin stór. Þau standa á krossgötum í lífinu og eru uppfull af spurningum og væntingum um það sem koma skal.

    Fermingin er líka hátíð og gleðiefni í samfélaginu. Í mars og apríl eru kirkjurnar fullar af fermingarbörnum í hvítum kyrtlum. Verslanir eru líka fullar af ættingjum og vinum sem samfagna og gefa gjafir sem bera oftar en ekki í sér fyrirheit um framtíðina. Fermingarblöðin sem fylgja stóru dagblöðunum bera þessu vitni og þau minna okkur á að fermingardagurinn er bæði sérstakur og minnisstæður.

    Á öðrum gleðidegi viljum við óska öllum fermingarbörnum ársins til hamingju og samfagna með þeim.

  • Gleðidagur 1: Veislan

    Páskadagur er fyrsti gleðidagurinn. Páskadagur er líka fyrsti veisludagurinn. Um allt land er boðið til kirkjuveislu. Við sólarupprás safnaðist fólk á Þingvöllum og þegar sólin gægðist yfir Kálfstindana í austri var sungið: „Kristur er upprisinn“. Svo var gengið til messu og að henni lokinni var boðið til morgunkaffis.

    Morgunkaffið á Þingvöllum er samvinnuverkefni allra kirkjugesta. Það minnir okkur á að kirkjan er samvinnuverkefni okkar þar sem allir meðlimirnir skipta máli og hafa mikið fram að færa.

    Morgunveislan í kirkjunni var fyrsta veisla dagsins. Svo hélt veislusamfélagið áfram. Páskaeggin voru opnuð og fjölskyldurnar mættust. Páskalambið var sett í ofninn og fékk að malla fram eftir degi.

    Við erum þakklát fyrir páskaveislurnar, í kirkjum og á heimilum, sem minna okkur á lífsveisluna þar sem margir koma saman til að gleðjast. Við erum líka þakklát fyrir kirkjukaffið á Þingvöllum sem minnir okkur á að samfélagið okkar er samstarfsverkefni þar sem við þiggjum ekki bara heldur gefum líka.

    Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

    Nú er veisla.