Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 19: Krúnudjásnið

    Leifsgluggi í Southwark

    Í sumar verður fagnað 60 ára setu Elísabetar drottningar sem þjóðhöfðingja breska heimsveldisins. Það verður mikið um dýrðir í tilfefni af þessu og við höfum heyrt að þúsund skipum verði siglt niður ána Thames. Í einu þeirra verður drottningin og þegar hún fer framhjá dómkirkjunum í borginni verður kirkjuklukkunum hringt.

    Í Southwark dómkirkjunni (sem var sóknarkirkja William Shakespeare) verður af þessu tilefni settur upp nýr steindur gluggi sem Leifur Breiðfjörð gerði. Myndin hér að ofan er af þessum glugga. Glugginn heitir „From heaven to earth“ og sýnir á abstrakt hátt himneska birtu flæða yfir sköpunarverkið.

    Við fengum að sjá gluggann á vinnustofu Leifs áður en hann var fluttur til London og þá sagði Leifur okkur að glugginn hefði gælunafnið Krúnudjásnið vegna þess að í honum eru svo margir fallegir glersteinar. Þeir sjást vel hér að ofan.

    Á nítjánda gleðidegi fögnum við fallegu listaverkunum sem prýða kirkjur og helgidóma um veröld víða og listamönnunum sem hafa lagt líf og sál í að skapa þau.

  • Gleðidagur 18: Agnes verður biskup

    Sr. Agnes Sigurðardóttir

    Í dag var talið í biskupskjöri og nú liggur fyrir að sr. Agnes Sigurðardóttir verður næsti biskup Íslands. Hún verður fyrsta konan í sögu þjóðkirkjunnar til að gegna embætti biskups.

    Í morgunlestri dagsins segir frá orðaskiptum Jesú og Símonar Péturs:

    Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“

    Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“

    Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“

    Þetta eru góð skilaboð á gleðidögum og gott veganesti fyrir næsta biskup.

    Spurningin til þess sem leiðir kirkjuna er: Elskar þú Jesús?

    Verkefni þess sem leiðir kirkjuna er að gæta lambanna – fólksins og samfélagsins okkar.

    Nýr biskup var að þessu sinni kjörinn á gleðidögum. Það er von okkar og bæn að gleðin muni einkenna biskupstíð sr. Agnesar og að hún megi verða biskup gleðidaga í kirkju og samfélagi og boðberi vonarinnar.

    Elskan til Jesú og elskan til náungans er mælikvarðinn á leiðtogana í kirkjunni. Við erum þess fullviss að sr. Agnes hefur hana til að bera í ríkum mæli og gleðjumst á átjánda gleðidegi yfir nýjum biskupi og tímamótum í kirkjunni.

    Til hamingju með daginn.

  • Gleðidagur 17: Er vaknar ást

    Það er svo gaman þegar við eignumst nýja sálma, til að syngja saman eða nota til að íhuga og biðja. Núna er verið að undirbúa útgáfu á nýju sálmahefti sem mun innihalda u.þ.b. 150 nýja og nýþýdda sálma til að nota í helgihaldinu og persónulegu trúarlífi.

    Einn sálmurinn sem verður í nýja heftinu er í þýðingu sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar og heitir Er vaknar ást.

    Er vaknar ást á vori lífs.
    Himinninn er nálægt þér.
    Múrinn rjúfi hjarta þitt.
    Himinninn er nálægt þér.
    Ef rústir lifna og léttir þraut
    og regnið lífgar eyðisand.
    Þorsta þínum svalað er.
    Himinninn er nálægt þér.

    Ef friðarhliðin ljúkast upp.
    Himinninn er nálægt þér.
    Ljós Guðs dýrðar skín við þér.
    Himinninn er nálægt þér.
    Ef hlekkum efans þú losnar frá.
    Og hjartað fagnar nýrri þrá.
    Þorsta þínum svalað er.
    Himinninn er nálægt þér.

    Þessi yndislegi sálmur er frá Lettlandi, eftir ungt fólk í hljómsveitinni Jorspeis. Á lettnesku heitir sálmurinn Debesis ir tuvu klat. Hér er sálmabókarnefnd kirkjunnar að renna yfir hann á fundi sínum í Skálholti í dag.

    Á sautjánda gleðideginum vekur þessi ástar- og vorsálmur okkur til meðvitundar um kraft himinsins í lífinu.

  • Gleðidagur 16: Gult flytur gleði

    Páskaliljur

    Á sextánda gleðidegi viljum við deila með ykkur þessari páskaliljumynd. Af því að páskaliljurnar eru boðberi vors og gleði.

  • Gleðidagur 15: Krúttin

    Jólasöngvar fjölskyldunnar

    Fjölskyldan skundaði til messu í Langholtskirkju í morgun. Þar var nokkuð þétt setið. Ungir og aldnir úr hverfinu komu saman til að fagna gleðidögum og fjölskyldunni. Séra Irma Sjöfn héraðsprestur og vinkona okkar þjónaði og krakkar úr kórskóla Langholtskirkju og krúttakórnum leiddu í söng og sungu fyrir okkur.

    Æskulýðsstarfið í kirkjunum er fjölbreytt. Langholtskirkja sker sig úr því þar er það á formi kórastarfs. Við kirkjuna starfa nokkrir af frambærilegustu kórum landsins. Það er gott að vita til þess að ein kirkja í höfuðborginni leggi svona ríka áherslu á menninguna í kirkjustarfinu.

    Kannski eiga krúttin sem sungu fyrir okkur í dag eftir að heilla íslenska tónlistarunnendur í Eurovision, á óperusviði í Hörpu eða í söngvakeppni framhaldsskólanna í framtíðinni. Í öllu falli vorum við þakklát fyrir sönginn þeirra í dag og glöddumst með þeim á fimmtánda gleðidegi.

    Myndin með færslunni sýnir nokkur krútt á jólasöngvum fjölskyldunnar í hitteðfyrra.

  • Gleðidagur 14: Dýraleikur

    Elísabet, Heiðbjört Anna og Jakob Agni

    Húsdýragarðurinn er uppáhaldsstaður. Fyrsta garðferð sumarsins var farin í morgun. Við uppgötvuðum það fyrir tveimur árum hvað fjölskyldukort í garðinn er góð fjárfesting. Þá kemst öll fjölskyldan inn án þess að greiða sérstaklega fyrir og ungir sem aldnir geta notið leiktækja að vild. Í morgun fór yngsti fjölskyldumeðlimurinn í fyrsta skipti í garðinn og hún fékk að sjálfsögðu að fara í lestina.

    Við fórum líka í skemmtilegan leik sem við köllum dýraleikinn. Hann hentar ágætlega fyrir foreldra sem vilja hvíla lúin bein á garðbekk. Þau stjórna leiknum og senda börnin í leit að dýrum, oft með einhver verkefni eins og að telja dýrin, skoða litina. Jafnvel mætti hugsa sér að láta þau taka myndir af dýrum. Svo koma börnin til baka og fá þá verðlaun eða annað verkefni.

    Þetta er ágætis skemmtun sem gerir ferðirnar eftirminnilegri.

    Á fjórtánda gleðidegi gleðjumst við í og yfir Húsdýragarðinum.

    Myndin með færslunni sýnir þrjú af börnunum okkar í garðinum í morgun.

  • Gleðidagur 13: Menningin

    527409_3361309684077_1609121001_2571160_891954943_n

    Yngsta dóttirin fór með okkur í Þjóðleikhúsið í vikunni. Það var fyrsta leikhúsferðin hennar. Hún skemmti sér konunglega, skríkti og hló með miklu eldri áhorfendum. Við vitum samt ekki hvort hún skildi alla brandarana.

    Við smelltum af mynd þar sem hún er í félagsskap Þjóðleikhússgrímanna tveggja. Á þrettánda gleðidegi viljum við þakka fyrir leikhúsið og menningarstofnanirnar okkar.

  • Gleðidagur 12: Sumarið

    Út á hafið

    Það var gaman að opna Facebook að morgni sumardagsins fyrsta og lesa allar fallegu sumarkveðjurnar. Þótt enn sé bara vor í lofti minnir birtan og náttúran og veðrið okkur á sumarið sem er framundan. Á litadýrð, fuglasöng, gróanda, hlýtt veður. Sumardagurinn fyrsti er dagur fyrirheitisins um að gott sumar sé í vændum.

    Sumarið er þakkar- og gleðiefni tólfta gleðidags.

    Myndin með færslunni var tekinn í sumarfríinu okkar í fyrra.

  • Gleðidagur 11: Mið-Ísland í Þjóðleikhúsinu

    Dóri DNA

    Það fæst alveg sérstakt sjónarhorn á þjóðarsálina við að hlusta á uppistandskrakkana í Mið-Íslandi. Í kvöld sátum við í fullum sal þar sem Mið-Ísland steig á stóra svið Þjóðleikhússins og veltumst eiginlega um af hlátri.

    Anna Svava, Bergur Ebbi, Halldór, Ari og Björn Bragi hafa hvert sinn stíl og nálgun á viðfangsefnið en ákveðin þemu gerðu vart við sig hjá þeim flestum. Ekki síst vangaveltur og speglun á það hvernig sé að vera Íslendingur og hvers vegna við erum eins og við erum.

    Veðurfarið, stjórnmálin, tungumálið, barnagælur og trú komu við sögu. Eins og uppistöndurum er einum lagið, rýndu þau á alveg nýjan hátt í það sem er líklegast svo hversdagslegt í lífinu að við hugsum ekki nánar út í það. Í meðförum þeirra verður það óborganlega fyndið.

    Það var sérlega skemmtilegt að halda upp á síðasta vetrardag og ellefta gleðidaginn með því að njóta hæfileika grínistanna í Mið-Íslandi.

    Takk fyrir okkur.

  • Páskarnir eru fimmtíu sunnudagar

    Á ellefta gleðidegi viljum við deila með ykkur pistli dagsins sem við hjónin skrifum á Trú.is. Hann heitir Fimmtíu sunnudagar páskanna og fjallar um gleðidagana.