Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 21: Regnið

    Regndropar á laufblaði

    Vorið er vonandi skammt undan og náttúran gerist græn, vex og dafnar. Þá skiptir máli að fá nokkra rigningardaga því vatnið gefur líf.

    Á tuttugasta og fyrsta gleðidegi viljum við þakka fyrir rigningarnætur sem vökva í þágu vaxtar.

    Ps. En þegar rigningin breytist í snjó seint í apríl finnst okkur full langt gengið 😉

    Myndin sýnir regndropa á laufblaði.

  • Gleðidagur 20: Nákvæmni sem linar þjáningar

    Nútíma línuhraðall

    Í gær var tilkynnt að þjóðkirkjan hygðist leggja sitt af mörkum til að nýr línuhraðall væri keyptur á Landspítalanum. Frá þessu var greint við slit prestastefnu um leið og Agnes biskup hvatti til þess að söfnuðir þjóðkirkjunnar hefðu frumkvæði að því að safna um allt land.

    Þetta er mikilvægt verkefni. Það er nógu erfitt að glíma við krabbameinið sjálft, með öllum þeim þjáningum og angist sem því fylgir. Það hafa krabbameinssjúklingarnir reynt á eigin skinni og líka aðstandendur sem hafa staðið þétt við hlið þeirra.

    Nýir línuhraðlar eru mun nákvæmari en þeir eldri. Það þýðir að hægt er að beina geisluninni á afmarkaðra svæði sem minnkar vefjaskemmdir í kringum meinið og dregur þar með úr þjáningum.

    Á tuttugasta gleðidegi viljum við þakka fyrir Landspítalann okkar allra og fyrir þau öll sem styðja hann og hafa stutt í gegnum árin.

  • Gleðidagur 19: Karlar, konur og börn

    Prestastefna 2013 sett

    Nú stendur yfir prestastefna í Háteigskirkju. Á prestastefnu fáum við prestarnir að upplifa fjölbreytt helgihald og í dag var beðin morgunbæn samkvæmt Ionahefðinni. Iona er lítil eyja við vesturströnd Skotlands. Árið 1938 kom George MacLeod á fót Iona samfélaginu sem er hreyfing karla og kvenna sem vilja leita nýrra leiða til að miðla trúnni og lifa trúarlífi. Þau byggja á keltneskri trúarhefð.

    Í morgunbæninni voru þrjár hendingar sem okkur langar að deila með lesendum bloggsins:

    Þar sem konur sem berjast fyrir réttindum sínum og heiðri eru lítilsvirtar og niðurlægðar.
    Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji.

    Þar sem karlar reyna að sýnast sterkir
    af því þeir eru hræddir við að sýna tilfinningar
    Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji.

    Þar sem við erum svo upptekin af því að vera fullorðin að við gleymum því að verða eins og börnin.
    Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji.

    Á nítjánda gleðidegi viljum við þakka fyrir það veganesti trúarlífsins sem við höfum þegið í helgihaldinu á prestastefnu og þiggjum reglulega frá systrum og bræðrum okkar í trúnni um veröld víða.

    Myndin með bloggfærslunni sýnir presta á göngu til kirkju við setningu prestastefnu.

  • Gleðidagur 18: Hvernig verða börnin til?

    Fyrr í vikunni áttum við skemmtilegt samtal við góða vini um það hvernig þau heyrðu fyrst hvernig börnin verða til. Á þessu virðist vera nokkur kynslóðamunur. Þegar við hjónum stóðum frammi fyrir því að verða eldri systkini fengum við bæði litla græna bók með dásamlegum teikningum sem tóku af öll tvímæli um það hvernig þetta á sér stað.

    Það var upplýsandi.

    Í vetur var samtalið um það hvernig börnin verða til sett á svið með eftirminnilegum hætti í Hljómskálanum. Hulli og Laddi syngjast á í laginu Storkurinn og má heyra tvenns konar skýringar. Þá langsóttu um storkinn með þotuhreyfil í rassinum og afar heitan andardrátt og svo hina stuttu um ástalíf mömmu og pabba.

    Á átjánda gleðidegi viljum við þakka fyrir börnin sem spyrja og foreldrana alla sem miðla börnunum sínum af visku og eru óhrædd við að eiga samtölin sem einu sinni þóttu afskaplega vandræðaleg.

  • Gleðidagur 17: Hjónasæla er þjónasæla

    IMG_1670

    Prestshjónin Jóna Hrönn og Bjarni töluðu um hjónabandssælu í gær. Þau stóðu við sitthvort púltið og fluttu frábært erindi um það hvernig má hlúa að og næra hjónaband svo að hjónin dafni og þar með hjónabandið. Þau lögðu ríka áherslu á þjónustuna því að hjónasæla er þjónasæla. Okkur langar að deila með ykkur nokkrum atriðum sem við settum á blað:

    • Grunnbúðir í fjallgöngu hjónabandsins er vilji hjónanna til að þjóna hvort öðru. Það gerir heimilið að góðum stað.
    • Sá sem verður öðrum gjöf er sæll.
    • Jafningjasamskipti draga fram gæðin í lífinu.
    • Hjónabandið er eða verður heilagt þegar við eigum þar í góðum nánum tengslum, þegar þar er óhætt að vera þar sem maður er. Annars er það ekki heilagt.
    • Hjónaband án kynlífs er einmitt hjónaband án kynlífs.
    • Neistinn hverfur ef við glæðum hann ekki.

    Á sautjánda gleðidegi viljum við deila með ykkur þessum brotum úr uppskrift Bjarna og Jónu Hrannar að hjónabandssælu. Hún er holl og sæt, rétt eins og þau eru. Takk Jóna og Bjarni.

  • Gleðidagur 16: Vigdís

    Vigdís Finnbogadóttir

    Vigdís Finnbogadóttir á afmæli í dag. Hún var góð fyrirmynd þegar við vorum að alast upp, þjóðarleiðtogi með skýra sýn á fólkið sem hún leiddi, landið sem hafði fóstrað hana og veröldina sem við erum hluti af og svo auðvitað tungumálið okkar sem var og er hennar hjartans mál.

    Hún var fyrirmynd stúlkna um allan heim sem gátu af því að Vigdís gat. Hún var fyrirmynd pilta sem sáu nú annað en karla á forsetastóli.

    Á sextánda gleðidegi viljum við þakka fyrir Vigdísi, þá og nú. Til hamingju með daginn.

    Myndina af Vigdísi fundum við á vef HÍ.

  • Þrettándi gleðidagur: Börnin og sálmaskáldin

    I see

    Á þrettánda gleðidegi á næstelsta stúlkan á heimilinu ellefu ára afmæli. Við ein tímamótin í lífinu sínu fékk hún tvö sálmvers að gjöf. Annað þeirra er á þessa leið:

    Ríki þitt um álfur allar
    eflir þú og saman kallar
    öll þín börn í einni trú.
    Þinn á jörðu verði vilji.
    Veit að allur heimur skilji,
    vegsögn þá sem veitir þú.
    Kristján Valur Ingólfsson

    Þetta er gott veganesti fyrir börn á öllum aldri. Á þrettánda gleðidegi viljum við þakka fyrir börnin okkar öll og fyrir sálmaskáldin sem gefa okkur svo mikið.

  • Tólfti gleðidagur: Það sem foreldrar og stjúpforeldrar eiga sameiginlegt

    Elísabet, Heiðbjört Anna og Jakob Agni

    Við búum í stjúpfjölskyldu. Samkvæmt skilgreiningum sérfræðinga þýðir það að „annar eða báðir aðilar koma með barn eða börn úr fyrri samböndum í fjölskyldur“.  Í fjölskyldunni okkar eru tveir fullorðnir og sex börn. Börnin okkar eiga aðra foreldra og stjúpforeldra, eiga aðrar fjölskyldur en þær sem við eigum með þeim.

    Stjúpfjölskyldur eru eins og aðrar fjölskyldur sem deila heimili, kjörum og viðburðum saman. Kærleikurinn er eldsneytið sem knýr okkur áfram og gefur okkur styrk til að takast á við verkefni daglegs lífs í gleði og sorg. Við vitum líka að þegar börnin okkar fara á hin heimilin sín hitta þau foreldra og stjúpforeldra sem elska þau og hlúa að þeim.

    Það sem foreldrar og stjúpforeldrar eiga sameiginlegt eru börnin sem þau elska. Fyrir það  þökkum við á tólfta gleðidegi. Sérstaklega viljum við í dag þakka fyrir stjúpfeður og stjúpmæður sem elska börnin sín öll, þau sem eru þeim blóðtengd og líka þau sem eru það ekki.

  • Ellefti gleðidagur: Brosið sem gladdi einmana sál

    IMG_2195

    Ása Björk Ólafsdóttir, prestur í írsku kirkjunni, er góð vinkona okkar. Hún er gestabloggari á ellefta gleðidegi.

    Brosið sem gladdi einmana sál

    Á gleðidegi gerist margt í lífi einnar manneskju. Þar sem ég keyrði stúlkuna mína í skólann, lauk morgunsamveru okkar og skemmtilegum samræðum. Vitjun á sjúkrahúsið þar sem ég er sjúkrahússprestur næst á dagskrá. Kona sem ég hef vitjað vikum saman er farin, ég finn fyrir gleði fyrir hennar hönd en einnig söknuði þar sem samtöl okkar voru alltaf gefandi, gleðirík og áhugaverð. Blendnar tilfinningar.

    Annar sjúklingur var fluttur á nýja deild og vissi aldrei alveg hvað var í gangi. Heilabilun er erfið viðureignar. Þegar ég birtist í dyrunum, fékk ég breitt bros og orðin: Þú ert komin aftur! Í eitt augnablik vonaði ég að viðkomandi væri með á nótunum og myndi eftir mér í raun og veru, en það var víst brosið sem munað var eftir. Það kom fram aftur og aftur í samtali okkar.

    Annars snerist stundin um að viðkomandi upplifði sig á ferðalagi þar sem verið var að skipuleggja hvar næsta máltíð yrði snædd og hverjum yrði boðið með í það og það skiptið. Áratugir orðnir að móðu og eftir var aðeins tilfinning eða minning um eitthvað skemmtilegt sem gerst hafði í fyrndinni.

    Gleði mín þennan morguninn var að brosið mitt skuli gleðja þreytta og einmana sál.

    Á ellefta gleðidegi viljum við þakka fyrir brosin og nærveruna sem gleður og fyrir gestabloggarann Ásu Björk.

    Myndin með bloggfærslunni er af kúnum sem voru á beit á túninu við gamla prestssetrið hennar Ásu Bjarkar í Kells.

  • Tíundi gleðidagur: Hver hugsar um hús Guðs?

    Brautarholtskirkja

    Hver hugsar um hús Guðs? Það er meðhjálparinn. Meðhjálparinn gegnir mikilvægu og merkilegu hlutverki í kirkjunni. Hún setur svip sinn á helgihaldið í kirkjunni og hefur í nógu að snúast áður en athöfnin byrjar: hún tekur á móti fólkinu, sér um að kveikt sé á öllum ljósum í kirkjunni, stillir hljóðkerfið, sér um að blómunum sé smekklega hagrætt. Hún gætir þess að allt sé á sínum stað.

    Þegar stundin nálgast hverfur hún til að skrýða prestinn – kannski þarf fyrst að skreppa upp í turn og hringja klukkunum – hún tekur sér sæti og fyrstu tónar orgelsins berast um kirkjuna.

    Augu hennar eru vakandi fyrir öllu sem gerist í kirkjunni: er hitinn í lagi, þarf að opna eða loka glugga, eru allir með sálmabækur? Að athöfn lokinni þarf að ganga frá svo allt sé til reiðu fyrir næstu athöfn. Meðhjálparinn er andlit kirkjunnar og þjónar náunga sínum.

    Á tíunda gleðidegi þökkum við fyrir öll þau sem eru þjónar í húsi Guðs.