Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 31: La la la la la la la la

    Snillingar í Pollapönki eru í uppáhaldi. Textarnir þeirra eru beittir, sviðframkoman hreinasta afbragð og svo er einn þeirra líka í forystu fyrir stétt sem við metum mikils: Leikskólakennara.

    Á þrítugasta og fyrsta gleðidegi þökkum við fyrir leikskólapönkarana og deilum með ykkur uppáhaldslagi sem minnir á allt sem er í vændum í sumar.

  • Gleðidagur 30: Óttalaus og í góðu formi

    Ísafjörður

    Á dögunum lásum við skemmtilega bloggfærslu um foreldra, börn og hreyfingu. Hún fjallar um að ala upp óttalaus börn í góðu formi. Höfundurinn er einn af ketilbjöllusnillingunum sem Árni hefur lært mikið af. Hann nefnir fernt sem má hafa til umhugsunar og er sérlega viðeigandi nú þegar sumarið er að ganga í garð með öllum sínum dásamlegu stundum útivið:

    1. Sýndu gott fordæmi. Krakkar fylgjast með foreldrum sínum og vilja gera eins. Ef þú hreyfir þig reglulega leiðir það til þess að krakkarnir vilja líka hreyfa sig. 
    2. Leikur er lærdómsleið. Það má gera ýmisskonar æfingar allan daginn, til dæmis armbeygjur eða hnébeygjur meðan hafragrauturinn sýður á morgnana eða þegar þú ferð út að ganga með hundinn.
    3. Leyfðu krökkunum að horfast í augu við eigin ótta um leið og þú horfist í augu við þinn. Við skulum passa okkur á að ofvernda börnin ekki – það er til dæmis allt í lagi að príla í trjám 😉
    4. Skemmtið ykkur saman. Við skulum leyfa börnunum að vera börn og freista þess að gleyma okkur í leiknum með þeim – verða aftur börn sjálf.

    Þetta eru ágætar ábendingar sem minna okkur á að örlítið hnik getur haft mikil áhrif og aukið gleði og lífsgæði. Njótið þess að hreyfa ykkur í sumar! Á þrítugasta gleðidegi viljum við þakka fyrir sumarið og hlýjuna sem býður upp á svo mörg tækifæri til hreyfingar útivið.

    Ps. Kíkið líka á bloggfærslunar hans Guðjóns hjá kettlebells.is um leik-fimi og það að vera fyrirmynd. Hann lumar á góðum ráðum.

    Myndin með bloggfærslunni var tekin í sumarferðalag á Ísafirði fyrir nokkrum árum. Þá var heitt.

  • Gleðidagur 29: Allir vinna

    IMG_7359

    Dagurinn eftir kjördag er dagur sigra og sigurvegara. Á Íslandi er sú meginregla í pólitík að allir vinna. Hver sigrar að vísu með sínum hætti, en á endanum vinna allir. Þegar atkvæði úr öllum kjördæmum hafa verið talin liggur fyrir að sex flokkar eru á leið á þing.

    Allir vinna. Líka þeir sem töpuðu. Er það ekki björt sýn á tuttugasta og níunda gleðidegi?

    Ps. Þetta breytir auðvitað engu um það að sumir flokkar þurfa að ganga í sig og hefja uppbyggingarstarf, en samt 😉

  • Gleðidagur 28: Kjördagur

    Kosið til stjórnlagaþings

    Kjördagur er hamingjudagur í lífi þjóðar. Þetta er dagurinn þegar við mætum á kjörstað og velja þann flokk og þá einstaklinga sem við treystum best til að skapa réttlátt og gott samfélag á Íslandi.

    Á tuttugasta og áttunda gleðidegi viljum við þakka öllum kjósendum sem leggja sitt af mörkum í dag til að skapa betra samfélag. Þetta er dagurinn okkar sem búum í þessu landi. Njótum hans.

  • Gleðidagur 27: Grænar buxur

    Grænar buur
    Myndin er samsett. Hún sýnir ekki stjórnmálaleiðtoga.

    Á sumardeginum fyrsta fóru fram kappræður stjórnmálaleiðtoga á Stöð2. Þarna voru fjórir karlar og tvær konur. Ein konan er uppáhaldsráðherrann Katrín Jakobsdóttir. Hún er leiðtogi VG og menntamálaráðherra og samþætti þetta tvennt í buxunum sem hún klæddist. Þær voru grænar og sumarlegar og skáru sig líka skemmtilega úr hefðbundnum grá/svart/brúnum búningi stjórnamálamannsins.

    Eins og hún.

    Katrín var hipsterinn meðal dauflegra flokksformannanna í sjónvarpssalnum. Hún lofaði líka lítið, nema þá helst að standa vörð um umhverfið og lítilmagnann. Það kunnum við að meta.

    Á tuttugasta og sjöunda gleðidegi viljum við þakka fyrir stjórnmálamanninn sem færði litinn í útsendinguna í gær og hvetja leiðtoga flokkanna til að vera djarfari í klæðaburði í sumar.

    Lesandinn er beðinn að athuga að þetta gleðidagsblogg er ekki stuðningsyfirlýsing við VG eða yfirlýsing um það hvað við kjósum. Við kunnum bara að meta Katrínu eins og hún er og grænar áherslur í pólitík og klæðaburði.

  • Gleðidagur 26: Dimmalimm

    Untitled

    Vorið og sumarið eru tími útileikjanna. Einn þeirra er kenndur við Dimmalimm prinsessu og hann hefur vakið gleði og kátínu hjá fjölda barna í gegnum árin. Í vikunni rifjuðum við þetta upp þegar við heyrðum leikskólabörnin syngja söng Dimmalimmar á Barnamenningarhátíð í Hörpunni:

    Sjáðu, sjáðu svanur!
    Skógurinn er að skemmta sér,
    sko, hann bangsi dansa fer.
    Svanur á báru!
    Veröldin blíð,
    í suðri gala gaukar,
    grösin spretta og laukar,
    sæl er sumartíð.

    Syngdu, syngdu svanur!
    Álfar hoppa, einn, tveir, þrír.
    Öll nú kætast skógardýr.
    Svanur á báru!
    Veröldin blíð,
    í suðri gala gaukar,
    grösin spretta og laukar,
    sæl er sumartíð.

    Hjúfra, hjúfra svanur,
    í hálsakotið hjúfra þig.
    Ég held þú megir kyssa mig.
    Svanur á báru!
    Veröldin blíð,
    í suðri gala gaukar,
    grösin spretta og laukar,
    sæl er sumartíð.

    Á tuttugasta og sjötta gleðidegi gleðjumst við í og yfir sælli sumartíð.

  • Gleðidagur 25: Pí

    Úr kvikmyndinni Life of Pi

    Í gær horfðum við á Ævisögu Pí með nokkrum félögum okkar úr Deus ex cinema kvikmyndahópnum. Þetta er mögnuð mynd sem segir frá ferðalagi skipbrotsmannsins Piscine (sem er kallaður Pí). Hann rekur frá ströndum Afríku alla leið til Mexíkó í fylgd með tígrisdýrinu Richard Parker. Í myndinni fylgjumst við með samtali hans og rithöfundar sem hlustar opinmynntur, en veltir um leið fyrir sér hvað sé satt, hvað ýkt og hvað logið. Eins og áhorfandinn.

    Ævisaga PÍ vekur til umhugsunar um endurminningar. Um það hvernig við segjum ævisöguna okkar, við hvað dveljum við, hverju er sleppt, hvenær er ýkt. Hvað stendur upp úr? Bæði þegar við horfum til baka fyrir okkur sjálf og með öðrum.

    Á tuttugasta og fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir minnið og endurminningarnar og fyrir allt fólkið sem segir sögurnar sínar til að aðrir megi læra af.

  • Gleðidagur 24: Ljóðakilir

    Ég man þig eigi stjörnum ofar ...

    Tuttugasti og fjórði gleðidagur er jafnframt alþjóðlegur dagur bókarinnar.

    Ég man þig
    eigi stjörnum ofar.
    Lífið sækir fram
    af heilum hug
    á mælikvarða mannsins.
    Myndir
    um Guð.

    Í tilefni dagsins deilum við með ykkur þessu bókarkjalaljóði sem varð bara til af því að bækurnar röðuðust svona saman. Það er gaman að lesa! Njótið þess í dag.

  • Gleðidagur 23: Egg og beikon

    American pankakes @ The Breakfast Club

    Síðasta sumar snæddum við á Morgunverðarklúbbinum sem er lítill veitingastaður í London. Þar fengum við dýrindis pönnukökur, egg og beikon. Þetta er kannski ekki hollasti morgunmaturinn en góður er hann, ekki síst þegar honum er sporðrennt með snarheitu kaffi með mjólkurlögg.

    Á tuttugasta og þriðja gleðidegi rifjum við upp máltíðir sem mörkuðu upphaf skemmtilegra daga og þökkum fyrir alla kokkana sem elda matinn góða og fengu hugmyndir að góðum uppskriftum og fallegum mat.

  • Gleðidagur 22: Og gef líf og lækningu

    Drottinn Jesús Kristur,
    þú ert góði hirðirinn
    sem leiðir okkur á þínum vegum
    og lætur okkur ekkert skorta.
    Þú yfirgefur okkur aldrei,
    þú ert hjá okkur allan æviveginn,
    frá vöggu til grafar,
    þegar við fæðumst og
    þegar við deyjum.
    Við biðjum þig.
    Halt þú utan um okkur,
    hjörðina þína,
    eins og góður hirðir,
    haltu áfram að leita að þeim týndu,
    og safna þú þeim saman
    sem villast frá
    og vernda þú þau sérstaklega
    sem eru ekki af þínu sauðahúsi
    eða er ekki kunnugt um það.
    Gakk í veg fyrir þau sem
    eins og blóðþyrstir úlfar
    ráðast á hjörðina, meiða og deyða,
    og snú þeim frá,
    og gef líf og lækningu
    hinu særða og mædda,
    þú sem lifir og ríkir að eilífu.
    Amen.

    Bæn eftir Kristján Val Ingólfsson.